Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Pólitísk réttarhöld

Það eru stór, en dapurleg tíðindi, að tillaga um að ákæra Geir H. Haarde fyrir vanrækslu í ráðherrastöðu skyldi fá brautargengi á þingi, þótt ekki munaði að vísu miklu, um leið og tillaga um að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var felld.

Hér er bersýnilega efnt til pólitískra réttarhalda. Hefndarþorsti og hentisemi ráða, ekki vilji til réttlætis. Saklausum manni skal fórnað. Enginn bjóst að vísu við öðru af þingmönnum Vinstri-grænna og Hreyfingarinnar, en það kemur á óvart, að 10 þingmenn Samfylkingarinnar og 5 þingmenn Framsóknarflokksins skyldu taka þátt í þessu óhæfuverki.

Enginn vafi er á því, að Geir verður sýknaður fyrir Landsdómi. Honum voru eflaust mislagðar hendur síðustu misserin fyrir bankahrun, í því miðju og næstu mánuði á eftir, og hann hefur þegar tekið ábyrgð á því með því að hverfa úr stjórnmálum, en hann er enginn glæpamaður.

Mikil er ábyrgð þeirra 33 þingmanna, sem greiddu atkvæði með því að ákæra Geir. Það fólk fór ekki eftir skynsamlegu mati á því, hvaða líkur væru á, að hann yrði sakfelldur fyrir Landsdómi, heldur stjórnmálahagsmunum og sínum verstu hvötum. Þetta fólk sleppur ekki við áfellisdóm sögunnar.

Sjálfsagt að rannsaka einkavæðingu bankanna

Nokkrir þingmenn úr Samfylkingunni og Vinstri-grænum hafa borið fram tillögu um, að sala ríkisbankanna verði rannsökuð. Mér finnst sjálfsagt að verða við þeirri beiðni þeirra. Þetta hefur þegar verið rannsakað tvisvar, og eru rækilegar skýrslur Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna aðgengilegar á Netinu, en mér virðist raunar, að enginn þeirra, sem tekur til máls um þessa sölu, hafi lesið þessar skýrslur. Ekkert er þar að fela. Segja þeir mest af Ólafi konungi, sem minnst vita um hann, eins og fyrri daginn.

Um leið og eðlilegt er að verða við þessari beiðni, hlýtur að verða að ætlast til þess af sömu þingmönnum, að þeir samþykki, að Icesave-málið verði rannsakað. Þar eru ýmsar forvitnilegar spurningar. Hvers vegna sinntu þau Jóhanna og Steingrímur ekki tilboðum íslenskra fræðimanna (Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals) um aðstoð? Hvers vegna völdu þau óvanan mann (Svavar Gestsson) til að veita samninganefndinni forystu (eins og Jóhanna hefur raunar viðurkennt opinberlega, að hafi komið að sök)? Hvers vegna lá svo á að ljúka samningum? Hvað olli óðagotinu? Hvers vegna sagði Steingrímur ósatt um samningana, skömmu áður en hann lagði þá fyrir Alþingi? Hvernig skýra þau Jóhanna og Steingrímur, að völ virðist vera á betri samningum, svo að muni tugum eða jafnvel hundruðum milljarða, eins og kom í ljós eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna?

Þau Jóhanna og Steingrímur sömdu bersýnilega af sér. Þau gættu ekki hagsmuna Íslands sem skyldi. Eru þau ef til vill sek um refsivert hirðuleysi, eins og þau segja, að aðrir ráðherrar séu?

Raunar má ganga lengra og spyrja, hvers vegna sest var að samningaborði. Um hvað átti að semja? Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér að greiða innstæðueigendum Icesave-reikninga út. Þeir eiga enga kröfu á íslenska ríkið, en væntanlega á hinn íslenska Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Það er mál þeirra og sjóðsins, hvernig því máli lýkur. Íslendingar gættu allra fyrirmæla og reglna um Evrópska efnahagssvæðið, þegar þeir stofnuðu sjóðinn. Forstöðumaður hins norska tryggingarsjóðs, sem fer eftir sömu reglum, fullyrðir, að hann njóti ekki ríkisábyrgðar. Hvers vegna skyldi íslenski sjóðurinn þá gera það? Það er beinlínis fáránlegt, eins og allir sjá við örstutta umhugsun, að íslenskir fjáraflamenn geti með viðskiptum sínum erlendis stofnað til óbærilegrar skuldar íslenskra skattgreiðenda við erlend ríki.


Eru kosningar í nánd?

stefanolmynd_1029991.jpgStefán Ólafsson hefur reglulega farið í herferðir fyrir kosningar til stuðnings Samfylkingunni. Fyrst gerði hann það fyrir kosningarnar 2003, þar sem meginkenningin var, að fátækt væri meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.

Síðan gerði Stefán það fyrir kosningarnar 2007, þar sem meginkenningin var, að tekjuskipting væri orðin miklu ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Hvort tveggja þetta var rekið ofan í hann.

Nú er Stefán farinn í nýja herferð, sem bendir til þess, að kosningar séu í nánd. Hann heldur því nú fram, að hækkun skatta á vinnutekjur hafi engin merkjanleg áhrif á vinnufýsi. Ef þetta er rétt hjá honum, þá er um að ræða mikilvæga uppgötvun í hagfræði, því að þá bregðast menn ekki við kostnaði af hegðun sinni, sem er ein frumforsenda hagfræðinnar. Stefán getur orðið frægur á þessari uppgötvun, og er ekki vanþörf á.

Þótt ég viti ekki, hvernig Stefán hefur leikið tölur til að fá þessa niðurstöðu, þekki ég nokkuð til talnameðferðar hans í fyrri herferðum. Hér skal ég nefna þrjú dæmi um hana:

1) Stefán hélt því fram, að lífeyristekjur væri miklu lægri hér en annars staðar á Norðurlöndum, þótt norræna tölfræðinefndin, Nososco, hefði komist að þeirri niðurstöðu um árið 2004, að þær væru hér hæstar á Norðurlöndum. Stefán fékk þessa niðurstöðu sína með því að deila í heildarlífeyrisgreiðslur með fjölda fólks á lífeyrisaldri, en ekki með fjölda lífeyrisþega. Árið 2004 voru menn á lífeyrisaldri 31.000 á Íslandi, en fjöldi lífeyrisþega 26.000. Menn fá auðvitað lægri tölu með því að bæta 5.000 við í nefnarann. En sú tala segir ekkert um meðaltekjur lífeyrisþega. Þær voru hinar hæstu á Norðurlöndum árið 2004, eins og Nososco benti réttilega á.

2) Stefán reiknaði út, að tekjuskipting væri hér 2004 miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum með tilvísun í svonefnda Gini-stuðla, sem væru hér hærri. Í ljós kom, að hann hafði borið saman ósambærilegar tölur. Hann hafði reiknað út Gini-stuðla með söluhagnaði af hlutabréfum hér, en Gini-stuðlarnir fyrir önnur lönd voru reiknaðir út án slíks söluhagnaðar. Þegar allt var reiknað eins, reyndust Gini-stuðullinn fyrir Ísland árið 2004 vera í meðallagi fyrir Norðurlönd, örlitlu hærri en í Svíþjóð og Danmörku, örlitlu lægri en í Noregi og Finnlandi.

3) Stefán hélt því fram, að ríkisstjórnin 1991–2004 hefði hækkað tekjuskatt á laun með því að láta skattleysismörk ekki fylgja verðlagi. Hann lét þess ógetið, að sá, sem hækkaði skattleysismörk miklu meira, var Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra 1988–1991. Hann lét þess líka ógetið, að skattleysismörk voru (og eru) miklu hærri hér en annars staðar á Norðurlöndum og víðast í heiminum. En aðalatriðið var það, að hann reiknaði ekki inn í skattleysismörkin áhrifin af því, að menn þurftu ekki að greiða skatt af lífeyrissparnaði sínum, en það jafngilti auðvitað lækkun á skattleysismörkum. Dr. Sveinn Agnarsson hagfræðingur hefur reiknað út þessi áhrif, og þegar það er gert, sést, að skattleysismörk voru ekki lækkuð, svo að neinu næmi, tímabilið 1991–2004.

Vonandi hefur Stefáni gengið betur að reikna í þetta skipti, svo að hann fái öðlast frægð og frama á alþjóðlegum vettvangi með hinni nýju uppgötvun sinni, sem er vissulega frumleg, enda gengur hún þvert á alla reynslu okkar og raunar þvert á heilbrigða skynsemi, — að menn bregðist ekki við kostnaði af hegðun sinni; að menn vinni jafnmikið að hinu sama, hvort sem þeir fá að halda eftir tekjunum af vinnunni óskertum eða þurfa að greiða hærra hlutfall þeirra til ríkisins.


Fróðlegur fundur í gær

Ég hafði framsögu á fundi Frjálshyggjufélagsins í gær um skattamál. Fundurinn var fróðlegur og skemmtilegur og greinilegt, að fundarmenn höfðu áhuga og þekkingu á skattamálum, sem eru mjög mikilvæg. Ég gerði að umtalsefni þrjár fullyrðingar:

1) Því var haldið fram fyrir kosningar 2003, að fátækt væri veruleg á Íslandi. Svokallað „Borgarfræðasetur“ gaf út skýrslu um fátækt, sem afhent var forseta Íslands á Bessastöðum nokkrum vikum fyrir kosningar. Tölur hagstofu Evrópusambandsins sýna hins vegar, að um þær mundir var fátækt á Íslandi sennilega minni samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum en í nokkru öðru Evrópulandi að Svíþjóð undantekinni. Nú eiga 192 ríki aðild að Sameinuðu þjóðunum. Líklega var fátækt meiri í 190 þeirra þetta ár.

2) Því var haldið fram fyrir kosningar 2007, að tekjuskipting hefði orðið miklu ójafnari á Íslandi árin 1995–2004 en annars staðar á Norðurlöndum. Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason skrifuðu heilu greinaflokkana um þetta. Tölur hagstofu Evrópusambandsins sýna hins vegar, að tekjuskipting var árið 2004 í svipuðu horfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Þeir Stefán og Þorvaldur höfðu reiknað rangt: Þeir höfðu reiknað inn í íslensku tölurnar söluhagnað af hlutabréfum, en honum var sleppt í útlendu tölunum.

3) Nú er því haldið fram, að ekki dragi úr vinnufýsi manna, þegar skattar á vinnutekjur þeirra eru hækkaðir. Þetta stangast á við heilbrigða skynsemi, reynslu okkar og rannsóknir vísindamanna (ekki farandprédikara félagshyggjunnar). Í fyrirlestri á Íslandi 2007 sýndi bandaríski Nóbelsverðlaunahafinn Edward Prescott fram á sterkt (öfugt) samband vinnufýsi og skatta á vinnutekjur. Hann benti á, að vinnustundir á Íslandi væru sennilega oftaldar í opinberum tölum. Einnig skipti sú staðreynd máli, að sköttum á Norðurlöndum væri oft endurdreift, svo að neikvæð áhrif þeirra á vinnufýsi manna væru ekki eins mikil og ella.

Ég nefndi mörg dæmi um svokölluð Laffer-áhrif (þar sem skattstofninn getur stækkað eða minnkað við misjafna skattheimtu). Ein hin skýrustu hefur dr. Gylfi Zoëga prófessor rannsakað: Vinnufýsi Íslendinga jókst á „skattlausa árinu“ svonefnda 1987, þegar skipt var úr eftirágreiðslu tekjuskatts í staðgreiðslu þeirra. Önnur áhrif eru af húsaleigu: Þegar skattheimta á leigutekjur fór úr 40–50% niður í 10%, stórjukust leigutekjur, enda gerðist hvort tveggja, að skattskil bötnuðu og framboð leiguhúsnæðis jókst.

Málið er einfalt. Framboð minnkar, ef verð lækkar. Framboð vinnu minnkar, ef verð hennar lækkar (eins og gerist, þegar greiða þarf hærra hlutfall af tekjunum af henni til ríkisins.)

Farandprédikurum félagshyggjunnar svarað

Ég held fyrirlestur í kvöld,  miðvikudagskvöldið 22. september 2010, hjá Frjálshyggjufélaginu undir heitinu „Áhrif skattahækkana“, þar sem ég mun svara þeim farandprédikurum félagshyggjunnar, sem héldu því fram

1) fyrir kosningar 2003, að fátækt væri meiri á Íslandi en í grannríkjunum,

2) fyrir kosningar 2007, að tekjuskipting væri orðin ójafnari á Íslandi en í grannríkjunum,

og halda því fram nú, þótt kosningar séu líklega ekki í nánd, að hækkun skatta minnki ekki verðmætasköpun. Menn skapi jafnmikil verðmæti, hvort sem þau renni til þeirra sjálfra eða Jóhanna og Steingrímur hirði þau jafnóðum af þeim.

Ég mun meðal annars greina nokkrar talnabrellur þessara prédikara, þ. á m. um lífeyristekjur, Gini-stuðla, skattleysismörk og vinnusemi Norðurlandabúa.

Fyrirlesturinn verður klukkan 20.00 á annarri hæð veitingastaðarins Balthazar við Hafnarstræti.

Ingibjörgu kastað fyrir ljónin

the_christian_martyrs_last_prayer.jpgRómverska skáldið Júvenalis kvað fólkið vilja brauð og leiki. Að vísu stendur eitthvað á brauðinu hjá núverandi ríkisstjórn: Skjaldborgin um heimilin reyndist aðeins vera um tvö heimili, þeirra Más Guðmundssonar og Einars Karls Haraldssonar. En þeim mun fjörugri eru leikirnir.

Nú berast fréttir af einum leik, sem bráðlega á að fara fram, og Rómverjar stunduðu forðum af kappi. Hann er að kasta fólki fyrir ljónin. Það á að vísu ekki að gera í því skyni að skemmta almenningi eins og að fornu, heldur til að róa hann, eins og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir blygðunarlaust í viðtölum.

Sjálf er Jóhanna eins og rómverskur hermannakeisari. Hún komst ekki af eigin rammleik í hið háa embætti sitt og hefur auðvitað enga verðleika til þess, heldur var hún sótt af hermönnum, sem vantaði keisara, horfðu í kringum sig og komu ekki auga á neinn annan, svo að þeir hrifsuðu hana með sér, tylltu henni í stólinn og hvísla síðan öllu í eyru henni, sem þeir vilja, að hún segi.

Mitterand Frakklandsforseti sagði um Margréti Thatcher, að hún hefði augun úr Caligúlu og varirnar frá Marilyn Monroe. Jóhanna Sigurðardóttir hefur augun úr Caligúlu, en því miður ekkert frá Marilyn Monroe. Varir hennar eru frá Neró, sem fórnaði góðum kennara sínum, Senecu, þegar hann hentaði honum ekki lengur (svo að ekki sé minnst á það, sem Neró gerði fjölskyldu sinni). Jóhanna hyggst fórna gamalli samstarfskonu, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún ætlar að kasta henni fyrir ljónin í því skyni að róa almenning, eins og hún segir sjálf berum orðum.

Ingibjörg Sólrún hefur ekkert til saka unnið annað en það að vera sami aulinn og aðrir Samfylkingarmenn, sem störðu í aðdáun á útrásarvíkingana og héldu, að tími þeirra væri runninn upp, en menn eins og Davíð Oddsson, sem vöruðu við, væru aðeins nöldurskjóður. Auðvitað er leiðinlegt til þess að vita, að stundum talaði Ingibjörg Sólrún eins og blaðafulltrúi auðjöfranna, en það er skiljanlegt, þegar haft er í huga, að Einar Karl Haraldsson, sem starfaði einmitt fyrir auðjöfrana, skrifaði fyrir hana sumar ræður hennar, þar á meðal hina illræmdu Borgarnesræðu í febrúar 2003.

Ingibjörg Sólrún er enginn glæpamaður, og tilraun Samfylkingarinnar til að breyta Íslandi í leikvang að rómverskum sið er í senn sorgleg og hlægileg, en aðallega fyrirlitleg. Við megum ekki gleyma því, að það fólk, sem nú á að fórna, er fólk með tilfinningar, vit og vilja, fjölskyldur og vini. Þótt ég hafi aldrei verið samherji Ingibjargar Sólrúnar, finn ég til með henni í þessum raunum. Ömurlegt hlýtur að vera fyrir hana að horfa upp á hvern hugleysingjann af öðrum svíkja sig, — sama fólkið og klappaði hvað ákafast fyrir henni á Hótel Íslandi, þegar hún gekk hnakkakert í salinn eftir að hafa sigrað í borgarstjórnarkosningunum 1994. Ingibjörg Sólrún hefði mátt vera vandari að vinum, eins og sum okkar hinna voru, sem betur fer.


Ég var sjónarvottur

Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að mér finnist fráleitt að setja þau Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á sakamannabekk, eins og meiri hluti þingmannanefndar undir forystu Atla Gíslasonar leggur til. Það er langur vegur frá afglöpum að afbrotum. Þau Geir og Ingibjörg Sólrún eru sek um afglöp, en ekki afbrot. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir játað, að tilgangurinn með þessum ákærum og hugsanlegum réttarhöldum er stjórnmálalegur. Hún var spurð, hvort hún teldi ákærur róa almenning. Hún svaraði: „Ég vona það. Til þess var þetta sett á laggirnar.“

Afglöp þeirra Geirs og Ingibjargar Sólrúnar standa hins vegar eftir, þótt þau eigi ekki frekari refsingu skilið fyrir þau en þegar er orðið. Þessi afglöp voru að hafa hvað eftir annað að engu varnaðarorð Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Ég sat síðustu árin fyrir hrun í bankaráði Seðlabankans og hitti Davíð þess vegna oft. Ég hlustaði margoft á hann vara sterkum orðum við yfirvofandi hruni, þótt auðvitað sæi hann ekki allt fyrir frekar en neinn annar. Hann sagði margoft við mig, að hann teldi bankana komna fram úr sjálfum sér, að fámenn klíka ævintýramanna virtist skulda allt of mikið í þeim, að litlar raunverulegar eignir kynnu að standa að baki skuldum þeirra.

Fjármálaeftirlitið var hins vegar sjálfstæð stofnun, þegar hér var komið sögu, og upplýsingar lágu ekki á lausu fyrir Seðlabankann, jafnframt því sem valdheimildir bankans voru mjög takmarkaðar. (Hann gat til dæmis ekki stöðvað opnun Icesave-reikninga Landsbankans erlendis: Hann hafði blátt áfram ekki vald til þess.) Svigrúm Seðlabankans var líka lítið, vegna þess að hann naut ekki stjórnmálastuðnings sem skyldi. Ég vissi, að Davíð fór hvað eftir annað á fund þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til að vara við starfsemi bankanna. Viðbrögð þeirra voru jafnan að leita til bankanna, sem fullvissuðu þau um, að allt væri í lagi. Þetta vildu þau heyra, svo að málið féll niður.

Allt þetta fór fram í kyrrþey, því að annað hefði tafarlaust haft í för með sér kollsteypu, áhlaup á bankana og hrun, og auðvitað vonuðu allir góðgjarnir menn í lengstu lög, að unnt yrði að bjarga bönkunum, að minnsta kosti einhverjum þeirra, til dæmis með lánalínum frá útlöndum, þótt skipta yrði um eigendur og stjórnendur um leið. Þessi saga verður öll skrifuð, þegar frekari gögn hafa komið fram. Sjálfum fannst mér þessi árin Davíð stundum mikla fyrir sér hættuna, en ég sé, þegar ég horfi um öxl, að hann gerði sér betri grein fyrir henni en aðrir og hefði leitt okkur betur út úr ógöngunum en aðrir, hefði hann haft til þess afl og tækifæri.

 


Þau eru ekki glæpamenn

Þau Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, eru ekki glæpamenn, þótt oft hafi þeim eflaust verið mislagðar hendur í aðdraganda bankahrunsins. Sérstaklega er ámælisvert, að þau tóku ekki mark á endurteknum viðvörunum Davíðs Oddssonar, þá seðlabankastjóra, um, að viðskiptabankarnir væru í höndum fámennrar klíku undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem létu þar greipar sópa.

En fyrir þau afglöp hafa Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir axlað sína ábyrgð. Þau hrökkluðust bæði úr stjórnmálum. Nóg er að gert. Engum heilvita manni getur dottið í hug, að þau Geir og Ingibjörg Sólrún hafi ætlað íslensku þjóðinni eitthvað illt. Sitt er hvað, að gera mistök og brjóta lög. Þess vegna stígur Alþingi mikið óheillaspor, ef ákveðið verður að draga þau Geir og Ingibjörgu Sólrúnu fyrir Landsdóm.

Hvað um vanrækslu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sat í sérstakri ráðherranefnd um ríkisfjármál? Hvað um vanrækslu Össurar Skarphéðinssonar, sem skýrði samkvæmt fyrirmælum Ingibjargar Sólrúnar Björgvini G. Sigurðssyni ekki frá ýmsum mikilvægum málum vegna alkunnrar lausmælgi hans? Hvað um Gylfa Magnússon nú nýlega, sem stakk undir stól lögfræðiáliti frá Seðlabankanum? Ef á að ákæra Geir og Ingibjörgu Sólrúnu, þá hlýtur einnig að verða að ákæra þetta fólk fyrir vanrækslu.

Gleymum ekki heldur þeim ráðherrum, sem sömdu rækilega af sér í Icesave-málinu, en höfðu að engu álit færustu lögfræðinga. Sem betur fer hnekkti þjóðin ákvörðunum þeirra í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu, en söm er þeirra gerðin.

Við Íslendingar eigum að búa í réttarríki. Ein regla réttarríkisins er, að ekki verður sakfellt, nema brotið sé skýrt og sannað. Ég kem ekki auga á, hvernig fara á eftir þeirri reglu í máli þeirra Geirs og Ingibjargar Sólrúnar. Önnur regla réttarríkisins er, að vafi sé ávallt talinn hinum ákærða í hag. Hin þriðja, sem náskyld er hinni annarri, er, að ákæruvaldinu sé ekki misbeitt. Þeir, sem með ákæruvaldið fara, eru ekki í sömu aðstöðu og kaupmaður, sem prófar sig áfram í því skyni að komast að því, hvaða vörutegundir seljast. Þeir, sem með ákæruvaldið fara, eiga ekki að ákæra og mega ekki ákæra, nema þeir séu sjálfir sannfærðir um það, að enginn vafi sé á sekt þeirra, sem þeir hyggjast ákæra.

Ef þingmenn greiða atkvæði með því að ákæra þau Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þótt allir viti, að þau hafi ekki framið neinn glæp, þá eiga þeir hinir sömu þingmenn sjálfir að sæta ábyrgð fyrir misnotkun valds, ef svo fer, sem einsætt er, að Landsdómur sýkni þau. Það er óþolandi, að ákæruvaldinu sé misbeitt í stjórnmálatilgangi.

Reynist það rétt, sem komið hefur fram opinberlega, að Jóhanna Sigurðardóttir hafi haft afskipti af störfum þingmannanefndarinnar um málið, þá hefur hún brotið stórkostlega af sér. Og hvað um þau vandkvæði, að úrskurði Landsdóms verður hvergi áfrýjað? Eða um hitt, að með ákæru á hendur þeim Geir og Ingibjörgu Sólrúnu er erlendum innheimtumönnum veitt ný tækifæri til að koma fram málum á hendur íslenska ríkinu?


Tvískinnungur og hræsni

Nokkrar umræður hafa orðið um tölvubréf mitt í gær um „dóm sögunnar“ á spjallsvæði sagnfræðinga, og svaraði ég athugasemdum áðan. Hér er svar mitt:

Ágætu sagnfræðingar,


ég hef fengið margvísleg viðbrögð við pistli mínum frá því í gær, þar sem ég sagði, að eitt mikilvægasta hlutverk sagnfræðinga væri að varpa kastljósi sögunnar á þá hópa, sem illa hefðu verið leiknir, væru ósýnilegir, horfnir. Þeir yrðu að sjá um, að níðingar fengju makleg málagjöld, þegar veruleikinn brygðist sem dómari yfir slíkum mönnum.

Viðbrögðin hafa dálítið verið í þeim anda, að ég get tekið mér í munn fleyg orð Jóns G. Sólness, bankastjóra á Akureyri, þegar hann sagði í heita pottinum í sundlaug Akureyrar:

Getið þið sagt mér, hvers vegna skrif Þjóðviljans um innrásina í Tékkóslóvakíu snúast eingöngu um þátttöku Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu?

Að sjálfsögðu eiga sagnfræðingar ekki að skrifa aðeins sögu sigurvegaranna, og að sjálfsögðu eiga þeir ekki að leggja einn siðferðilegan mælikvarða á eitt ríki og annan á annað ríki.

Eitt skýrasta dæmið er síðari heimsstyrjöld. Nú er ég þeirrar skoðunar, ef eitthvert stríð er réttlætanlegt, að það stríð hafi þá verið það. Afvopna þurfti Hitler og Mússólíni. Þeir voru stórhættulegir skaðvaldar, sem kúguðu ekki aðeins þegna sína og ofsóttu minnihlutahópa, sérstaklega Hitler, heldur röskuðu jafnvægi í Norðurálfunni og stefndi friðnum í hættu.

Raunar verð ég að gera athugasemd við það, sem Gunnar Karlsson segir, að menn hafi aldrei „verið mikið í flokki með“ Stalín, svo að auðvelt sé að gagnrýna hann. Öðru nær. Hér á landi starfaði stjórnmálaflokkur, sem studdi Stalín eindregið, og hafði hann hér talsvert fylgi. Í óbirtri bók eftir mig er kafli um það, þegar Arnór Hannibalsson reyndi að gagnrýna Stalín nýkominn frá Ráðstjórnarríkjunum á sjöunda áratug, eftir ræðu Khrústjovs, og kemur þar margt fróðlegt fram um viðbrögð íslensku stalínistanna. Einn samkennari Gunnars og ágætur kennari minn skrifaði jafnvel ævisögu stalínistans Einars Olgeirssonar. Stalín var hér — svo sannarlega.

Hvað um það, mörgum þeim hópum, sem nasistar og fasistar ofsóttu, hefur verið gerð góð skil í sögubókum, sérstaklega Gyðingum, enda eiga þeir að bakhjarli ríki og auk þess öfluga áróðursvél í stórum löndum. En sagnfræðingar mega ekki gleyma öðrum hópum, sem lítt hefur verið rætt um.

Einn þeirra er tíu milljónir manna af þýsku bergi brotnar, sem reknar voru út af heimilum sínum í Póllandi og Tékkóslóvakíu af mikilli hörku og fengu ekki að taka neitt með sér, sem heitið gat, til Þýskalands. Þrjár milljónir Súdeta-Þjóðverja voru til dæmis reknar út úr Tékkóslóvakíu, þótt þetta fólk hefði verið þar ríkisborgarar (að vísu unað hag sínum illa). Þetta fólk og forfeður þess höfðu búið í þessum löndum, til dæmis Slésíu og Súdetafjöllum, öldum saman. Auðvitað bar þetta fólk ekki sem hópur ábyrgð á framferði Þjóðverja í stríðinu. Við getum ekki sagt eins og Ílja Erenbúrg um kúlakkana, sjálfseignarbændurna rússnesku: Enginn þeirra var sekur um neitt. En stétt þeirra var sek um allt. (Þessi setning Erenbúrgs er sjálf fullkomlega ósiðleg.)

Annar kúgaður hópur var bandarískt fólk af japönsku bergi brotið, sem voru sent í vinnubúðir og einnig svipt eignum sínum að miklu leyti. Illa var farið með þennan hóp og það aðeins vegna uppruna hans. Þetta voru bandarískir ríkisborgarar og áttu að njóta allra sömu réttinda og aðrir borgarar.

Enn annar hópur voru menn frá Eystrasaltsríkjum, sem Svíar og Finnar afhentu Kremlverjum eftir stríð, en margir þeirra höfðu ekki barist í stríðinu gegn Rauða hernum, þótt því væri haldið fram. Eru til ljótar sögur af því.

Með öðrum orðum voru það ekki aðeins þeir, sem töpuðu í stríðinu, sem frömdu glæpi, kúguðu varnarlaust, saklaust fólk. Ég tel, að það sé hlutverk sagnfræðinga að vekja athygli á þessu og kalla þá hlutina sínum réttu nöfnum.

Í athugasemdum við mál mitt var minnst á ríki Rómönsku Ameríku. Tvískinnungurinn um lönd þeirrar álfu hefur verið mikill. Allir eru réttilega sammála um að fordæma mannréttindabrot Pinochets í Síle, og hann var jafnvel handtekinn í Bretlandi. En hver minnist á Castró í því sambandi? Munurinn var þó sá, að líklega hafa tíu sinnum fleiri týnt lífi af stjórnmálaástæðum undir stjórn Castrós en undir stjórn Pinochets (30 þúsund á móti 3 þúsund), jafnframt því sem Pinochet fór frá völdum eftir að hafa tapað í kosningum, en Castro ekki, að því ógleymdu, að Pinochet skildi við Síle í blóma, en allt er í niðurníðslu á Kúbu. En auðvitað eiga sagnfræðingar ekki aðeins að klappa fyrir góðum árangri Pinochets í efnahagsmálum og andvarpa fegnir yfir því, að hann skyldi fara friðsamlega frá völdum, heldur líka leita uppi fórnarlömb hans og gera þeim skil.

Hver skyldi til dæmis vera siðferðileg ábyrgð þeirra manna á harðstjórn á Kúbu, sem gerðust beinlínis sjálfboðaliðar á sykurekrum þar, eins og margir vestrænir menntamenn gerðu, jafnvel frá litla Íslandi? Þeir sátu ekki aðeins hjá, heldur liðsinntu harðstjóranum grimma.

Hér var líka minnst á nýlendustefnu. Auðvitað átti nýlendustefnan sér fórnarlömb, enda var hún frávik frá þeirri hugsun vestrænnar menningar, að betra sé að fara fram með verði en sverði, betra að stunda frjáls viðskipti en valdbeitingu til að öðlast það, sem hugurinn girnist. Þetta benti William Graham Sumner á, þegar Bandaríkjamenn lögðu undir sig Filippseyjar, sem hér á spjallvefnum var minnst á. Hann skrifaði fræga ritgerð, sem hét “The Conquest by Spain of the United States“, Sigur Spánar á Bandaríkjunum. Einhverjir telja þetta við fyrstu sýn öfugmæli, því að Bandaríkin hafi sigrað í stríðinu við Spán (en við það hrepptu þeir Filippseyjar). En Sumner segir einmitt, að Bandaríkjamenn hafi með landvinningum í krafti vopnavalds yfirgefið hina fornu stefnu sína, sem þau voru stofnuð utan um, að leyfa mönnum óáreittum að bjarga sér og sínum.

Hins vegar má ekki gleyma því í umræðum um nýlendustefnu, að langlífasta nýlenduveldið var Ráðstjórnarríkin. Ekki má heldur gleyma því, að ógeðfelldasta afbrigði nýlendustefnunnar, þrælahaldið, var lagt niður af vestrænum mönnum eftir harða baráttu. Arabaþjóðir hófu þrælahald fyrr og lögðu það niður síðar en Vesturveldin, og þær lögðu það ekki niður vegna samviskubits eða innri baráttu, heldur tilneyddir af utanaðkomandi aðilum. Raunar gengu svartir menn í Afríku harðast fram í því að hneppa aðra svarta menn í þrælahald og selja síðan á þrælaskipin í bómullarekrurnar í Suðurríkjum Bandaríkjanna og sykurekrurnar í Vestur-Indíum og Brasilíu. Og eftir að nýlenduherrarnir yfirgáfu lönd sín, hafa víða tekið við innlendir harðstjórar, til dæmis í Simbabve. Íbúar Hong Kong vildu líka miklu frekar halda áfram að vera nýlenda Breta en lenda undir stjórn Kínverja. (Ekkert af þessu afsakar til dæmis illvirki Leopolds II. Belgakonungs.)

Torfi Stefánsson sakaði mig um hræsni hér. Ég vísa því til föðurhúsanna og minni á, að Torfi taldi upp fórnarlömb einræðisstjórnanna í Argentínu og Síle, en þagði um Kúbu. Hvað er það annað en tvískinnungur?

Það eru hins vegar aðeins menn, sem skynja ekki eðlileg hlutföll tilverunnar, sem halda því fram, að ekki sé reginmunur á vestrænum lýðræðisríkjum þrátt fyrir þau dæmi, sem ég hef einmitt nefnt (svo sem af framkomunni í Bandaríkjunum við fólk af japönsku bergi brotnu), og alræðisríkjum kommúnista og nasista, sem margir vestrænir menntamenn afsökuðu ekki aðeins, heldur studdu, um leið og þeir lokuðu augunum fyrir fórnarlömbum alræðisherranna.

Það var undantekning í Bandaríkjunum og Bretlandi, sem var reglan í Þýskalandi Hitlers og Ráðstjórnarríkjum Stalíns.

Sagnfræðingar eru skeikulir eins og aðrir. En eru ekki allir sammála því, að dómur sögunnar um nasismann er, að hann hafi verið ómannúðlegur, mannfjandsamlegur, illur? Eigum við ekki að kalla illmenni illmenni? Og féll þessi dómur ekki vegna þess, að nasistar frömdu voðaverk, sem voru dregin fram í dagsljósið, sérstaklega eftir stríð? Fyrir stríð vildu fæstir vita af Gyðingaofsóknunum. Þá skiptust ríki heims í tvennt: Þau, sem vildu reka Gyðinga burt frá sér, og hin, sem ekki vildu taka við þeim.

Eigum við ekki líka að líta í eigin barm? Til dæmis ættum við að muna skeytið frá B. E. Kuniholm ræðismanni til yfirboðara hans í Washington 23. júní 1941, þegar Hermann Jónasson var forsætisráðherra:

The Prime Minister requests that no negroes be included in the unit assigned here.
Forsætisráðherra óskar eftir því, að engir svertingjar verði í liðssveitinni, sem skipað verður niður hér.

Rifja má upp, að þessi setning var felld úr útgáfu Bandaríkjastjórnar á ýmsum skjölum 1959, en án úrfellingarmerkis. Þótt þetta sé ekki eins dramatískt dæmi og af flekanum, sem kommúnistar sökktu úti á Volgu og Solzhenítsyn segir frá, eða Armenunum, sem Hitler taldi, að gleymst hefðu, er það einmitt hlutverk sagnfræðinga að sjá um, að slík dæmi hverfi ekki, séu ekki felld út þegjandi og hljóðalaust.

Þess vegna er dómur sögunnar nauðsynlegur.

Dómur sögunnar

Undanfarnar vikur hafa sagnfræðingar skipst á skoðunum á spjallsvæði sínu um dóm sögunnar. Upphafið var, að einn þeirra hélt erindi um það, að dómur sögunnar væri ætíð rangur. Aðrir voru ósammála honum. Ég leyfði mér í dag að leggja orð í belg og sendi svohljóðandi tölvubréf til þeirra, sem taka þátt í spjallinu:

Ágætu sagnfræðingar,


má ég minna á, að sagnfræðingar geta gegnt einu mikilvægu hlutverki. Það er að sjá um, að þeir, sem sveifla sverði, brjóta rétt á fólki, rjúfa grið, fremja níðingsverk, kúga þjóðir, efna til ófriðar, ofsækja fólk vegna hörundslitar þess, kynferðis eða trúar og svo má lengi telja, hljóti makleg málagjöld, jafnvel þótt þeir deyi sjálfir á sóttarsæng eins og Stalín, en ráði sér ekki bana eins og Hitler eða hjari um skeið í útlegð eins og Napóleon.

Um þetta segir franski sagnfræðingurinn Chateaubriand:

Lorsque, dans le silence de l’abjection, l’on n’entend plus retentir que la chaîne de l’esclave et la voix du délateur; lorsque tout tremble devant le tyran, et qu’il est aussi dangereux d’encourir sa faveur que de mériter sa disgrâce, l’historien paraît, chargé de la vengeance des peuples. C’est en vain que Néron prospère, Tacite est déjà né dans l’empire.

 

En ég myndi leyfa mér að þýða það svo:

Við hina djúpu þögn undirgefninnar, þar sem ekkert heyrist nema glamrið í hlekkjum þrælsins og hvísl uppljóstrarans, allir skjálfa af ótta við harðstjórann og sami háski er að vera í náðinni hjá honum og vekja óánægju hans, birtist sagnfræðingurinn, sem tryggja á makleg málagjöld fyrir hönd alþýðu manna. Neró dafnaði til einskis, því að Tacitus hafði þegar fæðst í Rómaveldi.

 

Mér er minnisstætt, þegar ég las Gúlageyjaklasann eftir Aleksandr Solzhenítsyn snemma á áttunda áratug, að hann sagði frá mönnum, sem kommúnistar tóku af lífi með því að setja þá á fleka út á mitt vatn og sökkva síðan flekanum. Fórnarlömbin hurfu án þess að skilja eftir sig nein ummerki. Er það ekki einmitt hlutverk sagnfræðingsins að sjá um, að þau hverfi ekki úr sögunni?

Enn man ég, að haft er eftir Hitler, þegar hann brýndi fyrir hermönnum sínum (í Obersalzburg 22. ágúst 1939) að sýna óvinum enga miskunn:

Wer redet heute noch von der Vernichtung der Armenier?
Hver minnist nú hvort sem er á það, þegar Armenum var útrýmt?

 

Er það ekki einmitt hlutverk sagnfræðingsins að sjá um, að menn muni eftir Armenum?

Menn mega ekki gleyma því, að dómarar er ekki alltaf hrokafullir Bretar úr Oxford-háskóla með hárkollur á höfði, heldur er oft eina úrræði þeirra, sem minna mega sín, að leita til þeirra og reyna að rétta hlut sinn.

Að breyttu breytanda geta sagnfræðingar verið slíkir dómarar.

Þess vegna getur dómur sögunnar átt rétt á sér — til þess að gera hina ósýnilegu sýnilega, til þess að beina kastljósinu að hinum kúguðu, til þess að muna hina gleymdu, til að sjá um, að níðingar hljóti makleg málagjöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband