Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Viðtal í European Voice

Rætt er um Icesave-málið við okkur Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra í nýjasta hefti European Voice 11. mars 2010, sem aðgengilegt er á Netinu. Tilefnið var þjóðaratkvæðagreiðslan á Íslandi 6. mars, þar sem 98% þeirra, sem afstöðu tóku, greiddu atkvæði gegn samningnum, sem Steingrímur hafði gert við Breta og Hollendinga um stórkostlegar greiðslur til þeirra vegna Icesave-reikninga Landsbankans erlendis.

Ég skal játa, að ég brást hinn versti við, þegar blaðamaður European Voice, Toby Vogel, spurði, hvort Íslendingar ættu ekki að greiða skuldir sínar eins og aðrir. Ég sagði, að í Icesave-málinu væri ekki um að ræða neina skuld Íslendinga. Bretar og Hollendingar hefðu tekið það upp hjá sjálfum sér í miðju bankahruninu að greiða eigendum Icesave-reikninganna í löndum sínum út lágmarkstryggingu.

Þeir gætu síðan ekki innheimt þessa upphæð sem skuld íslenska ríkisins við þá. Engin ríkisábyrgð væri á hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður hefði verið og rekinn eftir lögum, reglum og alþjóðasamningum.

Ég benti á, að eignir Landsbankans stæðu á móti þessari skuld (sem væri auðvitað skuld íslenska Tryggingarsjóðsins við Breta og Hollendinga). Nærtækasta verkefnið væri að gera eins mikið úr þeim eignum og unnt væri. Ef eignir Landsbankans erlendis nægja fyrir þessari kröfu, eins og fyrrverandi forsvarsmenn hans hafa jafnan haldið fram, þá er málið væntanlega úr sögunni. Blaðamaðurinn gerði því engin skil, sem ég minnti á, að Bretar felldu með harkalegum aðgerðum í upphafi bankakreppunnar íslensku eignir bankans stórlega í verði og ættu sjálfir að bera það tjón.

399px-steingrimur_j_sigfusson_971559.jpgSteingrímur J. Sigfússon sagði hins vegar European Voice, að íslenska ríkið stæði við allar skuldbindingar sínar. Einhverra hluta vegna hefur blaðamaðurinn það eftir Steingrími, að Íslendingar dragi ekki í efa greiðsluskyldu sína í Icesave-málinu, þótt í upphafi Icesave-samningsins, sem þó var felldur, segi skýrum stöfum, að samningurinn feli ekki í sér viðurkenningu á greiðsluskyldunni.

Mér er það hulin ráðgáta, hvers vegna forystumenn vinstristjórnarinnar nota ekki hvert tækifæri til að kynna erlendum fjölmiðlum aðalatriði málsins:

  • Þetta er ekki skuld Íslendinga við Breta og Hollendinga, heldur hugsanlega skuld Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við þá.
  • Engin bakábyrgð íslenska ríkisins er á þessum íslenska Tryggingarsjóði (fremur en bakábyrgð norska ríkisins á hinum norska Tryggingarsjóði, sem lýtur nákvæmlega sömu alþjóðlegu reglum, eins og forstöðumaður hans bendir á).
  • Ráðamenn í Evrópu, þar á meðal Jean-Claude Trichet og Wouter Bos, hafa viðurkennt, að reglur Evrópska efnahagssvæðisins um innstæðutryggingar voru ekki miðaðar við allsherjarbankahrun í einu landi.
  • Bretar ollu miklu um hið gífurlega tjón íslensku bankanna, meðal annars með því að setja Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök við hlið Talíbana og Al-Kaída.
  • Bretar og Hollendingar hafa notað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ríki Norðurlanda í viðleitni sinni til að neyða þessari skuld upp á Íslendinga og innheimta hana.
  • Stórþjóðir eru hér að níðast á smáþjóð. Upphæðirnar, sem um er að ræða, skipta Breta og Hollendinga litlu máli, en ráða úrslitum fyrir afkomu Íslendinga.

Það er síðan annað mál, hvað um kann að semjast, enda verður stundum að gera fleira en gott þykir. Menn eiga þó ekki að semja við sjálfa sig fyrirfram, eins og Steingrímur virðist hafa gert í Icesave-málinu, áður en þeir setjast að samningaborði með öðrum.

Undanlátssemi getur verið ill nauðsyn. En hún er aldrei dygð.


Málstofa um vald

lordacton.jpgDagana 11.–14. mars sótti ég fimmtán manna málstofu í San Diego í Kaliforníu um valdshugmyndina í verkum Actons lávarðar. Hann var bresk-þýskur sagnfræðingur á nítjándu öld, kaþólskur, en frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum og einhver lærðasti maður sinnar tíðar. Hann skrifaði hin frægu orð (í bréfi til annars sagnfræðings): „Allt vald hefur tilhneigingu til að spilla, og gerræðisvald gerspillir.“ Þreyttist hann aldrei á að brýna fyrir starfssystkinum sínum, að valdið helgaði ekki ódæðisverk.

Eitt dæmi, sem ég rakst á í ritum Actons, var af Lúðvík XIV. Hann var stríðsgjarn konungur og hafði hátt í 500 þúsund manns undir vopnum, fleiri en Napóleon, en allt að sex milljónir manna eru taldar hafa fallið úr hungri í valdatíð hans. Ég vissi ekki um þennan svarta blett á sólkónginum úr þeim sögubókum, sem ég var látinn lesa í menntaskóla og háskóla. Þar var hins vegar farið mörgum orðum um höll hans í Versölum.Í framlagi mínu til málstofunnar benti ég á, að eitt hlutverk sagnfræðinga ætti að vera í anda Actons lávarðar að gera hina ósýnilegu menn sýnilega, — þá, sem undirokaðir hefðu verið og þaggað niður í. Ég lýsti í því sambandi yfir furðu minni á því, að kommúnisminn væri ekki enn talinn glæpsamlegur í sama skilningi og fasisminn. Fórnarlömb kommúnismans á tuttugustu öld voru fimm sinnum fleiri en fasismans, að því er talið er, og mörg voru þau valin vegna þess, hver þau voru, ekki vegna þess hvað þau höfðu gert.

Sagnfræðingur eða heimspekingur, sem legði kommúnisma og fasisma að jöfnu í siðferðilegum skilningi í ritgerð, ætti áreiðanlega enn erfitt með að fá hana birta í fræðilegu tímariti, hvers vel sem hún væri studd gögnum og rökum.

Ég minnti einnig á margvíslega stjórnmálaglæpi, sem farið hafa furðuhljótt. „Hver man eftir Armenum?“ á Hitler að hafa sagt, þegar einhver spurði hann, hvort sagan myndi dæma hann hart vegna þess, hversu illa hann lék Gyðinga. Hver minnist á þær milljónir manna, sem nauðugar voru afhentar Kremlverjum að kröfu þeirra eftir seinni heimsstyrjöld, en höfðu flúið vestur á bóginn í stríðinu og jafnvel fyrir það (til dæmis margir ríkisborgarar Eystrasaltslandanna þriggja)? Hver minnist á það, að hátt í tíu milljónir manna af þýskum ættum voru reknar út úr Tékkóslóvakíu og Póllandi og nærliggjandi svæðum eftir seinni heimsstyrjöld? Þar á meðal voru þrjár milljónir manna, sem búið höfðu í Súdetahéruðunum og voru tékkóslóvakískir ríkisborgarar. Hver minnist á það, að bandarískir ríkisborgarar af japönskum ættum voru umsvifalaust settir í fangabúðir, eftir að Bandaríkjamenn hófu undir forystu Franklins D. Roosevelts þátttöku í stríðinu?

Margt bar á góma á málstofunni, og ég hafði tækifæri til að endurnýja gömul kynni af heimspekingum eins og Douglas Rasmussen og Tibor Machan. Einnig var skemmtilegt, að málstofuna sat hagfræðingurinn Bettina Bien Greaves, 93 ára að aldri, en hún hafði verið nemandi hins kunna austurríska hagfræðings Ludwigs von Mises. Hafði hún setið hverja einustu málstofu hans í New York-háskóla í átján ár og var nú á tíræðisaldri að búa glósur sínar frá þeim undir prentun.


Kosningasprengja Stefáns 2007

stefanolmynd_403847_970722.jpgÍ bloggi mínu í gær lýsti ég kosningasprengju þeirri, sem Stefán Ólafsson varpaði fram fyrir Samfylkinguna vorið 2003, skömmu fyrir þingkosningar. Þá átti fátækt að vera meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Sú sprengja sprakk framan í Samfylkinguna, en ég fer í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, yfir gögn um málið, meðal annars frá hagstofu Evrópusambandsins.

En þrátt fyrir slakan árangur í kosningabaráttunni hélt Stefán ótrauður áfram, eins og ég rek í bók minni. Hann hóf tíð greinaskrif sumarið og haustið 2006 til undirbúnings þingkosningunum vorið 2007. Þar hélt hann því fram, að tekjuskipting á Íslandi hefði orðið miklu ójafnari árin 1995–2004 (sem gögn voru til um) en annars staðar á Norðurlöndum.

(Menn geta velt því sérstaklega fyrir sér, hvers vegna Stefán valdi árið 1995 sem upphaf.)

Birti Stefán meðal annars í Morgunblaðinu 31. ágúst 2006 línurit um svokallaða Gini-stuðla, sem notaðir eru til að mæla ójafna tekjuskiptingu (sem Stefán kýs að kalla hinu gildishlaðna orði ójöfnuð). Samkvæmt línuritinu hafði tekjuskiptingin á Íslandi 1995 verið svipuð og á Norðurlöndum, en var orðin miklu ójafnari 2004 og þá jafnvel ójafnari en í Bretlandi.

Hófust nú miklar umræður, sem Ríkisútvarpið sagði jafnan samviskusamlega frá (sérstaklega í Speglinum, sem gárungarnir kalla Hljóðviljann), þar sem Stefán, Þorvaldur Gylfason og skoðanabræður þeirra vinstra megin við miðju hneyksluðust á hinum mikla ójöfnuði á Íslandi.

Ég benti á það á móti, að kjör allra tekjuhópa á Íslandi hefðu batnað stórkostlega árin 1995–2004. Kjör hinna tekjulægstu hefðu batnað tvöfalt hraðar en nam meðaltalinu í löndum OECD þetta tímabil. Fyrir jafnaðarmenn, sem aðhylltust réttlætiskenningu Johns Rawls, hlyti þetta að skipta miklu meira máli en hversu hratt kjör tekjuhæstu hópanna bötnuðu.

1. febrúar 2007 kom síðan út skýrsla hagstofu Evrópusambandsins um lífskjör í Evrópulöndum. Þar mátti sjá, svo að ekki varð um villst, að tekjuskiptingin á Íslandi 2004 var síst ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum.

Hvað olli þessu ósamræmi? Stefán hafði gert reikningsskekkju. í útreikningum á Gini-stuðlum fyrir Ísland 2004 hafði hann í tölum tekjur tekið með söluhagnað af hlutabréfum. Gini-stuðlar fyrir önnur lönd, sem hann notaði til samanburðar, voru hins vegar reiknaðir út án söluhagnaðar af hlutabréfum.

Hagstofa Evrópusambandsins hafði hins vegar reiknað út Gini-stuðla fyrir Ísland og önnur lönd á sama hátt, borið saman sambærileg atriði. Fer ég rækilega yfir þetta allt í bók minni.

Stefán hefur aldrei leiðrétt skekkju sína opinberlega. En þegjandi og hljóðalaust tóku talsmenn Samfylkingarinnar ójöfnuð af dagskrá í kosningabaráttunni 2007. Sprengjan hafði sprungið framan í þá.


Kosningasprengja Stefáns 2003

Fyrir kosningarnar 2003 voru kosningamál Samfylkingarinnar tvö, eins og menn muna. Hið fyrra var, að Davíð Oddsson væri duttlungafullur harðstjóri (sumir gengu jafnvel lengra, til dæmis Hallgrímur Helgason, og sögðu, að hann væri ekki heill á geðsmunum), sem sigaði lögreglunni á Baugsfeðga og aðra óvini sína. Þetta var meginstefið í fyrri Borgarnesræðu forsætisráðherraefnis Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, en tveir  helstu almannatengslafulltrúar útrásarvíkinganna, Einar Karl Haraldsson og Gunnar Steinn Pálsson, skrifuðu þá ræðu.

Seinna kosningamálið var, að innan um alla velmegunina á Íslandi leyndist fátækt. Stefán Ólafsson prófessor sá um að koma þessu máli á framfæri, en hann var þá viss um, að Samfylkingin yrði í ríkisstjórn eftir kosningar.  Í apríl 2003, skömmu fyrir kosningarnar, kom út bók á vegum stofnunar í Háskóla Íslands, sem Stefán veitti forstöðu, en Háskólinn og Reykjavíkurborg (sem þá var undir stjórn Samfylkingarinnar) kostuðu saman. Hét bókin Fátækt á Íslandi og var samin undir handleiðslu Stefáns, en höfundur hennar var Harpa Njáls, eins og hún kallaði sig.

Meginboðskapur bókarinnar var, að talsvert meiri fátækt væri hér en annars staðar á Norðurlöndum. Um 7–10% landsmanna byggju við fátækt. Í seinni Borgarnesræðu sinni, 15. apríl 2003, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: „Það er fátækt í íslensku samfélagi og birtingarmynd hennar hefur versnað. Hún hefur versnað vegna þess að íslenska velferðarkerfið hefur verið að þróast í anda frjálshyggjunnar. Og nú ætla ég að draga upp biblíuna mína, þessa nýju sem er þessi mikla bók Hörpu Njáls, Fátækt á Íslandi.“

Daginn eftir, 16. apríl, gekk Harpa ásamt Stefáni Ólafssyni á fund forseta Íslands á Bessastöðum og afhenti honum bókina. Ólafur Ragnar Grímsson kvaðst sem fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði geta sagt, að þetta rit væri eitt hið merkilegasta, sem samið hefði verið á þessu fræðasviði.

En þessi kosningasprengja Stefáns og Samfylkingarinnar sprakk framan í þau, þegar upplýst var, að ein aðalástæðan til fátæktar í Reykjavík væri, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði ekki hækkað viðmiðunarmörk félagslegrar aðstoðar allt frá 1995 til 1999, auk þess sem ekki væri þar lengur tekið tillit til barnafjölda.

Sigurður Snævarr kynnti líka rannsókn sína, og samkvæmt henni var fátækt lítil á Íslandi, jafnlítil og annars staðar á Norðurlöndum. Hljóðnuðu þá þessar umræður.

Ég segi frá þessu í hinni nýju bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem komin er í bókabúðir. Ég segi líka frá viðamikilli rannsókn Evrópusambandsins á fátækt árið 2003, sem gefin var út árið 2007. Þar kemur fram, að á Íslandi var fátækt næstminnst í Evrópu. Hún var aðeins minni í Svíþjóð. (Þar sem lífskjör voru þá betri á Íslandi en í Svíþjóð, má ætla, að kjör fátækra á Íslandi hafi þá verið skárri en í Svíþjóð.) Um 5,3% voru undir fátæktarmörkum á Íslandi.

Hvernig stendur á því, að Stefán Ólafsson fullyrti 2003, að á Íslandi væri fátækt þá talsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndum, en í ljós kom, að hún var hér svipuð og jafnvel minni? Er þetta ekki tilvalið efni fyrir rannsóknarblaðamenn?


Hvar vegnar lítilmagnanum best?

Eftirlætisheimspekingur Samfylkingarinnar heitir John Rawls og var prófessor í Harvard-háskóla. Hann gaf 1971 út bókina Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice), þar sem hann leiddi margvísleg rök að því, að réttlátt væri það skipulag, sem tryggði öllum hámarksfrelsi, en skipting gæðanna ætti að miðast við það, að hinir verst settu yrðu eins vel settir og framast væri unnt (þetta er stundum kallað hámörkun lágmarksins).

Réttlætiskenningu Rawls má gagnrýna með ýmsum rökum. Það hefur til dæmis annar stjórnmálaheimspekingur og prófessor í Harvard, Robert Nozick, gert afburðavel í bókinni Stjórnleysi, ríki og staðleysum (Anarchy, State and Utopia). Sjálfur er ég fjarri því að aðhyllast kenningu Rawls.

Tvennt er hins vegar merkilegt við kenningu Rawls. Hið fyrra er, að hún setur valdboðinni tekjujöfnun efri mörk, ef svo má segja. Öfund hlýtur að ráða, en ekki réttlætiskennd, ef ríkið gengur svo langt í tekjujöfnun, að hinir tekjulægstu uppskera að lokum minna en þeir myndu ella fá. Hið seinna er, að vissulega er vert að spyrja: Hvar eru hinir verst settu best settir í þeim heimi, sem við búum í? Hvar vegnar lítilmagnanum best?

Ég ræði þessa spurningu einmitt í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Þar segi ég frá vísitölu atvinnufrelsis, sem smíðuð hefur verið og lögð á hagkerfi heims. Ef við skilgreinum hina verst settu sem þau 10%, sem lægstar hafi tekjur, þá kemur í ljós, að kjör þeirra eru langskást í þeim löndum, þar sem atvinnufrelsi er víðtækast. Mjög sterkt samband er á milli lífskjara og atvinnufrelsis.

Hinir tekjulægstu njóta með öðrum orðum góðs af því eins og allir aðrir, þegar hagkerfið er opið og frjálst og einstaklingar hafa svigrúm til vinnu og verðmætasköpunar. Jafnvel þótt sneið þeirra af kökunni kunni að vera lítil, er hún í frjálsum löndum sneið af miklu stærri köku en í hinum ófrjálsu og þess vegna stærri sneið.

Aðrar mælingar, sem ég segi líka frá í bók minni, renna frekari stoðum undir þessa niðurstöðu: Ef við tökum jafnaðarmenn á orðinu og styðjum réttlætiskenningu Johns Rawls, þá verðum við líka að aðhyllast atvinnufrelsi og einkaframtak!


Áhrif skattahækkana

imagehandler_970721.jpgNú er bók mín, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, loks komin í bókabúðir. Ég ákvað að láta ekki dreifa henni fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars, enda hefði lágróma rödd mín drukknað í hávaðanum í kringum hana.

En þótt rödd mín sé lágróma, leyfi ég mér að halda því fram, að ég hafi margt að segja í þessari bók. Ætti ég að draga saman meginatriði hennar, þá væru þau þessi:

Sú kenning Johns Rawls er athyglisverð, að skoða skuli, í hvers konar skipulagi hinum verst stöddu reiði best af.

Mælingar (vísitala atvinnufrelsis) sýna, að þeim reiðir best af við atvinnufrelsi. Sterkt jákvætt samband er milli lífskjara hinna tekjulægstu og atvinnufrelsis.

Íslendingar fóru 1991–2004 „íslensku leiðina“, sem fólst í skattalækkunum, víðtæku atvinnufrelsi og þéttriðnu öryggisneti með rausnarlegri aðstoð við hina verst settu.

Íslenska leiðin, sem þá var farin, sameinar hið besta úr bandarísku og sænsku leiðunum. Bandaríkjamenn hirða lítt um þá, sem verst eru staddir, og Svíar lama vinnufýsi og verðmætasköpun með þyngri skattbyrði.

Margar kenningar helstu gagnrýnenda íslensku leiðarinnar, þeirra Stefáns Ólafssonar og Indriða Þorlákssonar, má hrekja með því að skoða staðreyndir um Ísland árin 1991–2004.

Tekjuskipting varð ekki að marki ójafnari þetta tímabil. Skattar voru ekki hækkaðir á laun þetta tímabil. Skattbyrði hinna tekjuhæsta var ekki léttari en hinna tekjulægstu. Kjör lífeyrisþega voru ekki lök þetta tímabil, heldur hin bestu á Norðurlöndum. Fátækt var ekki mikil á Íslandi þetta tímabil, heldur ein hin minnsta í heimi, hvernig sem mælt er.

Skattheimta hefur áhrif á vinnufýsi og verðmætasköpun, eins og rannsóknir Edwards C. Prescotts og Arthurs Laffers sýna. Laffer-boginn á við rök að styðjast: Við of háa skatta minnkar vinnufýsi, svo að skattstofninn minnkar og skatttekjur ríkisins lækka. Skattalækkanir geta því aukið skatttekjur.

Tvö skýr íslensk dæmi eru skatttekjur af leigutekjum af húsnæði og „skattfrjálsa árið“ 1987. Tvö erlend dæmi eru Sviss og Svíþjóð: Skatttekjur ríkisins á mann eru svipaðar í báðum löndum, en skattbyrðin tvöfalt þyngri í Svíþjóð.

Auðlinda- og umhverfisskattar eru ekki „hagkvæmir skattar“, eins og sumir hagfræðingar halda fram.

Fyrirhugaðar skattahækkanir vinstristjórnarinnar munu leiða til minni skattstofns og lægri skatttekna ríkisins, þegar fram í sækir. Langtímaáhrifin verða miklu verri en skammtímaáhrifin.


Útvarpsstöð á Jamaíku

Það er auðvitað ekki af góðu, að margir erlendir fjölmiðlamenn hafa samband við mig og aðra þá, sem tekið hafa þátt í þjóðmálaumræðum á Íslandi. Ísland hefur vakið athygli á þann hátt, sem við kærum ekki ekki um.

Síðustu vikur hef ég því neyðst til að ræða við marga erlenda fjölmiðlamenn. En þrátt fyrir allt hafði ég gaman af því, þegar í morgun hringdi í mig útvarpsstöð alla leið frá Jamaíka til að forvitnast um ástand og horfur á Íslandi. Við mig töluðu Eric Anthony Abrahams, fyrrverandi ráðherra ferðamála, og Trevor Munroe, fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði, í þættinum „Breakfast Club“ á Newstalk 93 FM. Höfðu þeir lesið grein mína í Wall Street Journal á mánudaginn var, 8. mars 2010.

Þeir spurðu, hvernig Ísland hefði hrapað úr einu efsta sæti meðal þjóða heims eftir öllum mælingum. Ég svaraði, að árið 2004 hefði Ísland verið eitt af fimm ríkustu löndum í heimi (VLF á mann) og eitt af tíu frjálsustu löndunum (Index of Economic Freedom). Allir hefðu haft næg tækifæri til að brjótast til bjargálna. Tekjuskipting hefði verið tiltölulega jöfn og kjör hinna bágstöddustu betri en víðast annars staðar.

Eftir 2004 hefði jafnvægið raskast. Auðjöfrar og óreiðumenn hefðu náð völdum. Þeir hefðu stjórnað öllum fjölmiðlum og haft mikil áhrif á ráðamenn, jafnt á Bessastöðum og Alþingi (eða hefði ég átt að segja: uppi í Borgarnesi?). Dómstólar og Fjármálaeftirlit hefðu ekki veitt fésýslumönnum nægilegt aðhald. Kapítalistar væru vissulega kapítalismanum nauðsynlegir og almenningi gagnlegir með krafti sínum og hugkvæmni, en þeir ættu ekki að stjórna löndum.

Þetta væri þó ekki aðalskýringin á bankahruninu, heldur hitt, að kerfisgalli hefði verið í reglum Evrópska efnahagssvæðisins, EES. Tryggingarsvæði innstæðna hefði ekki verið hið sama og rekstrarsvæði bankanna, svo að stórkostlegt misræmi myndaðist milli umsvifa íslensku bankanna erlendis og getu heimalands þeirra til að aðstoða þá í erfiðleikum. Bretar hefðu síðan beitt Íslendinga fádæma fautaskap með því að leggja báða íslensku bankana í Bretlandi að velli og sett jafnvel annan þeirra á lista um hryðjuverkasamtök.

Jamaíkamenn spurðu um Icesave-samningana. Hvers vegna hefði stjórnin viljað semja við Breta, en þjóðin ekki? Ég svaraði, að Íslendingar viðurkenndu ekki neina greiðsluskyldu ríkisins. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem bankarnir greiddu til, átti að tryggja innstæður, ekki ríkissjóður Íslands. Þegar Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér að greiða í skyndingu út innstæður á Icesave-reikningum, mynduðu þeir enga skuld ríkissjóðs Íslands við sig, sem þeir geta síðan innheimt með offorsi.

Líklega hefði stjórnin viljað semja, af því að hún hefði ekki talið sig eiga annarra kosta völ, þótt það mat hennar hefði síðan reynst rangt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sér til ævarandi skammar komið fram eins og handrukkari við Íslendinga, og Bretar og Hollendingar hótað öllu illu.

Að lokum sagði ég, að Íslendingar ættu að vinna sig út úr erfiðleikunum með því að framleiða meira og eyða minna.


Breytingar á stjórnskipun?

Fugl viskunnar hefur sig á loft, þegar rökkva tekur, sagði Hegel. Hann átti við það, að við skiljum oftast ekki breytingar, fyrr en þær eru þegar orðnar. Við skipuleggjum ekki framtíðina, heldur reynum að skilja fortíðina og vonandi að einhverju leyti samtíðina.

Ég sé ekki betur en tvær breytingar séu að verða á stjórnskipun Íslands, sem var í tiltölulega föstum skorðum alla tuttugustu öld. Önnur er, að forsetinn er að fá aukin völd á kostnað þingsins. Núverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur tvisvar synjað lögum staðfestingar og þannig gengið gegn vilja þingsins. Við þetta hefur embættið breytt um svip og jafnvel um eðli. Áður var forsetinn sameiningartákn þjóðarinnar og átti að vera ofar stjórnmálum. Nú er hann orðinn virkur þátttakandi í þeim.

Er þetta gott eða vont? Ég er ekki viss um svarið, en bendi á tvennt. Í fyrsta lagi hafði þjóðin ekki tekið neina ákvörðun um að breyta forsetaembættinu. Sá, sem nú situr í embættinu nýtti sér hins vegar (með hjálp áhrifamikilla álitsgjafa), að orðalag í stjórnarskránnni um valdsvið þess var óljóst, enda var forsetinn arftaki Danakonungs, sem hafði verið valdamikill á öldum áður, en var orðinn valdalaus, þegar Íslendingar hrópuðu hann af. Í öðru lagi vilja frjálslyndir menn frekar minnka vald en flytja það til. Valdið hefur ekki minnkað, heldur hefur það flust að einhverju leyti frá þingi til forseta.

Ef til vill má segja, að aukið jafnvægi myndist hér við það, að forseti verði mótvægi við þinginu. Á hinn bóginn hefur Ísland verið tiltölulega vel heppnað þingræðisríki (og breyta núverandi hremmingar engu um það), og Íslendingar eru hreyknir af því, að þjóðþing þeirra sé hið elsta í heimi.

Hin breytingin á stjórnskipun Íslands er, að líklega verður framvegis fleiri málum skotið til þjóðarinnar en áður. Er það gott eða vont? Enn er ég á báðum áttum. Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa reynst mjög vel í Sviss, enda er þar löng hefð fyrir þeim og lýðræði rótgróið. Svissneskir kjósendur hafa stöðvað marga óráðsíuna í atkvæðagreiðslum. En hætta er á því, þar sem slík hefð er ekki, að til verði einhvers konar „Bónapartismi“, þar sem lýðskrumarar í háum embættum leggja mál fyrir þjóðina með það eitt fyrir augum að auka eigin völd. Þjóðir eru ekki óskeikular frekar en einstaklingar.

Framtíðin ein sker úr, hvað verður. Erfitt er að spá í annað en fortíðina og þá samtíð, sem er óðum að verða fortíð.


Úr Wall Street Journal í gær

Ég skrifaði grein í Wall Street Journal í gær, mánudaginn 8. mars 2010, undir heitinu „Iceland’s Message: Don’t Bail Them Out“ (Boðskapur Íslendinga: Greiðum ekki skuldir annarra). Tilefnið er hin sögulega þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi síðastliðinn laugardag, 6. mars.

Þar bendi ég á, að deila Íslands við Bretland og Holland snúist um það, að þessi tvö ríki krefji ríkissjóð Íslands um endurgreiðslu á fé, sem þau lögðu út fyrir innstæðueigendur á Icesave-reikningum Landsbankans í löndunum tveimur í upphafi bankahrunsins í október 2008.

Íslendingar telji hins vegar, að ekki hafi verið ríkisábyrgð á innstæðunum. Á þeim hafi aðeins verið ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður var og rekinn í fullu samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins, EES. Ef fé í þeim sjóði hrekkur ekki til, þá fer hann í þrot, en reikningurinn er ekki framsendur til ríkissjóðs. Norðmenn taka sömu afstöðu. Þeir segja, að ekki sé ríkisábyrgð á hinum norska tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Í öðru lagi viðurkenna evrópskir ráðamenn, þar á meðal Jean-Claude Trichet og Wouter Bos, að reglur EES um innstæðutryggingar voru ekki hugsaðir fyrir allsherjarbankahrun, eins og varð á Íslandi.

Í þriðja lagi áttu Bretar snaran þátt í bankahruninu íslenska með því að neita hinum breska banka í eigu Kaupþings um fyrirgreiðslu á sama tíma og allir aðrir breskir bankar fengu aðstoð og enn frekar með því að stöðva rekstur Landsbankans í Bretlandi og setja hann á lista um hryðjuverkasamtök við hlið Al-Kaída og Talíbana. Þetta felldi auðvitað eigur bankanna stórkostlega í verði.

Ég minni á, að Icesave-málið snúist ekki um neinar smáupphæðir, heldur hugsanlega um hálfa árlega landsframleiðslu Íslendinga. Bretar og Hollendingar hafi neytt Icesave-samningnum, sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslunni, upp á Íslendinga með hótunum um einangrun landsins og jafnframt notað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem eins konar handrukkara.

Málið vekji upp almennari spurningu: Eiga skattgreiðendur að bera kostnaðinn af því að bjarga fjáraflamönnum frá sjálfum sér? Ef óreiða er verðlaunuð, þá fyllist heimurinn af óreiðumönnum. Bankamenn og viðskiptavinir þeirra (til dæmis breskir og hollenskir sparifjáreigendur) geta ekki ætlast til þess að hirða gróðann, þegar vel gengur, en neita að bera tapið, þegar illa gengur. Íslendingar hafi fyrir sitt leyti svarað þessari spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni.


Icesave-málið úr höndum þeirra

johannasigur_ardottir_968430.jpgÍ þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrradag, 6. mars 2010, greiddu um 98% þeirra, sem tóku afstöðu, atkvæði gegn heimildinni til fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð á hugsanlegum skuldum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við bresk og hollensk stjórnvöld samkvæmt samningi, sem fjármálaráðherra hafði gert við þessi stjórnvöld. Skýrari gat niðurstaðan ekki verið.

Þjóðin hafnaði Icesave-samningi þeim, sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gerðu, tóku ábyrgð á og keyrði af mikilli hörku í gegnum Alþingi með stuðningi margra fjölmiðla og álitsgjafa. Nú viðurkenna jafnvel Jóhanna og Steingrímur, að völ var á betri samningi, og hafa þau nefnt 70 milljarðar króna sparnað fyrir Íslendinga í því sambandi. Þetta merkir, að mistök þeirra í fyrri samningi hefðu kostað þjóðina 70 milljarða króna, hefðu þau mistök ekki verið leiðrétt, forseti synjað lögunum um ríkisábyrgð staðfestingar og þjóðin fellt þau.

jon-asgeir-johannesson-415x275_968428.jpgÞau Jóhanna og Steingrímur reynast þjóðinni því eins kostnaðarsöm og umsvifamiklir útrásarvíkingar: 70 milljarðar króna, að minnsta kosti! Þess vegna er ekki að furða, að þau skötuhjúin virðast hafa gert einhvers konar leynisamkomulag við aðalútrásarvíkingana, Baugsfeðga. Það þarf enginn að segja mér, að jafnvarfærinn maður og Finnur Sveinbjörnsson í Arion banka leyfi Baugsfeðgum að reka áfram fyrirtæki eins og Haga (sem heldur Baugsmiðlunum uppi) án þess að fá um það fyrirmæli úr Stjórnarráðinu. Gegn þessari fyrirgreiðslu beita Baugsfeðgar fjölmiðlum sínum síðan ótæpilega fyrir stjórnina, eins og sást best í Icesave-málinu.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði ríkisstjórn, sem hefði fengið slíka útreið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem sumir ráðherrarnir sátu jafnvel heima í ólund, sagt af sér. Allt traust á þessari stjórn er bersýnilega þorrið. En við lifum ekki á venjulegum tíma. Þótt Jóhanna og Steingrímur hafi sýnt það á undanförnum mánuðum, að þau réðu ekki við Icesave-málið, ætla þau að sitja sem fastast, jafnlengi og sætt er. Þau hóta því jafnvel að halda áfram að skipta sér af Icesave-málinu.

Stjórnarandstaðan verður að koma fram af festu. Hún má ekki leyfa Jóhönnu og Steingrími að gera leynisamkomulag við fjárglæframenn í því skyni að kaupa sér stuðning fjölmiðla. Það mál þarf að rannsaka og kynni að vera alvarlegt sakamál. Stjórnarandstaðan má ekki láta þau skötuhjúin leggja hér sjávarútveg í rúst eins og þau boða með svokallaðri „fyrningarleið“. Og stjórnarandstaðan verður ásamt þeim stjórnarliðum, sem bera hagsmuni Íslands fyrir brjósti, að taka Icesave-málið úr höndum Jóhönnu og Steingríms.

_gmundurjonasson.jpgÉg á sjaldan samleið með Ögmundi Jónassyni. En hann var sjálfum sér samkvæmur, heiðarlegur og þjóðhollur í Icesave-málinu, og ég treysti honum einnig ólíkt Jóhönnu og Steingrími til að láta ekki útrásarvíkinga og fjárglæframenn eins og Baugsfeðga kaupa sig. Hvers vegna sest hann ekki í ríkisstjórn og sér um áframhaldandi samninga við Breta og Hollendinga?

Eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði, er úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni urðu kunn, hlýtur Icesave-málið nú að fara til Alþingis. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband