Sögulegir fundir

Nú hafa mestallar umræður um daginn og veginn færst inn á Netið, sem vonlegt er, en forðum sóttu menn fundi til að skiptast á skoðunum. Stúdentafélag Reykjavíkur hélt nokkra fjölmenna og sögulega fundi á fimmta og sjötta áratug. Einn þeirra var um andlegt frelsi 12. janúar 1950, og voru framsögumenn Tómas Guðmundsson og Þórbergur Þórðarson. Þar deildu þeir um kommúnisma. Tómas kvað nýja hættu komna til sögunnar, alræði, þar sem reynt væri að stjórna sálinni ekki síður en líkamanum. Þórbergur fjölyrti hins vegar um það, að menn yrðu að komast út úr „myrkri persónuleikans“, hætta að hugsa aðeins um sjálfa sig.

 

Margir kvöddu sér hljóðs á fundinum. Einn þeirra, Þorvaldur Þórarinsson lögfræðingur, sagðist eiga þá ósk heitasta að geta búið í Ráðstjórnarríkjunum. Eins og ég hef áður rifjað upp, brást dagblaðið Vísir við hart og efndi til samskota fyrir farmiða, aðra leiðina, austur handa Þorvaldi. Safnaðist nægt fé til þess, en Þorvaldur vildi ekki þiggja miðann, og var féð því afhent Fegrunarfélagi Reykjavíkur.

 

Eftirminnilegur var líka fundur um atómkveðskap 24. mars 1952. Framsögumaður var Steinn Steinarr, sem varði atómskáldin, taldi hefðbundna ljóðlist dauða og bætti við: „Við höfum að vísu búið okkur til nokkur mikil þjóðskáld, en þau eru þá að minnsta kosti ekki skáld mikillar þjóðar.“ Tómas Guðmundsson mælti hins vegar fyrir hefðbundinni ljóðlist og lék sér að orðum: „Frá sjónarmiði sóttkveikjunnar hlýtur nefnilega heilbrigðin að vera alveg ægilegur sjúkdómur.“

 

Annar sögulegur fundur var um kristindóm og kommúnisma 15. febrúar 1953, og voru framsögumenn séra Gunnar Benediktsson, sem var ákveðinn stalínisti, og séra Jóhann Hannesson, sem hafði verið kristniboði í Kína. Voru lýsingar séra Jóhanns á stjórnarfarinu eftir valdatöku kommúnista 1949 ófagrar. Í Kína væri „blóðugur rakhnífur marxismans“ að verki.

Þessir fundir þóttu talsverðir viðburðir á sinni tíð. Blöð sögðu rækilega frá þeim, og voru þeir allir teknir upp á stálþráð og fluttir í Ríkisútvarpinu. Fróðlegt væri að vita, hvort upptökurnar eru enn til.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2013.)


Gegn betri vitund

Bandaríski bókmenntagagnrýnandinn og rithöfundurinn Dorothy Parker, sem uppi var 1893-1967, var kvenna fyndnust. Jafnframt átti hún það sammerkt með mörgum öðrum háðfuglum, til dæmis Óskari Wilde, að margt skemmtilegt er haft eftir henni, þótt alls óvíst sé, að hún hafi sagt það.

Svo er til dæmis um fræga umsögn um skáldsögu eftir Beníto Mússólíni, sem kom út í enskri þýðingu 1928 og ég hef áður gert að umtalsefni: „Þessa skáldsögu ætti ekki að leggja varlega frá sér, heldur grýta burt af öllu afli.“ Þetta er auðvitað hressilegt, en kemur ekki fyrir í prentuðum ritdómi um bókina eftir Parker í New Yorker. En auðvitað gæti hún hafa sagt þetta við vini sína og kunningja og það þannig orðið fleygt.

 

Hið sama er að segja um önnur ummæli hennar: „Vilji fólk komast að því, hvað Guði finnst um peninga, þá ætti að virða fyrir sér þá, sem hann hefur veitt þá.“ Þetta er hvergi finnanlegt í ritum Parkers, og raunar höfðu Alexander Pope og fleiri sagt eitthvað svipað áður (raunar líka séra Gunnar Gunnarsson í Laufási, sem kvað auðinn ekki húsbóndavandan).

 

Auðveldara er að rekja til Parkers þessa athugasemd um konu, sem var nýfarin úr samkvæmi með henni, því að fyrir henni eru heimildarmenn: „Þessi kona talar átján tungumál og kann ekki að segja nei á neinu þeirra.“ Önnur athugasemd Parkers er afbrigði af gömlum orðaleik: „Klóraðu leikara, og þá birtist leikkona.“

 

Parker sagði einnig í viðtali á prenti, þegar henni barst andlátsfregn Calvins Coolidges Bandaríkjaforseta, sem þótti með afbrigðum fámáll: „Hvernig vita þeir það?“ Og hún skrifaði í New Yorker 19. október 1929: „Þeir ættu að grafa þetta á legsteininn minn: Hvert sem hún fór, þar á meðal hingað, var það gegn betri vitund.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2013.)


Íslensk fyndni eða erlend?

Margar skemmtisögur íslenskar eiga sér erlendar fyrirmyndir, og er erfitt að skera úr um það, hvort þær séu flökkusögur, sem borist hafi til Íslands, eða hvort íslenskum háðfuglum hafi dottið hið sama í hug við ýmis tækifæri og fyndnum útlendingum áður.

Í Íslenskri fyndni 1953 er til dæmis fræg saga af Árna Pálssyni prófessor. Á hann að hafa spurt í samtali við kvenfrelsiskonur, sem töldu, að konur nytu hvergi forréttinda: „Hvenær hefur það heyrst, að konu væri kenndur krakki, sem hún á ekki?“ En óneitanlega minnir þetta snjalla svar Árna á það, sem írski fornfræðingurinn Sir John Pentland Mahaffy, sem uppi var 1839 til 1919, veitti, þegar kvenfrelsissinni spurði hann, hvaða eðlismunur væri í karli og konu: „I can’t conceive“ — Ég get ekki orðið þungaður.

Sverrir Hermannsson er svarkur í orðum, og fleygt varð, þegar hann sagði um þáverandi flokksbróður sinn: „Þegar Eggert Haukdal fer á Rangárvöllum til Reykjavíkur, lækkar meðalgreindarvísitalan á báðum stöðum.“ En þetta er afbrigði af gamalli fyndni. Kvenskörungurinn kunni Clare Booth Luce, sem uppi var frá 1903 til 1987 og sat í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Lýðveldisflokkinn (Repúblikana), sagði eitt sinn, þegar annar öldungadeildarþingmaður hafði vistaskipti og gekk úr Lýðveldisflokknum og í Lýðræðisflokkinn (Demókrata): „Í hvert skipti sem lýðveldissinni fer yfir ganginn og sest hinum megin, hækkar meðalgreindarvísitalan í báðum flokkum.“


Laugarvatn

Skemmtilegt var að sjá formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynna stjórn sína á Laugarvatni vorið 2013. Sá staður var ekki í miklu dálæti hjá sjálfstæðismönnum á fjórða áratug, þegar Jónas Jónsson frá Hriflu fór mikinn og lét reisa héraðsskóla á Laugarvatni. Orðheppinn sjálfstæðismaður, Árni Pálsson prófessor, afþakkaði eitt sinn boð á samkomu þangað með þessum orðum: „Þangað fer ég ekki. Þar er hvert steinn stolinn.“ Sagði Jónas frá þessu sjálfur seinna.

Þegar Alþýðuflokksmenn settu það skilyrði fyrir stjórnarmyndun 1934, að Jónas frá Hriflu yrði ekki ráðherra, fór einn þingmaður flokksins, Vilmundur Jónsson, til Laugarvatns til fundar við Jónas. Áttu þeir lengi tal saman, fram á aðfaranótt 4. júlí 1934. Jónas sagði þá: „Ég er fæddur til að stjórna!“ Vilmundur svaraði: „Það er einmitt það eina, sem þú átt ekki að gera!“

Aðrir kunnu betur að  meta Jónas. Sú saga varð fleyg um allt land, að gerð hefði verið skoðanakönnun meðal nemenda í héraðsskólanum um það, hver væri mesti maður heims, lífs eða liðinn, og hefði Jónas þá fengið einu atkvæði fleira en Jesús Kristur. Hygg ég, að þetta sé gamansaga frekar en sannleikur, en fyrst rakst ég á hana á prenti í Vikunni 1940.

Halldór Laxness sat stundum á Laugarvatni á sumrin og skrifaði bækur, og orti bekkjarbróðir hans úr Menntaskólanum, Tómas Guðmundsson:

Og ungu skáldin skrifa enn í dag.

Eitt skrifar bækur sínar

í Moskva, London, Laugarvatni og Prag

og í lestinni til Vínar.

En hvað sem öðru líður, var Jónas frá Hriflu hæfileikamaður, sem sá sumt skýrar en samtíðarmennirnir. Hann taldi Íslendinga til dæmis eðlilega bandamenn Breta og Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi, varaði við hættunni af kommúnismanum og taldi listina umfram allt leitina að hinu fagra, en skattgreiðendum bæri ekki að leggja fram fé til listamanna, sem geifluðu sig aðeins framan í þá með hatursorð á vörum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2013.)


Faðirvorið

Allir kannast við Faðirvorið, sem Kristur kenndi okkur í fjallræðunni:

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo að jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Í Sjálfstæðu fólki frá 1933 (21. k.) leggur Halldór Kiljan Laxness Þórði gamla í Niðurkotinu í munn aðra útgáfu af bæninni:

Faðir vor, þú sem ert á himnum, já, svo óendanlega lángt burtu að einginn veit hvar þú ert, næstum hvergi, gefðu okkur í dag eitthvað ósköp lítið að borða þér til dýrðar, og fyrirgefðu okkur ef við getum ekki staðið í skilum við kaupmann og lánardrotna, en láttu okkur um fram alt ekki freistast til að eiga góða daga, þvíað þitt er ríkið.

Franska skáldið Jacques Prévert fékk svipaða hugmynd, því að hann orti 1949 ljóðið „Pater Noster“ eða „Faðir vor“, sem hljóðar svo í þýðingu Sigurðar Pálssonar:

Faðir vor, þú sem ert á himnum,

vertu þar áfram,

og við verðum áfram á jörðinni,

sem er stundum svo falleg.

Skopstæling Kiljans á Faðirvorinu var til að hnykkja á meginboðskapnum í Sjálfstæðu fólki, að íslenskir kotbændur létu kúga sig og sættu sig auðmjúklega við það. Útgáfa Préverts er hins vegar andvarp lífsnautnamannsins, sem vill fá frið fyrir trúarbrögðum. Hvort tveggja skírskotar þó til Biblíunnar og verður lítt skiljanlegt, merkingarsnautt, án þekkingar á henni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. maí 2013, sóttur í ýmsa staði í bókina Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er enn seld í öllum góðum bókabúðum, en er á þrotum.)


Söguleg ljósmynd

Ég rakst á Facebook á ljósmynd, sem Runólfur Oddsson hafði sett þar, en Kjartan Gunnarsson tók. Hún er af okkur nokkrum í kvöldverðarboði á Þingvöllum í júlí 2004, ef ég man rétt mánudagskvöldið 19. júlí. Boðið var til heiðurs Rudolf Schuster, sem þá hafði nýlega látið af embætti forseta Slóvakíu. Við Schuster áttum mjög fróðlegar samræður, sem ég segi síðar frá, ef mér auðnast að skrifa bók um ýmislegt, sem ég hef séð og heyrt og ekki er á almannavitorði.

Ég hafði raunar hitt Schuster áður, í kvöldverðarboði á þingi Mont Pelerin-samtakanna í Bratislava í Slóvakíu í september 2001, en ég sat í stjórn samtakanna 1998–2004.

Ljósmyndin frá Þingvöllum er söguleg, því að hún er sennilega ein hin síðasta af Davíð Oddssyni forsætisráðherra, áður en hann veiktist alvarlega aðfaranótt miðvikudagsins 21. júlí 2004. Eftir það tóku auðjöfrarnir völdin og tæmdu bankana, svo að þeir voru þess alls vanbúnir að eiga við hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Klíkukapítalismi þeirra tók við af markaðskapítalisma okkar. Þetta voru tímamót.

Frá v.: Mária Holbicková (eiginkona Runólfs Oddssonar), Runólfur Oddsson (ræðismaður Slóvakíu), ég, Davíð Oddsson, Rudolf Schuster, Ástríður Thorarensen, Sigríður Snævarr sendiherra, Kristján Andri Stefánsson (sérfræðingur í forsætisráðuneytinu) og Illugi Gunnarsson (aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar).

do2004_1204806.jpg


Að liðnum kosningum

Halldór Laxness var ómyrkur í máli, þegar hann talaði um kosningar. Hann skrifaði í Alþýðubókinni 1929: „Kosníngar eru borgarastríð þar sem nef eru talin í stað þess að höggva hálsa. Sá sem mestu lofar og lýgur nær flestum nefjum. Á hinum auvirðilega skrípaleik borgaralegrar skussapólitíkur verður auðvitað einginn endi fyren vísindalegur stjórnmálaflokkur alþýðunnar hefur tekið alræði.“

Sigurður Nordal var ekki heldur hrifinn af lýðræði. Hann sagði í Íslenskri menningu 1942: „Háski sá, sem vofir yfir lýðræði nútímans og hefur víða gert það svo valt, er framar öllu fólginn í fláttskapnum, þegar almenningi er talin trú um, að hann sé kúgaður samkvæmt umboði frá honum sjálfum, eða hann er fyrst féflettur og síðan látinn þiggja sína eigin eign í mútur og náðargjafir.“

Nordal vildi ekki kalla til „vísindalegan stjórnmálaflokk alþýðunnar“ eins og Laxness, heldur hinn upplýsta einvald. Nordal sagði í greininni „Samlagningu“ 1927: „Því mun varla verða mótmælt, að sú ríkisheild sé best farin, er einn úrvalsmaður stjórnar á eigin ábyrgð og þeir menn, sem hann kveður til.“ Nordal bætti því hins vegar við, að jafnan hefði reynst ærnum vandkvæðum bundið að finna réttan einvald. Og allir vita, hvernig hinum „vísindalegu stjórnmálaflokkum alþýðunnar“, sem Laxness sá fyrir sér, hefur gengið að stjórna, þar sem þeir hafa fengið til þess tækifæri.

Sönnu næst mun það því vera, sem hinn gamalreyndi stjórnmálaskörungur Winston Churchill sagði í neðri málstofu breska þingsins 11. nóvember 1947: „Enginn heldur því fram, að lýðræðisfyrirkomulagið sé fullkomið eða óskeikult. Raunar hefur verið sagt, að ekki sé til verri stjórnmálaaðferð en lýðræði, ef frá eru skildar allar aðrar aðferðir, sem reyndar hafa verið í tímans rás.“ Og sannleikskjarni er líka í fleygum ummælum Vilmundar Jónssonar landlæknis, sem ættuð munu vera frá öðrum breskum stjórnmálamanni, Clement Attlee: „Kosturinn við lýðræði er, að losna má við valdhafana án þess að þurfa að skjóta þá.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2013.)

Vingjarnlegar móðganir

Gera verður greinarmun á illu umtali, snöggum tilsvörum og móðgunum. Þegar séra Árni Þórarinsson sagði um Ásmund Guðmundsson biskup, að hann gæti afkristnað heil sólkerfi og væri ekki lengi að því, var það illt umtal. Þegar lafði Astor sagði við Winston Churchill: „Væri ég konan þín, Winston, þá myndi ég setja eitur út í kaffið þitt“ — og hann svaraði: „Væri ég maðurinn þinn, Nancy, þá myndi ég drekka það“ — var það snöggt tilsvar. Móðgun er hins vegar bein lítilsvirðing og oftast því verri sem móðgandinn er vingjarnlegri. „Séntilmaður móðgar engan óviljandi,“ segir Garðar Gíslason hæstaréttardómari, sem er manna kurteisastur.

Eitthvert besta dæmið, sem ég kann um vingjarnlega móðgun, er, þegar breski rithöfundurinn Barbara Cartland var í viðtali í breska ríkisútvarpinu við konu að nafni Söndru Harris. Sú spurði Cartland, hvort stéttamunur hefði minnkað í Bretlandi. Þá svaraði Cartland: „Auðvitað hefur stéttamunurinn minnkað. Annars sæti ég ekki hér að tala við konu eins og yður.“

Kristján X., konungur Íslands 1918–1944, var sjaldnast vingjarnlegur í framkomu, en alkunna er, þegar hann móðgaði Adolf Hitler, sem hafði sent honum heillaóskaskeyti á afmæli hans 26. september 1942. Konungur svaraði með stuttu skeyti: „Látum í ljós kærar þakkir.“ Þetta þótti Hitler argasti dónaskapur.  

Einar skáld Benediktsson gat átt til að móðga menn hressilega. Tveir ungir menn, Tómas Guðmundsson og Halldór Kiljan Laxness, gerðu sér haustið 1924 ferð til Einars, þar sem hann bjó í Þrúðvangi við Laufásveg. Halldór var þá kotroskinn og fullyrðingasamur, og eitthvað, sem hann sagði, fór illa í skáldið. Þegar þeir kvöddu Einar við útidyrnar, sneri hann sér að Tómasi og sagði hlýlega: „Komið þér fljótt aftur, Tómas minn, en komið þér þá einn!“ Ljóst er af bókum Kiljans, að hann hefur munað Einari þetta alla ævi.

Sjálfur gat Kiljan móðgað menn eftirminnilega. Eitt sinn heimsótti hópur sértrúarmanna frá Vermlandi í Svíþjóð hann á Gljúfrastein og sátu lengi að skrafi. Var húsráðanda tekið að leiðast. Þegar hann fylgdi gestunum út, nam hann staðar við plöntu í garðinum, benti á hana og sagði: „Þarna er nú lítil trjáplanta, sem ég var að setja niður á dögunum. Ég vona bara, að hún verði orðin að stóru tré, þegar þið komið næst.“ Gárungarnir heimfærðu þessa sögu síðan ranglega upp á Thor Vilhjálmsson, sem gekk stundum fullnærri Nóbelsskáldinu með einlægri hrifningu sinni af því. En Vermlendingarnir sneru hinir ánægðustu af fundinum við Kiljan.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. maí 2013.)


Margrét Thatcher

Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 1979–1990, var jarðsungin þriðjudaginn 16. apríl 2013. Hún var hugrökk eins og ljón og kæn eins og refur, en svo lýsir Machiavelli öflugum stjórnmálamanni. Með festu sinni og baráttugleði vakti hún blendnar tilfinningar í hópi starfsbræðra sinna í Evrópu, hinna gráklæddu, virðulegu, miðaldra manna með hálsbindi, sem komu öðru hvoru saman og töluðu í nafni Evrópu. „Frú Thatcher! Hún hefur augun úr Caligúlu og varirnar frá Marilyn Monroe,“ mælti forseti Frakklands, François Mitterand, við ráðherra Evrópumála í stjórn sinni, Roland Dumas.

Thatcher sagði mér hins vegar eitt sinn í kvöldverði: „Gallinn við stjórnmálamennina á meginlandinu er, að þeir hafa aldrei skilið hina engilsaxnesku hugmynd um frelsi innan marka laganna.“ Allt frá því, að Jóhann landlausi neyddist til að skrifa undir Magna Carta 1215, var í Englandi reynt að takmarka vald konungs við það, sem hóflegt gæti talist, og breytti engu, þegar þing kom í stað konungs. Lögin setja jafnt valdsmönnum og einstaklingum skorður.

Napóleon sagði af nokkurri lítilsvirðingu, að Englendingar væru kramaraþjóð. En í heimsstyrjöldinni síðari bjargaði þessi kramaraþjóð öðrum Evrópuþjóðum undan sjálfum sér. Og þótt stjórnmálamennirnir á meginlandinu skildu illa frelsi innan marka laganna, ekki síst atvinnufrelsi, var Jón Sigurðsson sömu skoðunar og Thatcher: „Margir hinir vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórnaraðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi,“ sagði Jón í Nýjum félagsritum 1844. Með félagsfrelsi átti hann vitaskuld við atvinnufrelsi.

Það var hins vegar Rauða stjarnan, málgagn Rauða hersins rússneska, sem kallaði Thatcher fyrst „járnfrúna“, og festist það við hana. Það var dæmigert um Thatcher, að hún tók nafnið sjálf upp. Hún sagði í ræðu í kjördæmi sínu, Finchley, 31. janúar 1976: „Járnfrú Vesturlanda. Ég? Kaldastríðskona? Já, einmitt — ef þeir vilja leggja þann skilning í málsvörn mína fyrir þeim verðmætum og réttindum, sem okkur þykja ómissandi.“ Það átti síðan fyrir Thatcher að liggja í góðu samstarfi við Ronald Reagan að vinna kalda stríðið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2013.)


Stjórnarmyndanir

Íslenskir stjórnmálaforingjar þurfa að berjast í þremur lotum, fyrst að komast á framboðslista, síðan að afla atkvæða í kosningum og loks að mynda stjórn. Hefur síðasta lotan oft reynst vandasamari en búist hafði verið við og fáir viljað kannast við afkvæmið, þegar það fæddist eftir erfiðar hríðir. Árni Pálsson prófessor sagði til dæmis um þjóðstjórnina, sem mynduð var vorið 1939: „Það vilja allir hafa hana, en enginn kannast við hana.“

Stundum festast stjórnmálamenn í kreddum um stjórnarmyndanir. Einn leiðtogi Framsóknarflokksins á liðinni öld, Eysteinn Jónsson, andmælti því í nóvemberlok 1946, þegar einhverjir flokksbræður hans máttu ekki til þess hugsa að mynda stjórn með sjálfstæðismönnum: „Við erum allir meira og minna haldnir af andúð og samúð með hinum ýmsu flokkkum. En við erum búnir sem miðflokkur, ef við göngum í bindindi um að ræða við aðra flokka.“

Fjölmiðlar vaka jafnan eins og gammar yfir stjórnarmyndunum, og sagði Ólafur Jóhannesson, þá formaður Framsóknarflokksins, eftir að hann hafði myndað stjórn sumarið 1971: „Ég efast um, að okkur hefði tekist þetta, ef sjónvarpið væri ekki í sumarleyfi.“ Þá var venjan sú, að Sjónvarpið sendi ekki út í júlímánuði.

Enginn maður myndaði oftar stjórn á tuttugustu öld en Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins 1934–1961, en hann var fimm sinnum forsætisráðherra. Þegar bandarískur sendimaður fann að því við hann, að hann hefði myndað stjórn með kommúnistum 1944, svaraði hann að bragði: „Þeir höfðu svo góð meðmæli.“ Sendimaður hváði. Ólafur sagði þá: „Frá Roosevelt og Churchill!“ Þá barðist Stalín við hlið þeirra Roosevelts og Churchills.

Stjórnarmyndun gekk erfiðlega í ársbyrjun 1950, og hugðist Sveinn Björnsson forseti skipa utanþingsstjórn. Ólafur Thors talaði þá til hans af miklum þunga: „Heldur þú, að það sé hlutverk þitt sem forseta að koma í veg fyrir, að hér á landi sé þingræði og þingræðisstjórn?“ Tókst Ólafi skömmu síðar að mynda samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þótt hann yrði að vísu sjálfur ekki forsætisráðherra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2013.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband