27.7.2014 | 10:47
Nasistar, minningar og mannvonska
Oft er misfarið með fleyg orð. Eitt íslenskt dæmi er af Jóni Þorlákssyni, forsætisráðherra og borgarstjóra. Hann á að hafa kallað nasista, sem létu að sér kveða á fjórða áratug, unga menn með hreinar hugsanir. Hið sanna er, að margir þeir, sem stofnuðu Þjóðernishreyfingu Íslendinga vorið 1933, voru alls ekki nasistar, og gerðu þeir kosningabandalag við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórnarkosningunum 1934. Hinir eiginlegu nasistar tóku ekki þátt í því bandalagi. En Jón Þorláksson sagði á Alþingi 22. maí 1933 í andmælum við eina ræðu Jónasar Jónssonar frá Hriflu: Þá gat hann ekki stillt sig um, sem ekki er von, að senda hnútur til þess æskulýðs, sem í ýmsum flokkum og í ýmsum myndum rís upp til að skipa sér með hreinum hugsunum undir fána þjóðarinnar. Átti Jón bersýnilega annars vegar við fánalið sjálfstæðismanna, sem starfaði um hríð, og hins vegar við félaga í Þjóðernishreyfingunni, sem þá var nýstofnuð, en skiptist síðan í þá, sem gengu í Sjálfstæðisflokkinn, og hina, sem héldu áfram að vera nasistar.
Einnig má nefna hin kunnu vísuorð Hallgríms Péturssonar í XXII. passíusálmi:
Góð minning öngva gerir stoð,
gilda skal meira Drottins boð.
Oft er vitnað í þetta svo: Góð meining enga gerir stoð. En það er rangt. Hallgrímur er hér að tala um venjur eða minningar, sem víkja skuli fyrir Drottins orði.
Þriðja dæmið er í Sturlu sögu, sem gerist á 12. öld. Brandur Sæmundarson, biskup á Hólum, segir við Sturlu Þórðarson í Hvammi, ætföður Sturlunga: Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um gæsku. Oft er þetta haft svo, að Brandur hafi grunað Sturlu um græsku. En hér er sögnin að gruna höfð í fornri merkingu: að hafa efasemdir um eitthvað. Brandur er að segja, að hann efist um gæsku Sturlu eða manngæsku, þótt hann telji hann vissulega slunginn.
Má hér raunar bæta við óskyldri athugasemd. Orðin manngæska og mannvonska eru íslenskulegri en góðmennska og illmennska. Ráðstjórnarríkin voru til dæmis veldi mannvonskunnar í munni Reagans (evil empire), og Eichmann í Jórsölum var hin hversdagslega mannvonska holdi klædd (banality of evil), eins og Hannah Arendt komst að orði.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. desember 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook
27.7.2014 | 07:03
Egill, Jónas og tilvitnanirnar
Bókmenntastjóri Ríkisútvarpsins, Egill Helgason, bloggaði á Eyjunni 6. nóvember 2012 gegn sparnaðartillögum ungra sjálfstæðismanna í ríkisrekstri. Þeir vildu til dæmis, að menn sinntu menningu á eigin kostnað, ekki annarra. Egill kvað þetta minna á nasistann Hermann Göring, sem ætti að hafa sagt: Þegar ég heyri orðið menning, dreg ég fram skammbyssuna. En margir hafa bent á það, þar á meðal ég í bók tveimur árum fyrir blogg Egils, að þetta er rangt haft eftir. Göring sagði þetta hvergi. Þýska leikskáldið Hanns Johst leggur stormsveitarmanni þetta í munn í leikritinu Schlageter, sem frumsýnt var 1933. Wenn ich Kultur höre entsichere ich meinem Browning. Sagnfræðingurinn og byssumaðurinn Egill Stardal fræddi mig á því, að besta íslenska þýðingin væri: Þegar ég heyri orðið menning, spenni ég hanann á byssunni minni! Það er síðan annað mál, hversu smekklegt er að líkja sparnaðartillögum í ríkisrekstri, þar á meðal niðurgreiðslum á þjónustu við yfirstétt vinstri manna (fastagestina í Þjóðleikhúsinu), við nasisma. Sitt er hvað, að biðja fólk að vinna fyrir sér sjálft eða að skjóta það fyrir rangar skoðanir.
Margir aðrir jafnfróðir menn Agli hafa raunar misfarið með fleyg orð. Í greinaflokknum Komandi ár, sem Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði í Tímann sumarið 1921, skipti hann mönnum í samkeppnismenn, sameignarmenn og samvinnumenn og sagði síðan um frjálsa samkeppni á markaði: Máttur er þar réttur, eins og Bismarck vildi vera láta í skiptum þjóða. Hvort tveggja er þetta rangt. Frjáls samkeppni felst ekki í því, að hinn sterkari troði á öðrum, heldur í hinu, að atvinnurekandi leggi sig fram um að fullnægja þörfum viðskiptavina sinna betur eða ódýrar en keppinautarnir. Og Bismarck sagði hvergi, að máttur væri réttur í skiptum þjóða. Í umræðum í fulltrúadeild prússneska Landsdagsins (þingsins) 27. janúar 1863 kvaðst Maximilian von Schwerin ekki geta skilið ræðu Bismarcks þá á undan öðru vísu en svo, að máttur væri réttur. En Bismarck harðneitaði þá og síðar að hafa sagt þetta.
Raunar hafa komið út heilu bækurnar um orð, sem mönnum hafa verið lögð í munn, en þeir ekki sagt, og ræði ég nokkrar slíkar tilvitnanir, innlendar og erlendar, í bók minni frá 2010, Kjarna málsins.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2013.)
26.7.2014 | 23:46
Valtýr
Morgunblaðið minntist aldarafmælis síns á dögunum, og óskuðu allir því til hamingju með daginn nema Egill Helgason, bókmenntagagnrýnandi Ríkisútvarpsins, sem hneykslaðist á því, að Pósturinn gæfi út frímerki af þessu tilefni. Egill sagði ekkert, þegar Pósturinn gaf út frímerki á hundrað ára afmæli Vísis þremur árum áður, og hafði þó það dagblað hætt að koma út löngu áður! Skemmtilegt var í afmælishófinu að hitta gamla ritstjóra Morgunblaðsins, sem tóku mig í fóstur rösklega tvítugan, þá Styrmi Gunnarsson og Matthías Johannessen, þótt ekki hafi fóstursonurinn fylgt þeim í einu og öllu. En ekki er úr vegi á slíkum tímamótum að minnast Valtýs Stefánssonar, sem var ritstjóri Morgunblaðsins frá 1924 og allt til dánardags 1963. Valtýr var um leið einn aðaleigandi blaðsins og vakinn og sofinn í að bæta það og efla. Hann skildi við það stórveldi á íslenskan mælikvarða, eins og fram kemur í fróðlegri ævisögu hans eftir Jakob F. Ásgeirsson rithöfund.
Valtýr var búfræðingur að mennt, og fræg varð skýring hans í júní 1924 á því, hvers vegna hann sneri sér frá búnaðarstörfum. Orsakir þessa verða aðallega raktar til starfsemi Jónasar Jónssonar frá Hriflu, skrifaði hann. Þá er bændum landsins unninn mestur greiði, ef arfaflækja Hriflumannsins verður upprætt úr akri íslenskrar bændastéttar og bændamenningar. Þótt Jónas frá Hriflu væri um margt snjall og stórhuga, má ekki gleyma því, að eitur draup úr penna hans, auk þess sem hann misbeitti valdi sínu herfilega, um leið og hann fékk til þess tækifæri. Nauðsynlegt var það aðhald, sem Valtýr veitti honum í Morgunblaðinu.
Valtýr kom líka snemma auga á hættuna af kommúnismanum. Hann þýddi til dæmis og endursagði þegar árin 1924 og 1926 merkar greinar Antons Karlgrens, prófessors í slavneskum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, um kúgunina í Rússlandi strax eftir valdarán Leníns. Valtýr þýddi einnig frásagnir breska blaðamannsins Malcolms Muggeridges af hungursneyðinni í Úkraínu 19321934, og réðust íslenskir kommúnistar með Halldór Kiljan Laxness í fararbroddi á hann fyrir það. Þá birtist skáldsaga Ayns Rands um Rússland byltingarinnar, Kíra Argúnova, í íslenskri þýðingu í Morgunblaðinu 1949. En allt það, sem þau Karlgren, Muggeridge og Rand skrifuðu um Rússland Leníns og Stalíns, stóðst og hefur verið staðfest, meðal annars í Svartbók kommúnismans.
Þótt Valtýr ætti í hörðum deilum við þá Jónas Jónsson frá Hriflu og Halldór Kiljan Laxness, sem báðir voru ósjaldan stóryrtir í garð hans, komst hann óskemmdur á sálinni frá þeim deilum, enda gat hann sagt með Páli postula: Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.
26.7.2014 | 16:52
Drýldni
Mörgum þykir gæta nokkurrar drýldni í frásögn Steingríms J. Sigfússonar í nýútkominni bók um það, hvernig hann hafi bjargað Íslandi með þrotlausu erfiði. Talar Steingrímur við íslensku þjóðina í svipuðum anda og alkunn söguhetja úr Brennu-Njáls sögu, Björn í Mörk Kaðalsson, forðum við Kára Sölmundarson: Hvorki frý eg mér skyggnleiks né áræðis eða nokkurrar karlmennsku. En því munt þú hingað kominn að nú mun fokið í öll skjól. Seinna sagði Björn við Kára: Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og eg.
Steingrímur J. Sigfússon lætur eins og hann hafi verið einn að verki eftir hrun bankanna. Minnir það óneitanlega á hina óborganlega setningu, sem Gísli Sveinsson, forseti Alþingis 1944, lét út úr sér stundarhátt við kunnan Vestur-Íslending, Valdimar Björnsson, að kvöldi 17. júní 1944: Já, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýðveldi á Íslandi.
Sumt í bók Steingríms J. Sigfússonar hljómar raunar eins og setningin, sem Jósep Stalín skrifaði sjálfur inn í stutta ævisögu sína frá 1948: Enda þótt hann leysti af hendi hlutverk sitt sem leiðtogi flokksins og fólksins af frábærum dugnaði og nyti ótakmarkaðs stuðnings allrar ráðstjórnarþjóðarinnar, lét Stalín aldrei hinn minnsta vott fordildar, drembilætis eða sjálfsaðdáunar lýta starf sitt. Skýrði Níkíta Khrústsjov frá þessu framlagi Stalíns til bókmenntanna í leyniræðu sinni 1956.
Þegar Steingrímur J. Sigfússon reynir síðan að bera sig saman við aðra og tilkomumeiri íslenska stjórnmálamenn, getur langminnugum mönnum ekki dottið annað í hug en ummæli Bjarna Jónssonar frá Vogi. Hann bar það við að yrkja, en gerði það stirðlega. Eitt sinn sýndi hann Kristjáni Albertssyni hólgrein um skáldskap sinn í þýsku blaði og sagði um leið: Þér skuluð ekki halda, ungi maður, að ég hafi einhverjar áhyggjur af Einari Benediktssyni, ef þér eruð eitthvað að ýja að því!
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2013.)
26.7.2014 | 09:37
Svíþjóð
Fyrir nokkru var ég á ferð í Svíþjóð. Allt er þar í föstum skorðum. Svíar eru áreiðanlegir, nákvæmir, seinteknir, gætnir, veitulir, áhugasamir um Ísland. Landið er fallegt, en heldur er þar kalt að vetrarlagi, enda færði sænski málfræðingurinn Adolf Törneros í dagbók sína 1827: Í Svíþjóð eru aðeins til tvær árstíðir, hvítur vetur og grænn.
Jafnaðarmenn hafa haft mikil áhrif í Svíþjóð og sagt margt fleygt. Frægt var, þegar Ernst Wigforss, sem var lengi fjármálaráðherra Svía, mælti í Ríkisdeginum 1928: Fátæktinni er tekið með jafnaðargeði, þegar henni er jafnað á alla. Sama ár sagði leiðtogi jafnaðarmanna, Per Albin Hansson, sem var forsætisráðherra 19321946, líka í Ríkisdeginum: Einhvern tíma hlýtur hin stéttskipta Svíþjóð að breytast í þjóðarheimilið Svíþjóð. Þessi hugmynd um Folkhemmet eða þjóðarheimilið var lengi leiðarljós sænskra jafnaðarmanna.
Það er hins vegar mikill misskilningur, að Svíar séu allir jafnaðarmenn. Í fyrirlestri, sem ég flutti í þessari ferð í Stokkhólmi, benti ég á, að frjálslyndir, sænskir hagfræðingar hafa haft mikil áhrif á Íslandi. Til dæmis var það, sem Jón Þorláksson, forsætisráðherra og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði um hagskipulag og hagstjórn nánast beint upp úr skrifum sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels, sem var áhrifamikill tvo fyrstu áratugi 20. aldar. Birgir Kjaran hagfræðingur, sem reyndi að marka Sjálfstæðisflokknum stefnu laust eftir miðja öldina, skírskotaði til annars sænsks hagfræðings, Bertils Ohlins, sem var lengi formaður Þjóðarflokksins þar í landi.
Íslendingar hafa gert ýmsar athugasemdir við sænska jafnaðarstefnu. Þegar Laxness gerði upp við kommúnismann í Skáldatíma 1963, sagði Bjarni Benediktsson: Í Skáldatíma lýsir Halldór Kiljan Laxness því, hvernig hann breyttist úr kommúnista í Svía. Jón Sigurðsson sagnfræðingur, sem var um skeið ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði einhvern tíma við vin sinn, Harald Blöndal lögfræðing: Ég fór til Rússlands og sá illa heppnaðan sósíalisma. Síðan fór ég til Svíþjóðar og sá vel heppnaðan sósíalisma. Þá var mér nóg boðið. Svíum var loks sjálfum nóg boðið. Nú lækka þeir skatta og leyfa einkarekstur skóla og sjúkrahúsa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2013.)
26.7.2014 | 05:28
Smáþjóðir og stórþjóðir
Frægasta lýsingin á samskiptum smáþjóða og stórþjóða er í Sögu Pelópsskagastríðanna (5. bók, 17. kafla) eftir gríska sagnritarann Þúkídídes. Aþeningar, sem töldust stórþjóð í Grikklandi hinu forna, kröfðust þess, að Meleyingar, íbúar á eynni Melos, lytu þeim. Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við, sögðu sendimenn Aþenu. Þýddi Friðrik Þórðarson samræður Aþeninga og Meleyinga, og birtust þær í Tímariti Máls og menningar 1964.
Í alþjóðasamskiptum hefur máttur löngum verið talinn réttur. Sá ríkari hlyti að ráða. Tröll fari sínu fram við dverga. Og þó. Dvergur, sem óttast eitt tröll, getur hallað sér að öðru. Ástæðan til þess, að Kínaveldi hefur lagt undir sig Tíbet, en ekki Taívan, er ekki skortur á vilja, heldur sú staðreynd, að Bandaríkin halda hlífiskildi yfir Taívan. Ef til vill er sannleikskorn í því, sem bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Stanley Kubrick sagði eitt sinn: Stórþjóðir hafa jafnan komið fram eins og dólgar, en smáþjóðir eins og hórur.
Dómur Kubricks er samt ósanngjarn. Það gengur til dæmis kraftaverki næst, að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár skuli hafa haldið tungu sinni og eðliseinkunnum eftir margra áratuga tilraunir kastalaherranna í Kreml til að rússneskja þá. Og leiðtogi okkar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, sagði í bréfi frá 1851: Eftir minni meiningu þá er seiglan okkar besta bjargvættur, og þá þarf ekki að kvíða, ef hún er óbilug.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2013.)
21.7.2014 | 23:00
Nelson Mandela 23 árum síðar
Ég skrifaði grein um nýlátinn forystumann Suður-Afríku, Nelson Mandela, í DV 30. júlí 1990. Fróðlegt er að lesa hana aftur í ljósi sögunnar. Í rauninni var eitt aðalatriðið í grein minni sú skoðun Bertolts Brechts, að það land væri ógæfusamt, sem þyrfti á hetjum að halda. Fastar og fyrirsjáanlegar reglur skiptu meira máli en voldugir einstaklingar. En það mega hvítir menn í Suður-Afríku eiga, sem ég sá ekki fyrir, að þeir samþykktu að afsala sér völdum og samþykkja lýðræðislegar kosningar. Og það má Mandela eiga, sem ég sá ekki heldur fyrir, að hann notaði ekki afdráttarlausan meirihlutastuðning við sig til að níðast á hvítum mönnum eftir valdaskiptin í Suður-Afríku. Sýndi hann þá dæmafátt göfuglyndi. Hann skipaði sannleiksnefnd, en dró ekki fyrrverandi forystumenn fyrir dóm eins og Steingrímur J. Sigfússon uppi á Íslandi, þótt ólíku hafi raunar verið saman að jafna, margra áratuga kúgun í Suður-Afríku og bankahruninu á Íslandi, þar sem ekki lést einn einasti maður. Ef til vill hefur einhverju ráðið líka um hin farsælu valdaskipti í Suður-Afríku, að Mandela var lögfræðingur, sem vissi, að lögin ættu að ráða, en ekki mennirnir. Þó verður að minna á, að mörgu hefur farið aftur í Suður-Afríku síðan, þótt fremur sé það samstarfsmönnum og eftirmönnum Mandelas að kenna en honum. Lýðræði er ekki lausnarorðið, heldur frelsi einstaklinganna. En hér er grein mín frá því fyrir 23 árum (með smávægilegum málfarsleiðréttingum):
Nelson Mandela fór sigurför um Bandaríkin í júnílok. Ég sat fyrir framan sjónvarpstækið mitt í Palo Alto í Kaliforníu og fylgdist með því, er hann ávarpaði Bandaríkjaþing, ræddi við fréttamenn og hélt ræður á fundum. Þetta var höfðinglegur, roskinn maður, sem vissi, hvað hann vildi. Hann hafði sýnt það með fangelsisdvöl í heilan aldarfjórðung, að hann var reiðubúinn að leggja margt á sig fyrir málstað sinn. Bandaríkjamenn og aðrir Vesturlandabúar, sem skammast sín í laumi fyrir áhyggjulaust líf, gátu ekki annað en sýnt honum virðingu. En ýmsar hugsanir sóttu á mig, á meðan ég virti Mandela fyrir mér á sjónvarpsskjánum. Getur verið, að maður, sem er heppilegur uppreisnarleiðtogi vegna sigurvissu sinnar, sjálfsöryggis og fórnarlundar, sé heppilegur endurreisnarleiðtogi? Hvað um Robespierre og Lenín?
Segðu mér, hverjir vinir þínir eru
Efasemdir mínar ágerðust, eftir því sem Mandela sagði fleira. Í einum sjónvarpssalnum lýsti hann til dæmis yfir stuðningi við þá Gaddafi Líbíuleiðtoga, Arafat frá Palestínu og Fídel gamla Kastró, einræðisherra á Kúbu. Segðu mér, hverjir vinir þínir eru Arafat hefur enn ekkert ríki til að undiroka, en allir vita, hvern mann þeir Gaddafi og Kastró hafa að geyma. Gaddafi sendir sveitir manna hvert á land sem er til þess að drepa andstæðinga sína frá Líbíu. Hann aðstoðar hryðjuverkamenn eftir megni. Kastró kastar óæskilegu fólki í dýflissur, eins og kúbverska skáldið Armando Valladares getur borið vitni um. Valladares sat lengi í fangelsi fyrir það eitt að vera ekki sameignarsinni. Á þrjátíu ára valdatíma Kastrós hefur að minnsta kosti einn tíundi hluti kúbversku þjóðarinnar flúið land. Kúba, Albanía, Norður-Kórea og Víetnam eru nú einu eftirlifandi sameignarlöndin. Þegar Mandela var spurður um það við sama tækifæri, hvort hann gerði sér grein fyrir mannréttindabrotum þeirra Kastrós og Gaddafis, svaraði hann því til, að hann hygðist ekki kveða upp dóma um innanríkismál á Kúbu og í Líbíu. En hann biður okkur Vesturlandamenn hins vegar um að kveða upp dóma um innanríkismál í Suður-Afríku. Hann lætur ekki þar við sitja. Hann óskar beinlínis eftir aðstoð til þess að steypa stjórnvöldum í Suður-Afríku. Og eftir fund með Bush tók Mandela það skýrt fram, að hann teldi koma til greina að beita vopnavaldi í Suður-Afríku. Eitt er víst: Mandela fetar ekki í fótspor þeirra Marteins Lúters Kings og Mahatma Gandís. Hann er haukur, en ekki dúfa, kommissar fremur en jógi, svo að orð Arthurs Koestlers séu notuð.
Frelsi og þjóðfrelsi
Mandela virðist ekki vera sameignarmaður, kommúnisti. En hann er ekki frelsissinni, heldur þjóðfrelsissinni. Þetta er sitt hvað, eins og við höfum séð mörg átakanleg dæmi um frá Blálandi hinu mikla nú síðustu áratugi. Um leið og þjóðir álfunnar hafa öðlast frelsi frá hinum gömlu nýlenduherrum, hefur frelsi einstaklinganna innan þeirra horfið. Vegir og önnur mánnvirki ganga úr sér, nauðsynjavörur hætta að fást, einkafyrirtæki eru þjóðnýtt, menntamenn og hermenn arðræna í sameiningu bændur, og matvælaframleiðsla dregst þess vegna saman. Mér er minnisstætt, hvað suður-afrískur hagfræðiprófessor, sem ég ræddi við í Stellenbosch haustið 1987, sagði: Við Búarnir gerum okkur grein fyrir því, að við verðum að deila völdum með svarta meiri hlutanum. En við erum ráðnir í því að verða ekki enn eitt afríkulýðveldið. Sporin hræða. Raunar er ekki mikil hætta á því, að Mandela og menn hans nái völdum í Suður- Afríku. Vegur Mandelas er miklu meiri í vestrænum fjölmiðlum en heima fyrir. Svartir menn í Suður- Afríku skiptast í marga ættbálka. Mandela er af Xhosa-stofni, sem berst á banaspjót við hina herskáu Zulu-menn, en leiðtogi þeirra er Bútulezi. Auk svarta meiri hlutans búa í landinu fimm milljónir hvítra manna, þrjár milljónir þeldökkra manna (kynblendinga) og ein milljón Indverja. Þótt vestrænar þjóðir geti vafalaust hugsað sér að ofurselja þessa hópa Mandela og mönnum hans, munu þeir ekki gefast upp baráttulaust. Yrði borgarastríð í Suður-Afríku, myndu hvítir menn líklega sigra. En heppilegast er auðvitað, að hinir ólíku hópar í Suður-Afríku nái samkomulagi um að lágmarka vald ríkisins, en hámarka frelsi einstaklinganna. Á þann hátt einn rofnar sú sjálfhelda óttans, sem allir hópar landsins sitja fastir í.
Hugarfar og ábyrgð
Þýski félagsfræðingurinn Max Weber gerði frægan greinarmun á siðferði hugarfars og ábyrgðar. Sumir hafa hreint hjarta, en skeyta engu um afleiðingar gerða sinna. Aðrir eru ef til vill minni hetjur, en gæta vandlega að því, hvað athafnir þeirra hafa í för með sér. Á Vesturlöndum hefur Nelson Mandela verið veginn og metinn á mælistiku hugarfarsins. Menn hafa dáðst að fórnarlund hans og siðferðilegu þreki. Auðvitað var aðskilnaðarstefnan, sem hvítir menn fylgdu til skamms tíma í Suður-Afríku, röng. En leiðin til frjálsrar Suður-Afríku er ekki fólgin í því að fela Mandela völd í stað de Klerks. Hún er fólgin í því að flytja sem flestar ákvarðanir af vettvangi stjórnmálanna og út á hinn frjálsa markað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
21.7.2014 | 17:00
Þjóðsögur um bankahrunið (10)
Ein lífseigasta þjóðsagan um bankahrunið 2008 er, að hún hafi verið bein afleiðing af frjálshyggjutilraun, sem hér hafi verið framkvæmd. Þessu heldur til dæmis bresk-kóreski hagfræðingurinn Ha-Joon Chang fram í bók, sem kom út í íslenskri þýðingu 2012, 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá (bls. 272): Milli áranna 1998 og 2003 einkavæddi landið banka í ríkiseign og hunsaði jafnvel grundvallarregluverk um starfsemi þeirra, til dæmis kröfur um varasjóði banka. Í kjölfarið stækkuðu íslensku bankarnir með ævintýralegum hraða og leituðu sér viðskiptavina erlendis líka. Þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Stefán Ólafsson prófessor hafa í skrifum sínum komið orðum að svipaðri kenningu.
Þessi kenning stenst þó ekki af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi var regluverk á íslenskum fjármálamarkaði hið sama og á öðrum evrópskum fjármálamörkuðum. Þetta regluverk var allt samræmt, eftir að Ísland gerði samninginn um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Hugmyndin var sú, að einn fjármálamarkaður stæði um alla Evrópu og lyti allur sömu lögum og reglum. Chang nefnir að vísu sérstaklega, að hér hafi verið slakað á kröfum um varasjóði banka. En þær voru eftir þær breytingar hinar sömu og annars staðar og höfðu áður verið strangari. En jafnvel þótt þær hefðu verið minni, hefði það engu breytt um bankahrunið: Það varð ekki, vegna þess að varasjóðir bankanna væru litlir, heldur vegna þess að fjármálaráðuneytinu íslenska og seðlabankanum var um megn að halda bönkunum uppi, þegar gert var áhlaup á þá, og það var þeim um megn, vegna þess að enginn vildi aðstoða þessar stofnanir.
Hin meginástæðan er, að hér var ekki gerð nein frjálshyggjutilraun árin 19912004, heldur var hagkerfið opnað og fært í svipað horf og í grannríkjunum, eins og ég lýsti í grein í Wall Street Journal 2004, sem oft hefur verið vitnað í. Árið 2004 reyndist íslenska hagkerfið hið 13. frjálsasta af 130 hagkerfum, sem mæld voru (af Fraser-stofnuninni í Vancouver í Kanada). Atvinnufrelsi hafði hér vissulega stóraukist. En engu að síður voru 12 hagkerfi þá frjálsari en hið íslenska. Síðan má spyrja, hvers vegna þau 12 hagkerfi, sem frjálsari reyndust þá en hið íslenska, hafi ekki fallið, úr því að skýringin á hruni íslensku bankanna á að hafa verið, hversu mikið atvinnufrelsi hafi hér verið.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
21.7.2014 | 14:00
Þjóðsögur um bankahrunið (9)
Gera má greinarmun á vitringum og sérvitringum, og eins má gera greinarmun á sögum og þjóðsögum. Ég hef hér bent á, að margt það, sem sagt hefur verið um bankahrunið fyrir fimm árum, er frekar af ætt þjóðsögunnar en sögunnar. Svo er til dæmis um eina algengustu skýringu bankahrunsins, sem er, að íslensku bankarnir hafi verið of stórir. Of stórir miðað við hvað? Flestir ensku bankanna hafa höfuðstöðvar á mjög litlu svæði í miðborg Lundúna, City. Þeir voru stórir miðað við það svæði og jafnvel fyrir talsvert stærra svæði, til dæmis héraðið Coventry, en þar eru íbúar jafnmargir (eða öllu heldur jafnfáir) og á Íslandi. En þeir voru varla of stórir miðað við Bretland allt. Að minnsta kosti var Englandsbanka það ekki um megn að halda þeim uppi í fjármálakreppunni, sem skall á heiminum fyrir fimm árum.
Hér er komið að kjarna málsins. Það fer eftir viðmiðunarsvæðinu, hvort bankar séu of stórir. Ef viðmiðunarsvæðið var Ísland eitt, þá voru íslensku bankarnir þrír vissulega of stórir. En ef viðmiðunarsvæðið var Evrópa öll, þá voru þeir alls ekki sérlega stórir. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var rekstrarsvæði bankanna öll Evrópa. Það var kerfisgalli og sennilega engum að kenna, að baktrygggingarsvæði þeirra reyndist ekki vera jafnstórt og rekstrarsvæðið. Það reyndist að lokum vera Ísland eitt.
Ástæðan til þess, að mönnum sást yfir þessa kerfisvillu, var sú, að engum datt í hug, að grannþjóðir okkar myndu ekki hjálpa okkur, þegar á reyndi, eins og þær hjálpuðu hver annarri. Í fjármálakreppunni veitti bandaríski seðlabankinn til dæmis danska seðlabankanum stórkostlega fyrirgreiðslu, 73 milljarða dala í gjaldeyrisskiptasamningum (að vísu ekki allt í einu), sem gerði honum kleift að bjarga Danske Bank, sem ella hefði hrunið eins og íslensku bankarnir. Bandaríski seðlabankinn neitaði hins vegar íslenska seðlabankanum um sambærilega fyrirgreiðslu.
Sviss var með hlutfallslega jafnstórt bankakerfi og Ísland. Það fékk enn umfangsmeiri fyrirgreiðslu frá Bandaríska seðlabankanum, samtals um 466 milljarða (ekki allt í einu), svo að svissnesku stórbankarnir gætu haldið velli.
Ekki var nóg með það, að Bandaríski seðlabankinn neitaði hinum íslenska um sambærilega samninga og hann gerði við aðra seðlabanka. Breska ríkisstjórnin lokaði bönkum í eigu Íslendinga í Lundúnum sama daginn og hún framkvæmdi neyðaráætlun um að bjarga öllum öðrum bönkum í Bretlandi. Og hún bætti gráu ofan á svart með því að setja hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki.
Ísland var ekki skilið eftir úti á köldum klaka. Ísland var rekið út á kaldan klaka.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:39 | Slóð | Facebook
21.7.2014 | 11:00
Þjóðsögur um bankahrunið (8)
Í íslenskum þjóðsögum koma umskiptingar oft fyrir. Þeir eru úr álfheimum og jafnan ófrýnilegir. Ein nútímagerð af þessari þjóðsögu er, að íslenskir bankamenn hafi verið miklu síðri starfssystkinum sínum erlendis. Þeir hafi verið ættaðir úr álfheimum frekar en mannabyggð.
En bankahrunið verður ekki skýrt með því, að íslenskir bankamenn hafi verið öðrum verri. Til þess eru þrjár ástæður. Ein er rökleg, liggur í eðli máls. Bankarnir íslensku uxu ekki af sjálfum sér, heldur af því að þeir öfluðu sér viðskiptavina, jafnt fjármálastofnana, sem lánuðu þeim, og sparifjáreigenda, sem lögðu fé inn á reikninga þeirra. Skýringarefnið er aðeins flutt til um einn reit, ef sagt er, að íslenskir bankamenn hafi verið óreyndir glannar. Voru þá ekki erlendir viðskiptavinir þeirra jafnóreyndir glannar?
Önnur ástæða styðst við reynslu okkar. Við sjáum nú, fimm árum eftir hrun, að erlendir bankamenn eru engir englar. Stórbankinn HSBC varð nýlega að greiða risasekt fyrir aðild að peningaþvætti. Hinn virðulegi breski banki Barclays varð líka að greiða stórsekt, þegar upp komst, að ráðamenn hans höfðu tekið þátt í að hagræða vöxtum, svokölluðum LIBOR. Og fjármálafyrirtækið alkunna JP Morgan Chase varð að greiða stórsekt fyrir að hafa ekki haft nógu strangt eftirlit með því, að starfsfólk veitti réttar upplýsingar. Fréttir berast nú um ásakanir og ákærur á hendur danskra bankamanna vegna pappírsfyrirtækja og málamyndagerninga. Margar sögur eru líka sagðar af óhóflegum kaupaukum og eyðslu erlendra bankamanna fyrir fjármálakreppuna.
Þriðja ástæðan er, að nú vitum við, að margir erlendir bankar hefðu fallið, hefðu seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins ekki dælt í þá fé í fjármálakreppunni. Til dæmis kemur fram í skýrslu bandarískrar rannsóknarnefndar, að bandaríski seðlabankinn gerði þá gjaldeyrisskiptasamninga við svissneska seðlabankann upp á hvorki meira né minna en 466 milljarða Bandaríkjadala. Slíkir samningar jafngilda heimild til að prenta dali. Vegna þessara samninga gat svissneski seðlabankinn bjargað stórbönkum eins og UBS og Credit Suisse frá falli. Svipað er að segja um danska seðlabankann. Hann gerði gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann upp á 73 milljarða dala og gat því haldið uppi Danske Bank, sem ella hefði farið í þrot.
Íslenskir bankamenn voru hvorki betri né verri en bankamenn annars staðar og því síður umskiptingar úr álfheimum. Þeir fóru gáleysislega, en munurinn á þeim og starfssystkinum þeirra erlendis var, að þeim var ekki bjargað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:37 | Slóð | Facebook