In dubio, pars mitior est sequenda

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn. Þetta lögmál braut meiri hluti landsdóms árið 2012, þegar hann sakfelldi Geir H. Haarde fyrir að hafa vanrækt skyldu sína samkvæmt stjórnarskrá til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Minni hlutinn, þar á meðal hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Benedikt Bogason, benti á, að ákvæðið um ráðherrafundina átti uppruna sinn í því, að Ísland var konungsríki 1918–1944. Fór forsætisráðherra tvisvar á ári til Kaupmannahafnar til að halda ríkisráðsfundi með konungi og bar þar upp þau mál, sem konungur skyldi staðfesta. Bar hann ekki aðeins upp sín eigin mál, heldur líka mál annarra ráðherra fyrir þeirra hönd. Þess vegna varð að tryggja, að þeir hefðu tekið þátt í afgreiðslu þeirra mála. Kemur raunar skýrt fram í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið, sem samþykkt var 1920, að með mikilvægum stjórnarmálefnum var átt við þau mál, sem bera skyldi upp í ríkisráði. Ekkert sambærilegt ákvæði er heldur í dönsku stjórnarskránni. Eftir lýðveldisstofnunina var litið svo á, að með mikilvægum stjórnarmálefnum væri átt við þau mál, sem atbeina þjóðhöfðingjans þurfti til.

Meiri hluti landsdóms vildi hins vegar skapa úr þessu þrönga ákvæði víðtæka skyldu forsætisráðherra til að halda árið 2008 ráðherrafund um yfirvofandi bankahrun, sem hann hefði vanrækt, og sakfelldi hann ráðherrann fyrir þessa vanrækslu, þótt honum væri ekki gerð nein refsing. En fullkominn vafi leikur á því, að túlkun meiri hlutans sé rétt og hvenær ákvæðið ætti að hafa breytt um merkingu, frá því að það var sett. Geir var ekki látinn njóta þessa vafa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. janúar 2023.)


Jóhannes Nordal

Kynni mín af Jóhannesi Nordal voru ekki mikil, en ætíð ánægjuleg. Þegar ég stundaði nám á Pembroke-garði í Oxford árin 1981–1985, var ég þar R. G. Collingwood verðlaunahafi, snæddi þrisvar í viku við háborðið með kennurunum og mátti taka með mér gest. Ég bauð Jóhannesi einu sinni þangað, þegar hann átti leið um, og áttum við skemmtilegar samræður. Við vorum báðir aðdáendur breskrar stjórnmálahefðar. Vorið 1984 bað tímaritið Mannlíf mig að skrifa svipmynd af Jóhannesi í tilefni sextugsafmælis hans, en vildi síðan ekki birta hana, því að ritstjóranum þótti hún of vinsamleg honum, og var hún prentuð í Morgunblaðinu 11. maí 1986. Jóhannes var þá eins og oft áður umdeildur, enda ekki fyrir neðan öfundina.

Ég lagði það til nýkominn frá námi, að Íslendingar hættu að nota krónuna og tækju upp Bandaríkjadal. Jóhannes gerði gilda athugasemd: Væru Íslendingar reiðubúnir að gangast undir þann aga, sem fælist í því að taka upp erlendan gjaldmiðil, þá ættu þeir að vera reiðubúnir að gangast undir slíkan aga án þess að þurfa að taka upp erlendan gjaldmiðil. Verður Jóhannesi seint kennt um það, þótt hann væri lengi seðlabankastjóri, að við Íslendingar höfum iðulega notað krónuna til að losna úr þeirri klípu, sem eyðsla umfram efni hefur komið okkur í.

Þegar ég gerði um aldamótin nokkra samtalsþætti undir heitinu „Maður er nefndur“, var einn hinn fróðlegasti við Jóhannes, en hann var tekinn upp, skömmu áður en hann missti röddina vegna sjúkdóms í talfærum. Viðmælandi minn sagði þar meðal annars frá föður sínum, Sigurði Nordal prófessor, og heimspekingunum Bertrand Russell og Karli R. Popper, sem höfðu haft mikil áhrif á hann, á meðan hann stundaði háskólanám í Bretlandi. Kom þar berlega í ljós, hversu vel Jóhannes fylgdist með og dómar hans um menn og málefni voru ígrundaðir. Þátturinn var á dagskrá 20. febrúar 2001.

Eftir að ég hafði gefið út ævisögu Halldórs Laxness í þremur bindum árin 2003–2005 og sætt fyrir ámæli ýmissa, sem töldu mig vera að ryðjast inn á svið öðrum ætlað, skrifaði Jóhannes mér upp úr þurru langt bréf og hældi mér óspart fyrir bókina, en gagnrýndi að sama skapi aðra, sem skrifað höfðu um skáldið. Mér þótti vænt um stuðninginn og bauð honum til kvöldverðar heima hjá mér ásamt vinum mínum Davíð Oddssyni, Jónasi H. Haralz og Þór Whitehead, og urðu þar fjörugar umræður um bókmenntir og sögu Íslendinga, og dró enginn af sér. Var Jóhannes þó mildastur í dómum. Þegar háskólamaður einn, sem einnig hafði haft nokkur afskipti af stjórnmálum, barst í tal, sagði hann aðeins: „Já, hann hefur aldrei skrifað djúpan texta.“

Jóhannes var umfram allt frjálslyndur, þjóðrækinn umbótasinni, sáttfús (jafnvel stundum um of) og góðgjarn. Um hann má hafa minningarorð, sem faðir hans Sigurður hafði sett saman um fyrsta háskólarektorinn: 

Falla hinar öldnu eikur, —
ófullt skarð til tveggja handa, —
rótafastar, fagurkrýndar,
friðarmerki skógarlanda.
Úfnar af þjósti og úlfaþyti
eftir birkirenglur standa.
 
(Minningargrein í Morgunblaðinu 17. mars 2023.)

Deilt við Evu Hauksdóttur

Eva Hauksdóttir er eini lögfræðingurinn, sem hefur reynt að gagnrýna rök mín í bókinni um landsdómsmálið, og er það lofsvert. Ég hafði á Facebook-vegg mínum bent á, að Jón Ólafsson prófessor hafði farið rangt með stjórnarskrárákvæðið um ráðherrafundi. Hann hafði sagt (í viðtali við Gunnar Smára Egilsson á Samstöðinni), að það ákvæði hljóðaði eitthvað á þá leið, að við sérstakar aðstæður, til dæmis þegar hættu bæri að höndum, bæri forsætisráðherra að halda ráðherrafundi. Þetta er fráleitt. Ákvæðið er aðeins, að halda skuli ráðherrafundi um mikilvæg málefni (ekki einu sinni að forsætisráðherra skuli halda þá). Eva skrifaði þá á Facebook-vegg minn:

Það þarf nú reyndar nokkuð einbeittan mistúlkunarvilja til að komast að þeirri niðurstöðu að efnahagshrun og aðrar yfirvofandi hættur teljist ekki mikilvæg stjórnarmálefni.

Ég svaraði:

Eins og þú átt að vita, snýst málið ekki um það, hver sé almenn merking orðasambandsins mikilvæg stjórnarmálefni, heldur um hitt, hver merkingin sé í stjórnarskránni. Og það er alveg skýrt, að upprunalega merkingin var: málefni, sem þurfti að leggja fyrir ríkisráð. Hvenær breyttist þessi merking, og af hverju varð enginn var við þessa breytingu? Ekki datt þeim Hermanni Jónassyni og Guðmundi Í. Guðmundssyni í hug, að þeir væru að brjóta stjórnarskrána, þegar þeir ákváðu að leggja ekki fyrir ráðherrafundi samninga við Bandaríkjamenn árið 1956? Og Eiríkur Tómasson færði prýðileg rök fyrir því, að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefði ekki verið að brjóta stjórnarskrána, þegar þeir lögðu ekki fyrir ráðherrafund opinberan stuðning Íslands við hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Írak árið 2003. Og þú horfir algerlega fram hjá því, að til eru málefni, sem í eðli sínu eiga ekki erindi á ráðherrafundi, af því að það myndi gera illt verra að setja þau þar á dagskrá, og hættan á bankaáhlaupi er einmitt eitt slíkt málefni. En aðalatriðið hér er þó það, að Jón Ólafsson fer algerlega rangt með stjórnarskrárákvæðið. Mátti telja hættu á bankahruni „mikilvægt stjórnarmálefni“ í hversdagslegum og almennum skilningi? Já. Var rétt að taka það á dagskrá ráðherrafunda? Nei. Var merking orðasambandsins „mikilvæg stjórnarmálefni“ í 17. gr. stjórnarskrárinnar almenns eðlis eða þröngs eðlis? Þröngs eðlis: málefni, sem atbeina þjóðhöfðingja þurfti til. Mátti leggja víðari merkinguna í orðasambandið? Hugsanlega, en þá hafði myndast vafi, sem sakborningurinn átti að njóta. Svaraðu þessu nú sem lögfræðingur.

Eva svaraði:

Ég tel augljóst að efnahagshrun verði að teljast mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir ekki að slík málefni séu aðeins þau sem atbeina þjóðhöfðingja þurfi til heldur er talað um nýmæli í lögum OG um mikilvæg stjórnarmálefni.
 
Ég svaraði:
 
Það kemur skýrt fram í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið 1920, að átt var við þau málefni, sem borin væru upp fyrir konungi í ríkisráði. Þess vegna varð að setja þetta ákvæði. Það sést best á því, að auðvitað hljóta ráðherrar að ræða á fundum sínum ýmis mikilvæg málefni, það þarf ekki að segja sérstakt ákvæði í stjórnarskrá um það. Það liggur í hlutarins eðli. Spurningin er auðvitað, hvort merking ákvæðisins hafi breyst. Hvenær hefði það verið? Það er önnur spurning, hvort vandi bankanna (ekki yfirvofandi hrun þeirra) hefði verið ræddur á ráðherrafundum, og það var gert, eins og margir ráðherrar báru vitni um fyrir landsdómi. Og síðan er þriðja spurningin, hvaða mál eru ekki til þess fallin að ræða á ráðherrafundum vegna eðlis þeirra. Sumar hættur eru þess eðlis, að þær aukast við það, að um þær sé rætt, og áhlaup á banka er ein slík hætta. Ég nefndi í bókinni þrjú dæmi, samninga við Bandaríkjamenn 1956 (en þá var sósíalisti í stjórn, og Sósíalistaflokkurinn var í nánum tengslum við valdaklíkuna í Kreml), stuðning við Bandaríkjamenn í Íraksstríðinu 2003 og tilkynningu um brottkvaðningu varnarliðsins sama ár. Ekkert af þessu var rætt á ráðherrafundum. Og úr því að þú talar um efnahagshrun (en hefðir átt að segja bankahrun), má benda á, að vissulega var talað um bankahrunið á fundum 30. september og 3. og 4. október. Davíð Oddsson gerði sér ferð á ráðherrafund 30. september til að segja mönnum, að bankarnir væru að hrynja. Viðbrögðin voru að heimta, að hann væri rekinn! Og einn ráðherrann flýtti sér að selja hlutabréf sín í bankanum fyrir marga tugi milljóna, sama dag! Í ljósi sögunnar er þetta stórfurðulegt.
 
Eva svaraði:
 
Það var enginn kóngur á Íslandi þegar núgildandi stjórnarskrá tók gildi. Landsdómur fjallaði um þessar málsástæður og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til annars en að skýra 17. gr. eftir orðanna hljóðan. Það má auðvitað endalaust deila um það enda voru dómarar Landsdóms ekki á einu máli. Niðurstaðan liggur þó fyrir og var lagatúlkun Landsdóms staðfest af Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tel það mat þitt, að hættur aukist við það að vera ræddar, ekki hafa þýðingu í málinu.
 
Ég svaraði:
 
Setjum svo, að þú hafir rétt fyrir þér í þessari athugasemd og að skýra megi ákvæðið beint eftir orðanna hljóðan, en ekki í ljósi uppruna síns. En þá er að minnsta kosti vafi á túlkuninni, og Geir hefði átt að njóta vafans, eins og minni hlutinn benti raunar á í sératkvæði sínu. Ein helsta reglan í réttarfari er, að sakborningar eigi að njóta vafans. Viltu hafna þeirri reglu? Síðan er annað sjónarmið. Það er, að greinilega var til þess ætlast með lögum um landsdóm, að þeim væri aðeins beitt um mjög alvarleg brot, til dæmis landráð, enda kenndi Ólafur Lárusson nemendum sínum það (eins og einn þeirra rifjaði upp í umræðum um landsdóm). Ekki ætti að ákæra fyrir tæknileg atriði eða formsbrot. Þar nægðu umvandanir og ef til vill pólitískt vantraust. Setjum svo, eins og þú heldur fram, að þetta hafi verið brot. En þá var það hreint formsatriði, enda kemur fram í áliti meiri hlutans, að orðið hefði að sýkna Geir af þessum ákærulið, hefði hann aðeins sett vanda bankanna á dagskrá ráðherrafunda. Þriðja spurningin er: Hafði Eiríkur Tómasson þá rangt fyrir sér, þegar hann sagði, að þeir Davíð og Halldór hefði ekki brotið lög, þegar þeir ákváðu stuðning við Íraksstríðið árið 2003? Og þegar Hermann og Guðmundur Í. báru ekki samninga við Bandaríkin undir ráðherrafund 1956? Brutu þessir ráðherrar stjórnarskrána? Það væri gaman að fá svar þitt við þessum spurningum.

Ne bid in idem

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er Ne bis in idem, sem merkir bókstaflega: ekki aftur hið sama. Það felur í sér, að borgarar í réttarríki geti treyst því, að sama málið sé ekki rekið aftur gegn þeim, eftir að það hefur verið leitt til lykta. Þeir þurfi ekki að eiga yfir höfði sér þrotlausar málshöfðanir út af því sama. Því hefur ekki verið veitt athygli, að þetta lögmál var brotið í málarekstrinum gegn Geir H. Haarde, eins og ég bendi á í bók minni um landsdómsmálið.

Rannsóknarnefnd Alþingis tók til athugunar, hvort Geir hefði í aðdraganda bankahrunsins brotið það ákvæði stjórnarskrárinnar, að halda skyldi fundi um mikilvæg stjórnarmálefni, með því hvoru tveggja að boða ekki sjálfur til slíks fundar og veita ekki bankamálaráðherranum nægar upplýsingar til þess, að sá gæti neytt réttar síns til að óska slíks fundar. Komu þessar athugasemdir fram í bréfi nefndarinnar til Geirs í febrúar 2010, þar sem honum var gefinn kostur á að svara. Geir gerði það skilmerkilega og benti á, að um margt hefði verið rætt á ráðherrafundum, þar á meðal efnahagsvandann árið 2008, án þess að um það hefði verið bókað, að varasamt hefði verið að setja á dagskrá ráðherrafundar hinn sérstaka vanda bankanna og að oddviti samstarfsflokksins hefði átt að veita bankamálaráðherranum upplýsingar. Rannsóknarnefndin hvarf þá frá því að gera þetta að sérstöku ásökunarefni á hendur Geir.

Aðalráðgjafi þingmannanefndar um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, Jónatan Þórmundsson, bætti hins vegar þessu ásökunarefni við aftur. Þótt vissulega hefði rannsóknarnefndin hvorki ákæruvald né dómsvald, voru rannsóknarheimildir hennar svo rúmar og afleiðingar fyrir menn af niðurstöðum hennar svo miklar, að líkja mátti henni við dómstól (enda fengu rannsóknarnefndarmennirnir með lögum sömu friðhelgi og dómarar). Því má segja, að með því að vilja ákæra Geir fyrir að hafa brotið stjórnarskrána hafi þingmannanefndin brotið lögmálið Ne bis in idem.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. janúar 2023.)


Nullum crimen sine lege

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er Nullum crimen sine lege, enga sök án laga. Það merkir, að ekki megi sakfella menn fyrir háttsemi, sem ekki var ólögleg og refsiverð, þegar hún fór fram. En eins og ég bendi á í nýrri bók minni um landsdómsmálið braut rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu 2008 þetta lögmál, þegar hún í skýrslu sinni vorið 2010 sakaði þrjá ráðherra og fjóra embættismenn um vanrækslu. Eins og hún tók sjálf fram, átti hún við vanrækslu í skilningi laganna um nefndina sjálfa, sem sett höfðu verið eftir bankahrunið. Nefndin beitti með öðrum orðum lögum afturvirkt, og sætir furðu, hversu lítill gaumur hefur verið gefinn að þessu.

Ástæðan til þess, að rannsóknarnefndin beitti lögum afturvirkt, var hins vegar augljós. Hún átti að róa almenning með því að finna sökudólga. En þrátt fyrir sextán mánaða starfstíma, rífleg fjárráð, fjölda starfsfólks og ótakmarkaðan aðgang að skjölum og vitnisburðum fann rannsóknarnefndin ekki eitt einasta dæmi um augljóst lögbrot ráðamanna í bankahruninu. Þess vegna vísaði nefndin í lögin um sjálfa sig, þegar hún sakaði ráðamenn um vanrækslu, því að í athugasemdum við frumvarpið um þau sagði, að með vanrækslu væri ekki aðeins átt við hefðbundinn skilning hugtaksins í íslenskum lögum, heldur líka við það, ef upplýsingar væru metnar rangt eða vanrækt væri að afla nauðsynlegra upplýsinga.

Athugasemdir í lagafrumvörpum geta þó ekki vikið til hliðar settum lögum og föstum venjum. Óeðlilegt var að víkka út vanræksluhugtakið og nota það afturvirkt til að saka fólk um vanrækslu, af því að það hefði ekki metið fyrirliggjandi upplýsingar rétt og ekki aflað frekari upplýsinga. En auðvitað þótti mikilvægara að róa almenning en fylgja lögmálum réttarríkisins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. desember 2022.)


Viðtal um Landsdómsmálið í fréttum Sagnfræðingafélagsins

Tilefni bókarinnar
 
„Ég hitti eitt sinn á förnum vegi Garðar Gíslason hæstaréttardómara, sem sat í minni hluta landsdóms, og hann benti mér á, að stjórnarskrárákvæðið, sem Geir H. Haarde var sakfelldur fyrir að brjóta, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, var sett árið 1920 og hafði þá skýra merkingu. Einn ráðherra fór jafnan til Kaupmannahafnar tvisvar á ári og bar upp málefni sín og annarra ráðherra fyrir konungi í ríkisráði, og tryggja varð, að þeir stæðu með honum að málefnunum. Eftir lýðveldisstofnun var almennt litið svo á, að ákvæðið tæki til málefna, sem atbeina forseta þyrfti til. Meiri hluti landsdóms gaf þessu ákvæði alveg nýja merkingu og miklu víðari í því skyni að geta sakfellt Geir fyrir eitthvað. Mér varð ljóst, að sakfellingin var ekki aðeins um hlægilegt aukaatriði, heldur var hún beinlínis röng lögfræðilega. Síðan fór ég að grúska í málinu og komst þá að ýmsu nýju, svo að bókin óx í höndunum á mér. Það var að lokum bókin, sem skrifaði mig, ekki ég, sem skrifaði bókina.“
 
Hvað kom á óvart?
 
„Tvennt kom mér aðallega á óvart. Annað var það, hversu hart Steingrímur J. Sigfússon beitti sér gegn Geir. Þeir höfðu verið góðir vinir. Þegar Steingrímur slasaðist eitt sinn alvarlega, hafði Geir heimsótt hann á sjúkrahús, og þegar Steingrímur átti stórafmæli, hafði Geir komið með konu sinni alla leið norður í Þistilfjörð og haldið ræðu fyrir afmælisbarnið. En í bankahruninu umhverfðist Steingrímur. Hann sló til Geirs í reiði sinni á þingi, og hann var einn helsti hvatamaðurinn að því að draga Geir fyrir landsdóm.
 
Hitt atriðið, sem kom mér á óvart, var, hversu viljugir sumir lögfræðingar voru til þess að breyta skoðunum sínum, þegar það hentaði. Þeir Tryggvi Gunnarsson og Páll Hreinsson höfðu báðir látið í ljós þá skoðun fyrr á árum, að menn gerðu sig vanhæfa til að fara með mál, hefðu þeir látið í ljós eindregna afstöðu til þeirra eða sambærilegra mála. En þegar Sigríður Benediktsdóttir sagði beinlínis, að bankahrunið væri að kenna „glæfralegu andvaraleysi“ Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans (þótt hún nefndi þær stofnanir ekki með nafni, heldur skírskotaði til lögbundinna hlutverka þeirra), vildu þeir ekki víkja henni úr nefndinni fyrir vanhæfi.
 
Annað dæmi var, að Jónatan Þórmundsson hafði skrifað margar ritgerðir um breytingar á réttarfari og líka minnisblað í febrúar 2010 til þingmannanefndarinnar, sem átti að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þar sem hann lagði áherslu á réttindi sakborninga. En síðan skrifaði Jónatan álitsgerð til þingmannanefndarinnar í júní 2010, þar sem hann taldi rétt að ákæra fjóra ráðherra, þótt ekki hefði farið fram nein sakamálarannsókn. Hann bætti meira að segja við sakarefnum, sem rannsóknarnefndin hafði skoðað og horfið frá að gera að ásökunarefnum, meðal annars ásökun um stjórnarskrárbrot.
 
Þriðja dæmið var, að árið 2005 skrifaði Eiríkur Tómasson álitsgerð fyrir vin sinn og flokksbróður, Halldór Ásgrímsson, um, að þeir Halldór og Davíð Oddsson hefðu ekki brotið nein lög eða venjur, þegar þeir lýstu yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Írak í febrúar 2003. En sami Eiríkur greiddi atkvæði með því í landsdómi árið 2012, að Geir H. Haarde hefði framið stjórnarskrárbrot með því að setja ekki yfirvofandi bankahrun á dagskrá ráðherrafunda.“
 
Nýmæli í bókinni
 
„Nýmælum bókarinnar má skipta í tvennt,“ segir Hannes. „Annars vegar er um að ræða atriði, sem ég vek athygli á, en aðrir hafa einhverra hluta vegna horft fram hjá: 1) Ásakanir rannsóknarnefndar Alþingis um vanrækslu voru allar í skilningi laga, sem sett voru eftir bankahrun. Þar var verið að beita lögum afturvirkt. 2) Rannsóknarnefndarmennirnir voru á ýmsan hátt tengdir bönkunum. 3) Þingmannanefndin bætti við þremur sakarefnum, sem rannsóknarnefndin hafði horfið frá því að bera fram eftir að hafa fengið svör við þeim, og þessum viðbótum fylgdi enginn rökstuðningur og því síður einhver rannsókn. 4) Þingmannanefndin ákærði án þess að gera sakamálarannsókn, sem hún hafði þó fulla lagaheimild til að gera. 5) Ákæruvaldið hafði talsverð áhrif á, hverjir sátu í landsdómi, m. a. hver yrði forseti landsdóms, hver yrði fulltrúi héraðsdóms í Reykjavík og hver tæki sæti, þegar einn dómari varð að víkja vegna veikinda. Þetta var mjög óeðlilegt. Það hefðu átt að vera sömu dómendur allan tímann. 6) Þau Markús Sigurbjörnsson og Björg Thorarensen virðast hafa ákveðið það saman, hvort þeirra tæki sæti í landsdómi. 7) Meiri hluti landsdóms sýknaði að vísu Geir fyrir öll efnisleg atriði, en sakfelldi hann umfram ákæru fyrir brot á stjórnarskrá.
 
Hins vegar er um að ræða staðreyndir, sem áður voru ókunnar eða lítt kunnar. 1) Sigríður Benediktsdóttir hafði persónulegar ástæður til að líta Landsbankann hornauga og hlífa stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. 2) Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fund með seðlabankastjórum og forsætisráðherra 26. september 2007, þar sem Davíð Oddsson varaði við bankahruni, og mánuði seinna hóf hún ásamt eiginmanni sínum að færa skuldbindingar sínar í Kaupþingi í einkahlutafélag. 3) Þorgerður seldi afganginn af hlutabréfum sínum í Kaupþingi sama dag, 30. september 2008, og Davíð gekk á fund ríkisstjórnarinnar til að segja, að bankarnir væru að hrynja. 4) Ingibjörg Sólrún Gísladóttir átti leynilegan fund með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og Sigurði G. Guðjónssyni í janúarlok 2008, þar sem þeir sögðu henni, að vandi bankanna væri ekki bundinn við Glitni. 5) Þrír fyrrverandi þingflokksformenn Samfylkingarinnar áttu fund með Jóhönnu Sigurðardóttur 12. september 2010, þar sem þeir sögðu henni, að Samfylkingin myndi klofna, yrði einhver Samfylkingarráðherra ákærður fyrir landsdómi. 6) Helgi Hjörvar skipulagði atkvæðagreiðsluna um ákærur í samráði við Jóhönnu Sigurðardóttur og væntanlega Steingrím J. Sigfússon. 7) Eiríkur Tómasson birti í febrúar 2009 grein á netinu, sem síðan hvarf, þar sem hann kenndi beinlínis ráðherrum um bankahrunið. 8) Eiríkur hafði geymt fyrir STEF mikið fé í peningamarkaðssjóðum, og tapaðist 30% af því. Sjálfur tapaði Eiríkur talsverðu fé á hlutabréfum í bönkum. 9) Eiríkur hafði opinberlega sagt, að það jafngilti stuldi, þegar innstæður fengu forgang fram yfir inneignir í peningamarkaðssjóðum, en það gerðist með neyðarlögunum, sem Geir fékk samþykkt.
 
Ég varpa síðan fram rökstuddum tilgátum, sem erfitt er þó að sanna, um ýmis atriði: 1) hvaða þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði Samfylkingarmönnum, að Sjálfstæðismenn myndu greiða atkvæði gegn öllum ákærum óháð niðurstöðu um ákæru á hendur Geir H. Haarde, 2) hvaða dómari í meiri hluta landsdóms hafði efasemdir um niðurstöðuna, 3) hvaða aðili skrifaði álit Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs.“
 
 
 
 
 

Tvö sjónvarpsviðtöl um landsdómsmálið

Hér hafa verið klippt saman tvö viðtöl við mig  um landsdómsmálið, annars vegar við Egil Helgason í Silfrinu og hins vegar við Sigmund Erni Rúnarsson á Fréttavaktinni.


Það sem lesendur Stundarinnar þurfa að vita um LANDSDÓMSMÁLIÐ

Landsdomsmalid.kapaFlestir lesendur Stundarinnar eru eflaust vinstri sinnaðir alveg eins og þeir, sem skrifa að staðaldri í blaðið. Ég yrði ekki hissa, þótt einhverjir þeirra hnipruðu sig jafnvel saman í bergmálsklefum og forðuðust að kynna sér neitt það, sem vakið gæti hjá þeim efa um réttmæti eigin skoðana. En ég trúi ekki öðru en að í lesendahópnum sé líka fjöldi manns með sterka réttlætiskennd og virðingu fyrir röksemdum, og fyrir þann hóp skrifa ég þessa grein.

Geir átti að sýkna af öllum ákæruliðum

Í landsdómi sýknuðu allir fimmtán dómararnir Geir H. Haarde sem kunnugt af þremur ákæruliðum meiri hluta Alþingis (33 þingmanna gegn 30), en meiri hluti landsdóms (9 dómarar gegn 6) sakfelldi Geir fyrir einn ákærulið, en áður hafði tveimur ákæruliðum verið vísað frá. Í bók minni um landsdómsmálið held ég því fram, að sakfellingin fyrir þennan eina ákærulið hafi verið röng lögfræðilega. Rökin eru tiltölulega einföld. Geir átti að hafa brotið ákvæði stjórnarskrárinnar um, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, því að hann hefði ekki sett vanda bankanna á dagskrá ráðherrafunda. Þetta stjórnarskrárákvæði var sett árið 1920 af sérstökum ástæðum. Ísland var konungsríki, en þjóðhöfðinginn búsettur í Kaupmannahöfn. Ráðherra fór að jafnaði tvisvar á ári til Kaupmannahafnar til að bera málefni upp í ríkisráði, ekki aðeins sín eigin, heldur einnig annarra ráðherra. Þess vegna varð að tryggja, að þeir hefðu áður samþykkt það, sem hann ætlaði að bera upp. Ekkert sambærilegt ákvæði er í dönsku stjórnarskránni.

Eftir lýðveldisstofnun var í beinu framhaldi litið svo, að orðasambandið „mikilvæg stjórnarmálefni“ merkti málefni, sem atbeina forseta þyrfti til, svo sem framlagningu stjórnarfrumvarpa, skipanir í embætti, milliríkjasamninga og samþykkt lagafrumvörp. Það hefði raunar verið afar hæpið að setja vanda bankanna árið 2008 á dagskrá ráðherrafunda, þótt vissulega væru þeir oft ræddir á fundum, sérstaklega í tengslum við heimild ríkissjóðs til að taka stórt lán, sem samþykkt var í maí 2008. Sumar hættur eru þess eðlis, að þær aukast við umtal, og hættan á bankaáhlaupi er tvímælalaust þess eðlis. Hefði Geir sett vanda bankanna á dagskrá ráðherrafunda, hefði það getað valdið bankaáhlaupi og fellt bankana. Aðalatriðið lögfræðilega er þó, að meiri hluti landsdóms kaus að leggja nýja og víða merkingu í þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Hann lét Geir ekki njóta vafans og braut með því eitt lögmál réttarríkisins: In dubio, pars mitior est sequenda. Um vafamál skal velja mildari kostinn. Á þetta benti minni hluti landsdóms í vel ígrunduðu áliti sínu, en að því stóðu tveir hæstaréttardómarar, Garðar Gíslason og Benedikt Bogason.

Aldrei átti að ákæra Geir

Hitt er annað mál, að aldrei átti að ákæra Geir. Í bók minni bendi ég, að ásakanir rannsóknarnefndar Alþingis á hendur honum og tveimur öðrum ráðherrum fyrir vanrækslu voru um vanrækslu í skilningi laganna um nefndina sjálfa, sem sett voru í árslok 2008. Lögunum var með öðrum orðum beitt afturvirkt. Nefndin notaði miklu víðara vanræksluhugtak en venjulegt gat talist. Til dæmis var það (samkvæmt athugasemdum við frumvarpið) nú skyndilega vanræksla, ef menn höfðu ekki metið upplýsingar rétt eða ekki borið sig eftir upplýsingum, sem nauðsynlegar hefðu verið. Með afturvirkni laga var brotið eitt lögmál réttarríkisins: Nullum crimen sine lege, enga sök án laga.

Í bókinni bendi ég einnig á, að þingmannanefndin, sem átti að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, bætti við þremur sakargiftum, sem ekki voru í skýrslunni, þótt hún segðist einmitt styðjast við skýrsluna sem málavaxtalýsingu: 1) Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir var bætt við í hóp sakborninga; 2) allir ráðherrarnir fjórir voru sakaðir um stjórnarskrárbrot, af því að vandi bankanna hefði ekki verið ræddur á ráðherrafundi; 3) og Árni M. Mathiesen var sakaður um vanrækslu í Icesave-málinu. Var þetta gert að ráði Jónatans Þórmundssonar prófessors. En rannsóknarnefndin hafði tekið öll þessi þrjú atriði til rannsóknar og ákveðið eftir andsvör hlutaðeigandi aðila að gera þau ekki að ásökunarefnum. Þótt rannsóknarnefndin væri vissulega hvorki saksóknari né dómstóll, hafði hún svo víðtækar rannsóknarheimildir og niðurstöður hennar höfðu svo alvarlegar afleiðingar fyrir fólk, að jafna mátti henni við dómstól (enda hlutu nefndarmenn friðhelgi dómara frá málsóknum). Þess vegna má segja, að brotið hafi verið enn eitt lögmál réttarríkisins: Ne bis in idem, ekki aftur hið sama.

Ranglát málsmeðferð

Sumir þingmenn, sem skammast sín fyrir hlut sinn að landsdómsmálinu án þess þó að geta viðurkennt það, segja, að málið sýni það eitt, að landsdómur eigi ekki að vera til. Aðrir þingmenn segja, að þeir hefðu ekki greitt atkvæði með því að ákæra Geir, hefðu þeir vitað af þeirri niðurstöðu, að hann yrði einn ákærður. Hvort tveggja er fyrirsláttur. Lögin um landsdóm voru prýðilega nothæf, en þingmannanefndin vanrækti að gera það, sem hún hafði þó lagaheimild til, sem var að gera vandaða sakamálarannsókn, þar sem gætt væri allra réttinda sakborninga. Ákúrur rannsóknarnefndarinnar um vanrækslu jafngiltu ekki sönnuðum og jafnvel ekki líklegum sökum. Og þeir þingmenn, sem töldu ranglátt að ákæra Geir einan, hefðu getað greitt atkvæði gegn tillögunni um það svo breyttri, þegar hún var borin upp, eftir að fellt hafði verið að ákæra aðra ráðherra.

Jafnframt voru ýmsar misfellur í vali dómenda og meðferð málsins. Þau Markús Sigurbjörnsson og Björg Thorarensen virðast hafa ákveðið það sín í milli, hvort þeirra hjóna færi í landsdóm. Tveir menn settust í landsdóm í ársbyrjun 2011, Benedikt Bogason sem fulltrúi lagadeildar og Helgi I. Jónsson sem fulltrúi héraðsdóms. Báðir voru settir hæstaréttardómarar síðar það ár. Benedikt sat áfram í dómnum, en Helgi vék þaðan. Engu að síður höfðu verið samþykkt lög um að framlengja kjörtímabil þingkjörnu fulltrúanna til að mynda ekki rof í málsmeðferð. Auðvitað hefðu þau lög átt að ná líka til sjálfkjörnu fulltrúanna. Einn dómandi forfallaðist síðan vegna veikinda, og var þá einn af þremur hæstaréttardómurum, sem skipaðir voru 1. september 2011, settur í landsdóm, Eiríkur Tómasson. Hvers vegna tók hann sæti í landsdómi, en hvorugur hinna nýju dómaranna? Ef svarið var, að hann hefði talist eftir ákvörðun dómsmálaráðherra hafa verið skipaður fyrstur, þá var ákæruvaldið (sem ráðherrann var hluti af, enda hafði hann greitt atkvæði með ákæru) að hlutast til um, hverjir yrðu dómendur.

Vanhæfir dómarar

Eðlilegast hefði auðvitað verið, að sömu dómendur hefðu dæmt málið frá upphafi til enda og að Ingibjörg Benediktsdóttir hefði allan tímann verið forseti landsdóms. En að minnsta kosti einn dómari var tvímælalaust vanhæfur, Eiríkur Tómasson, og liggja til þess margar ástæður. Ein var, að hann hafði í febrúar 2009 skrifað grein á visir.is, þar sem hann hélt því fram, að einn orsakaþáttur bankahrunsins hefði verið ægivald ráðherra, sem misnotað hefði verið í aðdraganda hrunsins. Sú grein hvarf af netinu, og tókst mér að grafa hana upp með erfiðismunum. Enginn vissi um hana, þegar Eiríkur settist í dóminn. Önnur ástæða var, að Eiríkur hafði sem framkvæmdastjóri STEFs geymt stórfé í peningamarkaðssjóðum, en ekki í bönkum, svo að félagið tapaði miklu á því, þegar innstæður fengu forgang með neyðarlögunum, sem Geir H. Haarde bar fram. Jafnframt hafði Eiríkur sjálfur átt hlutabréf fyrir verulegar fjárhæðir í Glitni og Landsbankanum, sem hann tapaði. Í fjórða lagi hafði Eiríkur sótt um embætti hæstaréttardómara árið 2004, sem Geir veitti sem settur dómsmálaráðherra. Hafði Eiríkur tekið því mjög illa, að hann fékk ekki embættið, og sagt Geir grafa með þessari ráðstöfun undan réttarríkinu, sem er auðvitað alvarleg ásökun.

Margt fleira kemur fram í bók minni, en ég skora á lesendur Stundarinnar að kynna sér þessi rök opnum huga og velta því fyrir sér, hvort þeir komist ekki að sömu niðurstöðu og ég: að brotið hafi verið á saklausum manni. Jafnt hægri menn og vinstri eiga að njóta verndar réttarríkisins.

(Grein í Stundinni 21. desember 2022.)         


Ólafur Arnarson um landsdómsmálið

Ólafi Arnarsyni (eða ef til vill Helga Magnússyni, vinnuveitanda hans) mislíkar sumt í bók minni um landsdómsmálið, þótt hann viðurkenni, að dómurinn yfir Geir H. Haarde hafi verið rangur. Sérstaklega gremst honum, að í fyrri hluta bókarinnar er rætt um orsakir bankahrunsins, en Ólafur hafði sjálfur skrifað bók á vegum auðjöfranna, Sofandi að feigðarósi, þar sem hann hafði kennt Davíð Oddssyni um bankahrunið (og væntanlega hina alþjóðlegu lausafjárkreppu líka). Ég svaraði greinarkorni hans á dögunum svo:

Mætti ég benda á, að Geir H. Haarde var aðallega gefið það að sök í landsdómsmálinu að hafa ekki tekið nægilegt mark á viðvörunum Davíðs Oddssonar fyrir bankahrun! Með öðrum orðum saksóttu hatursmenn Davíðs Geir fyrir að hafa ekki hlustað á Davíð. Þetta er eitt af mörgu gráthlægilegu við landsdómsmálið. Ólafur Arnarson fór svo offari gegn Davíð í bók þeirri, sem hann skrifaði á vegum auðjöfranna strax eftir bankahrun, að jafnvel hörðustu vinstri mönnum eins og Páli Baldvini Baldvinssyni og Guðmundi Andra Thorssyni þótti nóg um. En kjarni málsins er samt sá, að þeir Geir og Davíð tóku saman þær tvær ákvarðanir, sem farsælastar reyndust: að veita Glitni ekki umsvifalaust neyðarlán, sem hefði strax glatast, og að setja neyðarlögin, sem takmörkuðu mjög skuldbindingar ríkissjóðs. Í bók minni bendi ég enn fremur á það, að Geir gat lítið gert árið 2008, jafnvel þótt hann tæki viðvaranir Davíðs alvarlega, sem hann og gerði: Komið hefði til bankaáhlaups, hefði ríkisstjórnin sýnt þess minnstu merki, að hún væri hrædd um slíkt áhlaup. Bankarnir höfðu vaxið svo ört árin 2003–2005 (áður en Geir varð forsætisráðherra og Davíð seðlabankastjóri), að ríkissjóður og Seðlabanki gátu ekki veitt þeim næga lausafjárfyrirgreiðslu einir og óstuddir, kæmi til lausafjárkreppu í heiminum, eins og einmitt gerðist frá og með ágúst 2007. Eitt skýringarefnið er einmitt, af hverju Bandaríkjamenn neituðu að veita Seðlabankanum sömu fyrirgreiðslu og seðlabankar Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs fengu og af hverju ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins neitaði að veita breskum bönkum í eigu Íslendinga sömu fyrirgreiðslu og allir aðrir breskir bankar fengu. Því miður gekk rannsóknarnefnd Alþingis alveg fram hjá þessum spurningum. Hún kom ekki heldur auga á tvö mjög mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi var óþarfi að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga 8. október 2008, eins og gert var, því að þegar 3. október hafði Fjármálaeftirlitið gefið út tilskipun til Landsbankans, sem kom í veg fyrir allar óleyfilegar millifærslur fjármagns frá Bretlandi til Íslands. Í öðru lagi var um að ræða mismunun eftir þjóðerni, þegar breskum bönkum í eigu Íslendinga var neitað um sömu fyrirgreiðslu og allir aðrir breskir bankar fengu, en lög og reglur Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins banna slíka mismunun eftir þjóðerni. Ég held, að orsakir bankahrunsins hafi verið margar. Það hafi verið „svartur svanur“ eins og Nassim Taleb kallar það, óvæntur atburður, sem aðeins varð fyrirsjáanlegur í ljósi upplýsinga, er fengust við sjálfan atburðinn, þegar margt lagðist á eitt (svipað og brú getur brostið, ef nógu margir hermenn ganga háttbundið yfir hana: hún stenst einn hermann, tvo hermenn, tíu hermenn, en ekki hundrað hermenn).


Vanhæfi sökum fyrri árekstra

Haarde.ImpeachmentÞegar Geir H. Haarde var leiddur fyrir landsdóm 5. mars 2012, sakaður um refsiverða vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, stóð hann andspænis tveimur hæstaréttardómurum, sem áttu eflaust erfitt með að vera óhlutdrægir í hans garð, eins og ég leiði rök að í nýrri bók um landsdómsmálið. Þeir Eiríkur Tómasson og Eggert Óskarsson höfðu árið 2004 sótt um embætti hæstaréttardómara, sem Geir H. Haarde veitti þá sem settur dómsmálaráðherra. Hann skipaði hvorugan þeirra í embættið, heldur Jón Steinar Gunnlaugsson, og var mikil heift í málinu. Eiríkur sagði til dæmis í viðtali við Fréttablaðið 30. september 2004, að með þessari embættisveitingu hefði Geir grafið undan réttinum. Nú væru tveir sjálfstæðismenn hæstaréttardómarar.

Eiríkur gat þess ekki, að á Íslandi hafa margir lögfræðingar verið skipaðir hæstaréttardómarar, þótt þeir hafi áður haft afskipti af stjórnmálum. Einn þeirra var Benedikt Sigurjónsson. „Hann var harður Framsóknarmaður, og ég hafði oft leitað ráða hjá honum um lögfræðileg efni,“ sagði Steingrímur Hermannsson, þegar hann minntist dómsmálaráðherratíðar sinnar. Um þetta hlaut Eiríki að vera kunnugt, því að hann var þá einmitt aðstoðarmaður Steingríms í dómsmálaráðuneytinu. Þeir Eiríkur og Eggert voru í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.

Þriðji dómandinn í landsdómi, Brynhildur Flóvenz, hafði kvartað undan því við danskt blað 1. febrúar 2009, að eftir bankahrunið yrði hún í fjölskylduboðum að reiða fram fisk, en ekki hreindýrasteik. Hún væri þó reiðubúin að fórna öllum steikum, „ef kreppan felur í sér uppgjör við klíkuveldið og fleiri konur í forystu“. Hér kenndi Brynhildur klíkuveldi og karlmennskuhugarfari um bankahrunið, en nærtækasti fulltrúi þessa hvors tveggja í huga hennar  var væntanlega Geir H. Haarde forsætisráðherra. Brynhildur var í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. desember 2022.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband