Baráttudagar

Komin er út stórfróðleg bók eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing, Búsáhaldabyltingin: sjálfsprottin eða skipulögð? Kemst höfundur að þeirri niðurstöðu, að „búsáhaldabyltingin“, eins og óeirðirnar veturinn 2008–2009 eru oft kallaðar, hafi verið hvort tveggja, sjálfsprottin og skipulögð. Margir hafi mótmælt bankahruninu af eigin hvötum og í fyllsta sakleysi, en ýmsir forystumenn Vinstri grænna aðstoðað óeirðaseggi, sem sátu um Alþingishúsið, meðal annars með því að veita þeim upplýsingar símleiðis innan úr húsinu.

Bókin leiðir hugann að tvennum hörðustu átökum tuttugustu aldar, Gúttóslagnum 9. nóvember 1932 og árásinni á Alþingishúsið 30. mars 1949. (Gúttó hefur nú verið rifið, en það stóð, þar sem nú eru bílastæði þingmanna, milli Alþingishússins og Vonarstrætis.) Líklega er hið sama að segja um þessi átök og búsáhaldabyltinguna: þau voru í senn sjálfsprottin og skipulögð. Munurinn er þó sá, að í Gúttóslagnum 1932 tapaði lögreglan fyrir kommúnistum, en henni tókst 1949 að hrinda árásinni á Alþingishúsið með aðstoð sjálfboðaliða, hvítliðanna svokölluðu. Eftir Gúttóslaginn lágu flestir lögregluþjónar bæjarins óvígir, eins og formaður kommúnistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason, skrifaði sigri hlakkandi í skýrslu til Moskvu. Mörgum var minnis stætt, þegar Hermann Jónasson, þá lögreglustjóri í Reykjavík, kallaði til kommúnista inni í Gúttó, eftir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru sloppnir úr húsinu: „Ykkar augnablik er liðið!“

Ein frægustu ummælin í götubardaganum 1949 átti þingmaður Sósíalistaflokksins, Katrín Thoroddsen læknir, þegar hún sá hvítliða þramma úr þingflokksherbergi Framsóknarflokksins út á Austurvöll: „Þetta er í fyrsta skipti, sem ég sé myndarlega menn koma út úr þessu herbergi.“

Frá sögulegu sjónarmiði séð stendur búsáhaldabyltingin á milli Gúttóslagsins og árásarinnar á Alþingishúsið. Þar tapaði lögreglan ekki eins og 1932, en sigur hennar var miklu naumari en 1949, og mátti engu muna, enda hrökklaðist frá ríkisstjórn, og datt þá allt í dúnalogn. En líklega verða fleygustu ummæli búsáhaldabyltingarinnar talin frá Álfheiði Ingadóttur, þá alþingismanni, er hún æpti að lögreglumanni, sem varði ráðherra fyrir ofbeldisseggjum: „Já, farðu bara, lífvarðatitturinn þinn, sem eltir ráðherraræfil alla daga!“ 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2013.)


Sögur úr kosningum

Margt getur skemmtilegt gerst í kosningabaráttu. Magnús Óskarsson, sem lengi var borgarlögmaður, sagði sögu af ónefndum frambjóðanda, sem reytti af sér brandara á kjósendafundi. Einn fundargesturinn var andstæðingur hans og kallaði fram í: „Það nægir ekki að segja hér brandara. Það geta allir gert!“ Ræðumaður svaraði að bragði: „Segðu þá einn!“ Þá varð fundargesturinn orðlaus. Sagan mun komin frá Danmörku, og ræðumaðurinn var Klaus Berntsen úr Vinstri flokknum.

Sigurður Grímsson var ungur lögfræðingur, sem fá átti í framboð fyrir Alþýðuflokkinn 1923. Hann fór til gamalreynds áróðursmanns flokksins, Ólafs Friðrikssonar, kvaðst vera óvanur ræðuhöldum og spurði, hvernig hann skyldi bregðast við frammíköllum á fundum. Ólafur svaraði: „Blessaður vertu, það er enginn vandi. Þú hefur það bara eins og ég einu sinni á fundi. Það byrjaði einhver að kalla fram í. Ég hvessti þá á manninn augun og hrópaði á móti: Þú varst ekki svona borubrattur forðum, þegar þú grést úti í Viðey! Maðurinn snarþagnaði og varð jafnvel skömmustulegur á svipinn. Ég er viss um, að hann hefur aldrei komið út í Viðey.“

Einn flokksbróðir þeirra Sigurðar Grímssonar og Ólafs Friðrikssonar, rithöfundurinn Guðmundur G. Hagalín, kunni líka ísmeygilegar áróðursbrellur. Lengi fram eftir 20. öld skiptist Alþingi í efri og neðri deild, og réð tilviljun, í hvora þeirra þingmenn settust. En Hagalín gerði sér fyrir kosningarnar 1933 ferð til aldraðra hjóna á Ísafirði, sem ætíð höfðu kosið sjálfstæðismanninn Jón Auðun Jónsson (föður Auðar Auðuns). Eftir að Hagalín hafði lokið úr kaffibollanum, leit hann á hjónin og sagði alvörugefinn: „Það er ljótt með hann Jón ykkar Auðun. Hann er búinn að vera tíu ár á þingi fyrir ykkar tilstilli og er enn ekki kominn upp í efri deild!“ Þetta fannst hjónunum lök frammistaða og kusu þann frambjóðanda, sem Hagalín mælti með.

Ári síðar voru aftur kosningar á Íslandi. Þá flutti kommúnistaleiðtoginn Brynjólfur Bjarnason innblásna ræðu á kjósendafundi á Ísafirði um, hvernig hér yrði fyrirmyndarríki og gósenland eftir valdatöku kommúnista. Þegar Brynjólfur lauk ræðu sinni, gall við í Hagalín: „Hallelúja!“ Allur salurinn hló. Fundargestir sögðu Hagalín, að þetta hefði verið stysta og skýrasta kosningaræða, sem þeir hefðu heyrt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2013, á kjördag.)


Erfitt verkefni nýrrar stjórnar

Erfiðasta verkefni hinnar nýju stjórnar verður að ná tökum á ríkisfjármálum, sem hafa farið gersamlega úrskeiðis síðustu fjögur árin. Vinstri stjórnin sparaði hvergi, svo að heitið gæti, heldur frestaði aðeins framkvæmdum, vanrækti nauðsynlegt viðhald eigna og ýtti þannig vandanum á undan sér. Uppsafnaður halli ríkissjóðs er stórkostlegur, eins og dr. Birgir Þór Runólfsson bendir á.

Jafnframt eyddi vinstri stjórnin milljörðum í gæluverkefni eins og stjórnlagaþingið og aðlögunarferlið til undirbúnings aðild að Evrópusambandinu.

Seðlabankinn segir nú, að Íslendingar eigi ekki nægan gjaldeyri til að greiða af skuldum næstu misserin, þótt hann hefði sagt á sínum tíma, að við réðum við báða Icesave-samningana! Það er alvarlegt áhyggjuefni.

Eina færa leiðin út úr vandanum er hagvöxtur. En hann er nú lítill sem enginn. Eistlendingar urðu fyrir miklu áfalli í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, gengu miklu harðar fram í raunverulegum aðhaldsaðgerðum í ríkisrekstri, og nú er vöxtur að færast þar í atvinnulífið. 

Minnka þarf ríkið og örva vöxt atvinnulífsins.


Með eiturörvar í hjartastað

Skömmu eftir að Jón Trausti féll úr spánsku veikinni haustið 1918, lét Jón Stefánsson, bóndi að Hreiðarsstöðum í Fellahreppi í Norður-Múlasýslu, svo um mælt við Guðmund G. Hagalín: „Það er þjóðinni til ævarandi skammar, að þjóðskáldið Jón Trausti skyldi deyja með eiturörvar í hjartastað.“ Jón Trausti hafði oft sætt árásum drýldinna skólamanna, enda sjálfmenntaður og vandaði ekki alltaf stíl sinn sem skyldi, þótt hann bæri af um sköpunarmátt og frásagnargleði.

Halldór Kiljan Laxness þáði margar hugmyndir af Jóni Trausta. Til dæmis er sagan um reiðferð Bjarts á Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki sótt beint í smásögu eftir Jón Trausta í Eimreiðinni 1906. Sjálf hugmynd Kiljans um að semja skáldsögu um líf fólks á heiðinni er líklega upphaflega komin frá Jóni Trausta, þótt Kiljan útfæri hana allt öðru vísi.

Þórbergur Þórðarson þáði líka hugmyndir af Jóni Trausta. Hann sagði til dæmis 1925 í deilu við Árna Sigurðsson fríkirkjuprest: „Kristur endaði ævi sína á krossi. Þér endið ævi yðar með krossi.“ Þessi snjalla líking er komin beint úr smásögu í Eimreiðinni 1915 eftir Jón Trausta, þegar prestur einn mótmælir prófastinum og minnir í því sambandi á Krist: „Hann bar sinn kross — ekki á brjóstinu, eins og prófasturinn þarna, heldur á blóðugu bakinu.“

Jón Trausti, sem hét réttu nafni Guðmundur Magnússon, var eindreginn andstæðingur jafnaðarmanna. Í skáldsögunni Bessa gamla frá 1918 kvað hann kjörorð jafnaðarmanna vera: „Upp með dalina! Niður með fjöllin!“ Í smásögunni „Kappsiglingunni“, sem kom á prent 1909, sagði hann: „Þeir sigra ekki alltaf miklu mennirnir, oddborgararnir, — ekki alltaf. Einokunaröldin er um garð gengin. Nú er öld samkeppninnar og hins frjálsa mannjafnaðar.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. apríl 2013.)


Myndband af mér í Brasilíu

Hin síðari misseri hef ég jafnan dvalist nokkra mánuði á ári í Rio de Janeiro í Brasilíu, þar sem ég er í rannsóknarsamstarfi við nokkrar stofnanir, meðal annars um grænan kapítalisma og um hagþróun í BRIK-löndunum. Mér var boðið að flytja fyrirlestur í Porto Alegre 9. apríl síðast liðinn á frelsisráðstefnu, sem var að þessu sinni helguð hugmyndum franska rithöfundarins Frederics Bastiats (sem hafði mikil áhrif á séra Arnljót Ólafsson, höfund fyrsta hagfræðiritsins á íslensku, Auðfræði, eins og sér víða stað í þeirri bók). Ég talaði á ensku, en hóf fyrirlesturinn og lauk  honum á portúgölsku. Hér er myndband af framlagi mínu:

 


Ógleymanleg heimsókn

Ég sótti ráðstefnu í Varsjá dagana 14.–15. maí 2013 um það, hvernig best væri að minnast fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, kommúnista og nasista. Þar töluðu meðal annarra forstöðumenn safna í mörgum kommúnistaríkjanna. Einn dagskrárliðurinn var heimsókn í safnið um uppreisnina í Varsjá 1944. Sú heimsókn var ógleymanleg.

Ég hafði kynnt mér uppreisnina í Varsjá fyrir mörgum árum, því að svo vildi til, að einn kennarinn minn í Oxford, Zbigniew Pelczynski, hafði átján ára barist með öðrum uppreisnarmönnum, verið tekinn höndum, en Bretar frelsuðu hann úr fangabúðum þýska hersins, og gekk hann menntaveginn og lauk doktorsprófi í heimspeki með kenningar Hegels sem sérgrein.

Uppreisnin í Varsjá 1944 er einn hörmulegasti viðburður heimsstyrjaldarinnar síðari. Frá því í ágúst 1939 og fram í júní 1941 voru Hitler og Stalín bandamenn og skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Vesturhluti Póllands lenti undir stjórn Hitlers, en Stalín hrifsaði til sín austurhlutann, eftir að nasistar höfðu lagt pólska herinn að velli fyrstu vikurnar í september 1939. Reyndu þeir Hitler og Stalín báðir að ganga milli bols og höfuðs á því, sem kalla mætti pólsku valdastéttinni, liðsforingjum, lögregluforingjum, háskólaprófessorum, bæjarstjórum, rithöfundum.

Pólverjar voru þó ekki á því að gefast upp. Útlagastjórn þeirra sat í Lundúnum, og fjölmenn andspyrnuhreyfing var undir vopnum í landinu sjálfu. Þegar hinn Rauði her Stalíns, sem nú var ekki lengur bandamaður Hitlers, heldur barðist með Bretum og Bandaríkjamönnum, nálgaðist Varsjá úr austri síðsumars 1944, ákvað andspyrnuhreyfingin að taka borgina úr höndum Þjóðverja. Uppreisnin hófst 1. ágúst 1944. En hið óvænta gerðist, að þýski herinn barðist af fullri hörku, þótt allir vissu, að Hitler væri að tapa stríðinu.

Annað óvænt gerðist. Stalín lét Rauða herinn nema staðar á austurbakka Vistula-fljóts, sem rennur í gegnum Varsjá, en miðborgin er á vesturbakkanum. Þaðan horfðu hermenn hans í sjónaukum sínum á þýska herinn murka lífið úr illa vopnuðum andspyrnumönnum, en myrða líka konur og börn, því að Hitler gaf út þau fyrirmæli, að öllum Varsjárbúum skyldi útrýmt og borg þeirra jöfnuð við jörðu. Stalín leyfði ekki einu sinni flugvélum Breta og Bandaríkjamanna með vistir og lyf til uppreisnarmanna að fljúga um yfirráðasvæði hans, svo að þær urðu að fara frá bækistöðvum á Ítalíu.

Lífið er veðmál: Pólsku uppreisnarmennirnir vissu, að þeir áttu við ofurefli að etja. En þeir höfðu gert ráð fyrir því, að þýski herinn myndi veita minna viðnám og að Bandamenn kæmu þeim til aðstoðar.

SS-sveitir Hitlers börðust af mestri hörku, enda töldu þær eflaust, að þær hefðu litlu að tapa. Fóru SS-menn með eldi hús úr húsi og skutu allt kvikt, sem þeir sáu. Þeir fáu íbúar, sem eftir voru, urðu að leita sér skjóls í holræsum borgarinnar. Tugþúsundir pólskra andspyrnumanna féllu, en miklu fleiri óbreyttir borgarar létu lífið í uppreisninni. Í janúar 1945, þegar þýski herinn hörfaði loks frá Varsjá, var hún rústir einar og aðeins örfáar hræður eftir á lífi. Safnið lét gera myndband eftir ljósmyndum og kvikmyndum, sem sýnir, hvernig þá var umhorfs:

 

 

 

Áður hafði Varsjá verið í röð reisulegustu borga Evrópu og stundum kölluð „París Norðursins“, eins og sést á þessari stuttu mynd.

 

 

Eftir stríð lét Stalín fangelsa og jafnvel taka af lífi marga andspyrnumenn. sem hættu höfðu lífi sínu í uppreisninni í Varsjá. Hann kærði sig ekki um neina samkeppni um forræði eða forystu í Póllandi.

Örlög Varsjár er eitt skýrasta dæmi 20. aldar um það, hversu nálægt kommúnistar og nasistar stóðu hvorir öðrum í sögulegum skilningi.


Fjárhæli og andabú

Heimspekidoktorarnir Vilhjálmur Árnason og Salvör Nordal skrifuðu lærðar ritgerðir í rannsóknarskýrslu Alþingis um siðferði eða öllu heldur siðleysi íslenskra fjármálamanna fyrir bankahrunið 2008. Ein hneykslunarhella þeirra var hugmyndin um Ísland sem fjármálamiðstöð. En sú hugmynd er ættuð af þeirra slóðum, úr heimspekiskor Háskóla Íslands. Mikael M. Karlsson heimspekiprófessor birti grein í Vísbendingu 23. desember 1987, þar sem hann kvað Ísland af mörgum ástæðum henta sem „fjárhæli“, eins og hann kallaði það, skráningarstað fyrirtækja og geymslu fjármagns. Til dæmis væri landið friðsælt, stöðugleiki í stjórnarfari, orðspor þjóðarinnar gott og málakunnátta almenn. Nefndi Mikael í því sambandi meðal annars Sviss, Liechtenstein og Mön, sem náð hefðu miklum árangri í fjármálaþjónustu. DV fagnaði hugmynd Mikaels í stórri frétt 30. desember sama ár, og fylgdi Mikael henni eftir með nokkrum greinum í Vísbendingu ári síðar. Þegar ég tók þessa hugmynd upp í bók minni 2001, Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? vitnaði ég með velþóknun í skrif Mikaels.

Hugmynd okkar Mikaels Karlssonar var hins vegar mjög frábrugðin veruleikanum á Íslandi um og eftir 2004, þegar enginn var til að veita auðjöfrunum hæfilegt aðhald. Hugmynd okkar var að laða fyrirtæki og fjármagn að landinu með lágum sköttum og föstum reglum. En veruleikinn frá 2004 til 2008 var, að fámenn auðklíka öðlaðist í krafti yfirráða yfir verslunarkeðjum og fjölmiðlum ótakmarkaðan aðgang að bönkunum, sem hún notaði síðan til að tæma þá í því skyni að fara í útrás erlendis. Skuldirnar dreifðust á ýmsar kennitölur, en skuldunauturinn var jafnan hinn sami. Þetta var í rauninni svipuð saga og sögð var um Benjamín Eiríksson bankastjóra og Ólaf á Oddhóli Jónsson. Benjamín hafði lánað Ólafi fyrir andabúi og vildi eitt sinn skoða framkvæmdirnar. Endur Ólafs voru eitthvað færri en hann hafði gefið upp í áætlunum og skýrslum, og brá hann á það ráð að láta þær trítla nokkra hringi í kringum hús búsins, svo að þær virtust miklu fleiri en raun var á. Þetta var auðvitað alþjóðleg flökkusaga frekar en bókstaflegur sannleikur um þá Benjamín og bóndann á Oddhóli. En gamanið breyttist hér í ramma alvöru: Ísland varð ekki það fjárhæli, sem við Mikael sáum fyrir okkur forðum, heldur risastórt andabú, þar sem sömu endurnar voru sýndar og veðsettar margsinnis. 


Pétur Pétursson

Orðið Pétur merkir sem kunnugt er Steinn, Petros á grísku, og hefur löngum verið vinsælt mannanafn.

Þrír nafnkunnir menn í Reykjavík hétu upp úr miðri 20. öld Pétur Pétursson. Þeir voru útvarpsþulurinn með sína þrumuraust, síðan kaupmaður, sem jafnan var kallaður „Pétur í Glerinu“, en þriðji maðurinn var um skeið forstjóri í Álafossi. Haukur pressari, kynlegur kvistur í höfuðstaðnum, sagði eitt sinn við Pétur þul: „Ertu ekki alltaf að fá bréf, sem Pétur í Glerinu á að fá, og líka bréf, sem Pétur í Álafossi á að fá, og þeir að fá bréf, sem þú átt að fá?“ Pétur þulur svaraði: „Jú, en það er gott á milli okkar, og hver fær sitt.“ Þá sagði Haukur: „Þið eruð orðnir of margir. Ég segi það satt. Ég er orðinn þreyttur á þessu.“

Pétur í Glerinu varð á einni svipstundu frægur í Reykjavík, þegar vinur hans, Ewald (Lilli) Berndsen tók hann með á leiksýningu. Hafði Lilli sagt honum, að auk leikara og leikstjóra væri höfundur leikrits oft kallaður fram í sýningarlok og hylltur með lófataki. Þeir félagar horfðu á uppfærslu af Skugga-Sveini eftir Matthías Jochumsson. Pétur hreifst af verkinu, og á meðan lófatakið dundi við, eftir að tjaldið féll, spratt hann á fætur og kallaði hátt og snjallt: „Fram með höfundinn!“

Pétur þulur, sem látinn er fyrir nokkru, var orðheppinn maður og sjófróður. Kynntist ég honum ágætlega. Eitt sinn sagði hann í morgunútvarpinu: „Skyggnið á Sauðárkróki var svo lítið í morgun, að menn sáu bara sína nánustu.“

Löngu fyrir daga þessara þriggja alnafna var uppi bóndi, Pétur Pétursson í Holárkoti í Svarfaðardal. Hann var fátækur, en barnmargur. Þótti grönnum hans nóg um, enda hvíldi framfærsluskylda á þeim, ef bú Péturs leystist upp. Eitt sinn gerði sóknarpresturinn sér ferð til hans og spurði: „Hvenær heldur þú, að þú hættir að eiga börnin, Pétur minn?“ Pétur svaraði: „Ojæja, ojæja, hvenær haldið þér, að Guð hætti að skapa?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. mars 2013.)


Rangfeðruð skammaskrif

Íslendingar hafa löngum skrifað skammir hver um annan og oft nafnlaust, en lesendur hafa þá reynt að geta sér til um höfunda, og hefur það gengið misjafnlega. Frægt er til dæmis, þegar Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur kom til Íslands rétt fyrir stríð eftir margra ára nám og drykkju í Kaupmannahöfn og hóf hvatvísleg skrif í sósíalistablaðið Þjóðviljann. Framsóknarmönnum líkuðu þau illa, og 29. september 1942 birtist nafnlaus klausa í málgagni þeirra, Tímanum: „Til þess að svala reiði sinni hefir Þjóðviljinn fengið glerbrot eitt, sem lengi var að flækjast á sorphaugum borgarinnar við Eyrarsund, til að skrifa níðklausu í dálka sína um Hermann Jónasson. Lætur glerbrotið allmikið yfir sér og þykist víst vera orðið eins og heil flaska.“ Líkingin af glerbrotinu og flöskunni þótti smellin, og töldu því margir, að hana hefði Jónas Jónsson frá Hriflu samið, en hann var maður meinfyndinn. Löngu seinna sagði Jónas þó Sverri, að hann hefði ekki samið þessa klausu, heldur Jón Eyþórsson veðurfræðingur, sem var eindreginn framsóknarmaðu.

Sjálfum var Sverri Kristjánssyni löngu síðar kennd svæsin skammagrein nafnlaus, sem birtist um Kristmann Guðmundsson rithöfund og kvennamann í Mánudagsblaðinu, 25. september 1961, en vitað var, að Sverrir skrifaði stundum í það blað og ekki alltaf undir nafni: „Annars segja fróðir menn, að Kristmann sé lítið karlmenni þrátt fyrir útlit sitt, sem er bolalegt, og er það haft eftir einni af konum hans. Þykjast sumir finna þar skýringuna á því, að honum hefur öllum Íslendingum verr haldist á konum. Þær hafa ýmist hlaupið eða flúið frá honum.“ Kristmann kvæntist sem kunnugt er níu sinnum. En ég hef traustar heimildir fyrir því, að Sverrir hafi ekki verið höfundur þessara dæmalausu skamma, þótt Kristmann héldi það sjálfur, heldur Einar Ásmundsson lögfræðingur, sem hafði um skeið verið ritstjóri Morgunblaðsins. Einar hafði gefið út ljóðabók, sem Kristmann hafði skrifað heldur ólofsamlegan ritdóm um, og vildi nú hefna sín.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. mars 2013.)


Árni Vilhjálmsson: Minningarorð

Eftirfarandi minningargrein birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2013:

Árni Vilhjálmsson bar ekki utan á sér, að hann var einn auðugasti útgerðarmaður landsins. Hann var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, með hvasst nef, örlítið lotinn í herðum, bláeygur, rjóður í vöngum og útitekinn eins og erfiðismaður, hógvær og kurteis, oftast með bros á vör og vildi bersýnilega forðast átök. En undir niðri var hann maður afar ákveðinn, jafnvel ráðríkur, ljóngáfaður og harðduglegur. Í honum sameinaðist á fágætan hátt fræðimaður og framkvæmdamaður.

Árni var eindreginn frjálshyggjumaður, og kynntist ég honum fyrst, þegar hann var formaður nefndar, sem Matthías Á. Mathiesen, þá fjármálaráðherra, skipaði 1977 til að skoða sölu ríkisfyrirtækja, en ungir sjálfstæðismenn höfðu þá undir forystu Friðriks Sophussonar markað sér stefnu undir kjörorðinu „Báknið burt“. Gerði Árni grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar í tímaritinu Frelsinu 1983. Ríkisstjórnin 1983–1987 framkvæmdi margar tillögur nefndarinnar. En Árni lét sér ekki nægja að skrifa um einkarekstur. Hann vildi skapa. Árið 1988 keyptu hann og viðskiptafélagi hans og vinur, Kristján Loftsson, mestallan hlut borgarinnar í útgerðarfélaginu Granda, en Davíð Oddsson, þá borgarstjóri, hafði haft forgöngu um stofnun þess 1985 upp úr Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem lengi hafði verið rekin með stórtapi. Eru allir nú sammála um, að þetta hafi verið hið mesta heillaráð.

Þegar ég sneri til Íslands haustið 1985 eftir nám í Oxford, hafði ég helst hug á því að kenna í viðskiptafræðideild. Árni var þar þá prófessor og deildarforseti og réð mig þangað í stundakennslu, sem ég sinnti um skeið mér til ánægju. Við héldum góðri vináttu, eftir að ég fluttist yfir í félagsvísindadeild. Árni fór vandlega yfir lítið rit, sem ég skrifaði vorið 1990 um skipulag fiskveiða, þar sem ég mælti eindregið með kerfi varanlegra og framseljanlegra aflakvóta. Fórum við eitt kvöldið eftir vinnu að handritinu á veitingastaðinn Café Óperu og héldum duglega upp á verkið. Árni kunni vel að gleðjast á góðri stund, þótt hann væri hófsmaður á vín. Einnig er mér minnisstæður kvöldverður með Árna og dr. Benjamín Eiríkssyni á veitingahúsinu Við Tjörnina, eftir að ég hafði gefið út ævisögu Benjamíns haustið 1996. Spurði Árni Benjamín spjörunum úr um ár hans í Harvard-háskóla, en þar hafði Árni einnig stundað nám. Rifjaði Benjamín líka upp margar skemmtilegar sögur af því, þegar hann var ráðgjafi ríkisstjórnar Íslands og bankastjóri Framkvæmdabankans, og var hlegið dátt.

Eftir að Árni sagði lausu prófessorsembætti sínu og sneri sér óskiptur að rekstri Granda, hittumst við ekki oft, en töluðum stundum saman í síma. Síðasti fundur okkar var á Hótel Borg vorið 2008, þar sem við drukkum saman kaffi með Kristjáni Loftssyni. Árni lét þá í ljós áhyggjur af hinum mikla kostnaði, sem hlaðist hafði á mig vegna málareksturs fyrir dómstólum í Reykjavík og á Bretlandi, og bauð fram myndarlega aðstoð, sem ég þáði með þökkum. Sýndi Árni það þá, sem ég vissi raunar fyrir, að hann var sannur höfðingi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband