Þorvaldur: Taglhnýtingur auðsins

Þorvaldur Gylfason prófessor er bersýnilega ekki ánægður með, að fleiri skuli ekki hlusta á hann, svo að hann grípur til stóryrða. Í nýjustu grein sinni í Fréttablaðinu, „Taglhnýtingar valdsins,“ ræðst hann með óbótaskömmum á fjóra háskólaprófessora án þess þó að nefna nöfn þeirra, og eru þau þó auðrekjanleg: Björg Thorarensen, Gunnar Helgi Kristinsson, Sigurður Líndal og Þráinn Eggertsson.

Hvers vegna getur Þorvaldur ekki nefnt nöfn þessara prófessora í stað þess að kalla þá aðeins A, B, C og D? Ég er ekki sammála þessum fjórum prófessorum um allt, en fráleitt er hins vegar að halda því fram, að þeir séu allir „taglhnýtingar valdsins“, af því að þeir hafi gagnrýnt stjórnarskrárhugmyndir Þorvaldar. Þau fjögur eru með ólíkar skoðanir á mörgu og óþarfi að gera þeim upp annarlegar hvatir.

Sjálfur talar Þorvaldur eins og hann hafi fengið umboð þjóðarinnar. Hann var óánægður með undirtektir Alþingis við stjórnarskrárhugmyndir sínar, svo að hann bauð fram flokk í síðustu kosningum. Sá flokkur hlaut 2,45% atkvæða. Hvernig getur Þorvaldur talað í nafni þjóðarinnar, þegar að baki honum stendur aðeins brotabrot úr henni?

Þótt prófessorarnir fjórir, sem Þorvaldur ræðst á, séu engir taglhnýtingar valdsins, er Þorvaldur sjálfur taglhnýtingur auðsins. Fyrir bankahrun var hann fastur pistlahöfundur fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson, þáverandi skuldakóng Íslands. Þá hélt hann því fram, að lögreglurannsókn á starfsemi Jóns Ásgeirs væri runnin undan rifjum stjórnmálamanna (þótt upphaf hennar væri í kæru eins samstarfsmanns hans), og andmælti þeirri hugmynd, að setja ætti með lögum skorður við fjölmiðlaeign auðjöfra.

Þorvaldur fékk vel greitt fyrir greinar sínar, eina milljón á ári. Hér sést, hvernig húsbóndi hans á Fréttablaðinu, Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi, var í sérflokki um skuldasöfnun fyrir bankahrun, en tölurnar eru teknar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (2. bindi, 8. kafla).

baugsbo_769_la_jog_1265794.jpg


Myndir af mér í Séð og heyrt

hhgfjo_776_gurra_a_769_ra.jpgNokkrar myndir eru af mér í nýjasta hefti Séð og heyrt frá því, áður en ég lauk stúdentsprófi. Hér er ein, sem birtist á Facebook-síðu tímaritsins af mér fjögurra ára, þegar ég bjó á Óðinsgötu 25. Faðir minn hafði unnið á Keflavíkurflugvelli, en hann var rekinn þaðan, af því að hann var kommúnisti! Þetta þætti mörgum ef til vill einkennilegt núna, en þessir tímar voru öðru vísi. Eftir það útvegaði tengdafaðir hans, afi minn og nafni (Hannes Pálsson frá Undirfelli), honum starf við eftirlit með sérleyfishöfum. Þar vann hann með Vilhjálmi Heiðdal, sem var eindreginn sjálfstæðismaður og, ef ég hef tekið rétt eftir, faðir hins harðskeytta og ofstækisfulla kommúnista Hjálmtýs Heiðdals. Afi minn, Kristinn Guðbjartsson, átti allt húsið. Hann var vélstjóri og hafði efnast vel, meðal annars fyrir tilstilli Jóns Þorlákssonar borgarstjóra, sem vildi efla smábátaútgerð í Reykjavík. Ég man, að á Keflavíkurflugvelli keypti faðir minn rauðan bíl handa mér, sem ég ók um og knúði áfram á fótstigi, pedölum, á meðan ég talaði við sjálfan mig, trallaði og söng hástöfum. Ég bjó við afar gott atlæti í bernsku. Móðir mín var kennari að mennt, hafði nægan tíma til að sinna mér og gerði það svo sannarlega af miklu ástríki. Ég varð snemma fróðleiksfús, spurull og gagnrýninn og vildi komast að eigin niðurstöðu um mál. En stundum var ég gabbaður. Þegar mér fannst maturinn vondur hjá móður minni, fór ég yfir til Maju, fósturmóður minnar, sem bjó í hinni íbúðinni á ganginum á annarri hæð á Óðinsgötu (Maríu Haraldsdóttur). Stundum laumaðist móðir mín þá með matinn hjá sér yfir og Maja setti hann á diskinn minn, án þess að ég vissi, og ég hámaði hann í mig af bestu lyst. Þessar tvær elskulegu konur vissu, að maturinn hjá Maju væri í mínum huga alltaf betri en maturinn heima. Þessar tvær konur voru einstakar. Það er ekki þeim að kenna, hversu illa hefur ræst úr mér miðað við alla Icesave-spekingana, samkennara mína.


Íslandsgrein Matts Ridleys

ridley_ka_769_pa_1265727.jpgHinn kunni breski metsöluhöfundur, Matt Ridley, sem situr raunar líka í lávarðadeild þingsins, skrifar reglulega í Lundúnablaðið Times, eitt virtasta dagblað heims. Hann var hér á Íslandi (að veiða lax) fyrir nokkrum dögum og ræðir í nýbirtri og fjörlegri grein um ólíkt hlutskipti Íslands og Grikklands, sem bæði biðu mikinn hnekki í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. En Ísland var aldrei gjaldþrota, þótt leiðtogi breska Verkamannaflokksins (systurflokks Samfylkingarinnar), Gordon Brown, héldi því fram. Stoðir íslenska hagkerfisins voru og eru traustar, fiskur, orka, ferðamenn og mannauður. Og Ísland gat ólíkt Grikklandi leyst vandann af of miklum innlendum kostnaði miðað við erlendar tekjur með því að fella gengi gjaldmiðilsins. Því er að bæta við, að Ridley hélt fyrirlestur á fundi RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, sumarið 2012. Bók Ridleys, Heimur batnandi fer, kom út hjá Almenna bókafélaginu fyrir ári. Hér er frétt í Ríkisútvarpinu um grein Ridleys í Times. Hér er frétt á Eyjunni um hana.


Líkfundur í Strassborg

struthof.pngJórsalapósturinn, Jerusalem Post, skýrði frá því 19. júlí 2015, að 86 lík gyðinga hefðu fyrir nokkrum dögum fundist í Strassborg. Þetta voru fórnarlömb tilrauna, sem nasistalæknirinn August Hirt hafði gert fyrir „rannsóknarstofnun“ SS, svartliða, Ahnenerbe. Fóru tilraunirnar fram í Natzweiler-Struthof-útrýmingarbúðunum, sem mynd er af hér við hliðina. Málið tengist Íslandi, því að einn gyðingurinn var Siegbert Rosenthal, bróðir Henny Goldstein-Ottósson, en hún var þýsk flóttakona, sem giftist Hendrik Ottóssyni fréttamanni og gerðist íslenskur ríkisborgari. Fyrri eiginmaður Hennyar, mágkona hennar og bróðursonur létu lífið í Auschwitz-fangabúðunum. Í ritgerð í Þjóðmálum segi ég frá því, hvernig örlagaþræðir Hennyar og þýsks nasista, sem bjó um skeið á Íslandi, fléttuðust saman.

Hæpin notkun úrfellingarmerkisins

Haustið 2014 skrifaði Pontus Järvstad BA-ritgerð í sagnfræði (á ensku) um sagnritun okkar Þórs Whiteheads í bókum um íslensku kommúnistahreyfinguna. Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir var leiðbeinandi hans, og er ritgerðin aðgengileg á skemman.is. Ritgerðarhöfundur kveður Þór hafa oftúlkað eitt af inntökuskilyrðunum 21, sem kommúnistaflokkum voru sett samkvæmt ályktun Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu 1920. Þetta var þriðja skilyrðið, og vitnar Pontus svo í það (í íslenskun minni) á bls. 29:

Í nær öllum löndum Evrópu og Ameríku er stéttabaráttan að breytast í borgarastríð. Við þær aðstæður geta kommúnistar ekki treyst borgaralegum lögum. ... Í löndum, þar sem umsátursástand eða neyðarlög svipta kommúnista kostinum á að halda allri starfsemi sinni áfram löglega, er samtenging löglegrar og ólöglegrar starfsemi bráðnauðsynleg.

Pontus segir síðan, að þetta hafi átt við, þar sem kommúnistaflokkar hafi verið ólöglegir. Þess vegna villi Þór Whitehead um fyrir lesendum sínum með því að segja, að bardagalið, sem kommúnistar stofnuðu hér 1932, hafi verið í samræmi við þetta skilyrði Kominterns frá 1920.

Hvaða texta skyldi úrfellingarmerki Pontusar Järvstads fela í sér? Hann er þessi (skáletrun mín): „Þeir skuldbinda sig til að mynda alls staðar ólögleg hliðarsamtök, sem geta á úrslitastund aðstoðað flokkinn við að gera skyldu sína gagnvart byltingunni.“ Hér er beinlínis kveðið á um baráttusamtök, sem starfa skuli „alls staðar“. Bersýnilega átti þetta inntökuskilyrði því ekki aðeins við í þeim löndum, þar sem kommúnistaflokkar voru ólöglegir. Síðasta setningin í þriðja inntökuskilyrðinu er hins vegar um þau lönd. Hefði leiðbeinandinn, Ragnheiður Kristjánsdóttir, ekki átt að vara hinn unga og óreynda ritgerðarhöfund við þessari hæpnu notkun eða jafnvel misnotkun úrfellingarmerkisins? Eða var henni ekki kunnugt um inntökuskilyrðin í Alþjóðasamband kommúnista?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júlí 2015.)

Hér eru klausurnar úr BA-ritgerðinni og úr inntökuskilyrðum Kominterns:

bathesis_1265625.jpg

komintern_these3.jpg

 


Dularfulli ræðismaðurinn

Á meðan Ísland var á bresku valdsvæði 1807–1941, vildu Bretar ekki stjórna landinu beint, nema sérstaklega stæði á. Þetta kom í ljós í Norðurálfuófriðnum mikla 1914–1918. Strax 12. september 1914 var breskur ræðismaður kominn til Reykjavíkur, Eric Grant Cable. Hann fæddist 1887 og hafði verið í bresku utanríkisþjónustunni frá 1904, í Helsinki, Hamborg og Rotterdam. Aðspurður kvaðst hann vera hingað kominn, því að svo marga starfsmenn utanríkisþjónustunnar vantaði verkefni, eftir að stríð skall á og þeir urðu að fara frá óvinaríkjum. Þetta þótti yfirmönnum hans í Lundúnum snjallt svar, en Cable var í raun sendur hingað að ósk breska flotans til að fylgjast með ferðum þýskra óvinaskipa í Norðurhöfum og hugsanlegum umsvifum Þjóðverja á landinu.

Cable settist strax í íslenskutíma hjá Einari H. Kvaran rithöfundi og talaði málið reiprennandi eftir nokkra mánuði. Hann komst fljótt að því, að Íslendingar væru hlynntir Bretum og samstarfsfúsir. Hann fékk til dæmis Íslending til að laumast um borð í þýskt skip og lýsa öllum búnaði fyrir sér. Einnig fékk hann starfsmann loftskeytastöðvarinnar til að afhenda sér skeyti milli þýska kjörræðismannsins í Reykjavík og Þýskalands. En eftir 1915 var aðalverkefni Cables að reyna að koma í veg fyrir, að íslenskar afurðir bærust til Þýskalands um Danmörku. Greip hann til ýmissa ráða í því skyni, eins og Sólrún B. Jensdóttir lýsir í fróðlegu riti um þessi ár. Cable lét einnig reka nokkra opinbera starfsmenn, sem taldir voru Þjóðverjahollir. Hótaði hann ella að stöðva kolasölu til landsins. Cable ritskoðaði enn fremur loftskeyti og millilandapóst.  

Cable var vinsæll á Íslandi, þótt hann þætti harður í horn að taka. Hann hvarf héðan 1919 og gegndi síðan víða störfum. Á meðan Cable var ræðismaður í Kaupmannahöfn, 1933–1939, kom hann oft til Íslands og endurnýjaði samband við vini og kunningja. Eftir það varð hann ræðismaður í Köln og Rotterdam um skamma hríð, en síðast í Zürich 1942–1947. Í Sviss tók hann þátt í leynilegum viðræðum við þýska áhrifamenn, sem vildu binda enda á stríðið, þótt ekkert yrði úr. Hefur talsvert verið um það skrifað. Sá grunur lék á, að Cable ynni fyrir bresku leyniþjónustuna, MI6. Hann lést 1970.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. júlí 2015.)


Umsögn Conrads Blacks

Fróðlegt er að lesa umsögn hins kunna (að sumra sögn alræmda) rithöfundar Conrads Blacks, sem var blaðaútgefandi áður fyrr, um bók, sem ég skrifaði í og kom út fyrir ári, Understanding the Crash. Black segir í tímaritinu New Criterion um framlag mitt:

Hannes Gissurarson gives a fascinating picture of the economic rise and fall and resurrection of Iceland, and shows that its own mistakes were aggravated by the Federal Reserve’s suddenly ceasing to allow currency exchanges into dollars, and by the British government’s invoking completely misapplied anti-terrorist rules against Icelandic banks operating in the U.K. There is no doubt that the reckless antics of these two great powers, normally friendly to Iceland, caused a terrible escalation in the country’s problems, but after a brief flirtation with the regulatory left, it has bounced back very well. He concludes with Thucydides that “the strong do what they can and the weak suffer what they must.


Bjarni bætir kjör almennings

bjarni-benediktsson.jpgBjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðar afnám allra tolla (nema á landbúnaðarafurðir, sem Íslendingar framleiða sjálfir). Þetta er stórfrétt og góð frétt. Lækkun skatta er besta kjarabótin.


Hugleiðingar um gríska harmleikinn

athens.jpgVinstri menn á Íslandi eru ráðvilltir í Grikklandsmálinu. Þeir telja, að manngæska sé örlæti af annarra fé. Þess vegna skilja þeir alls ekki, að Evrópusambandið sé tregt til að ausa áfram fé í Grikkland. Vitaskuld myndu skriffinnarnir í Brussel helst kjósa þá leið, en hún er þeim lokuð af þremur ástæðum: 1) Þýskir skattgreiðendur, sem myndu bera þyngstu byrðarnar, sætta sig ekki við það. 2) Féð, sem er til ráðstöfunar í slíkar aðgerðir, er á þrotum. 3) Á eftir Grikkjum myndu koma aðrar þjóðir, sem vilja líka losna við að greiða skuldir sínar.

Gríski harmleikurinn 2015 er gerólíkur hinum íslenska 2009. Í Grikklandi skuldar ríkið öðrum fé, en á Íslandi var skuldunauturinn einkaaðili (sem hafði góða möguleika á að endurgreiða skuld sína, eins og kom í ljós) og lánardrottnarnir líka (og þeir, innstæðueigendurnir, höfðu fengið forgang með neyðarlögum Íslendinga, þótt Bretar hafi aldrei þakkað það). Í Grikklandi skýtur ríkisstjórnin greiðsluskyldu sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu, en á Íslandi vildi ríkisstjórnin alls ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana. Í Grikklandi lætur ríkisstjórnin öllum illum látum í því skyni að fá viðsemjendur sína til að afskrifa skuldir og lengja í lánum, en á Íslandi gerði ríkisstjórnin í rauninni ekki annað en framvísa ólundarlega til þjóðarinnar reikningnum, sem Bretar sendu fyrir einhliða aðgerðir sínar.

Gríska ríkið er auðvitað gjaldþrota. Það er ekki sjálfbært án víðtækrar endurskipulagningar, en ég sé ekki, hvernig hún á að fara fram.  Líklega heldur þjóðin áfram að hlusta á lýðskrumara (Kleon sútara og félaga hans) í stað þess að lækka skatta, fækka opinberum starfsmönnum, lengja starfsaldur, auka gagnsæi, auðvelda skattheimtu, fella niður óréttlætanlegar bætur og taka harðar á spillingu.

Gríski harmleikurinn sýnir einnig ókosti evrunnar (þótt auðvitað hafi hún kosti líka). Myntbandalög fá stundum staðist, til dæmis myntbandalag Norðurlanda fram að fyrri heimsstyrjöld og Bandaríkin, sem eru í rauninni myntbandalag fimmtíu ólíkra ríkja og nota öll einn og sama dalinn. Veikleiki evrunnar er, að kostnaðaraðlögun er miserfið í einstökum löndum evrusvæðisins. Hagkerfin eru allt of ólík til að geta notað sama gjaldmiðil. Vinnumarkaður Evrópu lýtur ósveigjanlegum reglum, svo að atvinnuleysi myndast, þegar að sverfur, í stað þess, að laun lækki. Erfiðara er að hreyfa sig á milli landa í þessu stóra myntbandalagi en var á Norðurlöndum og er í Bandaríkjunum.

Eistlendingar og aðrar Eystrasaltsþjóðir áttu í miklum erfiðleikum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, og þeim tókst að sigrast á þeim með aðhaldi. Grikkir hafa ekki sama sjálfsaga, en þá er skást að fella gengið, og það geta Grikkir ekki gert. Ég er ekki að mæla með samkeppni þjóða um að fella gengi gjaldmiðla sinna í því skyni að auðvelda útflutning og takmarka neyslu innflutnings, en það getur verið skárra en götubardagar og blóðsúthellingar.


Úr bók Svavars

Ég var að lesa bók Svavars Gestssonar (sem ég hafði aðeins rennt yfir lauslega áður). Á 168. bls. er þessi óborganlega klausa:

Ég hygg að sjaldan hafi nokkrir einstaklingar staðið frammi fyrir öðru eins verkefni í borgarmálum og þau Adda Bára Sigfúsdóttir og Sigurjón Pétursson þessi ár 1978–1982.

Þetta minnir á ummæli séra Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests daginn fyrir alþingiskosningarnar 1911:

Allur hinn menntaði heimur stendur á öndinni!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband