Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hrunkóngurinn

jon-asgeir-johannesson-415x275_967872.jpgÍ Pressunni í gær kallar Ólafur Arnarson Davíð Oddsson „hrunkónginn“ í hundraðasta sinn. En það er mikill misskilningur, sem sumir halda fram, að Ólafur stjórnist af hatri í garð Davíðs. Hann hefur enga ástæðu til að hata Davíð og gerir það áreiðanlega ekki. Hins vegar hefur hann fyrirmæli um það frá gömlum og nýjum vinnuveitendum sínum að ráðast á Davíð, hvar og hvenær sem hann getur.

Hvers vegna vilja vinnuveitendur Ólafs Arnarsonar, að ráðist sé á Davíð? Til þess eru tvær meginástæður. Önnur er sú, að Davíð var eini maðurinn, sem veitti þeim einhverja mótspyrnu, þegar þeir reyndu að leggja undir sig Ísland fyrstu árin eftir aldamótin. Baugsfeðgar og viðskiptafélagar þeirra töldu, að þeir væru hafnir yfir lög og rétt. Þegar starfsmaður þeirra, sem taldi sig eiga harma að hefna, kærði þá fyrir lögbrot, reyndu þeir að leggja hann að velli með málssóknum vestanhafs. Þegar það tókst ekki, reyndu þeir að kenna Davíð Oddssyni um!

Því miður tapaði Davíð fyrir Golíat í orrustunni um Ísland sumarið 2004. Til þess voru margar og flóknar ástæður, en ein hin mikilvægasta var, að Davíð naut sín ekki sem skyldi vegna veikinda árin 2004 og 2005. Golíat átti líka flesta fjölmiðlana og beitti þeim miskunnarlaust gegn Davíð. Tókst honum eflaust að veikja traust margra á honum. Á langri valdatíð Davíðs hafði hann auðvitað líka eignast marga óvildarmenn, sem kenndu honum ýmist um gengisleysi sitt í lífinu eða töldu hann ekki hafa komið fram við sig af nægri virðingu.

Hin ástæðan til þess, að vinnuveitendur Ólafs Arnarsonar vilja, að ráðist sé í sífellu á Davíð Oddsson, er, að þeir vilja leiða athyglina frá eigin þætti í bankahruninu íslenska. Orsakir þess voru sem kunnugt er aðallega fjórar: 

  1. Kerfisgalli í regluverki Evrópska efnahagssvæðisins: Rekstrarsvæði evrópskra banka var öll Evrópa, en innstæðutryggingarsvæðin voru einstök lönd.
  2. Fautaskapur Breta, sem settu Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök og neituðu að rétta hinum breska banka Kaupþings hjálparhönd á örlagatímum.
  3. Vanmáttur íslenskra stjórnvalda, sem daufheyrðust við endurteknum viðvörunum Davíðs Oddssonar úr Seðlabankanum. Fjármálaeftirlitið hafði ekki burði til að eiga við bankana og auðjöfrana, eins og nýjustu fréttir sýna best.
  4. Glannaskapur stjórnenda og eigenda íslensku bankanna. Þeir jusu peningum eins og óðir menn í Baugsfeðga og viðskiptafélaga þeirra, svo að þeir skulduðu eitt þúsund milljarða króna, þegar upp var staðið, og munu aldrei geta greitt nema brot af þessum skuldum.

jon_sgeirsnekkja.jpgAuðvitað vildi enginn bankahrunið, síst bankamennirnir sjálfir. En ef einhver einstakur maður verðskuldar nafnið „hrunkóngur“, þá er það Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var leiðtogi útrásarvíkinganna og skuldakóngur Íslands (og þótt víðar væri leitað). Síðustu daga og vikur hafa birst fréttir um ótrúlega gerninga hans fyrir hrun, á milli þess sem hann naut lífsins í einkaþotu sinni eða lystisnekkju og skálaði við vini sína í skrauthýsum erlendis. Hann skapaði með liði sínu hið einkennilega andrúmsloft, sem hér var árin 2004–2008 og átti drjúgan þátt í hruninu.

Golíat er enn á ferð, og enn er hann voldugur. Hann hefur bersýnilega gert bandalag við vinstristjórnina: Baugsfeðgar fá að halda fyrirtækjum sínum gegn því, að fjölmiðlar þeirra styðji vinstristjórnina. Golíat hefur í þjónustu sinni fjölda fjölmiðlamanna, sem skrifa á hverjum degi hatursgreinar gegn Davíð Oddssyni. Það er ekki skemmtilegasta verk í heimi að reyta upp arfann, sem þeir reyna að sá, en gera verður fleira en gott þykir.


Rétturinn til að kjósa

Ég hef kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég sagði nei við því, að lög þau, sem heimiluðu fjármálaráðherra að veita ríkisábyrgð á hugsanlegum skuldum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við bresk og hollensk stjórnvöld, héldu gildi sínu.

Ég kýs alltaf, þegar ég má við því. Til dæmis tók ég þátt í forsetakjöri sumarið 2004, en skilaði auðu, því að mér leist ekki á neinn kostinn, sem þá var í boði. Ég kýs, af því að mér er ánægja að því að búa í lýðræðisríki.

Vitaskuld má ofmeta lýðræðið. Sum mál eru ekki til þess fallin að láta greiða um þau atkvæði, og engin trygging er fyrir því, að skoðun sé skynsamleg, af því að flestir hafi hana. Þótt meiri hlutinn hafi ekki alltaf rangt fyrir sér, eins og Ibsen segir í Þjóðníðingnum, hefur meiri hlutinn ekki heldur alltaf rétt fyrir sér.

Lýðræðið er samt hemill valdbeitingar. Meginkosturinn við lýðræðið er, að losna má við valdhafana — eða eins og í þessari atkvæðagreiðslu ógilda ákvarðanir þeirra — án þess að þurfa að skjóta þá, eins og Vilmundur landlæknir Jónsson komst hnyttilega að orði (en líklega sótti hann þá speki til Clements Attlees, leiðtoga breska Verkamannaflokksins).

Furðulegt er, þegar ráðherrar vinstristjórnarinnar segja þessa atkvæðagreiðslu marklausa. Hún snýst einmitt um að ógilda rangar ákvarðanir þeirra. Þótt sjálfir hafi ráðherrarnir viðurkennt, að ákvarðanirnar voru rangar (því að völ er á betri samningum að þeirra sögn við Breta og Hollendinga), standa þær enn. Lögin, sem heimiluðu fjármálaráðherra að veita ríkisábyrgðina, eru enn í gildi.

Brýnt er að fella þau úr gildi. Íslendingar eiga ekki að greiða skuldir óreiðumanna.


Samfylkingin bregst

johannasigur_ardottir.jpgJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og leiðtogi Samfylkingarinnar, ætlar að sitja heima, en kjósa ekki gegn Icesave-samningnum, sem Bretar og Hollendingar þröngvuðu henni til að samþykkja, en eru nú reiðubúnir til að endurskoða Íslendingum í hag. Þetta eru mikil mistök.

Það skilja allir, að stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Hitt er lítt skiljanlegt, þegar menn gera illa nauðsyn að dygð. Hvers vegna getur Jóhanna ekki viðurkennt, að þetta voru nauðungarsamningar?

Bretar og Hollendingar eru vissulega miklu voldugri þjóðir en við, svo að auðvitað þarf að semja við þá. En íslenskur almenningur á ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Evrópskir ráðamenn hafa líka viðurkennt, að reglur EES gilda ekki um allsherjarbankahrun. Í þriðja lagi er það ekki hagur þessara stórþjóða að knýja vinveitta smáþjóð í nágrenninu í þrot vegna skuldar, sem hún stofnaði ekki til. Enn fremur eiga Bretar sjálfir mikla sök á því með framgöngu sinni í hruninu, hversu illa fór.

valtyrgu_mundsson.jpgÁrið 1901 áttu Íslendingar í deilu við Dani um heimastjórn. Skyndilega létu Danir undan og sendu Íslendingum tvö tilboð, og var annað hagstæðara, um heimastjórn og sérstakan ráðherra í Reykjavík. Þá gerði Valtýr Guðmundsson, sem staðið hafði næstur ráðherradómi allra Íslendinga, mikil mistök. Hann vildi taka óhagstæðara tilboðinu, af því að það hentaði honum sjálfum betur. (Hann vildi sitja í Kaupmannahöfn, ekki Reykjavík.) Afleiðingin varð, að hann náði aldrei þeim frama, sem hann verðskuldaði vegna afburðahæfileika, og flokkur hans sundraðist.

Jóhanna Sigurðardóttir er ekki jafnmiklum hæfileikum búin og Valtýr Guðmundsson. En hún gerir sams konar mistök í þetta skipti. Hún vill ekki segja afdráttarlaust nei við óhagstæðara tilboðinu, þótt komið sé fram hagstæðara tilboð (jafnvel að hennar eigin sögn). Í Samfylkingunni er margt gott og gegnt hæfileikafólk. En ef flokkurinn á að eiga sér lífs von, þá verður hann að vera íslenskur flokkur. Höfuðborg okkar heitir Reykjavík, hvorki Kaupmannahöfn né Brüssel.


Lækkar lánshæfismat?

Fluttar eru spekingslegar fréttir af því, að lánshæfismat íslenska ríkisins muni lækka, ef Icesave-samningarnir verði felldir í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn.

Ég skal engu spá um þetta sjálfur. En við örlitla umhugsun hljóta allir að sjá, að til langs tíma hlýtur lánshæfismat ríkisins að hækka við þetta, en ekki lækka.

Ástæðan er einföld: Ríkið skuldar minna og er þess vegna líklegra til að geta staðið í skilum.

Nú þegar segir vinstristjórnin, að okkur bjóðist betri kjör á lánunum, sem Bretar og Hollendingar þröngvuðu upp á okkur og við tókum aldrei af sjálfsdáðum, og megi meta þau til 70 milljarða.

Þetta merkir, að með þjóðaratkvæðagreiðslunni hafa erlendar skuldir Íslendinga að minnsta kosti verið lækkaðar um 70 milljarða króna.

Ef betri samningar nást við Breta og Hollendinga, þá minnka skuldirnar enn. Þá hlýtur lánshæfismatið að hækka, ef matsfyrirtækin eru vanda sínum vaxin, — sem er síðan annað mál.


Hertu upp hugann, Einar!

270_w270_967041.png

 

Einn vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar, Einar Kárason, er tekinn að skrifa pistla á Pressunni. Kveðst hann raunar þurfa að herða upp hugann til að taka þátt í þjóðmálaumræðunni um þessar mundir. Einar spyr:

En ætli nokkur maður, sem á annað borð er fær um að hugsa heila hugsun, trúi því í hjarta sér að fólk eins og Steingrímur Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kjósi að svíkja málstað Íslendinga og „ganga erinda Hollendinga og Breta“? Hvað annað í störfum þeirra, orðum og athöfnum, bendir til þess að þau séu fólk af því tagi?

Ég svaraði því til, að ég tryði því ekki fremur en Einar. Þau Steingrímur og Jóhanna vilja áreiðanlega ekki svíkja land sitt eða þjóð.

Hvað veldur því framferði þeirra síðustu mánuðina, — hinni dæmalausu og óþörfu linkind og undanlátssemi við Breta og Hollendinga? Ég kastaði fram þremur skýringum:

  1. Hvorugt þeirra er reyndur forystumaður, sem þurft hefur að bera ábyrgð.
  2. Bæði hafa þau sennilega misst sjálfstraustið við bankahrunið og taka þess vegna útlendinga hátíðlegar en góðu hófi gegnir.
  3. Bæði trúa þau því eflaust, að Íslendingar muni aldrei þurfa að greiða alla þá upphæð, sem fjármálaráðherra var veitt heimild til að ábyrgjast úr ríkissjóði.

Þótt ég efist þannig ekki um, að þau Steingrímur og Jóhanna vilji eftir bestu samvisku gæta hagsmuna Íslands, er margt stórkostlega aðfinnsluvert í framgöngu þeirra eftir valdatökuna í febrúarbyrjun 2009.

Jóhanna lét það verða sitt fyrsta verk að níðast á gömlum samstarfsmanni, Davíð Oddssyni, og ráðast gegn sjálfstæði seðlabankans. Með því rauf hún þau gagnkvæmu grið milli manna, sem þegjandi samkomulag hefur verið um í íslenskum stjórnmálum. (Davíð kom til dæmis ekki í veg fyrir það, að Steingrímur Hermannsson yrði seðlabankastjóri eða þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Svavar Gestsson sendiherrar, enda á ekki að setja atvinnubann á fyrrverandi stjórnmálamenn.) Valdníðslu Jóhönnu verður lengi minnst.

Steingrímur skiptir um skoðun eftir hentugleikum. Á meðan hann var í stjórnarandstöðu, ólmaðist hann gegn hugsanlegu Icesave-samkomulagi. Eftir að hann var kominn í stjórn, gafst hann að óþörfu upp fyrir Bretum og Hollendingum. Hinir svokölluðu samningamenn, sem hann sendi til útlanda, sömdu ekki um neitt, heldur framvísuðu aðeins hér á landi reikningum frá Bretum og Hollendingum.

Þau Steingrímur og Jóhanna láta það átölulaust, að fjárglæframennirnir, sem mesta ábyrgð bera á bankahruninu, Baugsfeðgar, njóti aðstoðar banka í almenningseigu til að stýra fjölmiðlum „sínum“ og hafa þannig óeðlileg áhrif á skoðanamyndun í landinu. Fulltrúar þeirra Steingríms og Jóhönnu í Arion banka og annars staðar hafa jafnvel beitt sér fyrir því, að Baugsfeðgar fái að halda Högum og öðrum fyrirtækjum „sínum“, en skuldir þeirra séu afskrifaðar. (Til samanburðar má geta þess, að á sama tíma voru fjölmiðlar Björgólfs Guðmundssonar teknir af honum, jafnframt því sem Steingrímur hafði stór orð um það opinberlega, að bankar mættu ekki semja við hann um neinar afskriftir.)

Ráðherrar vinstristjórnarinnar hafa tekið stuðningi við málstað Íslendinga í Icesave-deilunni fálega, eins og ég hef hér iðulega rakið: Eva Joly var áminnt fyrir skörulegar greinar; Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal voru ekki virtir viðlits; upprifjun Sigurðar Kára Kristjánssonar og Davíðs Oddssonar á ummælum hollenska fjármálaráðherrans og evrópska seðlabankastjórans um bankahrun var ekki sinnt; ábendingum erlends hagfræðings, bankaráðsmanns í Seðlabankanum, um vaxtakjör var vísað á bug; stórfróðlegar yfirlýsingar forstöðumanns hins norska tryggingarsjóðs innstæðueigenda skipta íslensk stjórnvöld engu máli.

Kjarni málsins er sá, að ekki er og hefur aldrei verið ríkisábyrgð á hinum íslenska tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Fjárkröfur Breta og Hollendinga eru þess vegna óréttmætar.

Í Icesave-málinu þurfa Steingrímur og Jóhanna að herða upp hugann og þora að vera Íslendingar. Hið sama ætti Einar Kárason að gera.


Ráðlausir ráðherrar — stjórnlaust land

johannaogsteingrimur.jpgAfstaða ráðherra núverandi vinstristjórnar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar næstkomandi laugardag sýnir, að þeir eru ráðlausir. Þau slá úr og í. Jóhanna segir koma til greina að fresta atkvæðagreiðslunni. Steingrímur segist ekki vera viss um, hvort hann taki þátt í henni.

Þessir ráðherrar vita jafnvel og aðrir, að Icesave-lögin, sem forseti synjaði staðfestingar, munu verða felld úr gildi í atkvæðagreiðslunni. Um leið yrði slík niðurstaða áfellisdómur um þá samninga, sem stjórnin gerði við Breta og Hollendinga, og sigur þess ráðherra, sem sagði af sér í mótmælaskyni við þá (Ögmundar Jónassonar), og um leið vitanlega stjórnarandstöðunnar, sem gagnrýndi þá harðlega.

Íslendingar vilja ekki greiða skuldir óreiðumanna. Ríkissjóður Íslands ber ekki ábyrgð á hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta fremur en ríkissjóður Noregs ber ábyrgð á hinum hliðstæða norska tryggingarsjóði, eins og forstöðumaður þess sjóðs hefur tekið skýrt fram. Samningarnir við Breta og Hollendinga voru nauðungarsamningar, auk þess sem hinir óreyndu og hræddu samningamenn stjórnarinnar gengu miklu lengra en þeir hefðu þurft að gera.

Komið hefði til greina, strax og synjun forsetans lá fyrir, að Alþingi felldi Icesave-lögin úr gildi og sneri sér til Breta og Hollendinga með ósk um nýja samninga. En sá tími er liðinn. Nú eru þrír dagar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar! Hún verður auðvitað að fara fram, eins og stjórnarskrá kveður á um. Þeirri óvissu, sem er um nýja samninga við Breta og Hollendinga, verður ekki eytt á þremur dögum.

jon_sgeireinkathota.jpgEn ekki er nóg með, að ráðherrar séu ráðlausir, heldur er landið stjórnlaust. Baugsfeðgar, sem söfnuðu þúsund milljarða króna skuldum í íslensku bönkunum, á milli þess sem þeir skemmtu sér í einkaþotum, lystisnekkjum og skrauthýsum erlendis, vaða hér uppi. Þeir eiga að halda yfirráðum yfir Högum með stórfelldum afskriftum skulda. Fjármálaráðherra, sem gagnrýnt hafði hugmyndir um afskriftir til Björgólfsfeðga, segir ekki orð. Svo ósvífnir eru Baugsfeðgar, að þeir heimta, að háskólakennarar, sem gagnrýni þá, séu reknir. Menntamálaráðherra segir ekki orð.


NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni

c_users_asdis_pictures_isl_faninn_966402.jpgFæstum kemur sennilega á óvart, að ég ætla að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn kemur um það, hvort staðfesta eigi lög þau um ríkisábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem Bretar og Hollendingar neyddu Íslendinga til að samþykkja síðastliðið haust.

Sumir halda því fram, að atkvæðagreiðslan sé tilgangslaus, þar eð þegar sé völ á betri samningum við Breta og Hollendinga. En í mínum huga skiptir mestu máli, að þjóðin sendi umheiminum afdráttarlaus skilaboð um það, að hún telji sér ekki skylt að greiða skuldir óreiðumanna.

Mér kemur helst á óvart áhugaleysi núverandi vinstristjórnar á að halda fram sjónarmiðum og hagsmunum Íslendinga, innan lands sem utan. Þegar Eva Joly skrifaði í ágúst 2009 skorinorða grein í erlend blöð Íslendingum til varnar, fann aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra beinlínis að því á Netinu.

Þegar Sigurður Kári Kristjánsson vakti athygli á ummælum fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, um, að reglur Evrópska efnahagssvæðisins um innstæðutryggingar ættu ekki við í allsherjarbankahruni, létu vinstristjórnin og starfslið hennar sér fátt um finnast. Áður hafði Davíð Oddsson bent á svipuð ummæli Jean-Claude Trichet, bankastjóra Evrópska seðlabankans.

Þegar Sigurður Líndal, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal sögðu opinberlega, að hvergi væri finnanlegur lagabókstafur því til stuðnings, að ríkissjóðir aðildarlanda EES bæru ábyrgð á tryggingarsjóðum innstæðueigenda þeirra landa, gerði vinstristjórnin ekkert til að koma sjónarmiði þeirra á framfæri erlendis.

Þegar fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans, erlendur hagfræðingur, taldi eðlilegt, að hinn íslenski tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta nýti að minnsta kosti sömu hagstæðu vaxtakjara og tryggingarsjóðir Bretlands og Hollands, svöruðu talsmenn vinstristjórnarinnar skætingi einum.

Hvað veldur þessu undarlega áhugaleysi? Ég trúi því ekki, að þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni gangi illt til. Þau eru engir landráðamenn í hjarta sínu. Ég kem auga á þrjár ástæður.

Í fyrsta lagi eru þau Jóhanna og Steingrímur ekki reyndir stjórnmálamenn í þeim skilningi, að á þeim hafi hvílt ábyrgð um stjórn landsins. Þótt Jóhanna hafi setið í stjórn, hefur hún þar aldrei tekið á sig neina ábyrgð, heldur aðeins heimtað og hótað. Steingrímur kann betur að tala en stjórna.

Í öðru lagi hafa þau eins og margir aðrir Íslendingar eflaust misst sjálfstraust við hrunið. Þau bera óttablandna virðingu fyrir útlendingum, sem tala spekingslega. Dæmi þeirra sýnir, að skammt er frá þjóðrembu til útlendingaþjónkunar.

Í þriðja lagi hafa þau Jóhanna og Steingrímur sennilega bæði trúað því í einlægni, að Íslendingar myndu aldrei þurfa að inna af höndum hinar umsömdu greiðslur, og ef þeir þyrftu að gera það, þá yrði það ekki allt og ekki, fyrr en löngu eftir að þau væru bæði hætt stjórnmálaafskiptum. Það kostaði þau því lítið að semja, en með því tækist þeim að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum, — sem virtist stundum vera helsti tilgangur þeirra í þrengingum okkar Íslendinga.


Óráð að aflýsa þjóðaratkvæðagreiðslunni

Ég er sem kunnugt er ekki í hópi heitustu aðdáenda Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. En því verður ekki neitað, að hann steig heillaspor, þegar hann synjaði staðfestingar lögunum um ríkisábyrgð á skuldum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en hana höfðu Bretar og Hollendingar með hótunum (og misnotkun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri stofnana) knúið vinstristjórnina til að samþykkja.

Með synjuninni gafst þjóðinni kostur á að senda umheiminum afdráttarlaus skilaboð, jafnframt því sem Icesave-málið komst aftur á dagskrá erlendis, eins og nýleg forystugrein Financial Times sýnir ef til vill best. Hvergi er kveðið á um það í lögum og alþjóðasamningum, að ríkissjóðir einstakra landa EES séu ábyrgir fyrir skuldum tryggingarsjóða innstæðueigenda í löndunum, auk þess sem allir skynsamir menn viðurkenna, að reglur EES um innstæðutryggingar voru ekki samdar með allsherjarbankahrun í huga.

Ég trúi því ekki að óreyndu, að neinir ábyrgir menn á Íslandi leggi til, að við samþykkjum Icesave-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars núkomandi. Miklu varðar að fella þessi lög með sem mestum mun.

Átökin um fjölmiðlafrumvarpið sumarið 2004 staðfestu tvær íslenskar stjórnskipunarreglur, sem áður höfðu verið umdeildar. Forseti Íslands getur í fyrsta lagi synjað lögum staðfestingar án atbeina ráðherra, og verður þá þjóðin að staðfesta lögin eða synja þeim staðfestingar og fella þau með því úr gildi. Í öðru lagi getur Alþingi fellt lög úr gildi, og kemur þá ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og stjórnarskrá mælir þó fyrir um.

Það er hins vegar óheppilegt af mörgum ástæðum, að Alþingi felli Icesave-lögin úr gildi og stjórnin aflýsi við það þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í fyrsta lagi er tíminn allt of naumur: Þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram eftir sex daga! Í öðru lagi er allt of mikil óvissa um hugsanlega nýja samninga við Breta og Hollendinga til þess, að unnt sé að fella lögin úr gildi að svo stöddu. Þeirri óvissu verður ekki eytt á nokkrum dögum. Í þriðja lagi er það ekki hlutverk Breta og Hollendinga að stjórna því eða hafa á það óeðlileg áhrif, hvenær Íslendingar greiða atkvæði  um lög. Í fjórða lagi er mikilvægt að senda umheiminum (þar á meðal Norðurlöndum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum) þau skýru skilaboð, að við látum ekki troða á okkur.

Smáþjóðir eiga vissulega meira undir stórþjóðum en stórþjóðir undir smáþjóðum. Þess vegna hljótum við að leggja áherslu á að semja við Breta og Hollendinga. Þetta eru vinaþjóðir okkar og bandamenn í Atlantshafsbandalaginu og á Evrópska efnahagssvæðinu. En samningar við þessi ríki mega ekki vera nauðungarsamningar. „Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum,“ sagði Staðarhóls-Páll forðum. „Við lútum nauðsyninni, en stöndum á réttinum,“ geta Íslendingar sagt á því Herrans ári 2010.


Nú reynir á nýjan ritstjóra

crop_260x_965663.jpgÉg óska hinum nýja ritstjóra Fréttablaðsins, Ólafi Stephensen, til hamingju með starfið. Enginn vafi er á því, að hann hefur hæfileika og dugnað til að gegna því. En á honum hvílir þung siðferðileg skylda.

Fréttablaðið er sent ókeypis inn á hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Menn geta ekki sagt upp áskrift að því eins og Morgunblaðinu og DV. Ekki fer vel á því, að slíkt blað gangi erinda einhverra manna eða afla, eins og það hefur þó gert rösklega, frá því að Jón Ásgeir Jóhannesson keypti það á laun á útmánuðum 2003.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum á Jón Ásgeir blaðið enn þrátt fyrir margfalt gjaldþrot sitt, — þrátt fyrir þúsund milljarða skuldir í íslensku bönkunum. Ég vona, að Ólafur Stephensen fórni ekki blaðamannsheiðri sínum með því að misnota Fréttablaðið í þágu núverandi aðaleiganda (þótt hálfgerð öfugmæli séu að tala um þennan skuldakóng Íslands sem eiganda eins eða neins).

Jón Ásgeir hefur línu, sem hann reynir að láta fjölmiðla sína og leigupenna fylgja:

  • Beinið athyglinni að öllum öðrum auðjöfrum og útrásarvíkingum en mér, svo að minningin um skuldasöfnun mína í íslensku bönkunum, lystisnekkju, einkaþotu, skrauthýsi, veisluglaum og munaðarlíf í mörgum löndum dofni.
  • Reynið með öllum ráðum að telja þjóðinni trú um, að Davíð Oddsson sé duttlungafullur harðstjóri, sem græti vini sína (!) og sigi lögreglunni á óvini sína. Baugsmálið hafi verið undan hans rifjum runnið, en engin sök liggi hjá mér.
  • Rekið bankahrunið til þess, að Ísland var utan Evrópusambandsins og burðaðist með hina ónýtu krónu Davíðs í Seðlabankanum. Þá munu menn ekki átta sig eins á því, hvernig skuldasöfnun mín í íslensku bönkunum átti sinn þátt í hruninu.
  • Mælið með því, að ég fái aftur að eignast fyrirtæki mín eftir stórfelldar afskriftir, því að það sé hagkvæmast og eðlilegast fyrir banka, starfsfólk fyrirtækjanna og viðskiptavini.

Fréttablaðið var í svo harðri samkeppni við DV um að fylgja þessari línu, að Hallgrímur Helgason rithöfundur uppnefndi forvera Ólafs í ritstjórastóli „Jón Ásgeir Kaldal“, þótt skrif Fréttablaðsins væru vissulega oftast hófsamlegri en DV og stundum hefðu birst í báðum blöðunum málamyndafréttir af Baugsfeðgum.

husjohannesar.jpgEn nú er nýtt mál komið til sögunnar, sem forvitnilegt verður að sjá, hvernig Fréttablaðið skrifar um á næstu dögum: Jóhannes í Bónus, faðir Jóns Ásgeirs, skaut eignum undan til Bandaríkjanna. Hann lét í nóvember 2009 skrá nær tvö hundruð milljón króna skrauthýsi „sitt“ í Flórída á „The Johannes Jonsson Trust“. Þetta er maðurinn, sem sagðist kokhraustur ekki þurfa neinar afskriftir frá Arion banka! Þeir Baugsfeðgar myndu greiða upp allar sínar skuldir!


Höldum ró okkar

ossur_skarphedinsson_965145.jpgMjög er miður, að einhverjir hafa laumað minnisblöðum íslensku samningamannanna í Icesave-málinu á Netið. Raunar hafa ráðherrar og embættismenn líka verið allt of lausmálir opinberlega. Viðsemjendur okkar erlendis verða að geta treyst því, að þeir séu ekki að tala beint í fjölmiðla, heldur við fulltrúa þjóðarinnar.

En að tveimur aðalfréttum dagsins: Nú segja erlend matsfyrirtæki, að lánshæfismat Íslands muni lækka. Og Hollendingar sjá ekki ástæðu til frekari samningaviðræðna.

Hvorug fréttin á að raska ró okkar. Bretar og Hollendingar reyna að fá okkur til að greiða skuld, sem við stofnuðum ekki til og eigum ekki að greiða. Ef þeir vilja ekki við okkur tala, þá eru það góðar fréttir. Þá hefur látunum linnt, að minnsta kosti í bili.

Lánshæfismat Íslands lækkar eflaust til skamms tíma, vegna þess að deilan við Breta og Hollendinga er óleyst. En það hækkar til langs tíma, ef við komumst hjá því að greiða þessa skuld (sem enginn veit að vísu, hversu há er), því að þá skuldum við minna en ella og erum þess vegna lánshæfari.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband