5.3.2013 | 18:36
Stefán Ólafsson gleymir sér
Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðum þeirra Birgis Þórs Runólfssonar, Skafta Harðarsonar, Stefáns Snævarrs, Jóns Steinssonar og Stefáns Ólafssonar á Netinu um atvinnufrelsi, lífskjör og hagvöxt. Allir hafa þátttakendurnir verið málefnalegir nema Stefán Ólafsson, sem eys svívirðingum yfir þá Birgi Þór og Skafta. Er einkennilegur og stríður tónn í máli hans og fer illa fræðimanni. Ein athugasemd Stefáns vakti undrun mína. Hann segir á bloggi Skafta Harðarsonar:
Þú segir: Hann hélt því fram fyrir kosningar 2003 að hér væri miklu meiri fátækt en á Norðurlöndum. Ég hélt engu slíku fram 2003 og skrifaði raunar ekkert um fátækt á því ári, né árin þar í kring (leturbreyting mín).
Hér gleymir Stefán Ólafsson sér. Harðar deilur urðu vorið 2003 um fátækt á Íslandi. Stefán var þá forstöðumaður Borgarfræðaseturs, og sú stofnun gaf þetta vor, skömmu fyrir þingkosningar, út bók eftir Hörpu Njálsdóttur um fátækt á Íslandi, og var uppistaðan í henni meistaraprófsritgerð, sem hún hafði unnið undir handleiðslu Stefáns. Taldi Harpa, að fátækt væri hér um 710%, talsvert meiri en á Norðurlöndum. Ýmsir urðu til að draga þessar tölur í efa, þar á meðal Sigurður Snævarr hagfræðingur og dr. Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur. Taldi Sigurður gögn benda til þess, að fátækt væri óveruleg á Íslandi og aðeins minni í Svíþjóð.
Við svo búið skrifaði Stefán Ólafsson grein í Morgunblaðið 7. maí 2003 undir heitinu Athugasemdir vegna umræðu um fátækt. Hann vísaði niðurstöðu Sigurðar Snævarrs á bug með þessum orðum: Þegar nánar er skoðað og þegar tillit er tekið til þeirra fyrirvara sem Sigurður setur sjálfur við gögn sín, kemur í ljós að það fær ekki staðist að fátækt sé minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum. Stefán vitnaði að vísu ekki rétt í Sigurð, sem hafði einmitt tekið fram, að fátækt væri líklega minni í Svíþjóð en á Íslandi, en ekki sagt, að fátækt væri minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum. En síðan sagði Stefán nýlegar rannsóknir sýna, að fátækt væri heldur meiri á Íslandi en hjá hinum norrænu þjóðunum og nær meðallagi í hópi ríku þjóðanna á Vesturlöndum.
Útkoma bókar Hörpu Njálsdóttur vorið 2003 bar allt yfirbragð kosningabrellu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, kvað í síðari Borgarnesræðu sinni 15. apríl 2003 bókina vera biblíuna sína og fór um hana hjartnæmum orðum. Hafði Ingibjörg Sólrún í borgarstjóratíð sinni veitt talsverðu fé til Borgarfræðaseturs Stefáns Ólafssonar. Eitthvað hljóðnaði þó Samfylkingarfólk, eftir að Katrín Fjeldsted borgarfulltrúi og Ásta Möller alþingismaður bentu á, að fátækt hafði aukist í Reykjavík, eftir að Ingibjörg Sólrún, þá borgarstjóri, hefði 1995 hert reglur um styrki félagsþjónustu borgarinnar, meðal annars með því að hætta að taka tillit til fjölskyldustærðar við úthlutun slíkra styrkja.
Svo vill þó til, að skera má úr þessum deilum um fátækt árið 2003. Í febrúarbyrjun 2007 kom út viðamikil skýrsla hagstofu Evrópusambandsins með þátttöku hagstofu Íslands, og var hún um fátækt og tekjudreifingu í Evrópulöndum. Þar kom fram hið sama og Sigurður Snævarr hafði reiknað út, að fátækt var minni á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi að Svíþjóð undantekinni. Mældist fátækt hér 2003 rétt yfir 5%. Sigurður Snævarr reyndist hafa rétt fyrir sér, Stefán Ólafsson rangt. Í því ljósi er skiljanlegt, að Stefán vilji gleyma þessu og haldi því nú fram fullum fetum, að hann hafi ekkert skrifað um fátækt árið 2003.
5.3.2013 | 14:46
Valdabaráttan í Sjálfstæðisflokknum
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, gaf út fróðlega bók fyrir jólin um valdabaráttuna, sem hófst í Sjálfstæðisflokknum við skyndilegt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970 og lauk í rauninni ekki, fyrr en Davíð Oddsson varð formaður vorið 1991. Styrmir var mjög við þá sögu riðinn, enda vinur og samverkamaður Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins 1973-1983. Við lesturinn rifjaðist margt upp fyrir mér, sumt skemmtilegt.
Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð í tvennum kosningum 1978. Eftir það settust ungir sjálfstæðismenn á rökstóla og komust að þeirri niðurstöðu, að endurnýja þyrfti forystu flokksins. Ekki áræddu þeir þó að biðja formanninn, Geir Hallgrímsson, að víkja, heldur sendu nefnd á fund varaformannsins, Gunnars Thoroddsens. Hann tók þeim vel og kvaðst reiðubúinn að víkja, en þó aðeins eftir að eftirfarandi grein hefði verið tekin upp í skipulagsreglum flokksins: Nú verða formanni á mistök, og skal þá varaformaður víkja. Ekki heyrðist eftir það meira af endurnýjuninni.
Gunnar Thoroddsen var vígfimur, en með afbrigðum mjúkmáll, og í hvert skipti sem hann lagði til Geirs Hallgrímssonar, talaði hann um, að nú vildi hann rétta fram sáttarhönd. Þá sagði Davíð Oddsson eitt sinn við mig: Í Sjálfstæðisflokknum er hver sáttarhöndin upp á móti annarri.
Hinn gamli knattspyrnukappi Albert Guðmundsson tók mikinn þátt í þessum átökum, oftast við hlið Gunnars. Eitt sinn deildu þeir Davíð á fundi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Þá var Davíð ungur maður. Ég hlusta nú ekki á svona tal í stuttbuxnadeildinni, sagði Albert hinn reiðasti. Davíð svaraði: Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar maður talar af lítilsvirðingu um stuttbuxur eftir að hafa haft atvinnu af því að hlaupa um á þeim í áratugi.
Þorsteinn Pálsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins haustið 1983. Undir forystu hans klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn, og Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn vorið 1987. Mörgum vinum Alberts fannst Þorsteini hafa farist illa við Albert. Borgaraflokkurinn verður ekki langlífur. Menn senda aðeins samúðarskeyti einu sinni, sagði þá Friðrik Sophusson, og reyndist hann sannspár.
Eftir ósigur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1987 urðu þær raddir háværari, að Davíð Oddsson yrði að taka að sér formennsku. Vildi Davíð sjálfur sem minnst um það tala. Í veglegu jólaboði Vífilfells í desember 1987 vatt Lýður Friðjónsson, þáverandi aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, sér að Davíð og sagði: Jæja, Davíð, hvenær ætlarðu að taka við þessu? Davíð svaraði að bragði: Hvað segirðu, ertu að hætta?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. desember 2012.)
3.3.2013 | 15:17
Ritdómur minn um bók Ha-Joon Chang
[Ég birti á dögunum ritdóm í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu um þýðingu á bókinni 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá eftir Ha-Joon Chang. Nálgast má dóminn á heimasíðu tímaritsins og hlaða honum niður sem pdf-skjali. En hér er textinn líka undir fyrirsögninni 23 atriði um kapítalisma sem klifað hefur verið á:]
Eftir jarðskjálftana miklu í Tókío 1923 sagði austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter þurrlega, að aldrei þessu vant hefði kapítalismanum ekki verið kennt um þá. Nýútkomin bók kóreska hagfræðingsins Ha-Joon Changs er eitt þúsunda verka, sem skrifuð hafa verið gegn kapítalismanum. Þau 23 atriði, sem hann telur ekki sagt frá um kapítalismann, hafa langflest komið fram áður og það margsinnis. Chang, sem kennir þróunarhagfræði í hinu gamla vígi keynesverja í Cambridge-háskóla, þurfti hins vegar ekki að kvarta undan viðtökunum á Íslandi. Honum var boðið sérstaklega hingað vegna útkomu bókarinnar, og hélt hann fyrirlestur á vegum útgefanda síns í Háskóla Íslands 6. september 2012. Að fyrirlestrinum loknum ræddu um boðskap hans í pallborði prófessorarnir Stefán Ólafsson, Páll Skúlason og Jóhann Páll Árnason. Að sjálfsögðu spjallaði Egill Helgason líka við Ha-Joon Chang í umræðuþætti sínum í Sjónvarpinu, Silfri Egils, og aðdáendur Changs flýttu sér að setja viðræðurnar á Youtube.
Gott dæmi um málflutning Changs er fyrsta atriðið, sem hann telur ekki sagt frá: Frjáls markaður sé ekki til. Þetta fræddi John Kenneth Galbraith okkur líka á í Iðnríki okkar daga, sem kom fyrst út á íslensku 1970. Rök Changs eru, að hver einasti markaður lúti einhverjum reglum, sem við teljum margar svo sjálfsagðar, að við tökum ekki eftir þeim. Auðvitað er þetta rétt. En leiðir niðurstöðuna af forsendunni? Chang hefði frekar átt að segja, að alfrjáls eða óheftur markaður sé ekki til. Hugtakið frjáls markaður er prýðilega nothæft, þótt einhver skilgreiningarvandi sé eflaust á ferð. Sumir markaðir eru frjálsari en aðrir. Vinnumarkaður er til dæmis frjálsari í Bandaríkjunum en í flestum löndum Evrópusambandsins, þótt hann sé ekki alfrjáls þar vestra. Gjaldeyrismarkaður er nú ófrjálsari á Íslandi en í flestum öðrum Evrópulöndum. Chang gerir rökvillu, sem varað er við í öllum inngangsnámskeiðum í heimspeki. Villan er kennd við sköllótta manninn. Hvenær er maður alhærður, hvenær þunnhærður og hvenær sköllóttur? Þótt við getum ekki skilgreint þessi hugtök nákvæmlega, vitum við, þegar einn maður er með hár og annar sköllóttur, jafnvel þótt einhver hár kunni að vera eftir á höfði hans. Við segjum ekki hróðug: Sköllóttur maður er ekki til.
Í þessu sambandi fjölyrðir Chang um lög gegn barnavinnu í Bretlandi, sem sett voru 1819 gegn háværum mótmælum. En var barnavinna afleiðing af kapítalismanum? Var hún ekki frekar afleiðing af þeirri sáru fátækt, sem flestir Bretar höfðu búið við öldum og árþúsundum saman? Því má ekki gleyma, að börn voru þrælkuð í sveitum Bretlands fyrir daga kapítalismans. Meginástæðan til þess, að barnavinna hvarf að mestu úr sögunni á Vesturlöndum á nítjándu og tuttugustu öld, var aukin velmegun og fleiri tækifæri foreldranna til að brjótast út úr fátækt. Lög gegn barnavinnu voru því oftast afleiðing þróunarinnar frekar en orsök. Þetta sést gleggst á því, að barnavinna er enn algeng í fátækum löndum, jafnvel þótt reynt sé að koma í veg fyrir hana með innlendri löggjöf og alþjóðlegu eftirliti. Auðvitað getur barnavinna ekki verið neinum mannvinum kappsmál. En með örsnauðum þjóðum er spurningin oft, hvort fjölskyldan eigi öll að svelta eða börnin líka að vinna. Hverjir treysta sér til að velja fyrri kostinn?
Hér er ekki tóm til að skoða öll 23 atriðin, sem Chang telur upp. En tökum 10. atriðið, sem ekki á að vera sagt frá: Bandaríkjamenn njóti ekki bestu lífskjara í heimi, þótt þeir séu iðulega taldir fulltrúar hins frjálsa markaðar. Síðan fer Chang með þau gamalkunnu rök, að hagtölur frá Bandaríkjunum endurspegli ekki veruleikann þar vestra. Gæðum sé misskipt, heilsugæsla lök og glæpir tíðir. Hér er að mörgu að hyggja. Í fyrsta lagi eru Bandaríkin ekkert fyrirmyndarríki þeirra, sem kenna sig við frjálshyggju eða frjálsan markað. Til er prýðileg mæling á því, hvaða hagkerfi heims komist næst (og fjærst) því að kallast frjáls. Hún felst í svokallaðri vísitölu atvinnufrelsis, og eru öll gögn um hana tiltæk á netinu, á http://www.freetheworld.com Samkvæmt henni eru frjálsustu hagkerfi heims í þessari röð árið 2010: Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjáland, Sviss og Ástralía. Atvinnufrelsi hefur síðustu ár minnkað verulega í Bandaríkjunum, og er þar nú 18. frjálsasta hagkerfi heims. Nú myndu frjálshyggjumenn af ætt Johns Lockes og Adams Smiths horfa til fleiri þátta en atvinnufrelsis, til dæmis réttaröryggis, borgaralegra réttinda og umburðarlyndis, og þá myndu Hong Kong og Singapúr þoka fyrir Nýja Sjálandi, Sviss og Ástralíu. Þótt frjálshyggjumenn eigi sér ekkert fyrirmyndarríki, kemst Sviss líklega næst því að vera frjálshyggjuríki í þeirra skilningi. Þar er möguleikum eins hóps á að kúga annan eða sitja yfir hlut hans sett þrengri takmörk en víðast annars staðar.
Í öðru lagi eru Bandaríkin einmitt það, sem þau heita, bandalag fimmtíu ólíkra ríkja. Fróðlegt er að bera þau saman við Evrópusambandið, bandalag 27 ólíkra ríkja. Lítum til dæmis á verga landsframleiðslu á mann, sem oftast er notuð til að mæla lífskjör. Árið 2010 var hún meiri en 64 þúsund dalir í þremur ríkjum Bandaríkjanna, Delaware, Alaska og Connecticut, en aðeins í einu ríki Evrópusambandsins, Lúxemborg. Hún var á bilinu 3335 þúsund dalir í þremur fátækustu ríkjum Bandaríkjanna, Mississippi, Vestur-Virginíu og Idaho, en 23 þúsund dalir í Portúgal, 28 þúsund í Grikklandi, 36 þúsund í Stóra-Bretlandi og 38 þúsund í Svíþjóð. Hefði Svíþjóð gengið út úr Evrópusambandinu árið 2010 og inn í Bandaríkin sem 51. ríkið, þá hefði landið mælst undir meðallagi þar um lífskjör. Á sama hátt og óeðlilegt er að dæma Evrópusambandið eftir heilsufari í Portúgal, verða Bandaríkin ekki dæmd eftir glæpatíðni í Mississippi. Bandaríkin eru sundurleit, enda samfelldur straumur innflytjenda þangað, en ekki verður um það efast, að lífskjör þar eru almennt betri en í Evrópu. Því er við að bæta vegna orða Changs um heilbrigðismál, að Bandaríkjamenn verja meira fé til þeirra en nokkur önnur þjóð, um 17% landsframleiðslu eða um 8 þúsund dölum á mann á ári. (Næstir koma Norðmenn og Svisslendingar, með um 10% landsframleiðslu og um 5 þúsund dali á mann. Jafnvel þegar aðeins er tekið með í reikninginn, hverju hið opinbera ver til heilbrigðismála, eru Bandaríkjamenn í fimmta sæti í heiminum.)
Þegar rætt er um lífskjör, er spurningin þó frekar, á hvaða leið fólk er en hvar það er statt hverju sinni. Ha-Joon Chang bendir á hið sama og ótal aðrir á undan honum, að góð lífskjör í Bandaríkjunum eru ekki síst því að þakka, að menn vinna þar meira en í Evrópu. Er það ekki fagnaðarefni? Í landi, þar sem næg atvinnutækifæri eru, eiga menn þess einmitt kost að vinna annaðhvort lítið eða mikið. Í landi, þar sem atvinnutækifærin eru hins vegar fá eða engin, geta menn ekki valið um hærri tekjur og færri tómstundir annars vegar eða lægri tekjur og fleiri tómstundir hins vegar. Í Evrópusambandinu hindra voldug verkalýðsfélög til dæmis á ýmsan hátt leið ungs fólks út á vinnumarkaðinn, svo að atvinnuleysi æskufólks er þar verulegt, jafnvel átakanlegt.
Tökum síðan 22. atriðið, sem Ha-Joon Chang telur ekki sagt frá: Fjármálamarkaðir valdi óstöðugleika. Þetta hefur verið vitað í mörg hundruð ár. Lánsfjárbólur hafa sprungið með reglulegu millibili. Raunar fullyrða hagfræðingar úr austurríska skólanum (lærisveinar Ludwigs von Mises og Friedrichs von Hayeks), að lánsfjárbólur séu einmitt helstu skýringarnar á hagsveiflum. En ástæða er til að stalda sérstaklega við þetta atriði, því að Chang tekur Ísland til dæmis (bls. 272):
Íslenska hagkerfið var ríkt fyrir en það fékk gríðarlega innspýtingu seint á tíunda áratugnum þegar stjórnvöld ákváðu að einkavæða fjármálageirann og lausbeisla hann. Milli áranna 1998 og 2003 einkavæddi landið banka í ríkiseign og fjárfestingasjóði og hunsaði jafnvel grundvallarregluverk um starfsemi þeirra, til dæmis kröfur um varasjóði banka. Í kjölfarið stækkuðu íslensku bankarnir með ævintýralegum hraða og leituðu sér viðskiptavina erlendis líka.
Þessi lýsing er ekki nákvæm. Þegar ríkisbankarnir íslensku voru seldir um síðustu aldamót, var eignarhaldi á þeim aðeins komið í sama horf og í grannríkjunum. Vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu störfuðu þeir við nákvæmlega sömu reglur og bankar annars staðar á svæðinu. Stjórnvöld hunsuðu engar reglur um varasjóði banka, heldur fóru dyggilega eftir þeim. Þegar losað var til dæmis um bindiskyldu, var það gert til þess að samræma starfsskilyrði íslenskra banka og keppinauta þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Rétt er líka að halda til haga, að lánsfjárbólan íslenska hófst samkvæmt hagtölum greinilega árið 2004, ekki fyrr.
Chang hefur rétt fyrir sér um það, að íslensku bankarnir uxu eftir á að hyggja of hratt og tóku of mikla áhættu. Bólan sprakk, og hvellurinn varð mikill. En á meðan aðrir bankar störfuðu við eina kerfisvillu, störfuðu hinir íslensku við tvær. Hin alþjóðlega kerfisvilla var, að ríkið, seðlabankar og fjármálaráðuneyti, tæki ábyrgð á bönkum, héldi þeim á floti í stað þess að leyfa þeim að sökkva, þegar þeir gætu ekki haldið sér uppi af sjálfsdáðum. Þetta olli óhóflegri áhættusækni: Bankarnir hirtu gróðann, þegar vel gekk, en létu ríkið sitja uppi með tapið, þegar illa gekk. Séríslenska kerfisvillan var, að rekstrarsvæði íslensku bankanna, allt Evrópska efnahagssvæðið, var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, Ísland eitt. Þess vegna hrundu allir íslensku bankarnir í einu. Þeir höfðu eins og bankar annars staðar tekið óhóflega áhættu, en íslenska ríkið, seðlabankinn og fjármálaráðuneytið, hafði ekki burði til að halda þeim öllum á floti og fékk (ef til vill sem betur fer) ekki aðstoð frá öðrum til þess.
Það var hins vegar ekki bót í máli, að eigendur íslensku bankanna höfðu lítið aðhald af sterku almenningsáliti og skilvirkum eftirlitsstofnunum. Í kaflanum um Ísland nefnir Chang sérstaklega útrásarvíkinginn Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann var ekki aðeins langstærsti skuldunautur allra íslensku bankanna (sem snarjók áhættu þeirra), heldur átti hann líka öfluga fjölmiðla og háværa talsmenn. Þegar Jón Ásgeir var ákærður fyrir margvísleg efnahagsbrot sumarið 2005, skrifaði Þorvaldur Gylfason prófessor í Fréttablaðið (7. júlí):
Áhlaup ríkisvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í fyrrasumar fór út um þúfur þegar forseti Íslands neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin. Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki? Kannski bara skortur á virðingu fyrir markaðsbúskap og meðfylgjandi valddreifingu og þá um leið fyrir nauðsynlegri aðgreiningu framkvæmdavaldsins, löggjafarvald og dómsvalds. Hver veit?
Jón Ásgeir var síðan sakfelldur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot, en sýknaður af mörgum öðrum ákæruatriðum eða þeim var vísað frá. Dómurinn yfir honum þótti óvenjuvægur, og má halda því fram, að við það hafi ekki dregið úr áhættusækni hans og annarra útrásarvíkinga. Þeir hafi talið sér flest leyfilegt.
Skáldið Þórarinn Eldjárn komst eitt sinn svo að orði, að það hafi ekki verið fyrr en eftir hrunið, sem allir sáu það fyrir. Mér er þó minnisstætt, þegar hinn kunni skoski sagnfræðingur Niall Ferguson sagði á hádegisverðarfundi Kaupþings sumarið 2007, að sér fyndust óþægilega mörg teikn á lofti svipuð þeim, sem sáust í aðdraganda heimskreppunnar miklu. En fáir voru sammála Ferguson. Hér á Íslandi varaði Davíð Oddsson, seðlabankastjóri 20052009, margsinnis við örum vexti bankanna. Hann sagði til dæmis á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: Hin hliðin á útrásinni er þó sú, og framhjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Hann bætti við: Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess, sem fært er að búa við til lengri tíma. Ég sat í bankaráði Seðlabankans 20012009 og get borið um, að Davíð var afdráttarlaus um þetta í einkasamtölum, þótt hann yrði starfs síns vegna að fara varlega opinberlega. Honum fundust bankarnir taka allt of mikla áhættu með hinum öra vexti sínum, en ekki síður með því að lána nátengdum aðilum stórfé (til dæmis fyrirtækjum með ólík nöfn og aðskildar kennitölur, en öllum í eigu fámenns hóps í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson). Raunar tekur Ha-Joon Chang undir þetta, þegar hann segir (bls. 273), að í ljós hafi komið, hversu skuggalegir fjármálagjörningarnir að baki efnahagsundrinu á Íslandi höfðu verið. En þar eð Chang vitnar á einum stað í bók sinni til Þorvaldar Gylfasonar prófessors (um framleiðnitölur), má rifja upp, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra 20072009, bar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu (8. bindi, bls. 140), að hún hefði í ráðherratíð sinni haft mikið samband við Þorvald, en hann hefði aldrei varað sig við neinni hættu í bankakerfinu.
Ha-Joon Chang telur Ísland hrunsins skólabókardæmi um afleiðingarnar af lausbeisluðum kapítalisma. Sönnu nær er, að Ísland hafi verið fórnarlamb alþjóðlegrar lánsfjárkreppu. Ég hef þegar nefnt hina alþjóðlegu kerfisvillu, áhættusækni banka vegna ábyrgðarleysis þeirra á eigin mistökum, en við hana bættust hagstjórnarmistök í Bandaríkjunum, til dæmis undirmálslánin á húsnæðismarkaði og ógætileg vaxtastefna seðlabankans. Kapítalismanum verður ekki kennt um þetta frekar en um jarðskjálftana í Tokíó 1923. Kreppan skall síðan fyrr og verr á Íslandi en öðrum löndum, og voru til þess fleiri ástæður en hin séríslenska kerfisvilla, sem ég hef þegar nefnt, miklu stærra rekstrarsvæði banka en baktryggingarsvæði þeirra. Viðbótarástæða var, að áhættan dreifðist á miklu færri aðila hér en annars staðar. Bankarnir voru aðeins þrír, og einn aðili skuldaði þeim hvorki meira né minna en eitt þúsund milljarða króna, eftir því sem næst verður komist. Þriðja ástæðan var, að þjóðin var orðin góðu vön. Samdráttur landsframleiðslu varð hér ekki miklu meiri en víða annars staðar: Hér varð hann 7% 2009, en í Eistlandi 14% og á Írlandi 5%. (Til samanburðar má nefna, að samdrátturinn í Finnlandi 1991 var 6% og 1992 3%.) Þjóðinni varð hins vegar miklu meira um lánsfjárkreppuna en öðrum. Hún tók hana afar nærri sér. Í huga hennar varð hrunið miklu stórkostlegra en efni stóðu til. Fjórða ástæðan var auðvitað, að Bretar beittu hryðjuverkalögum í því skyni að knýja íslenska ríkið til að greiða skuldir, sem það hafði ekki stofnað til. Það var áreiðanlega mörgum sálrænt áfall, auk þess sem það jók á erfiðleika Íslendinga.
Þetta merkir ekki, að kapítalisminn sé með öllu saklaus af lánsfjárkreppunni. Líklega er hann í eðli sínu óstöðugur (að minnsta kosti við brotaforðakerfi, fractional reserve banking). En ríkisvald skapar líka óstöðugleika. Stundum lendir ríkisvaldið jafnvel í höndum miskunnarlausra einræðisherra, sem höggva í stríðum sínum stór skörð í heilar kynslóðir, og má nefna Lenín, Hitler og Maó, en líka fyrr á öldum Lúðvík XIV. og Napóleon Bónaparte. Vesturlandabúar hafa ekki náð fullu valdi á nýrri fjármálatækni, svo sem afleiðum og skortsölu, en rétta ráðið er ekki að banna slíka tækni, eins og Ha-Joon Chang virðist vilja, heldur að finna nýjar leiðir til þess að samræma sérhagsmuni og almannaheill. Lækningin má ekki verða verri en meinsemdin. Það er einmitt einn meginkosturinn við frjálsan markað, að þar geta menn við margvíslegar kringumstæður (en ekki alltaf) unnið að almannahag, um leið og þeir keppa að eigin hag. Þetta felur ekki í sér, eins og Ha-Joon Chang staðhæfir, að stuðningsmenn hins frjálsa markaðar þurfi að lofsyngja eigingirni. En valt er að treysta á náungakærleik í skiptum ókunnugra manna, þótt það megi ef til vill gera í skiptum raunverulegra náunga, sem hafa samkennd hver með öðrum. Móðir vakir heila nótt yfir sjúku barni sínu án þess að telja það eftir sér. Daginn eftir kaupir hún bíl frá Kóreu, og það gerir hún ekki, vegna þess að henni þyki vænt um Kóreumenn, heldur af því að henni stendur til boða ódýrari eða vandaðri bíll þaðan en annars staðar. Hið mikla afrek markaðarins er hljóðlát og tiltölulega skilvirk samvinna fólks í öllum heimshornum, sem þekkir ekki hvert annað og hefur því síður samúð hvert með öðru, en leggur sig þó fram um að fullnægja þörfum hvers annars í frjálsum viðskiptum.
Bók Ha-Joon Changs er fjörlega skrifuð, þótt hann sé mjög ósanngjarn í garð kapítalisma, og margt er þar skarplega athugað. Höfundurinn bendir til dæmis á það, að ekkert sterkt samband er á milli menntunarstigs og hagvaxtar. Hann telur ekki heldur, að til sé sérstök auðlindabölvun (óskynsamleg hegðun þjóða, sem búa við gjöfulli auðlindir en aðrar). Hann tekur einnig undir það, sem Milton Friedman og fleiri hafa haldið fram, að ýmsir minnihlutahópar geti rétt hlut sinn á frjálsum markaði, því að viðskiptavinir spyrji ekki, hvernig bakarinn er á litinn, heldur hvernig brauðið er á bragðið. Ég hef hér aðeins skoðað nokkur atriði af þeim fjölmörgu, sem Chang nefnir, en stuðningsmenn hins frjálsa markaðar eiga vissulega að spreyta sig á að svara honum, þótt segja megi um bók hans: Það, sem er nýtt þar, er ekki gott, og það, sem er gott þar, er ekki nýtt.
2.3.2013 | 11:15
Íslensku ættarveldin
Ein meginkenningin í nýútkominni bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings, Íslensku ættarveldin. Frá Oddaverjum til Engeyinga, er, að nokkrar voldugar og auðugar ættir hafi stjórnað Íslandi frá öndverðu. Eitthvað er eflaust til í þessari kenningu, en hitt gerist líka stundum, að öflugir menn hafa styrk hver af öðrum, til dæmis Thors-bræður og Engeyjarbræður, og er þá ættarveldið frekar afleiðing af eðlilegum frama þeirra en orsök hans.
Margt hefur skemmtilegt verið sagt um íslenskar ættir. Guðrún Pétursdóttir frá Engey var eitt sinn beðinn um að lýsa sonum sínum og Benedikts Sveinssonar, sem lengi voru hér áhrifamiklir, sérstaklega Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, laukur Engeyjarættarinnar. Hún svaraði: Bjarni er stórgáfaður, Pétur stórskemmtilegur og Sveinn stór.
Pétur Benediktsson var tengdasonur Ólafs Thors forsætisráðherra, sem kunnastur var Thorsaranna. Dóttir Péturs (og dótturdóttir Ólafs) var alnafna ömmu sinnar. Guðrún Pétursdóttir hin yngri var mjög andvíg smíði ráðhúss við Tjörnina, sem hófst 1987, og bað þess vegna um viðtal við Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóra. Hún hóf viðtalið á að spyrja: Veistu, hverra manna ég er? Davíð svaraði: Já, ég veit það. En veistu, hverra manna ég er? Guðrún sagði: Nei. Davíð sagði þá: Þarna sérðu. Davíð ólst upp hjá einstæðri móður sinni og ömmu, tveimur fátækum konum. En hann var í framætt Briemari, skyldur Hannesi Hafstein, Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi og Gunnari Thoroddsen. Briemarar eru afkomendur Gunnlaugs Briems sýslumanns.
Margir frammámenn eru síðan af Reykjahlíðarætt, þar á meðal ráðherrarnir Haraldur Guðmundsson, Geir Hallgrímsson, Jón Sigurðsson (Alþýðuflokksmaður) og Áki Jakobsson. Sú ætt er komin af Jóni Þorsteinssyni, presti í Reykjahlíð í Mývatnssveit, sem sagði eitt sinn: Með Guðs hjálp hef ég komist yfir allar húsfreyjur í mínum sóknum nema tvær. Ættfræðingur einn, Haraldur Bjarnason, var einu sinni spurður um Reykjahlíðarættina. Svar hans varð fleygt: Það var einu sinni ungur bílstjóri í einni af fyrstu ferðum sínum úr Mývatnssveit til Húsavíkur. Hann ók fjórum sinnum út af og hvolfdi tvisvar, en hann hélt alltaf áfram. Það er Reykjahlíðarættin.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. desember 2012, sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er tilvalin tækifærisgjöf og fæst í öllum góðum bókabúðum.)
28.2.2013 | 14:27
Ritdómur minn um bók Styrmis Gunnarssonar
[Ég birti á dögunum ritdóm í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu um nýja bók Styrmis Gunnarssonar. Nálgast má dóminn á heimasíðu tímaritsins og hlaða honum niður sem pdf-skjali. En hér er textinn líka undir fyrirsögninni Varnarrit fyrir Geir Hallgrímsson:]
Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins 19722008, var áratugum saman einn áhrifamesti maður landsins. Hvort tveggja var, að Morgunblaðið réði þá sem nú miklu um skoðamyndun og að Styrmir var framan af þessum tíma handgenginn helstu forystumönnum stærsta stjórnmálaflokksins, Sjálfstæðisflokksins, einkum Geir Hallgrímssyni, forsætisráðherra 19741978 og utanríkisráðherra 19831985. Ég get borið um það, að Geir hafði miklar mætur á Styrmi. Við Geir snæddum saman á veitingastað í Lundúnum haustið 1981, þegar ég hafði nýhafið stjórnmálafræðinám í Oxford, og þá barst talið að því, hver gæti orðið eftirmaður hans sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Geir kvaðst þá helst kjósa Styrmi Gunnarsson. Þetta var auðvitað áður en Davíð Oddsson hafði endurheimt meiri hluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. En þessi vinarhugur var gagnkvæmur: Nýútkomin bók Styrmis, Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör, er heit, jafnvel ástríðufull vörn fyrir stjórnmálamanninn Geir Hallgrímsson.
Hvers vegna þarf að verja Geir Hallgrímsson? Vegna þess að í hinni hörðu valdabaráttu, sem hófst í Sjálfstæðisflokknum eftir óvænt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970, laut Geir í lægra haldi, er yfir lauk, þótt erfitt sé um leið að sjá, að einhver hafi sérstaklega sigrað hann. Helstu andstæðingar hans innan flokksins voru þeir Gunnar Thoroddsen og Albert Guðmundsson, en þeir voru samt engir sigurvegarar. Hvorugur þeirra var ánægður með sinn hlut, er þeir hættu stjórnmálaafskiptum. Líklega var þetta stríð, sem allir töpuðu. Í bók sinni heldur Styrmir því hins vegar fram, að Geir hafi verið stærstur í ósigri sínum. Hann hafi skilað Sjálfstæðisflokknum óklofnum til eftirmanns síns, og árangur flokksins í þingkosningunum 1983, á meðan hann var enn formaður, hafi verið prýðilegur. Hljóta sanngjarnir menn að taka undir þetta með Styrmi, hvar sem þeir eru í flokki.
Ég þekkti Geir Hallgrímsson vel, og mynd Styrmis Gunnarssonar af honum í þessari bók er hin sama og ég sá. Geir var geðþekkur maður, greindur, kurteis og málefnalegur, lítt gefinn fyrir að sýna eða ræða tilfinningar sínar, jafnvel feiminn, en ötull framkvæmdamaður, féglöggur og hagsýnn og hugsaði eftir hefðbundnum brautum. Hann var samt, eins og kemur fram í bók Styrmis, einlægur hugsjónamaður, sem hafði á æskuárunum lesið Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek og gerst andstæðingur sósíalisma og ríkisforsjár. Ungur maður hafði Geir gagnrýnt opinberlega haftabúskapinn, sem rekinn var á ábyrgð allra flokka. Leiðtogar sjálfstæðismanna, þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson, höfðu ekki þykkst við, heldur tekið þessari gagnrýni vel, enda voru þeir undir niðri sammála Geir. Ekki spillti fyrir, að Geir var sonur áhrifamanns í Sjálfstæðisflokknum, hins vinsæla og auðuga Hallgríms Benediktssonar heildsala, sem hafist hafði upp af sjálfum sér og orðið bæjarfulltrúi og alþingismaður.
Styrmir leitast í bók sinni við að sýna, að Geir hafi ekki aðeins verið góður maður, heldur líka góður stjórnmálamaður. Þótt ég hafi eins og Styrmir stutt Geir forðum í átökunum innan Sjálfstæðisflokksins, tel ég nú, þegar ég horfi um öxl, meiri vafa leika á um hið síðarnefnda. Þá sögu má segja frá mörgum hliðum, eins og Styrmir viðurkennir raunar sjálfur. Tómarúm var í Sjálfstæðisflokknum eftir fráfall Bjarna Benediktssonar. Gunnar Thoroddsen, vígfimur og þaulreyndur stjórnmálamaður, fimmtán árum eldri en Geir, kennari hans í lagaskóla og borgarstjóri, á meðan Geir var borgarfulltrúi, var nýsnúinn heim til Íslands og vildi hefja stjórnmálaþátttöku á ný. Jóhann Hafstein tók til bráðabirgða við forystu flokksins, en kjósa þurfti varaformann. Gunnar hafði verið varaformaður 19611965 og bauð sig nú fram, en Geir ákvað að gera hið sama og felldi Gunnar með naumum meiri hluta. Hvers vegna þurfti Geir að gera það? Gat hann ekki beðið? Skýringar Styrmis á því nægja sennilega fæstum. Voru hér ekki tveir metnaðarfullir menn að keppa um völd, og gat hvorugur unnt hinum varaformannssætisins? Og var ekki eðlilegra, að eldri maðurinn og reyndari fengi fyrst að spreyta sig? Þótt það komi þessu ef til vill ekki við, er fróðlegt minnisblað, sem Styrmir birtir, þar sem fram kemur, að þeir Ingólfur Jónsson á Hellu og Magnús Jónsson frá Mel hafi orðið því linari í stuðningi við Geir fyrir landsfundinn 1971 sem Gunnar virtist hafa meira fylgi. Sigurinn á hundrað feður, en ósigurinn er munaðarlaus.
Geir Hallgrímsson var óneitanlega í sterkri aðstöðu í upphafi þessara átaka. Hann var ekki öðrum háður um afkomu sína og í vinfengi við marga auðugustu menn landsins. Sjálfur var hann stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins, Árvakurs, og hafði sér til fulltingis mikilhæfa dugnaðarforka eins og Styrmi og Matthías Johannessen, hinn ritstjóra Morgunblaðsins, sem báðir reyndust honum hið besta. Þrír síðari formenn Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, stunduðu ungir störf á Morgunblaðinu. Fjörutíu árum síðar má spyrja: Hefðu þeir verið ráðnir, hefðu þeir ekki verið í liði Geirs? Aðstöðunni á Morgunblaðinu fylgdu áhrif og óbein völd. Því má skjóta hér inn, að einn af mörgum óvæntum fróðleiksmolum í bók Styrmis er, að Þorsteinn Pálsson hafi, eftir að hann var ráðinn ritstjóri á Vísi og nokkrir blaðamenn gengu út, leitað til Styrmis um að lána sér blaðamann, og þá hafi Styrmir ekki treyst öðrum til þess en Geir H. Haarde, sem þá vann á blaðinu. Hvað sem því líður, var eflaust ein meginástæðan til mikils fylgis Geirs í upphafi innan Sjálfstæðisflokksins, að í borgarstjórnarkosningunum 1970 hafði flokkurinn haldið meiri hluta sínum í borgarstjórn, þótt hann stæði höllum fæti í landsmálum eftir kreppuna 19671968. Gunnar Thoroddsen hefði að vísu átt það svar, að flokknum hefði líka gengið vel og jafnvel betur í borgarstjórnarkosningum undir sinni forystu, 1950, 1954 og 1958.
Ljóst er af þessari bók, að Sjálfstæðisflokkurinn var Styrmi Gunnarssyni og Geir Hallgrímssyni hjartans mál. Þeir hugsuðu og töluðu um flokkinn af allt að því trúarlegri lotningu. Í augum þeirra var hann í senn baráttuafl og bakhjarl. Líklegasta skýringin er sú, sem Styrmir gefur sjálfur, að margir töldu kalda stríðið háð upp á líf eða dauða. Hér á landi starfaði öflugur sósíalistaflokkur, sem stóð í nánum tengslum við einræðisríki kommúnista í Austur-Evrópu. Víglínan lá um hjarta hvers manns, eins og Sigfús Daðason orðaði það. Biðu Íslands sömu örlög og Eistlands, sem varð sjálfstætt ríki sama ár, 1918? Eða Kúbu, sem var eyland fjarri Rússlandi eins og Ísland? Hámarki náði þessi barátta 30. mars 1949, þegar Sjálfstæðisflokkurinn skipulagði varalið við hlið lögreglu til að verjast áhlaupi sósíalista á Alþingishúsið. Styrmir hefur líklega rétt fyrir sér, þegar hann segir eitt merkasta framlag Geirs Hallgrímssonar til stjórnmálasögunnar (og þá um leið Styrmis sjálfs) hafa verið að hvika aldrei frá samstarfi við vestræna bandamenn þrátt fyrir átökin í landhelgismálinu, sem sósíalistar reyndu óspart að nýta sér. Skemmtilegt er einnig að lesa minnisblöð Styrmis frá fundi Geirs Hallgrímssonar og Harolds Wilsons í Chequers, sveitasetri breska forsætisráðherrans. Í hádegisverði þar tóku breskir ráðamenn hraustlega til drykkjar síns. Það var því ef til vill ekki að furða, að íslensku gestunum þótti létt yfir Wilson og utanríkisráðherra hans, James Callaghan.
Þótt verk Styrmis Gunnarssonar sé vissulega varnarrit fyrir Geir Hallgrímsson, er höfundur ekki blindur á trúnaðarvin sinn, en orðar alla gagnrýni varlega. Eitt dæmi er prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir þingkosningar 1983, þar sem Albert Guðmundsson lenti í fyrsta sæti og Geir, formaður flokksins, í sjöunda sæti. Styrmir rifjar upp, að fast hafi verið lagt að Geir að breyta prófkjörsreglum svo, að kjósendur tölusettu frambjóðendur í stað þess að krossa aðeins við þá. Geir hafi hins vegar verið ófáanlegur til þess. Í þessu máli var framkoma Geirs sjálfskæð (self-defeating, eins og Bretar segja). Hann lagði andstæðingi sínum vopnin upp í hendurnar. Albert var vinsæll maður, svo að fleiri voru reiðubúnir að kjósa hann en Geir, en ekki hefðu allir kjósendur Alberts samt viljað fá hann í fyrsta sæti. Fullyrða má, að Geir hefði við tölusetningu fengið flest atkvæði frambjóðenda í fyrsta sæti (því að nánast allir kjósendur hans hefðu sett hann í það sæti). Hann hefði ef til vill ekki fengið góða kosningu, en hann hefði ekki hlotið herfilega útreið. Úrslit prófkjörsins mörkuðu endalok stjórnmálaferils Geirs, þótt það tæki hann nokkurn tíma að viðurkenna það. Annað dæmi er, að Geir lét í formannstíð sinni jafnan kjósa í þingflokki sjálfstæðismanna um ráðherraefni flokksins í stað þess að kanna hug þingmanna og gera síðan tillögu til þingflokksins um fulltrúa hans í ríkisstjórn. Þannig missti Geir vald á atburðarásinni, og úr varð vandræðagangur, þar sem hver otaði sínum tota. Í Geir bjó sterk tilhneiging til þess að treysta því, að einhverjir aðrir leystu úr erfiðum málum. En lífið býður sjaldnast upp á slíka undankomuleið.
Ein stærstu mistök Geirs Hallgrímssonar voru að grípa ekki í taumana eftir hina óraunhæfu sólstöðusamninga 1977. Ekki kemur nógu skýrt fram í bók Styrmis, hver meginástæðan var: Geir treysti helsta efnahagsráðgjafa sínum, Jóni Sigurðssyni hjá Þjóðhagsstofnun, sem hafði reiknað út, að samningarnir fengju hugsanlega staðist. Þetta var þvert á það, sem dr. Þráinn Eggertsson hagfræðingur, síðar prófessor, taldi í skorinorðri grein í Vísi þetta ár. Geir hafði rök Þráins að engu. Honum fannst þægilegt að trúa sérfræðingum, sérstaklega ef þeir sögðu honum, að ekkert þyrfti að gera. Hann áttaði sig ekki heldur á því, þótt honum væri margbent á það, að Jón Sigurðsson var Alþýðuflokksmaður af lífi og sál, bróðursonur Haraldar Guðmundssonar ráðherra og fór sjálfur í framboð nokkrum árum síðar. Annað dæmi um tregðu Geirs Hallgrímssonar til að hrifsa til sín frumkvæði með snöggum útleikjum er, að hann skyldi ekki krefjast þess að fá að mynda minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, eftir að vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar sprakk í árslok 1979. Gunnar Thoroddsen vildi slíka minnihlutastjórn, og hefði raunar verið snjallt að leiða hann þar í forsæti. Þá hefði metnaði Gunnars hugsanlega verið fullnægt. En þess í stað var mynduð minnihlutastjórn Alþýðuflokksins með hlutleysi Sjálfstæðisflokksins, og uppnám varð innan Sjálfstæðisflokksins.
Styrmir Gunnarsson nefnir í bók sinni Leiftursókn gegn verðbólgu, sem var yfirskrift kosningastefnuskrár Sjálfstæðisflokksins 1979. Hann hefur það eftir Þorsteini Pálssyni, að höfundur hennar hafi verið Jónas H. Haralz hagfræðingur, og er það rétt. Hitt hefði mátt fljóta með, að sjálfur samdi Þorsteinn Pálsson yfirskriftina, en það var umfram allt hún, sem fældi kjósendur frá flokknum. Þótti orðið leiftursókn minna um of á hernaðarbrölt Adolfs Hitlers. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði kosningabaráttunni 1979. Hann fór þá ekki að ráðum þaulvanra kosningastjóra: Þegar vel gengur í skoðanakönnunum, þá á umfram allt að reyna að halda í fylgið og fara varlega. Ef illa gengur, þá getur hins vegar verið rétt að bjóða upp á afdráttarlausari stefnu, því að þá er eitthvað að vinna, en ekki aðeins einhverju að tapa. En afleiðingin af hinum smáa sigri Sjálfstæðisflokksins 1979 (sem var í raun ósigur miðað við aðstæður) var, að Gunnar Thoroddsen eygði möguleika til að mynda stjórn með sér í forsæti. Stjórnarmyndun hans var enn einn áfanginn á niðurleið Geirs Hallgrímssonar. Styrmir hefur hins vegar eflaust rétt fyrir sér um það, að sá stóri munur var á Geir og Gunnari, að Geir hefði aldrei getað hugsað sér að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, jafnvel þótt hann hefði orðið undir í glímu þeirra tveggja, en Gunnar gældi áreiðanlega við þá hugmynd. Gunnar var vissulega ekki skoðanalaus, en Geir hafði miklu sterkari stjórnmálasannfæringu og var reiðubúinn til að fórna einhverju fyrir hana.
Margt er fróðlegt í bók Styrmis Gunnarssonar. Eitt dæmi er af aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1982. Styrmir segir, að þá snemma árs hafi einn þingmaður Alþýðubandalagsins, Ólafur Ragnar Grímsson, boðið Albert Guðmundssyni að verða borgarstjóri í samstarfi við vinstri flokkana, færi hann fram með sérlista eða klyfi sig frá Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Davíð Oddsson hafði þá í prófkjöri unnið fyrsta sætið á lista flokksins, en Albert hafnað í þriðja sæti. Talið var líklegt, að vinstri flokkarnir misstu þann meiri hluta, sem þeir höfðu unnið í kosningunum fjórum árum áður. Við þetta boð Ólafs Ragnars færðist Albert allur í aukana innan Sjálfstæðisflokksins, og hefur Styrmir eftir Ingólfi Jónssyni frá Hellu, sem hafði þá nýlega hitt Albert: Harkan í manninum er slík, að það er eitthvað í þessu máli, sem við ekki vitum. Hér get ég þó bætt því við, að Davíð Oddsson sá við Albert. Hann vissi vel, að Albert myndi eftir hugsanlegan sigur sjálfstæðismanna reyna að ná frekari völdum og vegtyllum í borgarstjórn með hótunum og afarkostum. Þegar setja átti saman framboðslistann fyrir kosningar og Davíð lét ekki undan öllum kröfum Alberts, kvaðst Albert ekki taka sæti á listanum. Þá sagði Davíð hinn rólegasti: Ef þú ferð af listanum, Albert, þá hef ég tryggt, að Birgir Ísleifur Gunnarsson tekur þitt sæti, þriðja sætið. En jafnvel þótt þú farir af listanum, Albert, þá vona ég, að þú haldir áfram að koma á árshátíðina hjá okkur í Varðarfélaginu. Þá glúpnaði Albert og hætti við að fara af listanum. Gert var skriflegt samkomulag við hann um, að við sigur Sjálfstæðisflokksins yrði hann forseti borgarstjórnar með þeim venjulegu réttindum og skyldum, sem fylgja þeirri stöðu.
Styrmir segir í bók sinni frá því, að Geir Hallgrímsson hafi sumarið 1982 kallað þá Þorstein Pálsson og Davíð Oddsson á sinn fund (og Kjartans Gunnarssonar, þáverandi framkvæmdastjóra) til að skýra þeim frá því, að hann myndi ekki gefa kost á sér til formanns á landsfundi flokksins 1983 og að hann vildi annan hvorn þeirra sem eftirmann. Tók Geir þó fram, að hann teldi Davíð sigurstranglegri. Síðan hefur Styrmir eftirfarandi eftir Steinari J. Lúðvíkssyni, sem rætt hafði við Þorstein: Í viðræðum Þorsteins og Davíðs lagði Þorsteinn það til, að Davíð færi í framboðið og taldi, að hann sem borgarstjóri ætti meiri möguleika á sigri. Niðurstaðan varð samt sú, að Þorsteinn færi fram, enda taldi Davíð sig hafa ærinn starfa við stjórn Reykjavíkurborgar. Þessa sögu kann ég öðru vísi. Geir lagði málið fyrir þá Þorstein og Davíð á tveimur fundum. Þegar Þorsteinn þagði, en gerði ekki tillögu um Davíð, ákvað Davíð að gera tillögu um Þorstein, enda taldi hann sig þurfa að einbeita sér að borgarmálum. Þeir Þorsteinn og Davíð voru líka gamlir vinir, nánast fóstbræður. Það kom Davíð síðan mjög á óvart, þegar Þorsteinn lagði til við landsfund sjálfstæðismanna 1983 eftir að hafa borið sigurorð af Friðrik Sophussyni og Birgi Ísleifi Gunnarssyni í formannskjöri, að landsfundarmenn kysu Friðrik sem varaformann, ekki Davíð. Hafði Þorsteinn ekki rætt þetta við Davíð. Eftir það taldi Davíð sig ekki eins skuldbundinn Þorsteini og ella. Hann bauð sig fram til varaformanns 1989, í óþökk Þorsteins, þótt fátt væri sagt, og síðan til formanns 1991 og felldi þá Þorstein. Ein ástæðan til þess, að margir fylgdu Davíð þá, var, að þeir höfðu séð, hvernig Þorsteini hafði mistekist að halda saman stjórn 19871988. Hann virtist ekki geta unnið með forystumönnum annarra flokka.
Bók Styrmis Gunnarssonar um átökin í Sjálfstæðisflokknum 19701991 er barmafull af fróðleik, oft óvæntum. Hún er lipurlega skrifuð og um mikil og hörð átök, sem öll þjóðin fylgdist með agndofa. Hún er líka merkileg söguleg heimild. Ég fann engar stórar villur í henni. Höfundur er sanngjarn og beiskjulaus, og vörn hans fyrir trúnaðarvin sinn er vel af hendi leyst, þótt ekki verði allir sammála honum.
26.2.2013 | 11:19
Bókum liggur ekki á
Fyrir skömmu sat ég kvöldverð með nokkrum gömlum vinum, óljúgfróðum og langminnugum. Einn þeirra hafði haft nokkur kynni af Tómasi skáldi Guðmundssyni, sagði margar sögur af honum og hafði eftir honum viturleg ummæli. Ein hljóðuðu svo: Bókum liggur ekki á. Með þessu brýndi Tómas fyrir viðmælanda sínum, hversu mikilvægt er að vanda til bóka, leyfa þeim að þroskast og vaxa í huga sér, velta fyrir sér efnistökum og söguþræði, velja verkinu og einstökum köflum þess hæfileg heiti, hafa (eins og sagt var um höfund Njálu) síðustu setninguna í huga, þegar hin fyrsta er sett á blað, skrifa og endurskrifa, uns stíllinn er orðinn þróttmikill og blæbrigðaríkur og þó tilgerðarlaus, en ekki hröngl af slitnum orðum og sljórrar merkingar. Sjálfur hef ég lært af hverri einustu bók, sem ég hef sett saman eða ritstýrt.
Þessi kunningi Tómasar skálds var ungur maður, þegar þeir töluðu hvað mest saman, og eindreginn sjálfstæðismaður. Tómas hafði að vísu sömu stjórnmálaskoðun, en sagði: Ungi maður, heimurinn er ekki í svörtu og hvítu, eins og þú heldur. Hann er í miklu fleiri litum. Og mennirnir eru ekki algóðir eða alvondir. Allir hafa eitthvað til síns máls. Síðan þagnaði hann smástund og læddi síðan út úr sér grafalvarlegur: Nema auðvitað framsóknarmenn.
Talið barst að deilunum um ævisögu Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson, en hún kom út í þremur bindum 19611964. Óhætt var að segja, að Reykvíkingar stæðu á öndinni yfir verkinu, sem skrifað var af ástríðufullri aðdáun á Hannesi. Stúdentafélag Reykjavíkur hélt fjölmennan fund 22. janúar 1964 um ritið, sérstaklega þó deilurnar um uppkastið 1908, og var annar framsögumaðurinn Sigurður A. Magnússon, heitur aðdáandi Hannesar. Í almennum umræðum sló í brýnu milli Sigurðar og eins fundarmanna, Sveins Benediktssonar, en faðir hans, Benedikt Sveinsson, hafði verið einn helsti andstæðingur Hannesar í uppkastsmálinu. Viðmælandi minn í kvöldverðinum hafði ekki verið á fundinum, enda þá aðeins sextán ára. En hann heyrði einn áheyrandann, Pál Líndal, lýsa orðasennu þeirra Sigurðar og Sveins eftirminnilega: Þar fór grautur í kringum heitan kött! Grauturinn var Sigurður, sem er með afbrigðum óskýr í máli, en heiti kötturinn Sveinn, sem var á fundinum hinn reiðasti.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2012. Ég ætti að bæta því við, að nýútkomin er bók eftir Gunnar Þór Bjarnason um uppkastið 2008. Fær hún góða dóma, og hlakka ég til að lesa hana.)
25.2.2013 | 19:08
Ættarmetnaður og ættardramb
Mér varð hugsað til margra sagna um ættarmetnað og ættardramb, þegar ég las nýlega fróðlega bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um Íslensku ættarveldin. Frá Oddaverjum til Engeyinga.Ein sagan er af forngríska skósmiðssyninum Ifíkratesi, sem gerðist herforingi og lést 348 f. Kr. Þegar ættstór maður, afkomandi hetjunnar Harmodíosar, hæddist að honum fyrir smátt ætterni, svaraði Ifíkrates: Ættarsaga mín hefst með mér, en þinni lýkur á þér.
Einn marskálkur Napóleons keisara, Nicolas-Jean de Dieu Soult, sem uppi var 1769 til 1851, fékk hertoganafnbót og á að hafa svarað spurningu háaðalsmanns af gömlum og tignum ættum, Mathieus J.F. de Montmorencys hertoga, um ættfeður sína: C'est nous qui sommes des ancêtres, það erum við, sem erum ættfeðurnir.
Oft hefur líka verið vitnað til vísu norska skáldsins Henriks Ibsens, sem Matthías Jochumsson þýddi:
Það gefur ei dvergnum gildi manns,
þótt Golíat sé afi hans.
Þorsteinn Sölvason kennari frá Gafli í Svínadal orti um einn dótturson Bólu-Hjálmars, sem honum þótti ekki standa undir ætterninu:
Sé ég nú, að satt er það,
sem að forðum skáldið kvað.
Það gefur ei dvergnum gildi manns,
þótt Golíat sé afi hans.
Ég hef þegar sagt frá orðaskiptum Magnúsar Torfasonar sýslumanns og Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, sem báðir voru afkomendur Finns biskups Jónssonar. Magnús stærði sig af því að vera kominn af Finni í beinan karllegg, og minn er göfugri. Jón var kominn af Finni í kvenlegg og svaraði: En minn er vissari.
Fræg eru líka ummæli Jóns Jacobsons landsbókavarðar, sem uppi var 1860 til 1925 og taldi sjálfan sig ættstóran: Það er ekki nema einn Íslendingur ættgöfugri en ég. Það er Helga, dóttir mín, því hún er af ætt konunnar minnar líka. Móðir Helgu og kona Jóns, Kristín Pálsdóttir, var af Vídalínsætt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2012.)
16.2.2013 | 12:52
Höggstokkur í stað gálga
Fyrir nokkru hélt ég því hér fram, að munurinn á ensku og bandarísku byltingunum annars vegar og frönsku og rússnesku byltingunum hins vegar væri, að hinar fyrrnefndu hefðu heppnast, en hinar síðarnefndu ekki. Örn Ólafsson bókmenntafræðingur andmælti mér um frönsku byltinguna. Þar hefði yfirstéttin verið svipt forréttindum sínum. Örn horfir fram hjá því, að sums staðar hefur tekist að afnema forréttindi án teljandi blóðsúthellinga. Frönsku byltingunni lauk hins vegar með ógnarstjórn Maximiliens Robespierres og síðan valdaráni Napóleons Bonaparters.
Margt hefur hins vegar verið sögulegt sagt um frönsku byltinguna. Fræg eru til dæmis orð Edmunds Burkes þegar árið 1790, fyrir daga ógnarstjórnarinnar: In the groves of their academy, at the end of every vista, you see nothing but the gallows. Í skógarrjóðrum þessara skólaspekinga, alls staðar þar sem út fyrir sést, ber gálga við himin.
Spádómur Burkes rættist, nema hvað byltingarmennirnir tóku upp fljótvirkari aftökuvél en gálga, fallöxina. Þegar ein byltingarkonan, frú Roland, var leidd á höggstokkinn 8. nóvember 1793, var hún hvítklædd og með sítt, svart hár, slegið. Hún sneri sér að styttu af frelsisgyðjunni og mælti: Ô liberté! Ô liberté! Que de crimes on commet en ton nom! Frelsi, ó, frelsi! Hversu margir glæpir hafa verið framdir í nafni þínu! Annar byltingarmaður, Pierre Vergniaud, sem einnig lét lífið á höggstokknum, sagði, að byltingin æti börnin sín, og hefur oft verið til þeirra orða verið vitnað síðan.
Hannes Pétursson orti um leið drottningarinnar frönsku, Marie Antoinette, á aftökustaðinn:
Er von hún skilji að allur þessi æsti
óhreini lýður, þetta grimma vopn
sem blikar þarna blóðugt, óseðjandi
sem bölvað skrímsli, sáir dauða og kvöl
sé hvítur draumur hugsuðanna, framtíð
hollari betri og eina völ
en hitt sem nú skal rifið upp með rótum;
hið rotna stjórnarfar og mikla böl
sé hún sem yfir hópinn orðlaus starir
hrein og föl.
Hér áttu líka við orð Halldórs Kiljans Laxness í Kristnihaldi undir Jökli, þegar hann talaði um hina hörundslausu tröllskessu Byltíngu sem vildi mannblót.
3.2.2013 | 17:17
Ef landráðin hafa heppnast
Hvað sem því líður, rifjaðist við þetta upp fyrir mér vísa, sem Magnús Ásgeirsson þýddi fyrir löngu:
Af landráðum vex ekki vegsemd! Hve verður það sannað?
Ef landráðin hafa heppnast, þá heita þau annað.
Í ritsafni Magnúsar, sem Kristján Karlsson bókmenntafræðingur gaf út fyrir Helgafell 1975, er þessi vísa sögð eftir ókunnan höfund.
Hún er hins vegar augljóslega eftir enska aðalsmanninn og skáldið Sir John Harington, sem orti í Epigrams árið 1618:Treason doth never prosper, whats the reason?
For if it prosper, none dare call it treason.
23.12.2012 | 08:37
Hlutdrægni Ríkisútvarpsins
Mín gamla vinkona Jóhanna Hjaltadóttir sagðist í viðtali á dögunum ekki vita um neina rökstudda gagnrýni á Ríkisútvarpið fyrir hlutdrægni.
Ég skal nefna eitt skýrt dæmi. Það er ekki, að í Speglinum hefur síðustu árin verið rætt margsinnis við alla prófessorana í stjórnmálafræði nema einn, og þarf ég ekki að heita verðlaunum fyrir rétta svarið við því, hver sá eini er.
Dæmið er miklu betra. Í fréttum Sjónvarpsins af Icesave-málinu var alltaf talað um Icesave-skuldina. Jafnvel þau Jóhanna og Steingrímur viðurkenndu ekki neina slíka skuld, heldur aðeins kröfu Breta á hendur okkur, sem við yrðum hugsanlega að verða við, ef þeir neyttu aflsmunar.
Eini íslenski aðilinn, sem ég veit um, að viðurkenndi þessa kröfu Breta, var Ríkisútvarpið með því að tala alltaf um Icesave-skuldina, en ekki um Icesave-kröfuna, sem hefði verið tiltölulega hlutlaust orðalag.
Þetta var engin skuld. Þetta var krafa.