22.11.2012 | 19:03
Fór aðalatriðið fram hjá öllum?
Ólíklegustu menn keppast nú um að lofa nýja skýrslu McKinsey um Ísland. En hefur aðalatriðið farið fram hjá þeim? Það er, að samkvæmt henni sé íslenskur sjávarútvegur sá atvinnuvegur, sem best hafi tekist að auka framleiðni. Þar hafi hagkvæmt fyrirkomulag fiskveiða skipt sköpum.
Enn fremur segir í skýrslu McKinsey, að frekari vöxtur og framleiðniaukning í sjávarútvegi krefjist þess, að hann búi við stöðugt og hagfellt rekstarumhverfi.
Núverandi stjórnvöld sækja að sjávarútvegi með hótunum um ofurskatta (sem hefur raunar enn ekki tekist að útfæra) og breytingar á úthlutun kvóta. Þau mynda þannig óvissu um þennan undirstöðuatvinnuveg okkar og torvelda þar fjárfestingar. Þau breyta þvert á það, sem McKinsey (og raunar allir aðrir erlendir sérfræðingar) leggja til.
Það, sem bjargaði okkur í kreppunni, var öflugur og arðsamur sjávarútvegur. Það gengur sjálfsmorði næst að ráðast nú á sjávarútveginn, eins og leiðarahöfundur Wall Street Journal skrifaði einmitt um á dögunum.
19.11.2012 | 13:29
Deilurnar um Maó
Svo mikið þótti liggja, þegar fréttist, að ævisaga Maós væri að koma út á íslensku árið 2007, að kínverskusérfræðingur einn, Geir Sigurðsson, var fenginn til að skrifa sérstakan ítardóm (miklu lengri en venjulegan ritdóm) í Sögu, þar sem hann sallaði bókina í sig. Hún er eftir Jung Chang og Jon Halliday og lýsir Maó eins og fullkomnu skrímsli, sem á heima við hlið Adolfs Hitlers, Djengis Khans, Josífs Stalíns og Ívans grimma.
Ég andmælti gagnrýni þeirra Geirs Sigurðssonar og fleiri, þar á meðal Sverris Jakobssonar, í fyrirlestri, sem ég nefndi Maó: Sagan sem hefur verið sögð í stofu 207 í aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 2. nóvember kl. 1213 í boði Konfúsíusarstofnunarinnar. Þar ræddi ég nokkur smáatriði, sem þeir Geir og Sverrir hafa fundið að bókinni, en reyndi einnig að sjá stóru myndina, hvað gerðist raunverulega undir stjórn Maós í Kína og hverja ábyrgð hann ber á því.
Ég tel Maó: Sagan sem aldrei var sögð eftir Jung Chang og Jon Halliday algert afrek. Sjálfsagt er að gagnrýna hana, og hún er auðvitað ekki gallalaus fremur en önnur mannanna verk, en gagnrýni þeirra Geirs og Sverris var ósanngjörn og lituð af annarlegum sjónarmiðum. Nánar má sjá um fundinn hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook
18.11.2012 | 20:20
Ótrúlegur munnsöfnuður
Því má lengi velta fyrir sér, hvers vegna Íslendingum varð miklu meira um lánsfjárkreppuna en öðrum þjóðum, sem lent hafa í sambærilegum vandræðum. Ein ástæða var, að þeir höfðu bundið miklar vonir við bankana og voru stoltir af þeim. Því sárari urðu vonbrigðin. Önnur var, að íslensku bankarnir féllu einna fyrstir evrópskra banka og allir nánast í einu, og héldu þá sumir, að þetta væri séríslenskt fyrirbæri. Nú, nokkrum árum síðar, sjáum við skýrar en áður, að þetta var aðeins eitt dæmið af mörgum um það, að alþjóðleg lánsfjárbóla sprakk.
En vegna þess að Íslendingar tóku kreppuna miklu nær sér en aðrar þjóðir, varð hér hálfgert siðarof. Ýmsar hömlur hafa horfið. Menn leyfa sér til dæmis miklu verra orðbragð opinberlega en áður. Þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri var nýlega spurður um gagnrýni Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, á fréttaflutning Ríkisútvarpsins, svaraði hann:
Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.
Þessi orð eru ótrúleg, ekki síst þegar þau koma frá embættismanni, sem stjórnar áhrifamiklum fjölmiðli og hefur lögbundnar skyldur til að gæta í hvívetna óhlutdrægni og sanngirni.
12.11.2012 | 18:26
Bókmenntaviðburður á Íslandi
Íslensk þýðing á hinni mögnuðu skáldsögu Ayns Rands, Undirstöðunni (Atlas Shrugged), er sannkallaður bókmenntaviðburður. Ég sótti 26. október útgáfuhóf, sem Almenna bókafélagið efndi til í Þjóðmenningarhúsinu vegna útkomu verksins, en Elín Guðmundsdóttir þýddi það á íslensku, og studdist hún á nokkrum stöðum við eldri þýðingu á hluta verksins eftir Ólaf Teit Guðnason.
Undirstaðan er funheit skáldsaga með ferhyrningi frekar en þríhyrningi, Dagnýju Taggart og þremur mönnum, sem keppa um ástir hennar. En hún geymir líka boðskap Ayns Rands um frelsi, sköpun og sníkjulíf. Þótt hún sé firnalöng, 1146 blaðsíður í íslensku þýðingunni, hefur hún selst í alls um átta milljónum eintaka, frá því að hún kom fyrst út, og er ekkert lát á.Ayn Rand, sem fæddist og ólst upp í Rússlandi, en haslaði sér síðan völl í Hollywood, þar sem hún samdi handrit fyrir kvikmyndaver, er einn sérkennilegasti og sjálfstæðasti heimspekingur og rithöfundur Bandaríkjanna á tuttugustu öld. Til eru nokkur sjónvarpsviðtöl við hana. Mike Wallace tók eitt árið 1959, Johnny Carson annað 1967 og Phil Donahue enn annað 1979.
Douglas Rasmussen, heimspekiprófessor í St. Johns-háskólanum í New York-ríki, flutti ágætt erindi í útgáfuhófinu um heimspeki og skáldskap Ayns Rands, og hefur það verið sett á Netið. Fjölmenni var á fyrirlestri hans og í móttöku Almenna bókafélagsins á eftir. Óhætt er að segja, að þetta mikla verk fari vel af stað.
31.10.2012 | 09:44
Afbrigðilegasta öfughneigðin
Laxness hefur þessi orð sennilega úr skáldsögu Aldous Huxleys, Eyeless in Gaza, sem kom út 1936 og heimildir eru til um, að hann las. Þar segir (27. k.): Chastity the most unnatural of all the sexual perversions. Skírlífi afbrigðilegasta kynferðilega öfughneigðin.
Hugsanlega hefur Huxley stuðst við svipaða hugmynd í bók eftir franska rithöfundinn Remy du Gourmont, Physique de l'amour, sem kom út 1903. Þar segir, að skírlífi (chasteté) sé de toutes les aberrations sexuelles la plus singulière, af öllum kynferðilegum öfughneigðum hin einkennilegasta.
Víkur nú sögunni til ársins 1974. Þá var ég fulltrúi á þingi ungra íhaldsmanna í Kaupmannahöfn og hitti þar meðal annars Carl Bildt frá Svíþjóð og Karl Rove frá Bandaríkjunum, sem síðar urðu kunnir stjórnmálamenn. Formaður Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna þá var maður að nafni Tom Spencer. Ég kynntist honum ekki að ráði, en hann var fjörugur og skemmtilegur. Hann settist síðar á Evrópuþingið fyrir breska íhaldsflokkinn.
Mörgum árum síðar sá ég mér til mikillar undrunar í enskum blöðum, að Spencer hefði eitt sinn verið handtekinn á Lundúnaflugvelli, þegar hann kom þangað frá Amsterdam, og hafði hann fjölda klámrita og vægra fíkniefna (kannabis) í fórum sínum; þetta var löglegt í Hollandi, en ólöglegt á Bretlandi. Þá sagði hann hið sama við blaðamenn og þeir Laxness og Huxley: Skírlífi er eina kynferðilega öfughneigðin. Hætti Spencer afskiptum af stjórnmálum við svo búið, þótt ekki yrði hann organisti.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. september 2012. Sóttur víða í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út 2010 og enn er eitthvað, en ekki mikið, til af í góðum bókabúðum.)
30.10.2012 | 14:15
Þorkell Helgason setur ofan í við Stefán Ólafsson
Stefán Ólafsson bloggaði 22. október 2012 um það, að þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn þar á undan um hugmyndir stjórnlagaráðs hefði verið ósigur Sjálfstæðísflokksins.
Dr. Þorkell Helgason stærðfræðingur, sem sat í stjórnlagaráði, en er sómakær maður og vandaður, setur ofan í við Stefán í athugasemd við bloggfærslu:
Þjóðaratkvæðagreiðslan snerist um stjórnarskrármál. Hún var ekki til að mæla fylgi flokka. Hún var stór áfangi að því markmiði að fá góða stjórnarskrá sem njóti að lokum fylgi alls þorra þjóðarinnar Því markmiði er enn ekki náð og mörg ljón kunna að verða á veginum. Það er málinu ekki til framdráttar að tala um flokkspólitíska sigurvegara eða tapara. það er þjóðin sem á að lokum að vera sigurvegarinn.
Þorkell hefur auðvitað rétt fyrir sér um þetta. Jafnvel skoðanabræðrum Stefáns ofbýður.
30.10.2012 | 06:24
Sigurður Líndal um þjóðaratkvæðagreiðsluna
Sigurður Líndal er skorinorður um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Fréttablaðinu 22. október 2012. Ég get ekki annað en tekið undir með honum, þegar hann segir:
Um hvað snerist þá þessi atkvæðagreiðsla? Um ófullburða plagg sem fullyrða má að landsmenn höfðu afar óljósa hugmynd um, hvað fæli í sér. Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt. Hér er unnið í anda sýndarlýðræðis sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu, þannig að hún verði stunduð í skjóli teygjanlegs lýðræðilegs umboðs sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er.
Forsætisráðherra lýsti því í Silfri Egils í gær að afgreiðsla endurskoðaðs stjórnarskrárfrumvarps yrði látin hafa algeran forgang á Alþingi og önnur mál látin bíða ef tími reynist ónógur. Þeirri hugsun verður nú varla varizt að með þessu sé verið að draga athyglina frá raunverulegum vandamálum, einkum atvinnumálum og skuldamálum heimila og fyrirtækja, enda skammt til kosninga. Og þá er spurningin hvort Alþingi standi í hlýðni við forsætisráðherra eða taki sjálft frumkvæði að því að taka á þeim vanda sem helzt brennur á þjóðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook
29.10.2012 | 13:45
Tveir þriðju atkvæðisbærra höfðu ekki áhuga á stjórnarskrárbreytingum
Það fór eins og ég hafði spáð, yrði kjörsókn dræm, að jámenn myndu þá sigra í skoðanakönnun þeirri, sem nú er kölluð ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Þeir ómökuðu sig á kjörstað, ekki hinir, sem láta sér fátt um þetta finnast.
Svo virðist sem einn þriðji atkvæðisbærra kjósenda, um 6570% af þeim 50% atkvæðisbærra kjósenda, sem fóru á kjörstað, hafi greitt atkvæði með stjórnarskrárbreytingum. Tveir þriðju hlutar kjósenda sátu heima eða greiddu atkvæði á móti stjórnarskrárbreytingum í anda hins svokallaða stjórnlagaráðs.
Það er þessi hópur, tveir þriðju hlutar kjósenda, sem stjórnarandstöðuflokkarnir hljóta að reyna að laða til fylgis við sig í þingkosningunum framundan. Þetta fólk er andvígt skattahækkunum ríkisstjórnarinnar, almennri óstjórn, skertu atvinnufrelsi, fjandskap við erlendar fjárfestingar og hagvöxt, aðild að Evrópusambandinu og þrálátum tilraunum ríkisstjórnarinnar til að semja rétt af Íslendingum, til dæmis í Icesave-deilunum.
28.10.2012 | 19:26
Hverjir eru á miðjunni og hverjir öfgamenn?
Stundum er því haldið fram, að ég sé ekki það, sem kallað er mainstream, á miðjunni. Jafnframt er því haldið fram, iðulega af sömu mönnum, að ég hafi haft mikil áhrif á stjórnarstefnuna 19912004, enda sé ég góður vinur og vopnabróðir þáverandi forsætisráðherra, jafnvel ráðgjafi hans að sumra sögn. En ef maður hefur völd eða mikil áhrif í nær fjórtán ár í lýðræðisríki, þá er nánast skilgreiningaratriði um hann, að hann sé mainstream eða á miðjunni. Hafi hann ekki fært sig á miðjuna, þá hefur miðjan fært sig til hans.
En hverjir eru ekki mainstream? Eitt skynsamlegasta svarið er, að þeir, sem þurfa að beita ofbeldi til að ná völdum, séu ekki mainstream, heldur öfgamenn. Það var einmitt það, sem gerðist í barsmíðabyltingunni í ársbyrjun 2009. Þeir, sem tóku þá völd, hröktu í götuóeirðum stjórnvöld frá. Sérstaklega var ámælisvert, þegar sumir háskólamenn stukku inn í þennan ofbeldishóp, brýndu raustina og steyttu hnefa. Síðan hafa þeir kúrt sig niður við valdastólana og makað krókinn, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur leitt ágætlega í ljós.
Þessir menn hafa haft hausavíxl á hugtökum. Þeir eru öfgamenn, extremists. Ég er á miðjunni, mainstream.
27.10.2012 | 12:16