26.10.2012 | 08:29
Stefán: Sáuð þið hvernig ég tók hann?
Stundum líkir lífið eftir listinni. Frægt er atvikið úr Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar, þegar Jón sterki sagði: Sáuð þið, hvernig ég tók hann? eftir að Haraldur útilegumaður lagði hann. Það rifjaðist upp fyrir mér eftir nokkur orðaskipti í dag og heldur undarleg á Facebook.
Björn Ingi Hrafnsson hafði boðið okkur Stefáni Ólafssyni að hafa framsögu á fundi um jöfnuð og tekjudreifingu, eftir að ég hafði flutt fyrirlestur um það efni hjá Sagnfræðingafélaginu og Stefán andmælt þar kröftuglega utan úr sal. Ég kvaðst vera fús til þess. En Stefán svaraði: Blessaður Björn Ingi og takk fyrir boðið. Mér finnst þetta hins vegar ekki mjög spennandi samsetning. Þá er ég m.a. með í huga fyrirlestur Hannesar um fátækt sem ég var að hlusta á í fyrradag. Hann var á svo lágu plani að mér finnst þetta samhengi ekki nógu spennandi.
Ég svaraði Birni Inga að bragði: Ég er alls ekki hissa á, að Stefán treysti sér ekki til að mæta mér. Sumar staðreyndirnar, sem ég rakti, eru honum mjög óþægilegar. En þá brá Stefán sér skyndilega í hlutverk Jóns sterka. Hann skrifaði strax inn á Facebook: Þora hvað? Ég mætti þér í Þjóðminjasafninu og kýldi þig kaldan. Salinn setti hljóðan í kjölfarið! Það er ekkert að þora - heldur spurning um hvað er viðeigandi. Góðar stundir.
Kýldi mig kaldan? Matthías Jochumsson hefði ekki getað orðað þetta betur: Sáuð þið, hvernig ég tók hann?
En hverjar skyldu þessar óþægilegu staðreyndir vera, sem Stefán treystir sér ekki til að ræða? Ég nefni hér aðeins tvær af mörgum:
- Stefán Ólafsson sagði í grein í Morgunblaðinu 7. maí 2003: Það fær þannig ekki staðist að fátækt almennt eða barnafátækt sérstaklega sé minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum að Svíþjóð undanskilinni. En þetta reyndist ekki rétt. Samkvæmt fátæktar- og lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins fyrir 20032004, sem birt var 2007, var fátækt þá hvergi minni en á Íslandi að Svíþjóð undanskilinni. Upphlaupið um fátækt, sem skipulagt var af Borgarfræðasetri (Stefáns Ólafssonar) vorið 2003, rétt fyrir kosningar, studdist ekki við staðreyndir.
- Stefán Ólafsson sagði í grein í Morgunblaðinu 31. ágúst 2006: Lengst af voru Íslendingar á svipuðu róli í skiptingu tekna og lífskjara og frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum (sjá t.d. bókina Íslenska leiðin, útg. 1999). Árið 2004 er Ísland hins vegar komið í hóp ójafnari þjóðanna í Evrópu og nálgast Bandaríkin óðfluga, en þeir hafa verið með ójöfnustu tekjuskiptinguna í hópi ríku þjóðanna á Vesturlöndum um langt árabil. En þetta reyndist ekki rétt. Samkvæmt fátæktar- og lífskjarakönnun Evrópusambandsins fyrir 20032004, sem birt var 2007, var tekjuskipting á Íslandi þá áþekk og annars staðar á Norðurlöndum. Upphlaupið um ójöfnuð, sem skipulagt var af Stefáni Ólafssyni veturinn 20062007, skömmu fyrir kosningar, studdist ekki við staðreyndir. Raunar viðurkennir Stefán þetta óbeint í nýbirtri ritgerð í Stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar segir hann (bls. 61): Ísland er í 16. sæti [um ójafna tekjuskiptingu í OECD-ríkjum] árið 2007 en hafði verið enn á svipuðu róli og hinar norrænu þjóðirnar 2004 (5. sæti). Um þetta snerist einmitt deila okkar Stefáns veturinn 20062007. Ég sagði, að Ísland hefði verið með áþekka tekjuskiptingu 2004 og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en Stefán hélt því þá fram, að hún hefði orðið miklu ójafnari. Hann var þá með rangar tölur, bar saman ósambærilegar mælingar.
25.10.2012 | 11:11
Fjörugar umræður: Stefán í uppnámi
Ég flutti fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélagi Íslands í hádeginu 9. október 2012 um Fátækt á Íslandi 19912004. Þar greindi ég fyrst fátæktarhugtök Adams Smiths, G. W. F. Hegels og Johns Rawls, en hinn síðast nefndi hélt því fram, að sú skipan ein væri réttlát, þar sem hinum verst settu vegnaði sem best. Ég sagði, að það sjónarhorn væri fróðlegt, þótt fleiri væru til. Þá kynnti ég nýja alþjóðlega mælingu á tengslum atvinnufrelsis og lífskjara, sérstaklega lífskjara hinna verst settu. Í ljós hefði komið, að hinir verst settu væru almennt best settir í frjálsustu hagkerfunum (þeim fjórðungi þeirra 144 hagkerfa, sem frjálsust reyndust í mælingunni fyrir árið 2010).
Atvinnufrelsi hefur snarminnkað á Íslandi síðustu árin. Hagkerfið hér var árið 2004 hið 13. frjálsasta af 130 hagkerfum. Árið 2010 var það hins vegar hið 65. frjálsasta af 144 hagkerfum. Það var í næstfrjálsasta fjórðungi hagkerfa, við hlið Sádi-Arabíu. Norðurlöndin voru hins vegar öll í frjálsasta fjórðungnum. Ófrjálsast var sænska hagkerfið, sem var 30. af 144 hagkerfum 2010. Þetta veit ekki á gott um kjör hinna fátækustu eða verst settu síðar meir hér á landi.
Þá rifjaði ég upp áróðurinn fyrir kosningarnar 2003 um, að fátækt væri þá hér meiri en annars staðar á Norðurlöndum. Meðal annars hefði Borgarfræðasetur, sem Stefán Ólafsson prófessor veitti forstöðu, gefið út bók þessa efnis, sem þáverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði í kosningaræðu kallað biblíuna sína. En þetta hefði ekki reynst rétt samkvæmt víðtækri lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins um árin 20032004, sem birtist í ársbyrjun 2007. Fátækt mældist hér einna minnst hlutfallslega í Evrópu árin 20032004.
Síðan ræddi ég um áróðurinn fyrir kosningarnar 2007 um, að tekjudreifing hefði 2004 mælst ójafnari hér en annars staðar á Norðurlöndum. Hefði Stefán Ólafsson skrifað um það ófáar greinar. En í ljós hefði komið, að tekjudreifing var hér 2004 svipuð og annars staðar á Norðurlöndum, væri miðað við svokallaða Gini-stuðla. Hefðu ósambærilegar tölur verið bornar saman til þess að fá aðra niðurstöðu (tölur frá Íslandi með söluhagnaði af hlutabréfum, tölur frá öðrum löndum án hans). Hefði Stefán raunar viðurkennt þetta óbeint í nýbirtri ritgerð í Stjórnmálum og stjórnsýslu.
Ég gagnrýndi líka ýmsa aðra talnameðferð Stefáns, til dæmis um kjör ellilífeyrisþega, þar sem horft var fram hjá því, að mjög margir á lífeyrisaldri á Íslandi taka ekki lífeyri, heldur halda áfram að vinna. (Þeir voru t. d. 5.000 talsins af 31.000 alls árið 2004.) Það lækkar meðaltöl á hvern íbúa. Þess vegna verður að reyna að finna raunverulegar lífeyristekjur þeirra, sem taka lífeyri.
Ég bar hins vegar engar brigður á það, að tekjudreifingin hefði orðið ójafnari hér í lánsfjárbólunni, sem hófst upp úr 2004, eins og ég sýndi á línuriti. Aðalatriðið væri hins vegar, hvort við kysum frekar að búa í frjálsu hagkerfi, þar sem tækifæri væru til að brjótast út úr fátækt með dugnaði og hagsýni, eða í ófrjálsu hagkerfi, þar sem reynt væri að auðvelda fólki að sitja föstu í fátækt. Var fyrirlestur minn tekinn upp og er væntanlegur á heimasíðu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt bráðlega.
Að fyrirlestri mínum loknum kvaddi Stefán Ólafsson sér hljóðs, stóð upp og flutti langa tölu um, hversu ómerkilegur ég væri. Hann hefði ekki borið neina ábyrgð á bók þeirri um fátækt frá 2003, sem ég hefði vitnað í. Ég benti þá á, að hún væri meistaraprófsritgerð, sem skrifuð hefði verið undir hans leiðsögn, og að hann hefði verið forstöðumaður þeirrar stofnunar, sem gaf hana út, auk þess sem hann skrifaði grein í Morgunblaðið henni til varnar 7. maí 2003.
Þá kvaðst Stefán fyrir löngu hafa leiðrétt reikningsskekkjurnar um ójafna tekjudreifingu árið 2004, sem ég minntist á. Hann hefði ekki borið neina ábyrgð á þessum reikningsskekkjum, heldur hagstofa Íslands. Ég sagðist ekki hafa orðið var við neinar leiðréttingar Stefáns, nema óbeint. Hann hefði í greinum 2006 haldið því fram, að tekjudreifing hefði 2004 verið orðin miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum vegna frjálshyggjustefnu stjórnvalda, og ég hefði mótmælt því, en hann síðan í kyrrþey breytt lýsingu sinni (meðal annars í hinni nýbirtu ritgerð sinni í Stjórnmálum og stjórnsýslu).
Ég minnti síðan á, að samkvæmt kenningu Johns Rawls, sem jafnaðarmenn horfðu flestir mjög til, væri betra að búa í ríku hagkerfi, þar sem hinir fátækustu nytu þrátt fyrir allt sæmilegra lífskjara, þótt þar væri talsverður tekjumunur, en í fátæku hagkerfi, þar sem hinir fátækustu gætu huggað sig við það eitt, að aðrir væru ekki miklu ríkari.
Stefán var í talsverðu uppnámi, þegar hann flutti tölu sína, og kallaði hann nokkrum sinnum fram í fyrir mér, þegar ég svaraði honum, en ég fagna því samt, að hann skyldi mæta á fundinn og svara fyrir sig. Sumir aðrir hefðu ekki treyst sér til þess í hans sporum.
23.10.2012 | 16:43
Hvað segir einn virtasti hagfræðingur okkar um kvótakerfið?
Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt hélt afar fróðlega ráðstefnu í Háskóla Íslands um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar laugardaginn 6. október 2012. Þar fluttu sérfræðingar FAO, OECD og Alþjóðabankans fyrirlestrar, en einnig þrír íslenskir sérfræðingar, dr. Þráinn Eggertsson og dr. Ragnar Árnason, sem báðir eru prófessorar í hagfræði í Háskóla Íslands, og dr. Rögnvaldur Hannesson, sem er prófessor í fiskihagfræði í Viðskiptaháskólanum í Björgvin. Þeir Ragnar og Rögnvaldur eru á meðal virtustu fiskihagfræðinga í heimi, og Þráinn hefur skrifað nokkrar bækur um stofnanahagfræði, sem kenndar eru víða í háskólum erlendis.
Óhætt er að kalla Þráin Eggertsson einn virtasta hagfræðing okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi. Hann sagði á ráðstefnunni (og raunar líka í viðtölum við Morgunblaðið og Stöð tvö), að sennilega væri kvótakerfið íslenska eitt hið skilvirkasta, sem komist hefði á legg í fiskveiðum í heiminum. Það væri hættulegt að raska þeirri verðmætasköpun, sem ætti sér stað í íslenskum sjávarútvegi, og breytingarhugmyndir núverandi ríkisstjórnar væru vanhugsaðar og illa undirbúnar.
Orð Þráins, sem hefur forðast að láta reka sig ofan í skotgrafir eins og svo margir aðrir fræðimenn, hljóta að verða mörgum umhugsunarefni.
23.10.2012 | 07:41
Tolstoj og Gunnar Gunnarsson
Ég benti á það í öðru bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness 2004, að sögulok í Heimsljósi eru mjög lík og í einni kunnustu smásögu Einars H. Kvarans, Vonum. Ólafur Kárason Ljósvíkingur hverfur upp í íslenska jökulinn, eftir að hann lendir í ástarsorg, eins og Ólafur Jónsson vinnumaður hverfur á sléttuna í Kanada, þegar hann fær ekki stúlkunnar, sem hann ætlaði að hitta þar vestra. Sléttan ómælilega, endalausa, sem er full af friði og minnir á hvíldina eilífu. Í báðum sögum er gefið í skyn, að söguhetjan hafi stytt sér aldur.
En sögulok í annarri íslenskri skáldsögu minna á erlent verk. Hinni miklu skáldsögu Önnu Karenínu eftir rússneska skáldjöfurinn Lev Tolstoj lýkur svo (8. hluti, 19. k.): En líf mitt hefur nú, hvað sem mun bera mér að höndum, öðlast tilgang, sem það var áður án. Ekki aðeins líf mitt sem heild, heldur einnig sérhver stund þess, hefur nú öðlast ótvíræðan tilgang, tilgang í þjónustu hins góða. Og nú á ég það undir sjálfum mér, ætíð og alls staðar, að gefa lífi mínu þennan tilgang.
Gunnar Gunnarsson lýkur svo Aðventu, sem er ein kunnasta saga hans (Fimm fræknisögur, bls. 12): Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.
Í Heimsljósi og Vonum bíður söguhetjan ósigur og hrökklast inn í sjálfa sig, verður að engu. Önnu Karenínu og Aðventu lýkur hins vegar báðum á því, að brýnt er fyrir lesendum, að tilgangur lífsins sé að láta gott af sér leiða, þótt ekki hafi allir skilning á því og þurfi oft að öðlast hann með sárri lífsreynslu. Þetta kemur ekki á óvart. Tolstoj var mjög áhrifamikill höfundur, þá er Gunnar Gunnarsson var að stíga fyrstu skref sín út á skáldskaparbrautina, og margt er líkt með skoðunum þeirra á eðli og tilgangi lífsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook
22.10.2012 | 17:25
Grein mín í Tímariti Máls og menningar
Hausthefti Tímarits Máls og menningar er nýkomið út, og er þar prentað svar mitt við ádeilu Árna Björnssonar þjóðháttafræðings á bók mína, Íslenska kommúnista 19181998, en hún birtist í sumarhefti Tímaritsins. Mun eflaust mörgum þykja við Árni fara út í nokkur smáatriði og jafnvel aukaatriði í þessum umræðum, en ég taldi þó rétt að svara honum rækilega og þá hverju einasta atriði, er hann fann að bók minni.
Stjórnmáladeilur á Íslandi snerust í sextíu ár að miklu leyti um kommúnismann í orði og verki. Þetta efni er því mikilvægt, og það er síður en svo útrætt. Sjálfur komst ég að þeirri niðurstöðu í bók minni, að íslenskir kommúnistar hefðu verið jafnmiklir kommúnistar og gerðist annars staðar, en ekki þjóðlegir verkalýðssinnar, eins og sumir halda þó fram. Kommúnistaflokkurinn hefði verið venjulegur kommúnistaflokkur. Sósíalistaflokkurinn hefði alla tíð verið undir stjórn kommúnista eins og Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar, þótt hann hefði vissulega ekki verið yfirlýstur kommúnistaflokkur. Alþýðubandalagið hefði verið samsettari flokkur eða blendnari, sem ekki væri eðlilegt að telja kommúnistaflokk, en harður kjarni stalínista hefði samt haft þar veruleg áhrif og ítök.
Það er raunar umhugsunarefni, eins og ég benti á, að forystusveit Alþýðubandalagsins (þar á meðal þau Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir) lét það verða sitt síðasta verk að fara í boði kommúnistaflokks Kúbu suður í þá þrælakistu haustið 1998.
22.10.2012 | 06:25
Litla gula hænan
Las ég mér til menntunar
margan doðrant vænan,
en lærdómsríkust lesning var
litla gula hænan.
Hitt vita færri, að Steingrímur Arason staðfærði söguna úr bandarískri barnabók (sennilega með rætur í rússneskri þjóðsögu) um the little red hen, sem var í vinfengi við latan hest, syfjaðan kött og háværa gæs. Hún fann fræ og fékk þá hugmynd að sá því. Þá sögðu hesturinn, kötturinn og gæsin einum rómi: Ekki ég. Hið sama gerðu þau, þegar hænan sló hveitið, þreskti það, malaði og bakaði. En þegar litla rauða hænan spurði, hver vildi éta með henni brauðið sögðu allir: Nú get ég. En þá sagði litla rauða hænan: Nei, ég ætla að éta brauðið ein.
En það er ekki hættulaust að vera í einhverjum hópi eini einstaklingurinn, sem sýslar við arðbæra iðju, eins og ljóð Andra Snæs Magnasonar sýnir:
Ekki ég
voru síðustu orð
litlu gulu hænunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:28 | Slóð | Facebook
20.10.2012 | 23:18
Gore Vidal
Bandaríski rithöfundurinn Gore Vidal lést 31. júlí á þessu ári. Hann átti fáa sína líka um meinfyndni, sem beindist ekki síður að honum sjálfum en öðrum. Vidal sagði til dæmis í viðtali við Sunday Times Magazine 16. september 1973: Í hvert skipti sem einhverjum vini mínum gengur vel, deyr eitthvað inni í mér.
Í sama viðtali sagði Vidal: Mér finnst sjálfsagt að taka aftur upp vöndinn, en aðeins sem einkamál fullorðins fólks.
Vidal var vinstrisinni og hafði ýmislegt að segja um forseta Bandaríkjanna. Til dæmis kallaði hann Ronald Reagan stórsigur líksmurningarlistarinnar í Observer 26. apríl 1981.
Í viðtali við Sunday Times 4. júní 1989 var Vidal spurður, hvað hefði breyst, hefði Níkíta Khrústsjov, einræðisherra Ráðstjórnarríkjanna, verið skotinn til bana 1963, en ekki John F. Kennedy forseti. Vidal svaraði að bragði: Við getum aldrei verið viss um gang sögunnar, en ég tel fullvíst, að Aristóteles Onassis hefði ekki kvænst ekkju Khrústsjovs. Þau okkar, sem muna aftur á öndverðan sjöunda áratug, skilja þessa gamansemi. Nína Khrústsjova var stórskorin, digur og hrukkótt, en Jacqueline, ekkja Kennedys, þokkafull, svo að af bar. Aristóteles Onassis var forríkur grískur skipaeigandi, sem hafði yndi af að umgangast fagrar konur og fræga menn.
Anthony Powell segir eina sögu af Vidal í endurminningum sínum (bls. 428). Á rithöfundaþingi í Sofíu í Búlgaríu skoðuðu þeir saman ljósmyndir af einhverjum fundanna. Powell sá, að Vidal sat við hlið indversks fulltrúa. Ég sit alltaf við hliðina á mönnum með vefjarhetti, sagði Vidal. Þá kemst ég á fleiri ljósmyndir.
Aðra sögu af Vidal hef ég ekki fundið traustar skráðar heimildir um. Á stjórnarárum Reagans á hann að hafa sagt: Hafið þið heyrt um eldinn í bókasafninu í Hvíta húsinu? Þetta var ægilegt. Báðar bækurnar brunnu, og Reagan hafði ekki litað nema aðra þeirra.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 2. september 2012 og er að mestu sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er til sölu í öllum góðum bókabúðum.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.10.2012 kl. 06:23 | Slóð | Facebook
18.10.2012 | 18:56
Anna Funder
Ástralski rithöfundurinn Anna Funder hélt fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í Háskólanum mánudaginn 24. september. Funder er ung kona og fríð sýnum, en sérlega vel máli farin og býður af sér góðan þokka. Hún er lögfræðingur, en lauk líka doktorsprófi í listrænni sköpun. Sinnti hún mannréttindamálum fyrir Ástralíustjórn, áður en hún gerðist rithöfundur.
Hún sagði okkur áheyrendum frá tveimur bókum sínum. Hin fyrri, Stasiland, hlaut Samuel Johnson-verðlaunin í Bretlandi og kom út á íslensku fyrr á þessu ári. Þar rekur Funder örlög nokkurra einstaklinga, sem bjuggu í Austur-Þýskalandi, á meðan kommúnistar stjórnuðu landinu og leynilögregla þeirra, Stasi, hafði gætur á öllum. Hafði Funder áður talað um bókina á ráðstefnu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt.
Ég tek eftir, að einn samkennari minn, Stefán Ólafsson prófessor, reynir að gera lítið úr örlögum þessa fólks á bloggi sínu. Spyr hann, hvers vegna verið væri að halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum.
Stefán Ólafsson hefði átt að koma á annan hvorn fyrirlestur Önnu Funders hér á landi. Kommúnistar náðu völdum í Austur-Þýskalandi 1945 og héldu þeim til 1989, en síðan eru liðin 23 ár (en ekki 70100 ár, eins og Stefán vill vera láta). Funder sagði, að eftirlits- og njósnanet austur-þýskra stjórnvalda hefði verið mjög víðtækt. Einn uppljóstrari hefði verið á hverja fimmtíu menn í landinu. Leynilögreglan Stasi hefði verið vægðarlaus og hver þar haft eftirlit með öðrum. Kvað hún hina frægu kvikmynd Líf annarra (Das Leben der Anderen) ekki sótt í veruleikann í Austur-Þýskalandi, því að þar hefðu leynilögreglumenn ekki getað hlíft neinum.
Hin bókin, sem Anna Funder sagði okkur frá á mánudaginn, er skáldsagan All That I Am, sem kom út fyrr á þessu ári og hefur fengið mjög góða dóma. Er hún sótt í raunverulega viðburði í Þýskalandi Hitlers og Bretlandi, og sagði Anna okkur, að hún styddist meðal annars við ævi gamals þýskukennara síns, sem flýði til Ástralíu. Segir í bókinni frá hópi vinstri sinnaðra andstæðinga Hitlers, sem sluppu sumir undan honum til Bretlands, en inn í söguna blandast dularfullur dauðdagi tveggja þeirra.
1.10.2012 | 17:59
Pawel Bartoszek svarar Stefáni Ólafssyni
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, skrifaði af lítilsvirðingu á blogg sitt um ráðstefnu, sem við Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, fluttum á fyrirlestra. Nú hefur Pawel Bartoszek svarað honum í veftímaritinu Deiglunni, og leyfi ég mér að taka hið beitta og snjalla svar hans hér orðrétt upp:
Stefán Ólafsson prófessor ritar undarlegt greinarkorn á vefsvæði sitt á Pressunni þar sem hann gerir sér mat úr því að fólk tali enn um það að kommúnisminn hafi verið vond stefna. Ég meina hvað er að fólki, það eru heilir tveir áratugir liðnir!
Stefán segir meðal annars. Maður hélt þó samt að búið væri að kveða þennan draug niður í okkar heimi, með hruni Sovétskipulagsins um 1990. Margir stuðningsmenn kommúnisma á Vesturlöndum höfðu reyndar löngu áður hellst úr lestinni. Tími kommúnismans virtist í meira lagi liðinn.
Svo fylgir fremur mislukkað myndmál um vofu kommúnismans sem frjálshyggjumenn eiga nú að hafa vakið upp til að beina athyglinni frá því hvað kapítalisminn sé sjálfur illa misheppnaður. Síðan bætir Stefán við:
En hvers vegna skyldu róttækir frrjálshyggjumenn [sic], eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?
Þeir fengu meira að segja hinn glögga og skemmtilega Egil Helgason til að skenkja tevatni á miðilsfundi um málið í dag.
Sjötíu til hundrað árum? Sem sagt 1912 til 1942? Er það tímabilið sem illska kommúnismans nær yfir að mati Stefáns Ólafssonar? Það var nú eiginlega ekki byrjað að dreifa kommúnismanum um heiminn að ráði þá. Hvað með allar hreinsanir í lok seinni heimstyrjaldarinnar? Hernám Eystrasaltsríkjanna? Valdarán og kosningasvik í Austur-Evrópu? Innrásina í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968? Stóra stökkið hans Mao sem kostaði tugmilljónir lífið? Telur þetta ekki?
Á umræddum miðilsfundi var meðal annars stödd Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland. Stór hluti þeirrar bókar gerist nú bara í hinum löngu geymda og grafna níunda áratug seinustu aldar, svona um það leyti Red Hot Chilli Peppers og Radiohead voru stofnaðar og Spaugstofan hóf göngu sína. Þeir sem dóu í mótmælunum á torgi hins himneska friðar 1989 eða í Litháen 1991 væru margir í kringum fertugt, fimmtugt í dag. Já, ótrúlegt að menn séu enn að velta sér upp úr þessu!
Það er ekki lengra síðan að kommúnisminn leið undir lok í okkar heimshluta að ég sem er þrjátíu tveggja ára í dag náði að læra það í landafræði á sínum tím að Alþýðulýðveldið Pólland hefði þessi nágrannaríki: Sovétríkin, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskaland. Raunar þurftu sjö ára börnin auðvitað að læra löngu nöfnin: Samband sósíalískra ráðstjórnarríkja, Tékkóslóvakíska Alþýðulýðveldið og Lýðræðislega lýðveldið Þýskaland. Ekki datt mér í hug að þessi kunnátta yrði úreld innan fjögurra ára.
Svo er auðvitað ekki eins og kommúnisminn sé liðinn undir lok. Ekki á Kúbu. Ekki í Norður-Kóreu. Ekki í Kína. Menn kalla sig kommúnista Íslandi án þess að skammast sín fyrir það og alltaf eru menn til í að malda í móinn fyrir þessa stefnu og ættingja hennar. Í ágúst var haldin námskeiðaröð undir merkjum marxismans og heilir fjórir kennarar í þeim síðsumarskóla rötuðu í Víðsjá Ríkisútvarpsins. Eitt námskeiðið fjallaði um þörfina á byltingarsinnuðum stjórnmálaflokki (bylting er ekkert krúttorð, það þýðir ofbeldi, fólk er lamið og fóld deyr). Þingmenn mættu á þessa viðburði. Leslistar fyrir nokkur námskeiðanna samanstóðu af verkum Marx og Leníns.
Ég vil ekki nota stór orð en ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta pinku skrýtið. En kannski er ég bara svo gamall. Ég meina ég fæddist í kommúnistaríki. Ég hlýt að vera að minnsta kosti sjötugur.
30.9.2012 | 11:32
Vel heppnuð ráðstefna
Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, RNH, hélt alþjóðlega ráðstefnu í Háskóla Íslands laugardaginn 22. september 2012 undir yfirskriftinni Europe of the Victims: Remembering Communism. Aðalræðuna flutti einn kunnasti sagnfræðingur heims, franski prófessorinn Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem kom út á frönsku 1997 og á íslensku 2009.
Courtois sagði, að Svartbókin hefði komið út á 26 málum, en því miður ekki á kínversku og víetnömsku: Stjórnvöld í Kína og Víetnam vilja ekki umræður um fórnarlömb kommúnismans. Courtois lýsti vinnunni við bókina, sem nokkrir fræðimenn, flestir franskir, skrifuðu. Helst hefði komið þeim á óvart, þegar skjöl voru skoðuð, hversu grimmur og blóðþyrstur Lenín hefði reynst. Goðsögnin um hinn góða Lenín og hinn vonda Stalín hefði verið hrakin. Courtois sagði, að bókarhöfundar hefðu alls ekki verið sammála. Þeir hefðu allir verið vinstri menn, og sumir vinstri menn væru viðkvæmir fyrir því, þegar kommúnismi og nasismi væru lagðir að jöfnu. En það, sem stundum væri nefnt kommúnistum til málsbóta, að þeir hefðu aðeins ætlað sér að útrýma borgarastéttinni, en ekki nauðsynlega einstaklingum, væri rangt. Þeir hefðu líka reynt að útrýma ýmsum þjóðabrotum, til dæmis í Rússlandi. Courtois minnti á, að Evrópuráðið hefði 2006 samþykkt yfirlýsingu um glæpi kommúnista og að Evrópuþingið hefði 2009 samþykkt, að 23. ágúst yrði sérstakur minningardagur fórnarlamba kommúnisma og nasisma. Að loknu erindi Courtois stjórnaði Egill Helgason umræðum um það.
Þrír aðrir erlendir gestir fluttu fyrirlestra. Dr. Roman Joch, ráðgjafi forsætisráðherra Tékklands, furðaði sig á því, að kommúnisminn hefði enn aðdráttarafl sums staðar þrátt fyrir hina vondu reynslu af honum. Hann velti því fyrir sér, hvers vegna kommúnisminn hefði fallið 19891991, en ekki fyrr eða síðar. Skýringin væri líklega, að til viðbótar við hin innri mein, sem lengi hefðu grafið um sig í kommúnistaríkjunum, hefði forysta vestrænna lýðræðisríkja verið í höndum röggsamra, frjálslyndra leiðtoga. Geimvarnaáætlun Bandaríkjanna hefði til dæmis haft sín áhrif.
Anna Funder, höfundur verðlaunabókarinnar Stasiland, sagði frá nokkrum söguhetjum í bókinni og örlögum þeirra. Hún kvað suma lögreglumenn og dómara í Austur-Þýskalandi, sem tóku fullan þátt í kúguninni, enn gegna störfum.
Norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen rakti saman ýmis ummæli Karls Marx og Friðriks Engels annars vegar og fjöldamorð og útrýmingarherferðir kommúnista, þar sem þeir náðu völdum, hins vegar. Marx og Engels hefðu til dæmis stutt Prússa í stríðum þeirra við Dani og Frakka, því að þeir hefðu bundið vonir við þróun Prússlands. Í tilefni stríðs Prússa og Dana hefði Engels talað háðslega um, að Íslendingar væru frumstæðasta Norðurlandaþjóðin. Þeir Marx og Engels hefðu talið, að sumar þjóðir ættu sér ekki tilverurétt.
Að lokum töluðu tveir íslenskir fyrirlesarar. Ég lýsti þróun hinnar róttæku vinstri hreyfingar á Íslandi, frá því að andófsafl myndast í Alþýðuflokknum upp úr 1918, kommúnistaflokkur er stofnaður 1938, Sósíalistaflokkurinn 1968 og Alþýðubandalagið gert að stjórnmálaflokki 1968, fram að því að forysta Alþýðubandalagsins lét það verða sitt síðasta verk að þiggja boðsferð kommúnistaflokks Kúbu þangað suður haustið 1998. Ekki þyrfti að fjölyrða um, að kommúnistaflokkurinn hefði verið hreinræktaður kommúnistaflokkur. Sósíalistaflokkurinn hefði verið undir stjórn sannfærðra stalínista, þótt margir kjósendur hans hefðu ekki verið stalínistar. Alþýðubandalagið hefði hins vegar ekki verið kommúnistaflokkur og ályktað gegn framferði Kremlverja í Tékkóslóvakíu 1968, en samt hefðu nokkrir áhrifamenn í flokknum haldið góðum tengslum við sum kommúnistaríki.
Prófessor Þór Whitehead flutti lokaorð. Hann kvað skjölin, sem fræðimenn hefðu fengið aðgang að eftir hrun Austur-Þýskalands og Ráðstjórnarríkjanna, staðfesta þær skoðanir á kommúnismanum, sem komið hefðu fram í ritum Solzhenítsyns og Roberts Conquests áður. Svartbók kommúnismans væri stórvirki, en halda þyrfti áfram sögulegum rannsóknum á kommúnisma.
Tveir fyrirlesarar á ráðstefnunni munu koma fram opinberlega, Stéphane Courtois í Silfri Egils og Anna Funder í Kiljunni. Anna Funder segir frá nýrri skáldsögu sinni á fundi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í hádeginu 24. september í stofu 201 í Odda.