Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Batnandi manni er best að skrifa

gu_mundurandri.jpgÉg get tekið undir sumt í pistli Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu 20. júlí 2010. Hann segir: „Eins og við vitum er frjáls samkeppni óbærilegt ástand fyrir kaupmenn. Enginn hagnast á frjálsri samkeppni nema kannski almenningur - og hverjum er ekki sama um hann?“

Ég svara: Mér er ekki sama um almenning og ekki heldur þeim Adam Smith og Milton Friedman, mínum gömlu, góðu lærimeisturum.

Adam Smith skrifar í Auðlegð þjóðanna: „Fólk, sem stundar sömu atvinnugrein, fer sjaldan hvert á annars fund, jafnvel sér til skemmtunar og af­þrey­ingar, svo að samræður þess endi ekki í samsæri gegn almenningi eða einhverju ráðabruggi um að hækka verð.“ (1. bók, 10. kafli, 2. hluti.)

Milton Friedman sagði í kvöldverði, sem Verslunarráð Íslands hélt honum í Þingholti 31. ágúst 1984, þegar hann var spurður, hvað hættulegast væri kapítalismanum: „Lítið í spegil!“ Hann átti við hið sama og Adam Smith, að frjáls markaður er umfram allt neytendum í hag. Kapítalistar reyna jafnan að takmarka samkeppnina, því að hún knýr þá til að fullnægja þörfum neytenda betur og ódýrar en ella.

Baráttan fyrir frjálsum markaði er sífelld viðleitni til að sjá við þeim, sem vilja takmarka samkeppni og öðlast einokunaraðstöðu. Slík barátta verður, hygg ég, sjaldnast best háð í krafti víðtæks opinbers eftirlits, heldur með því að opna markaði, tryggja, að engum sé meinað að komast þangað inn, að allir geti hafið samkeppni við þá, sem í fleti eru fyrir.

Besta ráðið til að tryggja samkeppni er því að stækka markaðinn, eins og Adam Smith benti á, ryðja úr vegi hömlum á viðskiptum milli svæða og ríkja. Eitt skref í þá átt hér á Íslandi var að fá óheftan aðgang að Evrópumarkaði með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. En það væri síðan skref aftur á bak að takmarka aðgang að öðrum mörkuðum með því að ganga í Evrópusambandið. Íslendingar ættu ekki aðeins að vilja óheftan aðgang að Evrópumarkaði, heldur líka að mörkuðum í Rússlandi, Kína, Bandaríkjunum, Kanada, Brasilíu og alls staðar annars staðar, þar sem arðs er von.

Hitt er annað mál, að rök Adams Smiths gilda ekki á öllum mörkuðum. Til dæmis takmarkast fjölmiðlamarkaðurinn íslenski í eðli sínu við okkar málsvæði. Samkeppni verður hér ekki tryggð með því að stækka markaðinn til útlanda. Þess vegna var hugsanlega réttlætanlegt — frelsisins vegna — að setja einokun og fákeppni á slíkum markaði lagaskorður, eins og Davíð Oddsson vildi gera með fjölmiðlafrumvarpi sínu vorið 2004, sem Alþingi samþykkti, en forseti synjaði staðfestingar.

Einnig er á það að benda, að kapítalistar verða að fylgja settum reglum, skráðum og óskráðum. Svo virðist sem Baugsfeðgar hafi alls ekki gert það. Sleppum öllum þeim ótrúlegu málum, sem nú eru rekin fyrir dómstólum, enda hefur ekki fengist í þeim niðurstaða, en minnumst Baugsmálsins svokallaða. Þegar þá var reynt að koma lögum yfir Baugsfeðga, notuðu þeir hið mikla afl sitt til þess að ráðast á stjórnmálamenn (eða réttara sagt einn stjórnmálamann) og gera lögreglu tortryggilega. Þá lögðu margir þeim lið. Því miður var Guðmundur Andri Thorsson í þeim hópi.

Nú hefur hann skipt um skoðun, og er það vel. Nú gagnrýnir hann Baugsfeðga jafnfimlega og hann varði þá áður.

Batnandi manni er best að skrifa.

 


Engilsaxneskur kapítalismi?

Ein meginkenning Stefáns Ólafssonar prófessors er, að árin 1991–2004, á meðan Davíð Oddsson var forsætisráðherra, hafi hér á landi verið stofnað til kapítalisma í engilsaxneskum anda, en vikið af hinni norrænu leið, sem áður hafi verið farin. Gerir Stefán eins og fleiri fræðimenn greinarmun á tveimur afbrigðum af kapítalisma, engilsaxneskum (í Bretlandi og Bandaríkjunum, en einnig á Írlandi og í Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi) og norrænum.

Ég sýni fram á það í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út í árslok 2009, að þessi kenning Stefáns er röng. Íslendingar viku ekki af hinni norrænu leið, af því að þeir voru ekki á henni. Íslenska hagkerfið var í tíð Davíðs Oddssonar, en raunar líka áður einhvers staðar á milli hins norræna og hins engilsaxneska líkans. Hér var velferðaraðstoð rausnarlegri en í Bretlandi og Bandaríkjunum og tekjuskipting jafnari, en hér var líka meira atvinnufrelsi og lægri skattar en á Norðurlöndum.

Hins vegar er merkilegt, að Stefán og sumir þeir, sem tóku undir með honum, til dæmis Jón Baldvin Hannibalsson, töluðu um það sem einhvern glæp að líkjast engilsaxnesku þjóðunum. Við eigum ekki að elta Norðurlandaþjóðirnar í einu og öllu, þótt margt sé gott um þær, heldur horfa líka til engilsaxnesku þjóðanna. Þetta sá Grímur Thomsen vel, er hann skrifaði í ritgerð um stöðu Íslands: „Ísland er bæði í landfræðilegum og sögulegum skiln­ingi Janus, sem snýr annarri ásjónu sinni að hinni gömlu og menntuðu Evrópu, hinni að Ameríku, ungri og saklausri.“ (Janus var rómverskur guð, sem horfði í tvær áttir.)

Íslendingar nítjándu aldar vissu vel, að margt mátti læra af Engilsöxum. Sérstaklega þótti félagsfrelsi þeirra eða atvinnufrelsi til fyrirmyndar, þá er samtakamáttur og sjálfsbjargarhvöt einstaklinganna er virkjað saman í ýmsum fyrirtækjum og félögum. Jónas Hallgrímsson sagði 1835 í ritgerð um hreppana á Íslandi í Fjölni:

Óskandi væri Íslendingar færu að sjá, hvað fé­lags­and­­inn er ómissandi til ef­l­ingar velgengninni í smáu og stóru, og fylgdu í því dæmi annarra þjóða að fara að taka þátt í almenningshögum, hver eftir sínum kjör­­um og stöðu í félaginu. Þessi andi hefir gjört úr Englendingum svo virta og volduga þjóð, að hún bæði veit, hvað hún vill og hefir nóg afl til að fram­kvæma það, svo að frelsi hennar og réttindum, heiðri og velgengni mætti vera borgið héðan í frá.

 

Og níu árum síðar, 1844, sagði Jón Sigurðsson í ritgerð um félagsskap og samtök í Nýjum félagsritum:

Margir hinir vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórn­araðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi. Hin mikilvægustu fyrirtæki, bæði til andlegra og líkamlegra þarfa þjóð­arinnar, tilbúningur á veg­um, höfn­um, brúm, hjólskipum og mýmörg­um öðr­um stórsmíðum, sem stjórnin hefði með engu móti getað afkastað eða kom­ist yfir að láta gjöra, er allt gjört með fé­lagssamtökum manna.

 

Ég játa, að frekar vil ég eiga sálufélag með þeim Grími Thomsen, Jónasi Hallgrímssyni og Jóni Sigurðssyni en þeim, sem vilja eins og Stefán Ólafsson og Jón Baldvin Hannibalsson apa allt eftir frændum okkar á Norðurlöndum.


Ómerkilegar árásir Þorvaldar Gylfasonar á Kjartan Gunnarsson

Í síðasta pistli sínum í Fréttablaðinu ræðst Þorvaldur Gylfason af offorsi á Kjartan Gunnarsson, sem var lengi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og (í krafti eigin hlutafjáreignar) varaformaður bankaráðs Landsbankans um skeið fyrir hrun.

Heimildarmaður Þorvaldar fyrir því, að Kjartan hafi sem varaformaður bankaráðsins rofið lögmæltan trúnað og sagt mönnum úti í bæ frá högum einstakra skuldunauta bankans (Styrmis Gunnarssonar), er Sverrir Hermannsson.

Dregur hver dám af sínum sessunaut: Þorvaldur Gylfason er í slagtogi við Sverri Hermannsson, sem hrökklaðist úr  bankastjórastöðu í Landsbankanum vegna spillingar. Hafði hann meðal annars ofgreitt sér risnu og utanferðir og framleigt Landsbankanum laxveiðiá, sem hann hafði sjálfur á leigu. Margt var talið fram aðfinnsluvert í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framferði Sverris.

Það vita hins vegar allir, sem þekkja Kjartan Gunnarsson, að hann er manna ólíklegastur til að rjúfa trúnað í starfi. Hann er maður vammlaus og vítalaus. Mér er raunar líka fullkunnugt um það, að Kjartan rauf ekki trúnað í þessu máli þvert á það, sem Sverrir fullyrðir.

Mér er enn fremur sagt, að vinir Sverris, Styrmir Gunnarsson og Matthías Johannessen, hafi báðir hvað eftir annað reynt að útskýra þetta fyrir honum, en árangurslaust. Sverrir sé — eins og Þorvaldur Gylfason — blindaður af hatri í garð Kjartans. Kennir hann Kjartani um það, að hann skyldist hrekjast úr bankastjórastarfinu, en horfir ekki í eigin barm.

Ég hef það fyrir satt, að sá maður, sem rauf trúnað og sagði mönnum úti í bæ frá högum einstakra skuldunauta bankans (Styrmis Gunnarssonar og eflaust fleiri), hafi verið enginn annar en Sverrir Hermannsson sjálfur.

Hið sama hafði hann raunar áður gert. Hann var bersýnilega aðalheimildarmaður Agnesar Bragadóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, fyrir frægum fréttaskýringum hennar á sínum tíma um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga. Þá var hann bankastjóri og bundinn hinum lögmælta trúnaði bankamanna, sem hann rauf með því að lauma upplýsingum til Agnesar.

Var viðurlögum laga ekki beitt, þótt Agnes neitaði að skýra frá heimildarmönnum sínum, svo að Sverrir slapp við rannsókn og ákæru í því máli.

Þorvaldur Gylfason hefur nú skrifað í mörg ár í Fréttablaðið vikulegar greinar gegn spillingu og fjárglæfrum (og þegið fyrir vænar greiðslur). Hefur hann kallað aðra menn „þagnameistara“ í háði, ef þeir hafa talið með réttu eða röngu, að um ýmis mál mætti stundum satt kyrrt liggja. Þorvaldur hefur ekki í eitt einasta skipti — í mörg hundruð greinum sínum — gagnrýnt þá spillingu og þá fjárglæfra, sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnandi Fréttablaðsins, hefur reynst sekur um og upplýst verið um.

Sá munur er og á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fyrrverandi eigendum Landsbankans, að Jón Ásgeir hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum haldið yfirráðum yfir tveimur mikilvægustu fyrirtækjum sínum á Íslandi, Högum (Hagkaup og Bónus), þar sem faðir hans er stjórnarformaður, og 365-miðlum, þar sem eiginkona hans er stjórnarformaður. Fyrrverandi eigendur Landsbankans misstu hins vegar yfirráðin yfir Árvakri, sem var seldur í opnu útboði.

Almenningur sér á hverjum degi, hvernig Hagar moka á hverjum degi auglýsingum í Fréttablaðið og Stöð tvö. 97% af blaðaauglýsingum fyrirtækisins eru birtar í Fréttablaðinu og 95% af sjónvarpsauglýsingum þess á Stöð tvö. Þessi fjáraustur úr öðru fyrirtækinu í hitt er ekki einkamál Haga og 365-miðla, á meðan bæði fyrirtækin eru á framfæri almennings, rekin í skjóli ríkisbanka í raun.

Jón Ásgeir Jóhannesson var ekki heldur í neinum persónulegum ábyrgðum fyrir þeim stórkostlegu lánum, sem hann svældi út úr íslensku bönkunum, og veð hans fyrir þeim lánum voru ekki fullnægjandi. Lætur nærri, eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, að hann hafi tæmt íslensku bankana fyrir bankahrunið (og með því átt verulegan þátt í hruninu), oft með blekkingum um það, að náskyldir aðilar (eins og Baugur, Fons og FL-Group) væru í raun óskyldir.

Á sama tíma og Jón Ásgeir getur fyrirsjáanlega aldrei staðið full skil á lánum sínum í íslensku bönkunum, er hann önnum kafinn við að losa skuldir af skrauthýsi sínu í New York og koma skíðaskála í Frakklandi undan hrammi lánardrottna, auk þess sem hann ekur á Íslandi um á glæsivagni frá 365-miðlum. Virðist hann líka luma á stórfé á leynireikningum í bönkum erlendis.

Í stað þess að endurtaka óra og ímyndanir upp úr gömlum og beiskum manni, er hrökklaðist úr bankastjórastöðu sökum spillingar og var sjálfur sekur um þau trúnaðarbrot, sem hann sakar aðra ranglega um, hefði Þorvaldur Gylfason átt að deila á hin stórfurðuleg vinnubrögð sumra bankanna í málum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Hvað veldur því, að hann gerir það ekki?


Skattar hafa hegðunaráhrif

Ég var hissa á að lesa athugasemd Guðmundar Arnar Jónssonar fjármálaverkfræðings við blogg mitt hér á dögunum um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Hann fullyrti, að fyrirtæki þyrftu ekki að gera ráðstafanir til að létta skattbyrði sína, því að þau gætu ætíð velt sköttum á sig út í verðlag.

Vitaskuld hafa skattar hegðunaráhrif, jafnt skattar á fyrirtæki og einstaklinga. Þetta er ástæðan til þess, að mörg ríki heims hafa gripið til þess ráðs að lækka skatta á fyrirtæki. Vilja þau með því auka fjárfestingu og örva vöxt atvinnulífsins.

Sérfræðingar O. E. C. D. komust einmitt nýlega að þeirri niðurstöðu í rannsókn, að skattar á fyrirtæki væru skaðsamlegastir allra skatta fyrir hagvöxt. (Sjálfur er ég raunar þeirrar skoðunar, að það skipti ekki mestu máli til langs tíma litið, hver sé upphaflega skattlagður. Þegar grannt er skoðað, er skattstofninn til dæmis hinn sami, hvort sem lagður er á virðisaukaskattur eða tekjuskattur, eins og Pascal Salin prófessor leiðir sterk rök að í bók, sem ég ritstýrði árið 2007, Cutting Taxes to Increase Prosperity.)

Þegar fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum vorið 1991, ákvað hún að leggja niður aðstöðugjald, sem var veltuskattur á fyrirtæki, og lækka tekjuskatt á fyrirtæki. Þetta gerði hún í samráði við aðila vinnumarkaðarins, sem vildu afstýra atvinnuleysi. Þessi aðgerð tókst vonum framar, eins og ég sýni í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, en hún kom út í árslok 2009.

Það verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir mönnum, að skattstofnar eru til langs tíma litið breytilegir eftir skattheimtu: Kakan minnkar, ef ríkið tekur stærri sneið. Hún stækkar, ef það tekur minni sneið. Þessi áhrif koma ekki alltaf strax fram, en þau koma fram.

prescott.jpgEdward Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur rannsakað tengsl vinnusemi og skattlagningar. Hann telur engan vafa leika á því, að þessi tengsl séu öfug og sterk: Því hærri sem skattar séu, því minni verði löngun manna til að vinna á hinum opinbera vinnumarkaði, þar sem tekjur þeirra eru skattlagðar.

Rannsóknir Prescotts styðja Laffer-bogann fræga: Með aukinni skattheimtu aukast fyrst skatttekjur ríkisins, en eftir að ákveðnu marki hefur verið náð, minnka þær aftur. Bestu dæmin eru Sviss og Svíþjóð. Skattheimta er miklu meiri í Svíþjóð en Sviss, en skatttekjur á hvern mann svipaðar. Það er, af því að skattstofninn er miklu stærri í Sviss. Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór og stór sneið af lítilli köku. Í Sviss er meiri verðmætasköpun en í Svíþjóð. Þar borgar sig frekar að græða.

Ég benti í bók minni á eitt skýrt dæmi frá Íslandi: Húsaleigu. Þegar skattheimta var þar lækkuð úr um og yfir 40% niður í 10% (fjármagnstekjuskattur kom í stað venjulegs tekjuskatts), jókst framboð á leiguhúsnæði með þeim afleiðingum, að eftir nokkur ár voru skatttekjur ríkisins af húsaleigu orðnar hinar sömu og áður á sama verðlagi. Með öðrum orðum gaf 10% skattur af sér hið sama og 40% skattur.

Skattalækkanir eru fyrirtækjum í hag ekki síður en öllum almenningi. Þess vegna kann það að vera þáttur í eðlilegri og lögmætri starfsemi þeirra að berjast fyrir skattalækkunum.


Fáránleg skrif Egils Helgasonar

Fyrir nokkru vék Egill Helgason heldur óvinsamlega að mér, um leið og hann brá skildi fyrir Þorvald Gylfason prófessor:

Hópur manna er sveittur við að reyna að níða æruna af Þorvaldi Gylfasyni prófessor. Þetta á sér reyndar langa sögu, Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur lagt hatur á Þorvald Gylfason og fjölskyldu hans í marga áratugi. Aðalástæðan er þó kannski sú að Þorvaldur hefur gagnrýnt þá sem ekki má gagnrýna.

egillhelgason_1007468.jpgÞegar ég sá þessi fáránlegu skrif Egils, var ég raunar efins um, hvort ég ætti að svara þeim. Ég hef um annað að hugsa í rannsóknarleyfi mínu erlendis, þar sem ég sit við að ljúka miklu verki, sem ég hef unnið að í fimmtán ár. En sennilega er það rétt, sem Bjarni Benediktsson sagði Matthíasi Johannessen: „Alltaf að svara, alltaf að svara.“

Í fyrsta lagi er ég ekki eini maðurinn, sem hef vikið að Þorvaldi Gylfasyni síðustu misserin. Margir aðrir, meðal annars á Eyjunni og fréttavefnum amx.is, hafa deilt á hann fyrir fylgispekt við Baugsfeðga, en Þorvaldur hélt því fram á sínum tíma (vorið 2005), að rannsókn lögreglunnar á fjárreiðum þeirra væri óeðlileg. Hann hefur ekki heldur gagnrýnt þá einu orði þrátt fyrir hinar ótrúlegu uppljóstranir nýlega um fjárglæfra þeirra.

Í öðru lagi fer því fjarri, að ég hati Þorvald eða fjölskyldu hans. Það fólk gegnir satt að segja engu hlutverki í tilfinningalífi mínu. Ég benti hins vegar á það í blaðagrein árið 1979, að faðir Þorvaldar, Gylfi Þ. Gíslason, hefði gerst sekur um ritstuld. Mikið af bók hans, Jafnaðarstefnunni frá 1977, væri þýtt beint eða endursagt upp úr bókinni Equality and Efficiency eftir bandaríska hagfræðinginn Arthur Okun, en hvergi getið heimilda.

(Má ég benda á það, um leið og einhverjir lesendur æpa á mig í huganum, að ég hafi sjálfur orðið uppvís að ritstuldi, að það er rangt: Ég var dæmdur í Hæstarétti fyrir brot á höfundarrétti Halldórs Kiljans Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, sem ég birti árið 2003. Ég leyndi því þar hvergi, að ég notaði minningabækur hans um æskuárin. Ég hélt í grandaleysi, að ég mætti nota þessi verk á svipaðan hátt í bók minni og Laxness hafði til dæmis notað dagbækur Magnúsar Hjaltasonar í Heimsljósi. Ég reyndist hafa rangt fyrir mér samkvæmt dómi Hæstaréttar, enda skrifaði ég annað og þriðja bindi ævisögunnar öðru vísi en hið fyrsta.)

Eflaust hefur blaðagrein mín frá 1979 orðið til þess, að einhverjir úr fjölskyldu Gylfa Þ. Gíslasonar hafi lagt fæð á mig. Þeir Gylfi og Þorvaldur greiddu til dæmis báðir atkvæði gegn því í Viðskiptadeild haustið 1985, að ég yrði ráðinn þar stundakennari, eftir að ég kom heim úr háskólanámi. Þorsteinn, bróðir Þorvaldar, var mér líka mjög óvinsamlegur, eftir að greinin birtist, en hann kenndi mér heimspeki í Háskóla Íslands (og var um margt mjög góður kennari). Í blaðagreinum kallaði hann mig „sauð í sauðargæru“.

Vilmundur Gylfason, bróðir þeirra Þorvaldar og Þorsteins, lét þetta mál hins vegar ekki hafa nein áhrif á sig, og vorum við góðir vinir alla tíð, enda var hann enginn veifiskati og lítt orðsjúkur.

Í þriðja lagi tel ég, að Þorvaldur Gylfason hafi margt vel gert og vel sagt um dagana, en hann sé ekki með sjálfum sér, þegar hann skrifi um Davíð Oddsson (sem hann hatar bersýnilega blóðugu hatri) eða um sum önnur tilfinningamál sín. Hann geti líka átt það til að vera ómálefnalegur. Ég hef aðallega tekið tvö dæmi í gagnrýni minni:

Þorvaldur hélt því fram fyrir nokkrum árum, að vaxtamunur væri hér miklu meiri en í grannríkjunum. Ég skoðaði útreikninga hans. Hann hafði borið saman innlánsvexti á sparisjóðsbókum, sem fáir sem engir nota lengur, og hæstu útlánsvexti. Þetta voru ekki sómasamleg vinnubrögð. Til er viðurkennd aðferð til að reikna út vaxtamun, og þegar henni var beitt, reyndist vaxtamunur hér alls ekki meiri en í grannríkjunum.

Þorvaldur hélt því einnig fram fyrir nokkrum árum, að tekjuskipting hefði orðið hér miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum á árunum fram til 2004. Ég skoðaði útreikninga hans. Hann hafði tekið með í tölum um Gini-stuðla (sem er ein aðferð, en ekki sú eina, til að mæla ójafna tekjuskiptingu) söluhagnað af hlutabréfum. Það var ekki gert í þeim tölum, sem hann notaði frá öðrum löndum. Hann hafði með öðrum orðum borið saman það, sem ósambærilegt var. Þegar Gini-stuðlar voru reiknaðir eins fyrir Ísland annars vegar og Norðurlöndin fjögur, Noreg, Danmörk, Svíþjóð og Finnland, hins vegar, kom í ljós, að tekjuskipting hér var síst ójafnari árið 2004 en þar.

Þorvaldur hefur aldrei leiðrétt þessar reikningsskekkjur sínar.

En við Egil Helgason vil ég segja hið sama og Grettir kvað forðum: „Það er undarlega gert að tala sneyðilega til saklausra manna.“


Þjóðareðli Brasilíumanna

rio_carnival_girl-carnaval-loule-namb-ualg-algarve-brasil-brazil.jpgÁ vormisseri 2010 hef ég verið í rannsóknarleyfi frá Háskóla Íslands. Hef ég meðal annars ferðast talsvert um Vesturheim. Síðastliðna helgi, dagana 1.–4. júlí, sótti ég fróðlega málstofu í borginni Petrópolis í Brasilíu. Hún var um kenningar brasilíska fjölfræðingsins Gilbertos Freyres, en hann skrifaði flestar bækur sínar á fyrra helmingi tuttugustu aldar.

Málstofan fór fram á portúgölsku, og var hún mér kærkomin æfing í þessu máli, sem ég ákvað á útmánuðum 2006 að reyna að læra. Gat ég fylgst með öllu, sem sagt var. Mér gekk líka stórslysalaust að koma á portúgölsku orðum að eigin hugmyndum.

Freyre reyndi hið sama fyrir Brasilíumenn og Sigurður Nordal fyrir Íslendinga, að skilgreina eðli þeirra eða sál. Hvað gerði Brasilíumenn að því, sem þeir voru og eru? Hvers vegna gátu þeir borið höfuðið hátt þrátt fyrir allt? (Í Íslenskri menningu lýsti Nordal sjóræningjunum, sem hröktust hingað út á Dumbshaf á níundu öld, sem stórkostlegum hetjum.)

Freyre hélt því fram, að ýmis sérkenni Brasilíumanna mætti rekja til Portúgala, sem námu landið og stjórnuðu frá 1532 til 1808. Þeir hefðu sameinað í sér margt úr evrópskri og múslimskri menningu. Þeir hefðu til dæmis ekki verið jafnsiðavandir og engilsaxneskir hreintrúarmenn, púritanar, sem námu Norður-Ameríku. (Fjölkvæni tíðkaðist meðal múslima; Brasilíumenn hafa flestir lítið á móti munúð). Portúgalir hefðu ekki heldur haft eins sterka kynþáttafordóma og margar aðrar vestrænar þjóðir.

Víst er, að hvergi hafa kynþættir blandast eins rækilega saman og í Brasilíu. Tölur um skiptingu þjóðarinnar í kynþætti eru að vísu grunsamlegar, því að hlutfall hvítra manna er skráð allt of hátt miðað við það, sem ég sé þar sjálfur. En meiri hluti landsmanna eru kynblendingar. Eins og Freyre sagði, er engu líkara en nýr kynþáttur sé að vera til í Brasilíu.

Talsvert var rætt í málstofunni um þrælahald, sem lagðist síðar niður í Brasilíu samkvæmt lögum en víðast annars staðar, ekki fyrr en 1889. Ég benti á það, að Adam Smith og aðrir frjálslyndir hagfræðingar hefðu sýnt fram á, að þrælahald væri óhagkvæmt: Maður er meira virði sem frjáls maður en þræll, því að þá hefur hann hag af því að uppgötva og rækta hæfileika sína.

Lítill vafi er á því, að þrælahald hafði mikil og vond áhrif á brasilískt þjóðlíf.

Ég benti einnig á það, sem Gary Becker hefur leitt sterk rök að, meðal annars í bókinni The Economics of Discrimination, að mismunun bitnar ekki síður á þeim, sem mismunar, en hinum, sem mismunað er. Með fordómum og mismunun neita menn sér um þá hæfileika, sem býr í fórnarlömbum þeirra.

Í því sambandi sagði ég söguna af skoðunarferð minni um Pretoríu, höfuðborg Suður-Afríku, haustið 1987 (á meðan minnihlutastjórn hvítra manna hafði enn völd og framfylgdi aðskilnaðarstefnu sinni, apartheid). Við leiðsögumaður minn ókum fram hjá kvikmyndahúsi. Ég spurði, hvort kvikmyndahús væru opin mönnum af öllum kynþáttum. Já, var svarað. „Það gerðist nýlega. Eigendur kvikmyndahúsanna höfðu lokað þeim um hríð til að mótmæla banni við því að selja fólki af öllum kynþáttum aðgang.“ Ég hugsaði með sjálfum mér: Hvort skyldi kvikmyndahúsaeigendunum hafa gengið til virðing fyrir almennum mannréttindum eða löngun í fleiri viðskiptavini? Hvort réði gerðum þeirra náungakærleikur eða matarást?

Aðrir þátttakendur í málstofunni voru flestir brasilískir háskólakennarar, ýmist í heimspeki, mannfræði eða hagfræði. Við skiptumst meðal annars á skoðunum um það, hvort Brasilíumenn ættu að fara einhverja þriðju leið milli engilsaxnesks kapítalisma og hinnar portúgölsku nýlenduhefðar, eins og Gilberto Freyre lagði sjálfur til.

Ég benti á það, að kapítalisminn væri ekkert annað en umgerð utan um frjálst val einstaklinganna. Ef menn vilja engu raska, þá neyðir enginn þá til þess: Menn geta farið leiðar sinnar á hestum, þótt bíllinn sé kominn til sögunnar. Sósíalismi er framkvæmanlegur innan kapítalismans, eins og ísraelsku samyrkjubúin eru glöggt dæmi um. En kapítalisminn er ekki framkvæmanlegur innan sósíalismans, því að sósíalismi leyfir ekki frjálst val.

Hafði ég bæði gagn og gaman af þessari ráðstefnu.


Sagan komin hringinn

Fræg er sagan af Baldvini skálda Jónatanssyni, sem skráði þjóðsögur fyrir Odd Björnsson. Einhvern tímann grunaði Odd, að Baldvin ætti sjálfur meiri þátt í sögunum en hann vildi vera láta, og bað hann að geta heimilda. „Dýrleif í Parti sagði mér, og hafði ég sjálfur sagt henni fyrir ári,“ svaraði Baldvin skáldi.

Sagan var komin hringinn.

Hið sama er að segja um sumar fréttir á Íslandi. Þær eru hafðar eftir útlendingum, en í raun komnar frá Íslendingum. Nýjasta dæmið er, að Eyjan birtir í dag frétt af bloggi hins kunna bandaríska hagfræðings Pauls Krugmans um Ísland.

En Krugman endurtekur og vitnar í það, sem Stefán Ólafsson sagði á ráðstefnu í Lúxemborg, þar sem þeir voru báðir á dögunum. Við vitum öll, hvað Stefán sagði, og það hefur verið marghrakið, meðal annars í bók, sem ég gaf út í árslok 2009, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.

Stefán hélt því fram, að tekjuskiptingin á Íslandi hefði fyrir tilstilli stjórnvalda orðið miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum árin 1995–2004. Svo var ekki.

Stefán hélt því fram, að skattar hefðu verið hækkaðir hér á laun, meðal annars með því að hækka ekki skattleysismörk með verðlagi. Svo var ekki.

Stefán hélt því fram, að fátækt hefði verið meiri á Íslandi árið 2004 en annars staðar á Norðurlöndum. Svo var ekki.

Stefán endurtekur fullyrðingar sínar erlendis. Útlendingur tekur þær upp. Íslenskir fjölmiðlar taka þær upp eftir útlendingnum. Sagan er komin hringinn.

„Dýrleif í Parti sagði mér, og hafði ég sjálfur sagt henni fyrir ári.“


Krónan og umheimurinn

Mark Flanagan hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum bendir á það, að krónan auðveldaði Íslendingum að komast út úr kreppunni. Þetta blasir við, og sjálfur benti ég á það fyrir skömmu, að hin stórfellda gengisfelling krónunnar eftir bankahrunið var friðsamleg leið til að lækka laun. Hinn kosturinn, að lækka laun beint, hefði sennilega kostað blóðsúthellingar. Það er auðvitað aldrei gaman að lækka laun, en stundum verður að gera það vegna aðsteðjandi erfiðleika.

Til samanburðar má líta á ríkin á evrusvæðinu. Þau þeirra, sem þurfa að lækka laun vegna erfiðleika í atvinnulífi, til dæmis Írland og Grikkland, geta það ekki óbeint (með gengisfellingu). Þau verða að gera það beint, og það virðast þau ekki geta. Þau sitja þess vegna föst (og þess vegna þarf Evrópusambandið að veita þeim styrki, en það hét „millifærsluleið“ í minni æsku og þótti ekki eftirsóknarvert).

En það, sem er kostur frá einu sjónarmiði, er oft galli frá öðru sjónarmiði. Stuðningsmenn fastgengis (til dæmis upptöku evru eða tengingar við hana) hafa rétt fyrir sér um það, að peningar eiga að vera mælikvarðar á verðmæti og að það er ógott, ef sá mælikvarði er sífellt að breytast (eins og gerist með gengisfellingu). Mælikvarðar eiga eðli málsins samkvæmt að vera ósveigjanlegir.

Hvað er til ráða, þegar til langs tíma er litið? Þar hafa stuðningsmenn fastgengis meira til sín máls, að því er ég tel. Ekki má þó gleyma því, að Svisslendingar telja sér hag í að halda uppi sérstökum gjaldmiðli, og hefur hann raunar verið stöðugri en bandaríkjadalur, breskt pund og flestir forverar evrunnar. Það er líka umhugsunarefni, að ríki á jaðri stærri markaða eins og Kanada gagnvart Bandaríkjunum og Nýja Sjáland gagnvart Ástralíu halda uppi sérstökum gjaldmiðlum.

Til þess að Íslendingar taki upp fastgengisstefnu, þarf tveimur skilyrðum að vera fullnægt. Hið fyrra er, að laun séu sveigjanleg, jafnt niður og upp, svo að lækka megi þau beint án blóðsúthellinga, þegar að kreppir, eins og hlýtur stundum að gerast. Hið seinna er, að sá gjaldmiðill, sem miðað er við, annaðhvort beint eða óbeint, sé líklegur til að vera stöðugur, þegar til langs tíma er litið.

Ég á eftir að sjá þessum tveimur skilyrðum verða fullnægt. En vitaskuld gætu Íslendingar síðan tekið einhliða upp annan gjaldmiðil, ef þeir vilja. Þetta gætu þeir gert með svonefndu myntslátturáði (currency board): Þeir prentuðu þá eigin krónur, en í beinu og föstu og órjúfanlegu hlutfalli við hinn erlenda gjaldmiðil.

Þetta er ekki ævintýralegri lausn en svo, að Hong Kong-búar hafa þennan hátt á; þeir eru tengdir bandaríkjadal. Lúxemborgarmenn gerðu þetta líka fyrir daga evrunnar; þá var Lúxemborgarfranki tengdur belgískum franka í hlutfallinu 1:1. Hægust eru heimatökin: Þetta kerfi stóð á Íslandi til 1922. Fyrir þann tíma var íslensk króna jafngild hinni dönsku, tengd henni í hlutfallinu 1:1.

Margt fleira er til á himni og jörð en evruspekina dreymir um, svo að orðum Shakespeares sé lítillega vikið við.


Evrópa, Evrópa

Ég er Evrópusinni í þeim skilningi, að ég tel Ísland tvímælalaust Evrópuríki, þótt sjálfur vilji ég ekki síður horfa vestur um haf, eins og Jónas Jónsson frá Hriflu, sem skírði stefnu varnarsamstarfs við Bandaríkin „Leifslínuna“ eftir Leifi heppna Eiríkssyni, en hann fann sem kunnugt er Vesturheim. Hvað sem því líður, er menning okkar evrópsk. Við erum Evrópumenn. Þar eigum við heima, og þar viljum við vera.

Hvað er Evrópa? Það er síður landfræðilegt hugtak (Evrópa er stór útskagi, ekki heimsálfa) en menningarlegt og sögulegt. Ég hef raunar flutt um þetta mál fyrirlestur, í München 1990. Þar sagði ég, að Evrópa væri hugtak, sem herst hefði í eldi, því að það hefði myndast við varnir hinna vestrænu þjóða gegn múslimum. Fyrst hefði Karl Martel hrundið árás þeirra við Poitiers í Frakklandi haustið 732. Síðan hefðu Austurríkismenn (með aðstoð vaskra Pólverja) hrundið árás þeirra í umsátrinu um Vínarborg haustið 1683.

Ég minnti í lestri mínum í München á fræg orð breska sagnaritarans Gibbons, sem bar Evrópu sinnar tíðar saman við Rómaveldi. Munurinn var sá, að ein lög giltu og einn keisari sat í Rómaveldi. Ef maður varð andstæðingur hans, þá voru honum allar bjargir bannaðar. En þótt Evrópa seinni tíðar væri síður en svo fullkomin, áttu andófsmenn og óvinsælir minnihlutahópar sér þar oftast einhverjar undankomuleiðir, því að Evrópa skiptist í margar stjórnmálaeiningar. Gyðingar og Húgenottar gátu flutt sig um set, þegar konungar vildu ekki lengur una frelsi þeirra. John Locke leitaði skjóls í Hollandi, á meðan skoðanabræður hans voru ofsóttir á Englandi.

Fjölbreytnin er aðal Evrópu, undankomuleiðirnar, áfrýjunarmöguleikarnir, griðastaðirnir, og án þess er frelsið orðið tómt. Í tuttugu ólíkum löndum eru gerðar tuttugu ólíkar tilraunir um tilhögun stjórnmála, og þannig læra menn hver af öðrum án þess að þurfa að endurtaka öll mistök hver annars. En þegar allt hefur verið samræmt, hvernig á að forðast mistök og læra af reynslunni? Er eina svarið, að stjórnarherrarnir í Brüssel séu óskeikulir?

(Alvara er í gamla slitna gamninu um, að við viljum öll Evrópu, þar sem Bretar eru lögregluþjónar, Þjóðverjar verkfræðingar, Frakkar matreiðslumeistarar, Svisslendingar bankamenn og Ítalir elskhugar, en við ættum á hætta að fá yfir okkur Evrópu, þar sem Þjóðverjar eru lögregluþjónar, Bretar matreiðslumenn, Frakkar verkfræðingar, Svisslendingar elskhugar og Ítalir bankamenn. Er sjálfgefið, að evran velji sér ætíð hinn þrönga veg þýska marksins frekar en hinn breiða veg grísku drökmunnar?)

Það breytir því ekki, að Evrópusambandið er góð hugmynd fyrir Þjóðverja og Frakka, sem bárust á banaspjót öldum saman. Þessar þjóðir smíðuðu sem betur fer plóga úr sverðum, þótt friðurinn í Evrópu eftir 1945 sé raunar frekar Bandaríkjamönnum með sinn öfluga her að þakka en sérstökum friðarvilja Þjóðverja og Frakka. Evrópusambandið er líka góð hugmynd fyrir Pólverja og Eystrasaltsþjóðirnar, sem vilja öfluga bandamenn gegn rússneska birninum.

En af þessu leiðir ekki, að Evrópusambandið sé góð hugmynd fyrir Svisslendinga, Norðmenn eða Íslendinga, sem hafa ekki sömu reynslu og standa ekki andspænis sama vanda og þessar þjóðir. Ég er að vísu einn þeirra, sem vill alls ekki þvertaka fyrir það, að Íslendingar gangi einn góðan veðurdag í Evrópusambandið, ef aðstæður krefjast þess. Ekki hefur grönnum okkar, Dönum, Svíum eða Finnum, orðið verulega meint af aðild. En ég sé ekkert, sem knýr okkur beinlínis inn í sambandið.

Það er að minnsta kosti deginum ljósara, að verulegur meiri hluti þjóðarinnar er um þessar mundir andvígur aðild. Einum stjórnmálaflokki tókst í þeirri upplausn, sem tók við eftir bankahrunið, að neyða Alþingi til að samþykkja aðildarumsókn. Þessi skyndiákvörðun á sér engar rætur í vilja þjóðarinnar. Hún er ekki ígrunduð niðurstaða.

Evrópusambandið hlýtur vitanlega jafnan að vera á dagskrá hér á landi, því að okkur ríður á að hafa gott samstarf við þjóðir Evrópu, selja þeim eins og öðrum þjóðum fisk, rafmagn og ferðamannaþjónustu og vonandi margt fleira. En við ættum að taka Evrópusambandsaðild af dagskrá í bili og nýta kraftana í tímabærari og brýnni verkefni.


Góður landsfundur

Bjarni Benediktsson fékk endurnýjað umboð til að leiða Sjálfstæðisflokkinn á landsfundinum um helgina. Bjarni tók við flokknum við afar erfiðar aðstæður, raunar í rústum, og hefur ásamt samstarfsfólki sínu unnið gott starf við að endurreisa hann. Þetta bar árangur í byggðakosningunum í vor: Þótt flokkurinn tapaði fylgi miðað við byggðakosningarnar fyrir fjórum árum, bætti hann við sig talsverðu fylgi miðað við þingkosningarnar vorið 2009. Bjarni er vaxandi stjórnmálamaður.

Mér líst líka vel á nýjan varaformann flokksins, Ólöfu Nordal. Hún hefur komið skörulega fram og mælt skynsamlega, þar sem ég hef séð til hennar. Vonandi áttar hún sig á því — og hefur ef til vill þegar gert það — að forysta Sjálfstæðisflokksins á aðeins að taka hæfilegt mark á kaffihúsaspekingunum reykvísku, fastagestunum í Sífri Egils; þeir munu aldrei kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Forysta flokksins á þess í stað að hlusta á fólkið í landinu.

Sérlega ánægjulegt var að sjá, eins og Björn Bjarnason bloggaði um, að Kjartan Gunnarsson skyldi komast á landsfundinn, en hann hefur glímt við erfið veikindi síðustu mánuði. Kjartan var allra manna lengst framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í meira en aldarfjórðung, og skilaði þar frábæru verki.

Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, var mjög ósanngjarn í ádeilu sinni á landsfundinn, sem sumir fjölmiðlar gerðu mikið úr. Þórlindur stóð sig eflaust vel við að skipuleggja áróður í Bretlandi fyrir Icesave-reikningunum, eins og hann var í fullu starfi við í Landsbankanum fyrir hrun. En þörf er fyrir öðru vísi vinnubrögð í stjórnmálaflokki en banka, og Íslendingar eru ekki Bretar.

Rætt er um Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum. Ég mæli þó áreiðanlega ekki aðeins fyrir sjálfan mig, heldur marga aðra, þegar ég segist vera Evrópusinni. Ísland á heima í Evrópu. Menning okkar er evrópsk. En á Ísland heima í Evrópusambandinu? Það er önnur saga. Noregur og Sviss eru jafngóð Evrópuríki og Danmörk og Malta. Þau hafa ekki talið sér í hag að ganga í Evrópusambandið.

Þess vegna ætti að ræða um Evrópusambandssinna. Mér fundust þeir menn tala af fullmiklum þjósti á þessum landsfundi og eftir hann. Vildu þeir, að flokkurinn færi gegn þeirri skoðun yfirgnæfandi meiri hluta landsmanna, að ekki sé tímabært að ganga í Evrópusambandið? Það hefur ekki reynst neinum fjöldaflokki vel að skeyta engu eindregnum þjóðarvilja.

Þeir fáu sjálfstæðismenn, sem telja Evrópusambandsaðild svo brýna, að ráða eigi atkvæði þeirra, hafa sennilega flestir kosið Samfylkinguna í síðustu kosningum. Fylgisvon Sjálfstæðisflokksins liggur ekki síst í öllum hinum, sem telja stjórnvöld hafa tekið allt of linlega á Icesave-málinu og Evrópusambandið þar gengið erinda Breta og Hollendinga.

Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins liggur einnig og ekki síst í öllum þeim, sem vilja nægilegt svigrúm einstaklinga til að bæta kjör sín og sinna með dugnaði og fyrirhyggju öðrum að skaðlausu. Þetta svigrúm hefur núverandi vinstri stjórn verið að þrengja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband