Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fleira að bráðna en jöklar

snaefell6.jpgÉg hef sagt frá því eins og fleiri, að Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, varð nýlega að leiðrétta spá í síðustu skýrslu sinni frá 2007 um það, að jöklar í Himalajafjöllum yrðu horfnir árið 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Forseti Íslands hefur margoft notað þessa spá í ræðum sínum, og fyrirtæki tengt honum, sem Kristján Guy Burgess, núverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra, rak, útvegaði röskra 60 milljón Bandaríkjadala styrk frá Carnegie-stofnuninni í New York til rannsókna á þessari skyndilegu bráðnun jökla. Var féð ætlað stofnun undir stjórn dr. Rajendra Pachauri, formanns IPCC, sem margoft hefur komið til Íslands og telur til vináttu við forseta Íslands. Er nafn Háskóla Íslands líka nefnt í þessu sambandi.

Spáin reyndist ekki styðjast við nein vísindaleg gögn, heldur var hún aðeins getgáta lítt kunns indversks vísindamanns í viðtali við New Scientist árið 1999, átta árum áður en skýrsla IPCC birtist. Hefur IPCC beðist opinberlega afsökunar á þessu máli og heitið leiðréttingum hið snarasta, en formaðurinn, dr. Pachauri harðneitar samt að segja af sér. Erlendir fjölmiðlar hafa gert málinu góð skil og bent á, hversu óheppilegt það sé, að formaðurinn hafi haft fjárhagslega hagsmuni af málinu. Kristján Guy Burgess vill hins vegar ekki svara spurningum um málið.

Nú er fleira komið í ljós, eins og breska stórblaðið Daily Telegraph upplýsir. Í áðurnefndri skýrslu Loftslagsnefndarinnar frá 2007 segir, að snjóhettur á fjöllum og jöklar í fjallgörðum séu að hopa á Andes-svæðinu, í Ölpunum og víða í Afríku vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Vísað er í heimildir fyrir þessu. Þegar að er gáð, eru heimildirnar tvær. Önnur er grein eftir fjallgöngugarpinn Mark Bowen, sem er einnig áhugamaður um loftslagsbreytingar og hefur skrifað tvær bækur um þær. Hún birtist í hinu alþýðlega tímariti Climbing 2002, sem ætlað er fjallgöngumönnum. Þar er vitnað í fjölda fjallgöngumanna um, að jöklar séu að hopa. Hin heimildin er meistaraprófsritgerð í landafræði við Bern-háskóla í Sviss eftir Dario-Andri Schworer. Þar er einnig vitnað í fjölda fjallgöngumanna um, að jöklar séu að hopa.

Hvorug heimildin er ritrýnd. Hvorug telst því gjaldgeng í heimi vísindanna (þótt hins vegar sé líka fróðlegt að lesa í tölvupósti starfsmanna í loftslagsfræðasetri háskólans í Austur-Anglia, hvernig þeir leggja á ráðin um að torvelda efasemdarmönnum um, að mestöll hlýnun jarðar sé af mannavöldum, að birta ritgerðir í ritrýndum tímaritum).

Sjálfur efast ég ekki um, að jörðin hafi hlýnað talsvert árin 1980–2000 og að enn sé óvenjuhlýtt, þótt ekki hafi raunar haldið áfram að hlýna eftir 2000. Ég efast ekki heldur um, að einhver tengsl séu milli hlýnunar jarðar og losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og þorri vísindamanna telur, þótt hitt sé einkennilegt, að á sama tíma og sú losun hefur stóraukist, frá 2000, hefur hætt að hlýna. En heilbrigð skynsemi segir mér, að margt fleira ráði loftslagsbreytingum en hegðun mannanna, til dæmis virkni sólar og straumar í hafi, að hlýnun hafi eins og kólnun í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar og að gert hafi verið of mikið úr hrakspám um hlýnun. (Það er ekki frétt, þegar hundur bítur mann; það er frétt, þegar maður bítur hund; Það er ekki frétt, að heimurinn haldi áfram að vera til; það er frétt, að heimurinn sé að farast.)

Enginn vafi er á því, að jöklar hafa verið að hopa síðustu áratugi. Við Íslendingar sjáum það gleggst á jöklum okkar (þótt enn séu þeir ekki orðnir jafnlitlir og á þjóðveldistímanum). En ástæðulaust er að hlaupa á eftir hverri einustu hrakspá. Fleira getur horfið en jöklar, þar á meðal trúverðugleiki Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.


Óheillakrákur

2raduneytijs09_957040.jpgRíkisstjórnin varð ársgömul í gær, 1. febrúar 2010. Þessi samstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna komst til valda í skjóli ofbeldis, og fyrsta verk hennar var mikið óheillaspor, þegar Jóhanna Sigurðardóttir hrakti fyrrverandi samstarfsmann sinn og góðkunningja, Davíð Oddsson, úr stöðu seðlabankastjóra. Með því braut hún ekki aðeins regluna um sjálfstæði seðlabanka, heldur líka hið óskráða siðferðislögmál um drengskap í samskiptum við gamla samstarfsmenn.

Jóhanna er óhæf til að vera forsætisráðherra. Þegar hún var óbreyttur ráðherra, grúfði hún sig  áhugalaus niður í plögg sín á ríkisstjórnarfundum, uns kröfur hennar um aukin fjárframlög til hugðarefna hennar komust á dagskrá. Þá lifnaði yfir henni, en hún greip þá oftar til hótana en raka. Jóhanna er mannafæla, sem kann engin erlend mál, að því er virðist, en sjaldan hefur verið brýnna að tala máli Íslendinga vel og skörulega erlendis en nú. Ekki má heldur gleyma því, að Jóhanna sat í ríkisstjórninni 2007–2009, sem skeytti engu um margendurteknar viðvaranir Davíðs Oddssonar.

Viðskiptaráðherrann, Gylfi Magnússon, var formaður Samkeppnisráðs 2005–2009, en líklega var ein helsta veilan í viðskiptalífi landsmanna þau ár skortur á samkeppni. Einokunarfurstar réðu lögum og lofum, og Gylfi var ólíkt Davíð Oddssyni í klappliði þeirra. Tók hann meðal annars þátt í að veita bankamönnum verðlaun. Í ráðherratíð sinni hefur Gylfi orðið uppvís að ósannindum. Hann harðneitaði að hafa látið þau orð falla við erlenda blaðamenn, sem þeir áttu til upptökur af.

Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, hafði stór orð um alla samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-málið í janúar 2009, áður en hann varð ráðherra. Síðan settist hann niður og lét undan öllum kröfum þeirra. Nú gengur hann erinda þessara þjóða frekar en Íslendinga, að því er virðist. Steingrímur gagnrýndi líka harðlega tilboð Björgólfsfeðga sumarið 2009 um að greiða helming skulda sinna gegn því að fá afganginn felldan niður. Hann neitaði hins vegar að segja nokkuð um tilboð Baugsfeðga skömmu fyrir áramót um að greiða fimmtung skulda sinna í Högum gegn því að fá afganginn felldan niður.

Aðrir ráðherrar eru svipaðar óheillakrákur. Leitun er á lakari ríkisstjórn á norðurhveli jarðar.


Gæsirnar eru fleygar

Gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, eru fleygar. Ef hart er gengið fram í skattheimtu, þá forða þeir, sem skapa mestu verðmætin og greiða hæstu skattana, sér burt. Þetta eru gömul og ný sannindi í skattamálum, þótt þeir Indriði H. Þorláksson og Stefán Ólafsson hafi ekki viljað viðurkenna þau í ótal greinum þeirra beggja gegn víðtækum og árangursríkum skattalækkunum áranna 1991–2007.

jonhelgibyko_956799.jpgEitt nýlegasta dæmið um þessi sannindi er viðtal við einn virtasta kaupsýslumann landsins, Jón Helga Guðmundsson í Byko, í Viðskiptablaðinu á dögunum. Jón Helgi hefur flutt heimilisfang sitt til útlanda. Þegar hann var spurður, hvort hann hefði ekki áhuga á að fjárfesta á Íslandi, svaraði hann:

„Eins og þetta er núna þá myndi maður nú bíða með það og fá að sjá betur hvert leiðin liggur. Þá er ég að vísa í að þegar ráðamenn segja að „you ain’t seen nothing yet“, þá hljóta menn að vilja sjá hvað það þýðir áður en þeir fara að ákveða eitthvað með fjárfestingar.“

Rónarnir mega ekki koma óorði á brennivínið, eins og Árni Pálsson prófessor orðaði það. Á sama hátt mega þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og viðskiptafélagar hans ekki koma óorði á kapítalismann. Ísland þarf duglega og útsjónarsama kapítalista. Þess í stað er nú reynt að hrekja þá alla burt.


Aðstoðarmaður gegnir ekki upplýsingaskyldu

Erlendir fjölmiðlar hafa flutt miklu fleiri og rækilegri fréttir af Himalajajöklahneykslinu svonefnda en íslenskir, þótt forseti Íslands og aðstoðarmaður utanríkisráðherra séu báðir flæktir í það: Spá í nýjustu skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna um, að jöklar í Himalajafjöllum myndu hverfa fyrir 2035, reyndist ekki á vísindalegum rökum reist.
 
crop_260x_956183.jpgÞessa spá hafði núverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Kristján Guy Burgess, sem þá rak fyrirtækið Global Center, hins vegar hagnýtt sér með fulltingi forsetaembættisins og formanns Loftslagsnefndarinnar til að útvega röskra 60 milljón króna styrk til rannsókna á málinu frá Carnegie-stofnuninni, og skyldi sá styrkur renna til fyrirtækisins TERI, sem formaður Loftslagsnefndarinnar rak.

Vefmiðillinn Eyjan.is beindi fimm spurningum til Kristjáns Guys Burgess um þetta í tölvupósti, eftir að ekki hafði tekist að ná í hann í síma:

  1. Hver nákvæmlega er/var aðkoma Global Center að málefnum TERI? Talað er um að fé hafi farið milli aðila með milligöngu GC. Hversu margir aðilar styrktu eða sendu eða hyggjast senda TERI fé gegnum stofnun þína? Hver er/var heildarupphæðin og hver er/var hlutur GC af þeim upphæðum?
  2. Sá Global Center um að afla þessara fjármuna fyrir hönd TERI? Með hvaða hætti þá?
  3. Hvaða sérfræðiþekkingu býr Global Center yfir vegna fjármálaþjónustu annars vegar og loftslagsmála hins vegar?
  4. Vitað er að mörg viðskiptasambönd Global Center urðu til fyrir tilstilli forseta Íslands. Kom hann að þessu ákveðna máli og þá með hvaða hætti?
  5. Hefur þú í embætti aðstoðarmanns utanríkisráðherra nýtt þér þá stöðu til að koma stofnun þinni á framfæri erlendis?

Kristján Guy svaraði þessum spurningum ekki í tölvuskeyti, heldur sagði þar aðeins: „Ég hef ekki komið að þessu alþjóðlega vísindaverkefni frá því ég varð aðstoðarmaður ráðherra fyrir ári [í febrúar 2009]. Styrkfénu er óráðstafað og er enn varðveitt hjá Carnegie-stofnuninni. Ekkert hefur verið greitt til Teri.“

Hvers vegna svaraði Kristján Guy ekki spurningunum? Hefur hann eitthvað að fela? Hvílir ekki á honum eðlileg upplýsingaskylda? Var það ekki yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar að auka gagnsæi?


Hverjir eru bankaræningjarnir?

crop_500x_955951.jpgEins og allir vita, harðnaði hin alþjóðlega lánsfjárkreppa um allan helming eftir þrot Lehman Brothers um miðjan september 2008. Bankar um allan heim sögðu upp lánalínum. Í lok mánaðarins sneri Glitnir, sem var að miklu leyti í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sér til Seðlabankans og bað um stórt lán, þar sem hann gæti ella ekki staðið við skuldbindingar sínar erlendis. Þess í stað var ákveðið að setja mikið fé inn í bankann, svo að ríkið yrði þar aðaleigandi, en um leið yrði hlutur annarra eigenda skrifaður verulega niður.

crop_500x-1_955952.jpgJón Ásgeir Jóhannesson fór hamförum. Hann kallaði viðskiptaráðherrann, Björgvin G. Sigurðsson, á sinn fund nóttina eftir þennan gjörning og lét þá að sögn öllum illum látum. (Furðulegt er, að viðskiptaráðherrann skyldi láta kalla sig á slíkan fund, en það er önnur saga.) Jón Ásgeir sagði síðan í viðtali við Fréttablaðið 30. september: „Þetta er stærsta bankarán Íslandssögunnar.“

Um þær mundir var Jón Ásgeir stærsti skuldunautur íslensku bankanna. Alls skuldaði hann þeim um eitt þúsund milljarða! Ef spurt er, hvert innlagnir á Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi hafi runnið, þá er eitt svarið áreiðanlega: Til Jóns Ásgeirs, ekki aðeins í lystisnekkju hans, einkaþotu og skrauthýsi eða dýrlegar veislur, heldur líka ýmsar glannalegar fjárfestingar. En ólíkt sumum öðrum auðjöfrum var Jón Ásgeir ekki í neinum persónulegum ábyrgðum að eigin sögn!

crop_500x-2_955962.jpgNú er einnig komið í ljós, að sömu dagana og Seðlabankinn reyndi að bjarga Glitni frá falli,  mokaði Jón Ásgeir fé úr þessum sama banka í viðskiptafélaga sinn, Pálma Haraldsson í Fons, væntanlega tugum milljarða króna. Jafnframt lagði Pálmi einn milljarð króna inn á einkareikning Jóns Ásgeirs. Skiptastjórar þrotabúa Glitnis og Fons reyna nú að endurheimta eitthvað af þessu fé.

Er nema von, að venjulegt fólk klóri sér í kollinum og spyrji, hverjir hinir raunverulegu bankaræningjar séu? Enn fremur hljóta fleiri en ég að furða sig á því, að Jón Ásgeir skuli halda fjölmiðlum sínum (með dyggilegri aðstoð bankanna) og að Arion banki skuli velta því fyrir sér í alvöru að afhenda honum Haga og afskrifa tugmilljarða skuldir hans.

(Myndirnar eru af lystisnekkju Jóns Ásgeirs og einkaþotu, sem báðar eru kirfilega merktar 101, og úr skrauthýsi hans í New York.)


Höfðu þingmenn ónógar upplýsingar?

bilde_955746.jpgÞað er miður, að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu skuli hafa tafist, þótt ég viti það sem gamalreyndur bókarhöfundur, að til þess geta verið skiljanlegar ástæður: Stundum reynist verkefnið, sem menn taka að sér, miklu viðameira og þá um leið tímafrekara en gert hafði verið ráð fyrir.

Það er einmitt mikilvægt, að skýrsluhöfundar vinni starf sitt samviskusamlega, en ekki í neinu óðagoti. Þeir eru að skrifa fyrir söguna, ekki fjölmiðla morgundagsins. Þeir þurfa líka að gæta í senn hagsmuna almennings og réttinda einstaklinga.

Þótt mælt hafi verið fyrir um það í lögum, að rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni 1. desember síðastliðinn, telst vart lagabrot, að nefndin hafi frestað því að ljúka henni. Sú dagsetning hlýtur að hafa verið viðmiðun, enda hefur nefndin í tvígang frestað skilunum. Henni er vitaskuld ekki skylt umfram getu.

Hitt er annað mál, að ákvæði stjórnarskrárinnar íslensku um það, hvað gera skuli, synji forseti lagafrumvarpi staðfestingar, eru skýr. Eftir það skal „svo fljótt sem auðið er“ bera synjunina undir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu.

Forseti synjaði frumvarpi um Icesave-samningana staðfestingar. Nú segir Steingrímur J. Sigfússon, að fresta verði þjóðaratkvæðagreiðslunni, þangað til skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefur verið kynnt, en ekki er von á henni fyrr en í marsbyrjun, um sama leyti og þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram.

Þetta er sami maðurinn og taldi lífsnauðsynlegt að keyra Icesave-samningana í gegnum þingið. Hvers vegna þurfti að flýta sér þá, en nú liggur skyndilega ekkert á? Og það, sem meira er: Er Steingrímur að segja, að þingmenn hafi haft ónógar upplýsingar, þegar þeir afgreiddu frumvarpið?

Enn eitt vísindahneykslið

Allir skynsamir menn eru hlynntir umhverfisvernd. Þeir eru andvígir mengun, útrýmingu sjaldgæfra dýrategunda, sóun náttúruauðlinda og umhverfisspjöllum í óbyggðum. Þetta er hins vegar ekki hið sama og að trúa hverri einustu hrakspá, sem fram er sett í nafni umhverfisverndar.

Tvö dæmi um slíkar spár eru úr frægum bókum, sem báðar hafa komið út á íslensku, Raddir vorsins þagna frá 1962 eftir Rachel Carson og Endimörk vaxtarins frá 1972 eftir ýmsa höfunda. Fyrir orð Carsons var skordýraeitrið DDT víða bannað með þeim afleiðingum, að mýrarkalda (malaría) komst aftur á kreik og olli dauða fjölda fólks. Rannsóknir leiddu hins vegar í ljós, að DDT var nær hættulaust mönnum og alls ekki eins skaðlegt fuglum og Carson hafði haldið fram. Höfundar Endimarka vaxtarins fullyrtu, að um og eftir aldamótin 2000 yrði hörgull á mörgum efnum, til dæmis jarðolíu, kopar og áli. Nóg er enn til af þessum efnum.

Miklu nýrra dæmi var, þegar Boris nokkur Worm spáði í tímaritinu Science haustið 2006, að fiskistofnar heims hryndu innan fjörutíu ára. Þegar Jóhann Sigurjónsson, forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, taldi þetta orðum aukið, sætti hann ákúrum í íslenskum blöðum. En fyrir slysni sendi Boris Worm fréttamanni tölvuskeyti, þar sem sást, að þessi spá var auglýsingabrella.

Ég vakti fyrir skömmu athygli á öðru dæmi. Í skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, frá 2007 sagði, að jöklar í Himalajafjöllum kynnu að vera horfnir fyrir árið 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Nú er komið fram, að þessi spá studdist ekki við neinar vísindalegar rannsóknir, heldur var aðeins getgáta, sem birtist í New Science átta árum áður, 1999.

Mánudaginn 25. janúar 2010 var í Wall Street Journal frétt um enn eina brelluna í nafni umhverfisverndar. Í áðurnefndri skýrslu Loftslagsnefndarinnar frá 2007 segir, að vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum muni margvíslegar náttúruhamfarir, svo sem fellibylir og steypiregn, færast í aukana. Vitnað var til rannsóknar „Muir-Wood et. al, 2006“.

Þegar skýrsla Loftslagsnefndarinnar kom út, var ritgerð þessi óbirt og hafði ekki einu sinni verið ritrýnd. Og þegar sjálf ritgerðin kom loks á prent árið 2008 í bókinni Climate Extremes and Society, kváðust höfundar ekki hafa nægileg gögn í höndunum til að geta sagt með neinni vissu, að skýr tengsl væru á milli hlýnunar jarðar og náttúruhamfara eins og fellibylja og steypiregns. 

Engu að síður hefur formaður Loftslagsnefndarinnar, dr. Rajendra Pachauri, margoft vitnað til þessarar spár. Er fleira í skýrslu nefndarinnar jafnhæpið?


Vinnubrögð Jóhanns Haukssonar

imagehandler_955570.jpgJóhann Hauksson, starfsmaður Baugsfeðga og Hreins Loftssonar á DV, hefur skrifað margt um mig og fæst lofsamlegt. Hefur hann eins og Jóhannes kærari, einn vinnuveitandi hans, beint spjótum sínum að vinnustað mínum, Háskóla Íslands, eins og þessi færsla hans sýnir. Nú hefur einn samkennari minn, dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, hrakið þessa færslu Jóhanns í eftirfarandi bréfi til hans, sem birt var á dv.is:

Heill og sæll,

Vegna bloggs sem þú hefur skrifað um ráðningu Ástu Möller að Stofnun stjórnmálafræða og stjórnmála á vef DV langar mig til að gera nokkrar athugasemdir, sem þú mátt gjarnan birta sem viðhengi við bloggið.

1. Í greininni gefur þú þér að ráðning Ástu sé á einhvern hátt ámælisverð án þess að gera minnstu tilraun til að sýna fram á að svo sé. Ég sendi eftirfarandi út á háskólavefinn eftir að tveir af kennurum skólans höfðu tjáð sig um ráðninguna þar:

Athygli mín hefur verið vakin á umræðum á hi-starf sem leiddu m.a. til blaðaskrifa þann 20. jan. 2010 út af ráðningu nýs forstöðumanns Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Starfið var auglýst með venjubundnum hætti og auk þess í Fréttablaðinu.  Í auglýsingu var gerð lágmarks krafa um meistarapróf í stjórnmálafræði eða tengdum greinum (s.s. stjórnsýslufræðum eða alþjóðasamskiptum). Umsækjendur sem uppfylltu skilyrði auglýsingarinnar voru teknir í viðtöl og að þeim loknum lagði undirritaður fram tillögu að ráðningu við stjórn stofnunarinnar, sem samþykkti tillöguna. Rétt er að taka fram að starfið er ekki akademískt starf og krefst hvorki doktorsgráðu né formlegs hæfnisdóms. Pólitískar skoðanir umsækjenda höfðu ekki áhrif á ráðninguna enda er óheimilt að líta til slíkra þátta við ráðningu. Það er mín skoðun að vel hafi tekist til við ráðninguna. Ég vona að nýr  forstöðumaður njóti þeirra réttinda, eins og forveri hans í starfi, Margrét S. Björnsdóttir, sem hefur meistarapróf eins og Ásta Möller og hefur staðið sig afburða vel, að vera  dæmdur af verkum sínum en ekki einkaskoðunum. 

Ekki hafa orðið frekari umræður um málið á vefnum.

Ákvörðun um að ráða ekki í starfið (eins og þú stingur upp á) hefði í raun jafngilt því að leggja stofnunina niður því forstöðumaðurinn er eini starfsmaður hennar og stofnunin er rekin fyrir sjálfsaflafé. Enginn umsækjenda hefur gert athugasemdir við ráðninguna.

2. Í greininni er gefið í skyn að óvenjulegt sé eða jafnvel hæpið að meðlimir stjórnmálaflokka kenni við stjórnmálafræðideild eða sinni þar rannsóknum. Þú veist auðvitað að svo er ekki. Ég get nefnt fólk eins og Ólaf Ragnar Grímsson, Svan Kristjánsson, Margréti S. Björnsdóttur, Baldur Þórhallsson, Silju Báru Ómarsdóttur – en miklu fleiri af kennurum deildarinnar hafa verið meðlimir stjórnmálaflokka en þessir (án þess að ég hafi reynt að grennslast neitt sérstaklega fyrir um slíkt).

3. Í greininni segir að heimildir séu fyrir því að Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafi haft milligöngu um mjög stóran styrk frá Landsbanka Íslands (þú nefnir nokkra tugi milljóna) til rannsóknarverkefnis um íbúalýðræði og félagsauð árið 2007. Heimildir þínar eru greinilega ekki traustar. Umrætt verkefni fékk einnar milljón króna styrk frá Landsbankanum árið 2008 og loforð um tvær til viðbótar 2009-2010 sem aldrei voru greiddar út. Um þetta hafði Margrét S. Björnsdóttir ein milligöngu. Hins vegar hefur verkefnið verið styrkt af Sambandi íslenskra sveitarfélaga (um þrjár milljónir) og fengið háa styrki frá Rannís og Rannsóknasjóði HÍ.

4. Þú leggur síðan út af þessari ímynduðu tengingu Hannesar við styrkveitinguna þannig að til endurgjalds hafi Hannes fengið að kenna skyldunámskeið við deildina. Vegna þess að Hannes kom hvergi nálægt styrkveitingunni gengur þessi tenging ekki upp. Hannes hefur stundum kennt skyldunámskeið hjá okkur og skylda deildarinnar er að nýta starfskrafta hans eins og hægt er. Þú virðist halda að hann hafi aldrei kennt skyldunámskeið fyrir 2007 en það er rangt. Skyldunámskeiðið sem hann kennir nefnist Stjórnmálaheimspeki og fjallar ekki um framtíð kapítalismans og hrunið.

5. Undir lok greinarinnar virðist þú gefa þér að verkefni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála séu einkum þau að rannsaka spillingu í íslenskri stjórnsýslu. Stofnunin sem slík stuðlar fyrst og fremst að því að styðja við rannsóknir þeirra fræðimanna sem starfa við stjórnmálafræðideild, mínar þar á meðal. Ég veit ekki til að nokkur annar hafi reynt að rannsaka spillingu á Íslandi jafn mikið og ég hef gert og ég er núna m.a. þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknarverkefni um pólitískar stöðuveitingar. Ég fæ ekki séð hvernig ráðning forstöðumannsins hefur minnstu áhrif á mínar niðurstöður né annarra þeirra sem stunda rannsóknir við deildina.

6. Vegna niðurlags greinarinnar þar sem þú segir að það læðist að þér „óþægilegur grunur um að innan HÍ hafi kunningjaveldið og frændhyglin skotið rótum eins og svo víða í okkar litla hrunda og siðspillta klíkuþjóðfélagi“ langar mig til að taka það alveg sérstaklega fram að ég er hvorki frændi né kunningi nokkurs af því fólki sem þú hefur fyrir aðalgerendur í grein þinni (Björgólfs Guðmundssonar, Kjartans Gunnarssonar, Ástu Möller). Hannes þekki ég hins vegar í gegnum starf mitt.

Það voru mér mikil vonbrigði að lesa þessa grein því ég hef yfirleitt haldið að þú stundaðir vandaðri vinnubrögð en þetta. Það er varla hægt að lesa greinina öðru vísi en sem persónulega árás á mig – því tengingin á milli þeirra tveggja atriða sem mynda uppistöðu greinarinnar (stöðuveitingin og fjárstyrkurinn) hlýtur að byggja á mínum þætti. Þú hefur auðvitað fulla heimild til að ráðast að mér og ég kvarta ekki yfir því. Hins vegar finnst mér að ég eigi sanngjarna kröfu á að farið sé rétt með.

Kveðjur,

Gunnar Helgi Kristinsson

Þetta bréf Gunnars Helga skýrir sig sjálft. Jóhann Hauksson hefur orðið sér til skammar sem blaðamaður, þótt eflaust kunni vinnuveitendur hans vel að meta vinnubrögð hans.

Reynum dómstólaleiðina

Þegar þeir Sigurður Líndal prófessor og Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari eru sammála, eru tveir virtustu lögfræðingar landsins ekki aðeins sammála, heldur er líka fullvíst, að þeir láta ekki stjórnast af annarlegum ástæðum, eins og á því miður við um suma þá lögfræðimenntuðu álitsgjafa, sem eru á launum hjá vinstristjórninni í Icesave-málinu.

Með Icesave-samningunum við Breta og Hollendinga leggur vinstristjórnin stórkostlega skuldabagga á Íslendinga, án þess að fullreynt sé, að Íslendingum beri lagaleg skylda til að taka þá á sig. Hvar stendur í lögum og alþjóðasamningum, að ríkissjóður Íslands sé ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta er um megn fjárhagslega að efna?

Hvað sem því líður, hafa margir frammámenn í Evrópu viðurkennt, að lög og alþjóðasamningar um hina sérstöku tryggingarsjóði innstæðueigenda í hverju landi voru ekki miðaðir við bankahrun, heldur aðeins erfiðleika einstakra banka. Í lánsfjárkreppunni kom í ljós kerfisgalli í samningnum um EES: Hið leyfilega rekstrarsvæði banka var miklu stærra en samtryggingarsvæði þeirra.

Í þriðja lagi hlýtur skylda að takmarkast af getu, eins og rómverskir lögspekingar bentu á forðum: Jafnvel þótt komist væri að þeirri niðurstöðu, að ríkissjóður Íslands væri að einhverju leyti ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta væri um megn fjárhagslega að efna, eins ólíklegt og það er, yrði að semja um framhaldið í ljósi greiðslugetu Íslendinga. En það er gert eftir slíka niðurstöðu, ekki fyrir hana.

Í tímamótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag benda Sigurður og Jón Steinar á, að það sé óháðra dómstóla með viðurkennda lögsögu að skera úr um vafaatriði í þessu máli. Telji breska eða hollenska ríkið sig eiga rökstuddar fjárkröfur á hendur íslenska ríkinu, þá eigi til dæmis að sækja þær fyrir íslenskum dómstólum, eins og aðrar slíkar fjárkröfur.

Þeir benda einnig á, að um leið ætti auðvitað að skera fyrir dómstólum úr um önnur atriði, ekki síst það, hvort Bretar hefðu mátt beita hryðjuverkalögum sínum til að stöðva starfsemi íslenskra banka í Bretlandi. Ég hef áður bent á það, að Bretar ollu miklu um hið stórkostlega tjón, sem varð, þegar íslensku bankarnir hrundu. Eiga þeir ekki að bera það tjón, sem þeir sjálfir ollu?

Ég tek undir áskorun Sigurðar og Jóns Steinars til alþingismanna um að breyta stefnu sinni. Íslendingar eru lítil þjóð. Stjórnlist slíkrar þjóðar er að þæfast við, afla sér bandamanna, sýna þolinmæði og þrautseigju, ekki að láta hart mæta hörðu, en aldrei heldur að gefast upp.


Áhrínsorð

Þegar ég horfi á Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem eiga að heita ráðamenn þjóðarinnar, en eru ráðalaus, detta mér í hug vísuorð, sem fleyg urðu forðum. Kunnur úrsmiður á Akureyri, Sigmundur Sigurðsson, orti sumarið 1924, en þá létu íslenskir kommúnistar undir forystu Einars Olgeirssonar fyrst í sér heyra á þeim slóðum:

Upp er skorið, engu sáð,
allt er í varga ginum.
Þeir, sem aldrei þekktu ráð,
þeir eiga að bjarga hinum.

(Vísan er stundum ranglega kennd Agli Jónassyni á Húsavík eða Friðrik Jónssyni pósti á Helgustöðum, en Páll J. Árdal feðrar hana í athugasemd í Degi haustið 1924.)

Þessi vísuorð hafa svo sannarlega orðið að áhrínsorðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband