Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Missögn Páls Baugsvins

Í leiðara Fréttablaðsins mánudaginn 21. júní 2010 skrifar Páll Baldvin Baldvinsson um tónlistarhús í Reykjavík. Þar fer hann rangt með, er hann segir, að Björn Bjarnason hafi gert samninginn um húsið við Björgólf Guðmundsson. Björn hafði látið af stöðu menntamálaráðherra, þegar samningurinn var gerður, eins og hann bendir sjálfur á.

Fróðlegt verður að vita, hvort Páll Baldvin leiðréttir villu sína og biður Björn afsökunar. Ég býst síður við því, enda hef ég reynt hann að öðru. Páll Baldvin var bókmenntagagnrýnandi Stöðvar tvö haustið 2003. Hinn 22. desember ritdæmdi hann fyrsta bindi ævisögu minnar um Halldór Kiljan Laxness í beinni útsendingu. Hann sagði þar, að athygli vekti, hversu fáar myndir væru í bókinni. Aðeins væri í henni ein myndaörk.

Í bókinni eru þrjár myndaarkir, eins og allir lesendur gátu og geta enn séð eigin augum. Með þessu kom Páll Baldvin upp um það, að hann hafði ekki einu sinni flett bókinni. Hann hafði flýtt sér í útsendinguna með tölvuskeyti frá einhverjum fjandmönnum mínum, sem höfðu haft nokkra daga til að skoða bókina, og sett dóm sinn saman úr þessum skeytum.

Annað dæmi úr sömu útsendingu var, að Páll Baldvin sagði mig endurtaka í bókinni gamla þjóðsögu um, að Einar Benediktsson hefði verið drukkinn á Alþingishátíðinni 1930, en þá sögu hefði Guðjón Friðriksson hrakið í ævisögu Einars. En ég sagði hvergi í bók minni, að Einar hefði verið drukkinn á Alþingishátíðinni.

Brot Páls Baldvins er hið sama og Guðbrands Jónssonar, sem skrifaði útvarpsgagnrýni í Vísi fyrir stríð. Þar sagði hann 19. nóvember 1938 um útvarpserindi Björns Karels Þórólfssonar: „Efnisríkt, en of þurrt, og flutningurinn var of þver og svæfandi.“

Sá hængur var á, að erindið hafði fallið niður, en þess í stað var útvarpað minningarathöfn um látna sjómenn. Öll þjóðin hló, þegar Guðbrandur afsakaði sig með því, að hann hefði lesið rangt af hraðrituðum minnisblöðum sínum. Jón Helgason prófessor orti fræga vísu um „guðbrenska“ hraðritun.

Guðbrandur og minnisblöðin; Páll Baldvin og tölvuskeytin. Þetta var sama brot. En reginmunur var á viðbrögðum. Páll Baldvin er í þeirri klíku vinstri sinnaðra menntamanna, sem seldi sig Baugsfeðgum á sínum tíma og lætur enn að sér kveða í menningarlífi landsmanna. Enginn klíkubróðir hans gerði athugasemd við brot hans.

Guðbrandur hrökklaðist frá Vísi, en Páll Baldvin hélt áfram að vinna fyrir Baugsfeðga eins og ekkert hefði í skorist, enda eru þeir óvandir að starfsliði.

Leiðréttir hann nú missögn sína um Björn og biður hann afsökunar?


Erum við að missa fótfestuna?

Við Íslendingar höfum öll átt saman sálufélag í ellefu hundruð ár og vel það. Við getum lesið og skilið ljóð Egils og sögur Snorra. Í skóla lærðum við um heimilisböl Brynjólfs biskups og fæðingarstað Jóns forseta. Það er eitthvað dýrmætt og mikið, sem hverfur, ef þessi tengsl rofna.

Getur verið, að við séum að missa fótfestuna, slitna úr sambandi við sögu okkar og bókmenntir? Mér finnst ýmislegt benda til þess. Ég ætla hér að velja miklu nýlegri dæmi en frá Þjóðveldistímanum og síður en svo um garðinn, þar sem hann er lægstur.

Tryggvi Gíslason norrænufræðingur segir í tilvitnanasafninu Orð í tíma töluð, að orðin: „Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta“ — séu ekki finnanleg í Biblíunni, þótt því sé oft haldið fram, og bendir réttilega á stað í Síraksbók, þar sem boðskapurinn er svipaður, þótt orðalag sé annað.

En veit Tryggvi ekki, að Jón Thoroddsen — langafi vinkonu minnar, Helgu Kress — smíðaði þessi orð? Hann lagði Grími meðhjálpara þau í munn í Manni og konu. Þar var Grímur látinn vitna í Salómon konung um þau. Þetta var augljóst stílbragð Jóns, sem kunni vel sín kristin fræði. Það var vitaskuld þáttur í einstaklingseinkennum Gríms meðhjálpara að fara rangt með ritningarstaði.

Þráinn Bertelsson, rithöfundur, alþingismaður og oflátungur, segir í veitingahúsagagnrýni, sem hann hélt úti fyrir Baugsfeðga í Fréttablaðinu, 21. ágúst 2006: „Þegar maður fór að sjá fyrir endann á máltíðinni komu í hug hin frægu orð Íslendings á þorrablóti sem sagði: Það vildi ég að guð gæfi að ég væri kominn heim, hátt­aður, sofn­aður, vaknaður aftur og byrjaður að eta!“

En veit Þráinn ekki, að Jón Thoroddsen smíðaði þessi orð? Hann lagði Þorsteini matgogg þau í munn í Pilti og stúlku. Þar eru þau: „Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.“

Ef tveir kunnir menningarvitar þekkja íslenskar bókmenntir (og það frá nítjándu öld) ekki betur en þetta, hvað þá um okkur minni spámennina?

Hann hefur enst

6-220.jpgFræg er fyndni Davíðs Oddssonar, á meðan hann var bankastjóri Seðlabankans, eftir að Jón Sigurðsson framsóknarmaður lét þar af embætti eftir stutta viðdvöl: „Eini Jón Sigurðssonurinn, sem hefur eitthvað enst í Seðla­­bankanum, er sá á fimmhundruðkallinum.“ Áður hafði Jón Sigurðsson Alþýðuflokksmaður aðeins haft stutta viðdvöl í bankanum.

Þessi orð eiga þó ekki aðeins við sem fyndni. Þjóðhetjan Jón Sigurðsson forseti, sem á afmæli í dag og mynd er af á fimm hundruð króna seðlinum, hefur enst furðuvel. Skoðanir hans eiga jafnvel við nú og fyrir hálfri annarri öld. Hann er einn hinna örfáu sígildu höfunda, sem höfðu nægilega trausta þekkingu, dómgreind og yfirsýn til að standast tímans tönn.

Jón sagði til dæmis um þingmenn í Nýjum félagsritum 1845:

Það er skylda þingmanna, bæði við land­ið og þjóð­ina, við þingið og við ­sjálfa sig, að þola enga ósiðsemi á þeim stað eða neitt, sem getur rýrt tign eða álit þings­ins meðal alþýðu, og þetta ætla ég muni vera hægt, eins á Íslandi og ann­ars staðar.

Má ekki beina þessum orðum gegn Birni Vali Gíslasyni og öðrum þingmönnum, sem gengið hafa fram af okkur síðustu daga með ruddalegri framkomu á þingi?

Jón sagði í formála að Tveimur æfisögum útlendra merkismanna 1839:

Sér­hverri þjóð vegnar vel, sem hefir lag á að sjá kosti landsins, og nota þá, eins og þeir eiga að vera notaðir. Lönd­in eru lík einstökum jörð­um, ekkert land hefir alla kosti, og engu er heldur alls varnað. En það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel, en sjá til, að ókostirnir gjöri sem minnst tjón.

Er þessi orð okkur ekki brýning um að nýta vel og skynsamlega gjöfulustu náttúruauðlindir okkar, fiskistofnana, fallvötnin, jarðvarmann og náttúrufegurðina?

Jón sagði í hinni frægu ritgerð sinni „Um Alþing á Íslandi“ í Nýjum félagsritum 1841:

Kjör manna, stétta og þjóða eru svo sam­tvinnuð, að eins gagn er í rauninni allra gagn og eins skaði allra skaði.

Hér hafnaði forsetinn berum orðum þeirri stéttabaráttu, sem sósíalistar tuttugustu aldar reyndu að efna til og olli ómældum skaða.

Jón Sigurðsson sagði í Nýjum félagsritum 1844:

Margir hinir vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórn­araðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi. Hin mikilvægustu fyrirtæki, bæði til andlegra og líkamlegra þarfa þjóð­arinnar, tilbúningur á veg­um, höfn­um, brúm, hjólskipum og mýmörg­um öðr­um stórsmíðum, sem stjórnin hefði með engu móti getað afkastað eða kom­ist yfir að láta gjöra, er allt gjört með fé­lagssamtökum manna.

Með félagsfrelsi átti forsetinn við atvinnufrelsi. Fróðlegt er, að Jón skyldi vilja sækja fyrirmyndir til hinna engilsaxnesku þjóða.

Jón sagði í Nýjum félagsritum 1860:

Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til al­mennra heilla.

Hér herti Jón á frelsisboðskap sínum, og enn á hann við, þegar við búum við stjórn, sem telur allt vald best komið í eigin hendi.

Jón sagði í Nýjum félagsritum 1843:

Ekkert land í veröldinni er ­sjálfu sér ein­hlítt, þó heimska mann­anna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekk­ert er heldur svo, að það sé ekki veit­anda í ein­hverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt versl­anin, þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú versl­anin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hef­­ir aflögu, þangað sem hún getur feng­ið það, sem hún girnist.

Eins og sést á þessu, var Jón fylgismaður verslunarfrelsis með réttum rökum: Það auðveldar verkaskiptingu milli þjóða. Þeir, sem telja, að „nýfrjálshyggja“ sé í andarslitrunum, ættu að lesa rit „nýfrjálshyggjumannsins“ Jóns Sigurðssonar. Hann hefur enst furðuvel, — ekki aðeins á fimm hundruð króna seðlinum.


„Sótt að sannleikanum“

stefanolmynd_403847_1001443.jpgStefán Ólafsson prófessor var einn þeirra, sem fluttu fyrirlestra um bankahrunið, aðdraganda þess og afleiðingar, í fundaröð Háskóla Íslands. Hann kallaði fyrirlestur sinn „Sótt að sannleikanum. Um tíðaranda hroka, siðleysis og hótana“. Allur er lesturinn ein samfelld árás á frjálshyggju.

Mér finnst hins vegar Stefán sýna nokkurn hroka með því að tala í nafni sannleikans með ákveðnum greini. Auðvitað á hver maður sitt sannleiksbrot, Stefán líka. En hann hefur ekki sýnt staðreyndum þá virðingu, sem vísindamenn eiga að gera, eins og ég sýni fram á í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.

Ég skal nefna nokkur dæmi:

Stefán hélt því fram, að kjör ellilífeyrisþega væru hér lakari en annars staðar á Norðurlöndum. Hann mótmælti harðlega tölum frá norrænu tölfræðinefndinni, sem sýndu, að á Norðurlöndum hefðu lífeyristekjur verið hæstar á Íslandi árið 2004. En ég benti á, að Stefán fór með rangt mál: Hann deildi með fjölda manna á lífeyrisaldri (31.000) í heildarlífeyrisgreiðslur, ekki með fjölda lífeyrisþega (26.000).

Stefán hélt því fram, að tekjuskipting hefði orðið hér ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. En ég benti á, að hann hafði reiknað tölurnar fyrir Ísland öðru vísi en þær eru reiknaðar fyrir önnur Evrópulönd. Hann hafði reiknað inn í þær söluhagnað af hlutabréfum, en það var ekki gert annars staðar. Þess vegna virtist tekjuskiptingin ójafnari hér en annars staðar. Þegar allt var reiknað á sama hátt, var tekjuskipting síst ójafnari á Íslandi 2004 en annars staðar á Norðurlöndum.

Stefán hélt því fram, eins og menn muna, að skattar hefðu hér verið hækkaðir. En ég benti á, að skattar voru lækkaðir. Hins vegar gerðist það í góðærinu frá 1995, að menn greiddu hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta en áður, vegna þess að þeir færðust upp tekjustigann, ef svo má segja, misstu margir rétt til bóta og keyptu líka meira af vöru, sem bar opinber gjöld. Þetta gerist sjálfkrafa í góðæri, en hið öfuga, þegar að kreppir. Má kalla þetta eðlilega sveiflujöfnun.

Stefán hélt því fram, að fjármagnseigendum og launafólki væri mismunað: Fjármagnseigendur þyrftu aðeins að greiða 10% af tekjum sínum, en launþegar hátt í 40%. En ég benti á, að fjármagnstekjuskattur var ætíð í raun að minnsta kosti 26,6% (vegna þess, að þegar er greiddur tekjuskattur af tekjunum inni í fyrirtæki, áður en arður er greiddur út). Jafnframt greiddu launþegar alltaf minna en 36% af öllum tekjum sínum, því að hluti þeirra var skattfrjáls (skattleysismörkin). Þetta var áróðursbrella, að nefna 10% og 40% í sömu andrá.

Stefán hélt því fram, að skattar hefðu hér verið hækkaðir á laun með því að hækka skattleysismörk ekki til jafns við verðlag. En ég benti á, að Stefán sleppti því að reikna inn í skattleysismörkin, að lífeyrissjóðsgreiðslur og séreignarsparnaður varð skattfrjáls, sem leiddi til hækkunar skattleysismarka. Voru skattleysismörk að þessu virtu mjög nærri því að vera hin sömu á föstu verðlagi, til dæmis árin 1994 og 2005.

Stefán hélt því fram, að fátækt væri hér meiri en annars staðar á Norðurlöndum. Þessu hefur hann raunar haldið fram áratugum saman. En ég benti á, að rannsóknir Evrópusambandsins sýna, að fátækt (í hlutfallslegum skilningi) var hér einhver hin minnsta í Evrópu árið 2004.

Stefán hélt því fram, að góðærið á Íslandi hefði verið kostað með lántökum og þess vegna ekki verið raunverulegt góðæri. En ég benti á, að skuldasöfnun Íslendinga jókst ekki að ráði fyrr en 2004 og eftir það. Góðærið 1995–2004 átti sér eðlilegar skýringar, ekki síst þá, að dautt fjármagn lifnaði við, um leið og það komst í eigu einstaklinga.

Margt fleira mætti nefna, en ég vísa enn í bók mína um málið, þar sem ég reyni að skýra þetta á eins einfaldan og aðgengilegan hátt og ég get.

Áróðursmenn sækja vissulega stundum að staðreyndum, ekki síst þeir, sem telja sig tala í nafni sannleikans, jafnvel Stórasannleika. En má ég frekar biðja um staðreyndir en Stórasannleika?


Baugsmálið í heimsbókmenntunum

Baugsmálið var ekki eitt mál, heldur mörg. Það var ekki aðeins málið, sem Jón Ásgeir Jóhannesson var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir, heldur öll þau mál, sem síðan hafa komist upp og eru nú til meðferðar, svo sem mál slitastjórnar Glitnis í New York og rannsókn sérstaks saksóknara á gjörningum Baugsfeðga og viðskiptafélaga þeirra.

En ekkert er nýtt undir sólinni. Í heimsbókmenntunum hefur iðulega verið minnst á svipuð mál. Í Síðari Samúelsbók (12, 4) í hinni helgu bók segir:

Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða naut­um til að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka manns­ins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans.

Baugsfeðgar héldu veislur sínar í Monte Carlo, í skrauthýsunum og einkaþotunum og á lystisnekkjunum, fyrir lánsfé af innstæðum venjulegra, grandalausra Íslendinga. Þeir sóuðu sparifé gömlu konunnar, — þeir slátruðu gimbrarlambi fátæka mannsins.

Franski rithöfundurinn Honoré Balzac skrifar í Père Goriot, sem kom út 1835 (3. k.):

Le secret des grandes fortunes sans cause apparente est un crime oubli, parce qu’ il a été proprement fait. (Á bak við mikil og illskýranleg auðæfi leynist jafnan óupplýstur glæpur og fimlega framinn.)

Þótt Jón Ásgeir hafi þegar hlotið dóm fyrir efnahagsbrot (og var sá dómur ótrúlega vægur miðað við eðli máls), eiga dómarnir áreiðanlega eftir að verða fleiri, og þá segir mér svo hugur um, að orð Balzacs verði að áhrínsorðum.

Sænska skáldið Gustaf Fröding yrkir í ljóðinu „Atlantis“ (1894), sem Sigurður Nordal sneri á íslensku:

Allsnægtir gerðust að oki.

Auðjöfrasveitin með þrælkunarkvöð

rændi alþjóðar auðnu,

át og drakk og var glöð.

Mein fylgdu munúð,

mein eltu nauðir

óhófs og ógæfu tröð.

 

Ég hef ekki séð raunsannari lýsing á ástandinu á Íslandi frá vorinu 2004, þegar Golíat sigraði Davíð, og fram að bankahruninu haustið 2008.

Skammast þeir Íslendingar, sem gæddu sér með Baugsfeðgum á gimbrarlambi fátæka mannsins, sín ekki? Er glæpurinn enn illskýranlegur? Halda Baugspennarnir gömlu — Hallgrímur Helgason, Þorvaldur Gylfason og ýmsir minni spámenn — áfram að syngja auðjöfrasveitinni, sem rændi alþjóðar auðnu, lof?

 


Jóhannes kvartari

husjohannesarbonus.jpgJóhannes Jónsson, sem kenndur er við Bónus (þótt hann eigi ekki eina einustu krónu lengur í því fyrirtæki), skrifar enn eina kvörtunargreinina og nú á Pressuna. Að þessu sinni er kvörtunarefnið, að fyrirtækið Hagar, sem reka Hagkaup og Bónus, sé í Morgunblaðinu sagt gjaldþrota. Það fyrirtæki gangi vel.

Mikla kokhreysti þarf til að skrifa grein sem þessa. Fyrirtæki getur vitanlega gengið vel, ef allar skuldir þess eru færðar annað. Skuldir Haga voru færðar inn í móðurfélag þess, 1998 ehf. Það fyrirtæki er gjaldþrota, og stjórnar Arion banki því. Orðhengilsháttur er að gera greinarmun á þessum tveimur fyrirtækjum.

Hér þarf ekki að rifja upp mörgum orðum, hvað gerst hefur síðustu árin. Baugsfeðgar, Jón Ásgeir og Jóhannes, tæmdu ásamt viðskiptafélögum sínum íslensku bankana, eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Beittu þeir margvíslegum blekkingum til þess, svo sem í skýrslunni er rakið.

Skömmu fyrir hrun stofnuðu þeir feðgar 1998 ehf., en notuðu helminginn af 30 milljarða króna láni frá Kaupþingi, sem veitt var vegna þeirra breytinga, til að kaupa hlutabréf sín í Baugi, sem orðið var verðlaust fyrirtæki þá þegar. Tókst þeim þannig að forða fimmtán milljörðum króna út úr gjaldþrota félagi. Skiptastjórar reyna nú að rifta þeim gjörningi.

Jafnframt lifðu þeir feðgar og hirð þeirra óhófslífi fyrir lánsfé frá íslensku bönkunum. Nægir að minna á lystisnekkju og einkaþotu Jóns Ásgeirs, skrauthýsi hans í Nýju Jórvík og skíðaskála í Frakklandi að ógleymdu setri Jóhannesar „í Bónus“ í Florida, sem fært var yfir á sérfélag skömmu eftir hrun.

Þeir feðgar og hirð þeirra reyndu líka að stjórna allri skoðanamyndun í landinu. Þeir keyptu til fylgis við sig fjölda álitsgjafa, Baugspennana, Hallgrím Helgason, Þorvald Gylfason og fleiri. Þeir blaðamenn, sem sátu ekki og stóðu eins og feðgunum þóknaðist, voru reknir eða hraktir í burtu, og nægir að nefna Bjarna Brynjólfsson, Sigurð Hólm Gunnarsson, Jón Kaldal og Óskar Hrafn Þorvaldsson.

Í stað þess að skrifa kvörtunargreinar í blöð ætti Jóhannes að lesa kvæði Hallgríms Péturssonar sér til sálubótar. Þar segir í „Flærðarsennu“ um menn eins og Jóhannes:

Annars erindi rekur
úlfur, og löngum sannast það;
læst margur loforðsfrekur,
lítt verður úr, þá hert er að.

Enn segir Hallgrímur og nú í sjálfum Passíusálmunum:

Undirrót allra lasta
ágirndin kölluð er.

Má raunar minna á, að Davíð Oddsson vitnaði í þessi orð, þegar hann tók sparifé sitt út úr Kaupþingi haustið 2003 í mótmælaskyni við framferði fjármálafurstanna.

Enn segir Hallgrímur:

Athugagjarn og orðvar sért,
einkum þegar þú reiður ert.
Formæling illan finnur stað,
fást mega dæmin upp á það.

Hefði Jóhannes mátt lesa þetta erindi úr Passíusálmunum, áður en hann settist niður til að skrifa.

(Myndin er af setri Jóhannesar í Florida.)


Tolkien og Baugsmálið

Fróðlegt er að sjá, hversu mikil áhrif Völsunga saga og Eddukvæði sum, til dæmis Atlakviða, Fáfnismál og Sigurdrífumál, hafa haft á þýska tónskáldið Richard Wagner annars vegar og enska rithöfundinn og fornfræðinginn J. R. R. Tolkien hins vegar. Bera Niflungahringur Wagners og Hringadróttins saga Tolkiens því glöggt vitni.

Eitt mikilvægasta minni þessara verka allra er hringur, baugur, tákn gullsins, sem öllu spillir, rógmálmsins, sem vekur upp vondar hvatir og veldur ógæfu.

Tolkien yrkir í fyrsta bindi Hringadróttins sögu (The Lord of the Rings), Föruneyti hringsins, sem kom út á íslensku í þýðingu Þorsteins Thorarensens 1980 (en ljóðin þýddi Geir Kristjánsson):

One Ring to rule them all, One Ring to find them,
One Ring to bring them all and in the darkness bind them.

Þetta þýddi Geir svo:

Einn Hringur ræður þeim öllum, einn skal hann hina finna,
einn skal safna þeim öllum og um sinn fjötur spinna.

Jafnframt því sem íslensk fortíð hafði áhrif á Tolkien, varpar hann í verki sínu ljósi á íslenska samtíð. Engu er líkara en Tolkien hafi séð Baug fyrir, sem réð mörgum fjölmiðlamönnum, stjórnmálamönnum (og jafnvel dómurum?) á Íslandi um og eftir 2002, þegar hann átti morð fjár, sem hann hafði sótt  til Bretlands. Þessi Baugur, þessi Hringur, reyndi svo sannarlega að spinna fjötur sinn um Íslendinga. Margir voru í „föruneyti hringsins“.

Og enn ræður Baugurinn, Hringurinn, miklu um verðmyndun á markaði og skoðanamyndun í fjölmiðlum á Íslandi. Er það ekki umhugsunarefni?


Sósíalismi andskotans

jonasgeirvidbord.jpgVilmundur Jónsson landlæknir mun hafa smíðað orðasambandið „sósíalisma andskotans“. Hann átti við það, þegar ríkisafskipti hafa þveröfugar afleiðingar við það, sem þeim er ætlað að hafa, til dæmis þegar ráðstafanir til að hjálpa bágstöddum verða auðmönnum einum til góðs. Ótal dæmi eru til um það, að ríkisafskipti gagnist öðrum á borði en í orði.

Eitt skýrasta dæmið um sósíalisma andskotans er, þegar ríkið tekur að sér að aðstoða fjárglæframenn við ævintýri þeirra, leyfir þeim að hirða gróðann, er vel gengur, en tekur á sig tapið, þegar illa fer. Halldór Laxness leggur Umba í munn skemmtilega klausu um hraðfrystihús í Kristnihaldi undir jökli:

Spaugararnir reisa þau fyrir styrk frá ríkinu, síðan fá þeir styrk af ríkinu til að reka þau, þvínæst láta þeir ríkið borga allar skuldir en verða seinast gjaldþrota og láta ríkið bera gjaldþrotið. Ef svo slysalega vill til að einhverntíma kemur eyrir í kassann þá fara þessir grínistar út að skemta sér.

 

Sem betur fer er af sú tíð, þegar útgerð og fiskvinnsla voru byrðar á ríkissjóði. Íslenskur sjávarútvegur hefur rétt úr kútnum, ekki síst vegna kvótakerfisins, sem er öfundarefni annarra þjóða.

Sósíalismi andskotans er þó enn til. Eitt skýrasta og átakanlegasta dæmið um hann á því herrans ári 2010 er, að ríkið hefur tekið að sér að halda á floti fyrirtækjum Baugsfeðga, en leyfa þeim að stjórna þeim áfram. Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnar Högum, þótt faðir hans sé þar skráður stjórnarformaður, og 365-miðlum, þótt eiginkona hans sé þar skráður stjórnarformaður.

Hagar skulda fimmtíu milljarða! Engar líkur eru á því, að Jón Ásgeir geti nokkru sinni goldið þá skuld. Samt fær hann að stjórna fyrirtækinu áfram. Ekki nóg með það: Honum er leyft að dæla fé úr þessu fyrirtæki ríkisins í annað fyrirtæki ríkisins, 365-miðla. Af auglýsingum Haga renna 96% til Fréttablaðsins, eins og könnun sýndi á sínum tíma. (Raunar þarf enga könnun til: Það nægir að fletta blaðinu.)

Maðurinn, sem tæmdi íslensku bankana, fær enn að stjórna verðmyndun og skoðanamyndun í landinu. Mikil er ábyrgð þeirra tveggja banka, Landsbankans og Arion banka, sem leyfa þetta, og hlýtur sérstakur saksóknari um bankahrunið að taka þetta mál til rannsóknar, þegar tími vinnst til.

Þegar fréttist af því á dögunum, að Jón Ásgeir ætlaði með forstöðumönnum 365-miðla í skemmtiferð vestur til Kaliforníu (en hún var kölluð því virðulega nafni innkaupaferð), rifjuðust upp fyrir mér orð Nóbelskáldsins: „Ef svo slysalega vill til að einhverntíma kemur eyrir í kassann þá fara þessir grínistar út að skemta sér.“


Jóhönnu ber að víkja

johannasigur_ardottir_998785.jpgJóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir bersýnilega ósatt um aðdragandann að ráðningu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hún lætur trúnaðarmenn sína, Láru V. Júlíusdóttur í bankaráði Seðlabankans og Ragnheiði Arnljótsdóttur í forsætisráðuneytinu, hins vegar hylma yfir með sér. Það er óhugsandi, að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu hafi gengið frá ráðningarkjörum Más án samráðs við Jóhönnu. Því trúir enginn.

Það er síðan fáránlegt, að starfsfólk ráðuneytisins fékkst við það að semja við Má um launakjör, á sama tíma og fjöldi annarra manna sóttu um seðlabankastjórastöðuna í þeirri trú, að henni væri óráðstafað. Það hlýtur að vera brot á stjórnsýslureglum, auk þess sem það er fullkomin óvirðing við aðra umsækjendur.

Ég tek undir leiðara Morgunblaðsins í gær, 8. júní:

Það er tilgangslaust að deila um það lengur að Jóhanna sagði ekki satt í hinu umtalaða máli, másgeitar-málinu. En hitt er verra að nú bendir margt til að allt hið flókna umsóknarferli sem sett var á svið um bankastjórastarfið hafi einmitt verið það, eingöngu sviðsetning. Hvenær hefur það gerst nokkurs staðar, nokkurn tímann að umsækjandi um starf hafi verið í hörku launaþjarki á umsóknartímanum og haft í hótunum um að segja af sér starfinu sem hann var ekki búinn að fá ef hann nyti ekki þeirra launa sem hann vildi?

En hvar eru allir álitsgjafarnir, sem venjulega ná ekki upp í nefið á sér af hneykslun, sé bókstafnum ekki fylgt í einu og öllu? Hvar er til dæmis umboðsmaður Alþingis, sem getur tekið mál upp að eigin frumkvæði og hefur gert það? Eða dr. Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur, sem hefur látið móðan mása af minna tilefni?

Jóhanna Sigurðardóttir verður að víkja. Hún hefur sýnt það í stuttri dvöl sinni í forsætisráðuneytinu, að hún ræður ekki við það starf. Nú hefur hún gerst sek um brot, sem í öllum grannríkjum okkar yrði til þess, að ráðherra segði af sér.


Fyrirsjáanleg niðurstaða ríkissaksóknara

rannsoknarnefnd.jpgMér kemur ekki á óvart, að ríkissaksóknari telji ástæðulaust að hefja sakamálarannsókn á hendur þremur bankastjórum Seðlabankans fyrir hrun, þeim Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni. Um hvaða lögbrot áttu þeir að vera sekir?

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu voru, þegar grannt er skoðað, settar fram tvær aðfinnslur að embættisfærslum seðlabankastjóranna. Annað atriðið var, að þeir hefðu ekki komið í veg fyrir stofnun Icesave-reikninga Landsbankans. Til þess höfðu þeir enga lagaheimild, eins og nefndinni var skilmerkilega bent á. Þessi aðfinnsla er beinlínis röng efnislega.

Hitt atriðið var, að ekki hefðu verið fyllt út rétt eyðublöð, þegar ríkið gerði að ráði Seðlabankans kauptilboð í hlutabréf í Glitni. Þessi aðfinnsla er smávægileg og í rauninni hlægileg. Þetta var í miðri hörðustu lánsfjárkreppu í áttatíu ár. Um allan heim voru bankastjórar að reyna að bjarga bönkum úr þroti. Taka varð skyndilegar ákvarðanir með litlar upplýsingar í höndum. Það lá í eðli máls, að ekki var unnt að gæta ströngustu stjórnsýslureglna við þetta kauptilboð.

Jafnvel þótt einhverjir væru sammála nefndinni um, að seðlabankastjórarnir hefðu gerst sekir um vanrækslu í starfi, eins langsótt og það er, leiddi ekki af því, að þeir hefðu brotið lög. Vanræksla er ekki lögbrot, nema í henni felist stórfellt og vítavert gáleysi. Þegar af þeirri ástæðu var niðurstaða ríkissaksóknara fyrirsjáanleg.

Mér kom frekar á óvart, að Rannsóknarnefndin skyldi setja fram þessar tvær aðfinnslur við embættisfærslur seðlabankastjóranna. En eflaust hefur verið hart lagt að nefndarmönnum að firra Davíð Oddsson ekki ábyrgð á bankahruninu. Mikinn styrk þarf til að láta ekki undan slíkum goluþyt.

Þrátt fyrir þetta vann nefndin í aðalatriðum gott starf. Skýrsla hennar er afar fróðleg, og í henni kemur skýrt fram, að hin innlenda ábyrgð á bankahruninu lá vitanlega hjá bankamönnunum sjálfum, þó aðallega hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og klíku hans, sem hafði ítök í öllum þremur íslensku viðskiptabönkunum og misnotaði þau herfilega.

Gróa á Efstaleiti, eins og Egill Helgason er nú jafnan kallaður eftir hina snjöllu vísu Þórarins Eldjárns um hann, bloggar hins vegar um það í dag í kvörtunartón, að enginn þurfi að sæta ábyrgð á Íslandi, þótt hann bæti því við, að sennilega hafi seðlabankastjórarnir ekki brotið nein lög. Má ég spyrja Gróu á Efstaleiti: Misstu seðlabankastjórarnir ekki störf sín? Og hefði átt að hefja sakamálarannsókn á hendur þeim, jafnvel þótt þeir hefðu ekki verið taldir sekir um nein lögbrot?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband