Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.1.2010 | 11:00
Vefarinn litli frá Kasmír
Nú er hátt í öld frá því, að Halldór Kiljan Laxness gaf út fyrstu stóru skáldsögu sína, Vefarann mikla frá Kasmír. Fyrri hluta nafnsins sótti hann í leikrit eftir danska skáldið Ludvig Holberg, Den politiske kandestøber, sem þýtt hafði verið á íslensku sem Vefarinn með tólfkóngavitið. Leikrit Holbergs var um mann, sem lagði fyrir sig stjórnmál, en átti þangað ekkert erindi. Seinni hluta nafnsins á skáldsögu sinni sótti Laxness til Himalajafjalla, þar sem Kasmír er, en hugir margra í Unuhúsi, þar sem Laxness hafðist oft við, voru mjög bundnir við Himalajafjöll á þeirri tíð.
Stundum líkir veruleikinn eftir listinni. Nú eru komnir til sögunnar menn, sem leggja fyrir sig stjórnmál án þess að kunna það, og vilja helst hafast við í Himalajafjöllum. Einn þeirra er Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og náinn samstarfsmaður Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa. Áður en hann gekk inn í utanríkisráðuneytið með Össuri Skarphéðinssyni, var hann um skeið fréttastjóri DV, en rak síðan 20052008 svokallað Alþjóðaver, sem hét á ensku Global Center. Það önglaði saman verulegu fé fyrir ýmis verkefni, sem ekki hafa verið skilgreind nákvæmlega, frá þeim stofnunum, sem Samfylkingin hafði yfir að ráða, svo sem ráðuneytum iðnaðar og utanríkismála. Kristján Guy var einnig tengiliður íslenskra auðjöfra við forsetaembættið, eins og fram kemur í bók Guðjóns Friðrikssonar um forsetann, og hefur eflaust ekki veitt þá þjónustu ókeypis.
Mest fé fékk þetta fyrirtæki Kristjáns Guys þó að sögn fyrir rannsóknarverkefni vegna bráðnunar jökla á Himalajasvæðinu, 500 þúsund Bandaríkjadali frá Carnegie-stofnuninni í New York. Naut Kristján Guy til þess aðstoðar forsetaembættisins íslenska og indverska verkfræðingsins dr. Rajendra Pachauri, sem er hvorki meira né minna en formaður Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC, en þaðan er sótt sú niðurstaða, að heimurinn sé ekki aðeins að hlýna stórkostlega af mannavöldum, heldur að sú hlýnun muni valda mannkyni verulegum búsifjum, svo að vinna verði gegn henni. Hefur dr. Pachauri oft komið hingað til lands og átt samstarf við forseta Íslands.
Í fjórðu áfangaskýrslu Vísindanefndarinnar, sem kom út 2007, segir: Glaciers in the Himalaya are receding faster than in any other part of the world and, if the present rate continues, the likelihood of them disappearing by the year 2035 and perhaps sooner is very high if the Earth keeps warming at the current rate. Þegar efast hefur verið um þessa spá, hefur dr. Pachauri brugðist hinn versti við og talað um vúdú-vísindi og afneitunarsinna.
Nýlega kom hins vegar í ljós, að þessi spá í skýrslu IPCC var ekki á neinum vísindalegum rökum reist. Hún var rakin til greinar í hinu alþýðlega vísindablaði New Scientist árið 1999, og þar var hún sótt í stutt símaviðtal við lítt kunnan indverskan vísindamann, sem kastaði henni fram sem fullkominni getgátu, eins og hann hefur síðan viðurkennt. Hins vegar er talið, að dr. Pachauri og aðstoðarmenn hans hafi fyrir vikið fengið stórfé til stofnana sinna, hugsanlega meðal annars það, sem Kristján Guy Burgess útvegaði. Eru nöfn Háskóla Íslands og Ohio State University (þar sem Ólafur Ragnar Grímsson er heiðursdoktor og fullyrti í ræðu, að jöklar í Himalaja-fjöllum yrðu horfnir innan 2030 ára) einnig nefnd í þessu sambandi.
Dr. Pachauri hefur valið sama kost og dr. Phil Jones, forstöðumaður loftslagsstofnunar Austur-Anglíuháskóla, eftir að upp komst í tölvupósti um hæpin vinnubrögð hans og annarra sérfræðinga þar, að neita að ræða málið opinberlega. Aðrir vísindamenn krefjast þess, að þessi spá um bráðnun jökla á Himalaja-svæðinu fyrir 2035 verði tekin út úr skýrslu Vísindanefndarinnar (þótt enginn efist um, að sums staðar hafa jöklar hopað talsvert vegna hlýnunar).
En mun Kristján Guy Burgess gera hreint fyrir sínum dyrum opinberlega? Eða er sannleikurinn sá eins og í öðru dönsku skáldverki, að vefararnir séu þrjótar og keisarinn ekki í neinum fötum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook
22.1.2010 | 11:22
Dr. Pachauri og Mr. Burgess
Nokkrir Íslendingar eru flæktir í eitthvert mesta furðumál síðustu missera, spána um bráðnun jökla í Himalaja-fjöllum.
Forsaga málsins er í fæstum orðum, að Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC, birti fjórðu áfangaskýrslu sína árið 2007. Þar sagði, að væntanlega myndu jöklar í Himalaja-fjöllum vera horfnir fyrir 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum.
Þegar grafist var nýlega fyrir um heimildina, reyndist hún aðeins vera símaviðtal í New Scientist 1999 við Indverjann dr. Syed Hasnain, en hann starfaði þá við Jawaharlal Nehru-háskólann í Nýju Delí. Spáin studdist ekki við neinar vísindalegar rannsóknir, og dr. Hasnain hefur síðar sagt, að um getgátur sínar væri að ræða (speculative).
Þetta var ekki vitað árið 2007. Þá vakti spáin um bráðnun jökla í Himalaja-fjöllum í skýrslu IPCC mikla athygli, þótt ýmsir jöklafræðingar lýstu yfir efasemdum um hana. Hasnain fékk starf í stofnun, sem dr. Rajenda Pachauri, formaður IPCC, veitti forstöðu. Hún heitir The Energy and Resources Institute, TERI. Þetta var fyrir skömmu haft eftir dr. Pachauri:
Scientific data assimilated by IPCC is very robust and it is universally acknowledged that glaciers are melting because of climate change. The Energy & Resources Institute (TERI) in its endeavor to facilitate the development of an effective policy framework and their strategic implementation for the adaptation and mitigation of climate change impacts on the local population is happy to collaborate with the University of Iceland, Ohio State University and the Carnegie Corporation of New York.
Takið eftir, hvaða háskólar eru nefndir: Háskóli Íslands og Ohio State University. Með aðstoð forsetaembættisins mun Kristján Guy Burgess, sem nú er aðstoðarmaður utanríkisráðherra, en þá rak fyrirtækið Global Center, hafa útvegað 500 þúsund Bandaríkjadala styrk (60 milljónir króna á núverandi gengi) frá Carnegie-stofnuninni til rannsókna á bráðnun jökla á Himalajasvæðinu.
Í ræðu í Ohio State University í desember 2009 kvaðst Ólafur Ragnar Grímsson vera viss um, að jöklar í Himalaja-fjöllum myndu bráðna innan 2030 ára vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum.
Nokkrar spurningar vakna:
- Hver er hlutur Háskóla Íslands að þessu furðumáli?
- Hvað varð um 60 milljónirnar, sem setja átti í rannsóknir á þessu fyrirbæri?
- Hvað segja Kristján Guy Burgess og Ólafur Ragnar Grímsson um hinar nýju upplýsingar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook
21.1.2010 | 11:02
Aðstoðarmaður utanríkisráðherra flæktur í furðumál
Breska stórblaðið Sunday Times greindi frá því 17. janúar, að fréttir um öra bráðnun jökla á Himalaja-svæðinu styddust við hæpnari rök en áður hefur verið talið. Í skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, fyrir tveimur árum sagði, að jöklar þar bráðnuðu svo hratt, að þeir yrðu sennilega horfnir árið 2035. Nú hefur þessi fullyrðing verið rakin til greinar í New Scientist 1999, átta árum áður en skýrslan var birt.
Einnig er komið í ljós, að greinin í New Scientist var sótt í stutt símaviðtal, sem ástralskur blaðamaður átti við lítt kunnan indverskan vísindamann að nafni Syed Hasnain, sem þá starfaði í Jawaharlal Nehru-háskólanum í Nýju Delí. Haisnan hefur síðan viðurkennt, að um fullkomnar getgátur var að ræða, en ekki niðurstöður neinnar vísindalegrar rannsóknar. Í ritgerðum, sem hann hefur sjálfur birt síðan, er ekki minnst á þessa hrakspá.
Prófessor Murari Lal, sem ritstýrði kaflanum um jökla í skýrslu IPCC, segist ætla að leggja til, að þessi spá verði felld út úr næstu útgáfu, reynist enginn fótur fyrir henni. Sjálfur er hann ekki jöklafræðingur. Sá, sem komst að því, að þessi fullyrðing í skýrslu IPCC styddist ekki við neinar vísindalegar rannsóknir, var kanadíski landfræðingurinn Graham Cogley. Hann kveður jökla vissulega vera að bráðna, og það sé áhyggjuefni, en hafa verði það, sem sannara reynist.
Einn þeirra, sem lagt hafa trúnað á spá Hasnains, er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem sagðist í ræðu í Ohio State-háskóla í desember 2009 vera viss um, að jöklar í Himalaja-fjöllum yrðu að mestu bráðnaðir eftir 2030 ár.
Vefurinn amx.is greinir einnig frá því, að aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Kristján Guy Burgess, hafi rekið fyrirtækið Global Center, sem hafi fengið háa styrki frá alþjóðastofnunum eins og Carnegie Foundation með skírskotun til þessarar yfirvofandi bráðnunar jökla í Himalajafjöllum. Fróðlegt væri að heyra viðbrögð Kristjáns við þessari frétt Sunday Times. En sennilega telur Ríkisstjórnarútvarpið ekki í sínum verkahring að spyrja hann um málið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook
20.1.2010 | 11:59
Missögn Steingríms J. Sigfússonar
Steingrímur J. Sigfússon andmælir því, að hann hafi í viðtali við Sænska dagblaðið sagt Icesave-málið of flókið til að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Blaðamaðurinn heldur fast við þann skilning sinn á orðum hans. Þetta er vandræðalegt fyrir Steingrím, því að á Alþingi 2003 kallaði hann það ömurlegan málflutning að telja sum mál svo flókin, að þau hentuðu ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég veit ekki, hvort sænski blaðamaðurinn getur lagt fram hljóðupptöku af viðtalinu til að sanna mál sitt eins og ástralski blaðamaðurinn, sem ræddi við Gylfa Magnússon fyrir nokkru. Eftir það viðtal neitaði Gylfi að hafa notað þau orð, sem blaðamaðurinn hafði eftir honum, en hljóðupptakan tók af öll tvímæli um það, að þar fór Gylfi ekki með rétt mál. Af einhverjum ástæðum hefur Ríkisstjórnarútvarpið ekki bent á þetta, svo að neinn hafi tekið eftir.
En hér ætla ég að andmæla öðru, sem haft er eftir Steingrími í viðtalinu í Sænska dagblaðinu. Hann segir: Jafnvel í þeim löndum, þar sem sterk hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, er ekki kosið um skatta. Þetta er ekki rétt. Sterk hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss, og þar er iðulega kosið um skatta. Til dæmis fékk alríkisstjórnin svissneska síðast umboð til að leggja á tekjuskatt og virðisaukaskatt í kosningu 2004, og næst þarf hún að endurnýja umboð sitt til þess 2020, og þá verður jafnt meirihluti kjósenda og einstakra kantóna að samþykkja það. Kafli er um skattlagningarvald og skattheimtu í Sviss í hinni væntanlegu bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, enda getum við lært margt af Svisslendingum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook
19.1.2010 | 11:58
Sigur hægrimanna í Chile
Forsetakjörið í Chile í gær, sunnudaginn 17. janúar, var sögulegt. Hægrimaður sigraði í fyrsta skipti í tuttugu ár, frá því að einræðisherrann Augusto Pinochet herforingi fór frá 1990. Hinn nýi forseti er Sebastián Piñera, sem er líka einn ríkasti maður landsins, einn af eigendum flugfélagsins LAN, sjónvarpsstöðva, knattspyrnufélags og annarra fyrirtækja. Piñera var afburða námsmaður í skóla og lauk doktorsprófi í hagfræði frá Harvard-háskóla, en efnaðist á því að reka greiðslukortafyrirtæki á níunda áratug.
Ég hef þrisvar komið til Chile og kannast þar við marga hagfræðinga, þar á meðal bróður hins nýkjörna forseta, José Piñera. Hann átti frumkvæðið að því, að almenningi var í valdatíð Pinochets leyft að stofna lífeyrissjóði í séreign, og hafa þeir gefist vel. Chicago-drengirnir svokölluðu en þeir voru hagfræðingar, sem orðið höfðu fyrir miklum áhrifum af nokkrum kunnum hagfræðikennurum í Chicago, þar á meðal Milton Friedman og Arnold Harberger tóku að sér með góðum árangri að endurskipuleggja hagkerfi Chile á áttunda og níunda áratug, og er atvinnulíf í Chile nú eitt hið blómlegasta í Vesturheimi sunnanverðum. Hafa vinstrimenn ekki hróflað við þeim umbótum, sem Chicago-drengirnir beittu sér fyrir á dögum Pinochets.
Ýmsar gerðir Pinochets, sem stjórnaði með harðri hendi 19731990, eru auðvitað óafsakanlegar. Um þrjú þúsund manns munu hafa horfið í valdatíð hans. En fróðlegt er að bera hann saman við annan einræðisherra í Rómönsku Ameríku, Fidel Castro, sem sumir íslenskir háskólakennarar hafa skorið upp sykur fyrir í sjálfboðaliðsvinnu og þau Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson reyndu árangurslaust að ná tali af í Kúbuferð sinni haustið 1998, þegar Alþýðubandalagið var í andarslitrunum. Um þrjátíu þúsund manns tíu sinnum fleiri en í Chile munu hafa fallið af völdum Castros, auk þess sem tugþúsundir manna voru geymdar í vinnubúðum við þröngan kost. (Segir meðal annars frá þessu í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi á íslensku og kom út síðastliðið haust.) Pinochet lét af völdum, eftir að hann tapaði í kosningum 1989, en Castro hélt dauðahaldi í völdin, á meðan hann hafði heilsu til, og leyfði aldrei frjálsar kosningar. Atvinnulíf í Chile var öflugt, þegar Pinochet fór frá, en Castro tókst að gera Kúbu, sem var forðum eitt ríkasta land Mið-Ameríku, að næstfátækasta landi þess heimshluta, næst á eftir landi hörmunganna, Haiti.
Forsetakjörið í Chile sýnir, að þjóðin er loksins stigin út úr skugga Pinochets.
Myndin er af Piñera og keppinaut hans, Eduardo Frei (til hægri). AFP
18.1.2010 | 10:24
Tilgáta um Ólaf Ragnar
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina er sett fram merkileg tilgáta um það, hvers vegna Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lagafrumvarpinu um Icesave-ríkisábyrgðina staðfestingar. Hún er, að hann hafi í upphafi ætlað sér að skrifa undir lögin, en hætt við það á nýársdag, þegar honum varð tvennt ljóst, að hann var orðinn að viðundri með þjóðinni og að almenn andstaða var við Icesave-skuldabaggann.
Hið fyrra sá Ólafur Ragnar best í áramótaskaupi Sjónvarpsins. Eftir margra ára daður og flaður forsetans við útrásarvíkingana bar enginn lengur virðingu fyrir honum. Ólafur Ragnar var líka flæktur í eigin orð. Hann hafði staðfest fyrri útgáfu Icesave-laganna með skírskotun til fyrirvara Alþingis, sem að kröfu Breta og Hollendinga voru felldir út úr seinni útgáfunni. Í sögunni hefði því litið hjákátlega út að staðfesta seinni útgáfuna, og Ólafur Ragnar hefur miklu meiri áhuga á sögunni en gömlum vinum og samherjum, sem hann fórnaði án þess að depla auga. Nú geta þeir ekki lengur sagt (eins og þeir gerðu iðulega): He is a son of a bitch. But he is our son of a bitch.
Hið seinna sá Ólafur Ragnar á undirskriftasöfnun In Defence-hópsins, þótt reynt væri að gera hana tortryggilega, ekki síst með falsundirskriftum úr Ríkisútvarpinu og forsætisráðuneytinu. Íslendingar telja ekki, að þeir beri ábyrgð á viðskiptum einkaaðila erlendis umfram það, sem lög og alþjóðasamningar kveða á um, þótt vissulega vilji þeir halda frið við grannþjóðir. Þeir segja með Staðarhóls-Páli: Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum.
Þótt misjafnar hvatir hafi þannig eflaust ráðið ákvörðun forsetans, ekki síst hégómagirnd, steig hann með henni heillaspor. Icesave-samningurinn komst aftur á dagskrá í Evrópu. Fólk erlendis tók allt í einu eftir því, að verið var að kúga litla þjóð á norðurhjara veraldar til að greiða skuld, sem hún hafði ekki stofnað til og bar enga ábyrgð á að lögum, auk þess sem þetta kynni að leiða til gjaldþrots hennar. Ég vona, að grein mín í Wall Street Journal á dögunum hafi haft þar eitthvað að segja, en það má Ólafur Ragnar eiga, að hann talaði eftir hina sögulegu synjun vel og skörulega máli Íslands í erlendum fjölmiðlum.
Mikill munur var í því efni á Ólafi Ragnari og ráðherrum vinstristjórnarinnar. Jóhanna hniprar sig saman hrædd og þögul niðri í stjórnarráði, og Steingrímur notar mælsku sína til að flytja Íslendingum boðskap Breta og Hollendinga, ekki til að skýra fyrir öðrum sjónarmið Íslendinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook
17.1.2010 | 10:10
Hvað verður um Haga?
Ef einhver einn innlendur aðili ber sérstaka ábyrgð á bankahruninu, þá er það Jón Ásgeir Jóhannesson. Sjálfur skuldaði hann um eitt þúsund milljarða (ekki milljónir, heldur milljarða), þegar upp var staðið, en menn honum tengdir (Pálmi í Fons og aðrir fastagestir í veislum hans í Monaco) áreiðanlega annað eins. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virtist Jón Ásgeir hafa ótakmarkaðan aðgang að sjóðum Landsbankans, um leið og hann hafði mikil áhrif á stjórnendur tveggja hinna bankanna, enda átti hann hlut í öðrum þeirra, Glitni. (Hann hefur endurgoldið þá greiðvikni rösklega með því að siga fjölmiðlum sínum á Björgólfsfeðga og aðra gamla viðskiptafélaga sína, til dæmis Hannes Smárason, en í þessum fjölmiðlum er ekki minnst á Jón Ásgeir sjálfan, að heitið geti.)
Sem áhrifamikill og afskiptasamur eigandi margra fjölmiðla skapaði Jón Ásgeir öðrum fremur hið einkennilega andrúmsloft hér frá 2004 til 2008, þegar viðvaranir Davíðs Oddssonar voru taldar úrtölur og ómálað verk eftir Hallgrím Helgason seldist á 21 milljón á uppboði. Þá töldu dómstólar venjuleg viðskipti, þegar stjórnarmenn í almenningshlutafélaginu Baugi, Jón Ásgeir og félagar hans, fengu leppa til að kaupa fyrir sig fyrirtæki og seldu það síðan almenningshlutafélaginu með mörg hundruð milljón króna hagnaði. Því má ekki heldur gleyma, að þrátt fyrir linkind dómstóla í Baugsmálinu hlaut Jón Ásgeir skilorðsbundinn fangelsisdóm og má sjálfur ekki sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja.
Jón Ásgeir er þess vegna sennilega síst til þess fallinn allra Íslendinga að njóta sérstakrar fyrirgreiðslu stjórnvalda (eða banka í ríkiseigu) í endurreisninni eftir hrunið. Þegar Björgólfsfeðgar buðust sumarið 2009 til að greiða helming skulda sinna gegn því, að afgangurinn yrði afskrifaður, ætlaði allt um koll að keyra. Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon hneyksluðust óspart á því opinberlega. Þegar fyrst komu fram hugmyndir um, að Jón Ásgeir fengi þorra skulda sinna í Högum (en þær nema um 48 milljörðum) afskrifaðar gegn því að leggja sjö milljarða inn í félagið, hneykslaðist almenningur, en þeir Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon þögðu. Það veit ekki á gott.
Í skoðanakönnunum hafa 96% landsmanna látið þá skoðun í ljós, að Jón Ásgeir eigi ekki að eignast Haga aftur á þennan hátt. Að sjálfsögðu á að taka fyrirtækið af fyrri eigendum og selja á opnum markaði, eins og Íslandsbanki gerði við Árvakur og nú síðast Sjóvá.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook
16.1.2010 | 10:08
Tvær fróðlegar greinar
Tvær fróðlegar greinar voru í Morgunblaðinu í gær, 15. janúar 2010. Önnur er eftir dr. Jón Daníelsson, hagfræðikennara í Lundúnum, sem er sérfræðingur í fjármálum og áhættugreiningu. Í stuttu máli heldur hann því fram, að mikil óvissa sé um, hverjar skuldbindingar Íslendinga samkvæmt Icesave-samningnum séu. Tvær ástæður séu til þess: Óvíst sé, hversu miklar eignir Landsbankans reynist að lokum (en þær ganga upp í skuldbindingarnar) og hver gengisþróun muni verða.
Jón telur, að óþarfi hafi verið fyrir Íslendinga að taka á sig gengisáhættu. Þeir hefðu getað samið um, að skuldbindingar þeirra samkvæmt samningnum og kröfur á móti (eignir Landsbankans) væru í sama gjaldmiðli. Hann bendir einnig á, að mestur hluti skuldbindinganna séu vaxtakostnaður. Vextir á lánum Breta og Hollendinga (sem þeir kalla svo, en voru útgreiðslur þeirra að eigin frumkvæði, sem þeir reyna síðan að fá Íslendinga til að endurgreiða sér) séu hærri en til dæmis á lánum, sem ríkissjóðir þessara landa veita tryggingarsjóðum innstæðna í þessum löndum. Jón hefur reiknað út, að vaxtagreiðslur okkar samkvæmt samningnum myndu minnka úr 507 milljörðum í 151 milljarða, nytum við hinna alþjóðlegu LIBOR-lánskjara.
Hin greinin er eftir þá Sigurð Líndal lagaprófessor, Stefán Má Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann. Þeir halda því fram, að Icesave-samningurinn, sem Alþingi samþykkti, en forseti synjaði staðfestingar á, brjóti líklega í bág við stjórnarskrána. Ein ástæðan til þess sé sú, að óvíst sé, hversu miklar skuldbindingar ríkissjóðs séu samkvæmt samningnum. Til dæmis sé hugsanlegt, að svonefnd neyðarlög, sem samþykkt voru í upphafi bankahrunsins, standist ekki. Þá munu skuldbindingarnar samkvæmt samningnum stóraukast.
Lögfræðingarnir þrír segja ekki annað verða lesið út úr evrópskum lögum og reglugerðum um innstæðutryggingar en að hinir sérstöku tryggingarsjóðir innstæðueigenda og fjárfesta í hverju landi séu ábyrgir fyrir bankainnstæðum. Ríkissjóður hvers lands sé það ekki, nema ríkið hafi gerst sekt um stórfellda vanrækslu í því að setja upp og reka slíkan tryggingarsjóð. Íslendingar séu því með Icesave-samningnum að taka á sig skuldbindingar, sem ekki hvíli á þeim að lögum.
Margt annað fróðlegt er í greinum hagfræðingsins og lögfræðinganna þriggja. Þær styðja í raun hvor aðra. Ég hef ekki alltaf verið sammála þessum fjórum mönnum í opinberum umræðum. En eitt er víst: Þeir eru ekki að reyna að leggja neinu innlendu stjórnmálaafli lið og ganga ekki erinda neins erlends aðila. Þeir eiga ekki annarlegra hagsmuna að gæta, heldur reyna að greina málið eftir bestu samvisku.
Er ekki ráð að hlusta frekar á þá en hina keyptu þjóna vinstristjórnarinnar eða Evrópusambandsins?
Myndin af Sigurði Líndal er eftir Kristin á Mbl., en um höfund hinnar veit ég ekki.
15.1.2010 | 11:14
Fréttaskýring í Spiegel
Rætt er við mig í fréttaskýringu þýska blaðsins Spiegel, sem hér má sjá á ensku, en hún er mörgum Íslendingum tamari en þýska (þótt það hljóti að breytast, ef við göngum í Evrópusambandið). Þar segi ég sem satt er, að árið 2004 tók Ísland flestum öðrum löndum fram. Ísland var eitt af fimm ríkustu löndum heims og eitt af tíu frjálsustu löndum heims í atvinnumálum, og í mælingum kváðust Íslendingar vera einna hamingjusamastir þjóða.
Ég er ekki í neinum vafa um, að ein ástæðan til þess, hversu vel við vorum sett árið 2004, var undangengið framfara- og umbótaskeið, sem hófst 1991, þegar svigrúm einstaklinga var aukið, dautt fjármagn lifnaði við, skattar lækkuðu og hagkerfið opnaðist. Tekjuskiptingin þetta ár var svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og síst ójafnari. Fátækt var hverfandi. Atvinnuleysi var óverulegt og miklu minna en annars staðar í Evrópu. En ég skýri út fyrir Spiegel, að þetta ár fór eitthvað úrskeiðis.
Hvað gerðist árið 2004? Það var, að jafnvægið í þjóðlífinu raskaðist. Golíat vann Davíð. Auðjöfrarnir sigruðu í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið, og eftir það var eins og bóndinn á Bessastöðum, starfsmenn auðjöfranna á fjölmiðlum, stjórnmálamenn, aðallega Borgarnesræðufólkið í Samfylkingunni (en því miður líka nokkrir í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum), og jafnvel sumir dómarar breyttust í klapplið auðjöfranna (eins og niðurstaðan í Baugsmálinu sýndi). Auðjöfrarnir fengu enga gagnrýni, ekkert aðhald, og jafnvel þótt sumir þeirra væru gáfaðir menn og duglegir, fylltust þeir ofmetnaði.
Ég tók í Spiegel líkinguna úr grísku goðsögunni af Íkarosi, sem ætlaði sér um of, skeytti ekki viðvörunum Daídalosar og flaug of nálægt sólinni. Vængir hins íslenska Íkarosar bráðnuðu, svo að hann féll til jarðar, en vængir annarra (sem ofmetnuðust vissulega líka) sviðnuðu aðeins, svo að þeir gátu lent.
Jafnframt gagnrýni ég í Spiegel Evrópuþjóðir harðlega fyrir að hafa ekki komið Íslandi til aðstoðar, þegar lánsfjárkreppan skall á okkur, heldur frekar reynt að ríða okkur þungan skuldabagga eftir hana með Icesave-samningnum. Eins og ég bendi Spiegel á, er þessi skuldabaggi jafnþungur hlutfallslega og Þjóðverjar urðu að bera eftir Versalasamningana.
Ég minni hins vegar líka á, að auðvelt er að mikla áfallið fyrir sér. Enginn hefur látist vegna þess. Skip okkar, virkjanir, verksmiðjur, vegir og brýr standa óskemmd (ólíkt því sem var í ýmsum löndum eftir heimsstríðin tvö á tuttugustu öld). Pappírsgróði auðjöfranna hefur hins vegar horfið. Við eigum góð tækifæri á að koma okkur út úr ógöngunum, ef við lærum af reynslunni og látum Breta og Hollendinga ekki kúga okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.1.2010 kl. 10:04 | Slóð | Facebook
14.1.2010 | 11:16
Viðtal á X-inu
Ég var í viðtali í þættinum Harmageddon á X-inu þriðjudaginn 12. janúar 2010, og má hlusta á hann (allan) hér. Aðallega var rætt um það, hvað gera ætti, eftir að forsetinn synjaði um staðfestingu á Icesave-lögunum. Ég kvað jafnan skynsamlegast fyrir smáþjóð að setjast að samningaborði, enda gæti hún ekki beitt hervaldi til að skera úr deilum eins og hinar stærri. Hins vegar væru litlar líkur á því, að Bretar og Hollendingar vildu semja við okkur á ný án þjóðaratkvæðagreiðslu, sem tæki af öll tvímæli um, að íslenska þjóðin væri ófús til að greiða skuldir, sem hún hefði ekki stofnað til.
Hafa yrði í huga, að íslenska þjóðin hefði enga lagalega skuldbindingu til að endurgreiða Bretum og Hollendingum það fé, sem þeir snöruðu út til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í lánsfjárkreppuni; sú skuldbinding hvíldi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og næði ekki lengra en fé þess sjóðs hrykki til. (Að þessu hafa Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður leitt mjög sterk rök.) Evrópska innstæðutryggingarkerfinu hefði ekki heldur verið ætlað að afstýra bankahruni í einu landi, heldur aðeins þroti eins banka eða nokkurra af mörgum, eins og Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafa báðir viðurkennt opinberlega. Í þriðja lagi væri ósanngjarnt að knýja smáþjóð í gjaldþrot, hvað sem alþjóðlegum skuldbindingum liði, og hafa margir fjölmiðlamenn tekið undir það sjónarmið síðustu dagana.
Ég minnti á þrjá mikilvæg atriði í viðbót í útvarpsþættinum:
- Okkur liggur ekkert á. Óþol er ekki gott í samningum. Því lengri tími sem líður, því betri getur niðurstaðan orðið fyrir Íslendinga. Þæfumst fyrir Bretum og Hollendingum. Þeir gefast ef til vill ekki upp fyrir okkur, en þeir gætu gefist upp fyrir aðstæðum.
- Setjum svo, að Icesave-lögin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá segja sumir, að miklu meiri skuldir myndu falla á Íslendinga en samkvæmt samningunum við Breta og Hollendinga. Þetta er fráleitt. Hver á að ákveða það? Ísland er fullvalda ríki, en ekki hlýðinn húskarl í Evrópu. Ísland greiðir ekki aðrar skuldir en þær, sem það hefur sjálft samþykkt og viðurkennt.
- Enn segja sumir, að lánstraust Íslendinga á alþjóðamörkuðum myndi minnka, ef við greiðum ekki Icesave-skuldirnar. En þetta voru ekki skuldir okkar. Við áttum ekki að greiða þær. Almenna reglan er raunar, að lánstraust fer eftir greiðsluhæfi, og greiðsluhæfi okkar verður auðvitað meira, ef á okkur hvíla ekki Icesave-skuldirnar til viðbótar við allt annað. Því er sönnu nær, að lánstraust okkar mun aukast, ef okkur tekst með lagni að smeygja þessum skuldum af okkur eða minnka þær.