Þrjár greinar og ekki tilefnislausar

Þrjár helgar í röð hafa birst eftir mig myndskreyttar greinar í jafnmörgum blöðum.

Fyrsta greinin hét „Berlínarmúrinn“ og birtist í Fréttatímanum föstudaginn 12. ágúst 2011, fimmtíu árum eftir að Berlínarmúrinn var reistur (13. ágúst 1961). Þar ræddi ég meðal annars um þá Íslendinga, sem vörðu múrinn á sínum tíma, og tengsl íslenskra kommúnista við austur-þýska. Með greininni var mynd, sem ég fékk frá Þýska þjóðskjalasafninu, Bundesarchiv, og mun birtast í væntanlegri bók minni um íslenska kommúnista.

Önnur greinin hét „Minningardagur fórnarlambanna“ og birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 20. ágúst. Hún var um minningardag fórnarlamba nasismans og kommúnismans, sem Evrópusambandið og fleiri aðilar hafa lagt til, að haldinn verði árlega 23. ágúst (en þann dag árið 1939 gerðu Stalín og Hitler griðasáttmála þann, sem hleypti af stað seinni heimsstyrjöld). Í greininni ræddi ég stuttlega um sameðli þessara tveggja alræðisstefna og sagði frá nokkrum fórnarlömbum þeirra, meðal annars Margarete Buber-Neumann, en hún sat fyrst í fangabúðum Stalíns og síðan Hitlers og skrifaði um það bókina Konur í einræðisklóm, sem kom á sínum tíma út á íslensku. Með greininni birtust myndir, sem ég fékk frá Þýska þjóðskjalasafninu, Bundesarchiv, frá Þýska landsbókasafninu, Deutsches Nationalbibliotek, og úr Svartbók kommúnismans

Þriðja greinin hét „Ísland, Eystrasaltslöndin og heimskommúnisminn“ og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 27. ágúst. Hún var skrifuð af því tilefni, að tuttugu ár voru 25. ágúst liðin, frá því að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og tók aftur upp stjórnmálasamband við þau. Þar ræddi ég um ýmis óvænt tengsl Íslands og Eystrasaltsþjóða, til dæmis fyrirlestra Líbu Fridlands hér á útmánuðum 1923 og greinaskrif Teodorasar Bieliackinas 1946, en einnig bækur á íslensku um hlutskipti þessara ríkja og óvæntar heimsóknir ýmissa kunnra manna frá þeim. Með greininni birtust myndir, sem ég fékk úr myndasöfnum í Eistlandi og annars staðar og úr Þjóðskjalasafni Lettlands.


Hvers vegna var kóngurinn settur af?

Þótt Íslendingar væru langflestir sammála um að taka utanríkismál og landhelgisgæslu í eigin hendur, er sambandslagasáttmálinn frá 1918 rynni út 1943, var lengi óvíst, hvort þeir myndu um leið setja kónginn af. Enn hafa Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland ekki slitið konungssambandi við Stóra-Bretland.

Líklega hefur konungur Íslands og Danmerkur, Kristján X., einhverju valdið sjálfur um afsetningu sína. Hann talaði niður til Íslendinga. Hannes Hafstein var til dæmis í mikilli geðshræringu eftir fyrsta fund sinn 1912 með hinum nýja konungi, en faðir hans, Friðrik VIII., hafði verið mikill vinur Íslendinga.

Í einkasamtölum kom fram, að konungur var óánægður með, að Íslendingar skyldu ekki reisa honum höll á landi sínu. Einnig má nefna, að hann klæddist herforingjabúningi á Alþingishátíðinni 1930, þótt ríkisstjórnin íslenska hefði sérstaklega beðið hann um að vera borgaralega til fara.

Ýmis ummæli konungs voru ekki heldur til þess fallin að auka honum vinsældir. Hann sagði við Kristmann Guðmundsson rithöfund: „Ég vildi ekki eiga að lifa þar norður frá.“

Eitt sinn, er Jón Baldvinsson, formaður Alþýðuflokksins, átti erindi til Kaupmannahafnar og gekk fyrir konung, sagði hann með lítilsvirðingu í röddinni: „Þér búið auðvitað á gistiheimili (missionshotel), herra Baldvinsson?“ Jón svaraði: „Nei, ég bý á hótelinu Kongen af Danmark.“

Konungur kvað svo að orði við Svein Björnsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, síðar forseta Íslands: „Það, sem Íslendingar þurfa, er einhver Mússólíni.“ Sveinn svaraði kurteislega: „Og yðar hátign viljið ef til vill verða vor Viktor Emanúel?“ Viktor Emanúel Ítalíukóngur var lágvaxinn og skrækróma og í litlum metum.

Ótrúlegast var þó, hvernig konungur ávarpaði Jónas Jónsson frá Hriflu á Alþingishátíðinni 1930: „Svo að þér eruð sá, sem leikið lítinn Mússólíni hér á landi?“ Jónas roðnaði af reiði, en stillti sig og svaraði: „Við þörfnumst ekki slíks manns hér á landi, yðar hátign.“

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út haustið 2010. Hann birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2011.)


Í Kastljósi með Stefáni Snævarr

Ég tók þátt í umræðum í Kastljósi Sjónvarpsins fimmtudagskvöldið 18. ágúst. Tilefnið var, að út er komin bók dr. Stefáns Snævarrs heimspekings, Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni.

Ég benti á það, að bók Stefáns er að mestu leyti ádeila á íslenska vinstri menn fyrir þrennt, ódugnað þeirra við að halda uppi rökræðum, kreddur þeirra úr göróttri fortíð (stalínismans) og þjónkun við auðjöfrana á hinum örlagaríku árum 2004–2008.

Tvær helstu stoðir frjálshyggjunnar stæðu af sér gagnrýni Stefáns. Fyrri stoðin er sú sannfæring, að valdið sé hættulegt og mennirnir misjafnir, svo að takmarka beri valdið, halda því í skefjum, mynda mótvægi við það. Þetta kemur skýrt fram í stjórnspeki Johns Lockes.

Seinni stoðin er sú hugmynd, að mönnum gangi oftast betur að fullnægja þörfum sínum með frjálsum viðskiptum en valdboði að ofan. Regla geti komist á, án þess að nokkur komi henni á. Þessa hugmynd um sjálfstýringu má rekja til Adams Smiths, föður hagfræðinnar.

Stefán Snævarr gagnrýnir í bók sinni hagfræðina sem fræðigrein. Ég get tekið undir margt í gagnrýni hans, en tel þó, að sú frjálshyggjuhagfræði, sem ég og margir aðrir höfum beitt, sé í rauninni vinnutilgáta eða rannsóknaráætlun. Hún er fólgin í því að reyna á þanþol kenningarinnar um sjálfstýringu. Hversu margt geta menn leyst með verðlagningu frekar en skipulagningu, viðskiptum frekar en valdboði? Eins og ég hef leitt í ljós í fjölda bóka, má nota slíkar lausnir á miklu fleiri sviðum en almennt er talið.

Ég vakti athygli á því, að Stefán talar um frjálshyggju sem sjöundu pláguna, og hefði hún átt snaran þátt í bankahruninu íslenska. En orðið „plága“ kemur úr Gamla testamentinu, eins og ég minnti á. Hagkerfið sveiflaðist upp og niður, löngu áður en frjálshyggja þeirra Johns Lockes og Adams Smiths kom til sögunnar.

Einnig vísaði ég því á bug, að kenna mætti frjálshyggjunni um bankahrunið. Árin 1991–2004 var hér aðeins reynt að koma á svipuðu fyrirkomulagi og annars staðar í álfunni, en breytingin var auðvitað mikil, jafnvel róttæk, því að Ísland var svo langt á eftir grannríkjunum um margt. Þar voru til dæmis bankar ekki ríkisreknir eins og hér.

Ég sótti líka á fimmtudaginn útgáfuhóf, sem Stefán efndi til í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. Þar flutti Jón Baldvin Hannibalsson ræðu og veittist að mér. Kvað hann mig sekari um að spilla æskulýðnum en Sókrates forðum, en hann var sem kunnugt er dæmdur til dauða fyrir tvennt, að trúa ekki á guði Aþenuborgar og spilla æskulýðnum. Fundust mér þetta heldur kaldar kveðjur, en vona, að Jóni Baldvini þyki ég ekki eiga skilið sömu refsingu og Sókrates.


Eftirminnilegur kvöldverður

Góðkunningi minn bandarískur, einn af fyrrverandi forstjórum Coca Cola, maður á áttræðisaldri, kom hingað til lands 12. ágúst til að veiða lax. Ég kannaðist líka við fyrri konu hans, sem nú er fallin frá. Hann tók með sér seinni konu sína og kynnti hana fyrir mér, og eftir að við höfðum fengið okkur drykk heima hjá mér, skruppum við á Fiskmarkaðinn í kvöldverð, en daginn eftir ætluðu þau hjónin á veiðistaðinn. Við fengum bragðgóðan mat á Fiskmarkaðnum. Ég gæddi mér á gröfnum hvali og grilluðum humarhölum og skolaði matnum niður með þurru hvítvíni frá Chile. Ég sagði þeim hjónum eins og satt er, að nóg væri af hvölum á Íslandsmiðum, meira en 40 þúsund hrefnur og meira en 20 þúsund langreyðar.

Þetta er ekki í frásögur færandi. En kona kunningja míns reyndist vera ungversk að uppruna, þótt hún væri nú svissneskur ríkisborgari. Fjölskylda hennar hafði falið gyðinga hjá sér í stríðinu, og faðir hennar hafði tekið þátt í uppreisninni 1956 og orðið að flýja land og fjölskyldan á eftir henni, hún þar á meðal, þá tíu ára að aldri. Ég sagði henni, að ég hefði nýlokið að lesa afar athyglisverða skáldsögu eftir ungverska rithöfundinn Sándor Márai, Kertin brenna niður, sem kom út fyrir nokkrum árum í þýðingu Hjalta Kristgeirssonar beint úr ungversku. Mikil dulúð hvílir yfir þessari bók, sem var raunar bönnuð í valdatíð kommúnista, ekki vegna þess að í henni væri neinn sérstakur stjórnmálaboðskapur, heldur vegna þess að þar má greina óljósan söknuð eftir hinu ungverska konungsríki Habsborgaranna: Tveir vinir, sem báðir voru foringjar í her konungsríkisins, hittast í byrjun seinni heimsstyrjaldar í kastala annars þeirra eftir fjörutíu ára aðskilnað og rifja upp gömul leyndarmál.

Ég sagði henni líka frá því, að talsvert væri skrifað um Ungverjaland í væntanlegri bók minni um íslenska kommúnista. Þeir hældu sér sumir af því að hafa kynnst vel Mátyas Rákosi, sem varð einræðisherra Ungverjalands eftir stríð. Hann var alræmdur hrotti, sem sagðist hafa fundið upp aðferð við að ná völdum, „smábitaaðferðina“. Einnig sagði ég henni, að annar ungverskur kommúnisti kæmi nokkuð við sögu íslenskra kommúnista, Mihály Farkas, og ekki væri hann geðfelldari. Hún kannaðist auðvitað við báða þessa þrjóta. Áttum við nokkurt spjall um ungverska sögu og bókmenntir.

Einnig sagði ég hinum ungverska gesti, að ég hefði iðulega á fyrri tíð, þegar ég háði kappræður við þá Halldór Guðmundsson, Má Guðmundsson og aðra kommúnista í skólum landsins, lokið ræðum mínum á vísuorðum ungverska þjóðskáldsins Petöfis, sem Steingrímur Thorsteinsson þýddi:

Upp nú, lýður, land þitt verðu!

Loks þér tvíkost boðinn sérðu:

Þjóðar frelsi, þrældóms helsi.

Þú sérð muninn, kjóstu frelsi!

Þá táraðist ungverska konan, sem flúið hafði frá landi sínu tíu ára, og fór með ljóðið á ungversku. Þetta var eftirminnileg stund.


Dómar um Þórberg

Þótt allir væru sammála um, að Þórbergur Þórðarson væri manna ritfærastur, voru dómar um opinbera framgöngu hans misjafnir. Var honum alvara með sumu því, sem hann lét frá sér fara?

Sumir kváðu nei við. Eggert Stefánsson söngvari sagði um þá Þórberg og Kjarval málara: „Íslendingar dýrka trúðana.“ Og Guðmundi G. Hagalín rithöfundi varð að orði, eftir að bók um Þórberg, Í kompaníi við allífið, birtist vorið 1959: „Þórbergur Þórðarson er ekki þjóðskáld, heldur þjóðfífl.“

Hvort sem Þórbergur var trúður eða ekki, þótti hann að minnsta kosti trúgjarn. Þegar Árni Pálsson prófessor frétti, að Þórbergur væri sestur niður til að skrifa ævisögu séra Árna Þórarinssonar prófasts eftir honum, mælti hann: „Það verður góð bók, þegar trúgjarnasti maður á Íslandi fer að skrifa ævisögu lygnasta mannsins á Íslandi.“

Vilmundur Jónsson landlæknir var eitt sinn spurður, hvor væri trúgjarnari, Þórbergur eða Guðbrandur Magnússon, sem var um skeið forstjóri Áfengisverslunar ríkisins. Svarið var: „Það er augljóst mál. Guðbrandur er trúgjarnari. Hann trúir öllu, sem honum er sagt, en Þórbergur engu nema því, sem er logið að honum.“

Minnir þetta á það, er Þórbergur skráði samviskusamlega niður sagnir ungrar stúlku og gaf út í Viðfjarðarundrunum. Þegar móðir stúlkunnar, Huldu Guðbjargar Sigurðardóttur, átaldi hana fyrir, svaraði hún: „Ég hef svo gaman af að ljúga að honum Þórbergi.“

Sanngjörnustu dómana um Þórberg eiga sennilega þeir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Pétur Pétursson útvarpsþulur. Guðmundur Andri komst svo að orði: „Hann hélt að hann gæti haft vit á öllu, bara með því að hafa skoðanir á öllu.“ Og Pétur sagði eitt sinn við mig: „Þórbergur Þórðarson var þrír menn, Espólín, Vídalín og Sjapplín.“

Þórbergur var vissulega nákvæmur sagnritari að fordæmi Jóns Espólíns, prédikaði jafnskörulega og Jón Vídalín og brá fyrir sig gamanleik eins og Charles Chaplin.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 6. ágúst 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún hentar jafnvel til að taka upp í sumarbústaðinn og til að gefa fólki í afmælis- og útskriftargjafir.)


Hreinsun Oksanens

Fyrir orð Gísla Marteins Baldurssonar las ég á dögunum Hreinsun eftir finnsk-eistnesku skáldkonuna Sofi Oksanen, sem kom hingað til lands á bókmenntahátíð fyrir skömmu. Skiptar skoðanir höfðu verið um bókina í hópi samstarfskvenna minna í háskólanum, en Gísli Marteinn mælti eindregið með henni.

Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Bókin grípur lesandann, sem getur ekki lagt hana frá sér, fyrr en hann hefur fengið botn í, hvað er að gerast og hvað hafði verið að gerast. Tvær konur, önnur ung og hin roskin, hittast eða öllu heldur rekast á í Eistlandi. Smám saman koma leyndarmálin, sem tengja þær, í ljós, og um leið sér lesandinn inn í hrollkaldan veruleikann í Eistlandi og Rússlandi undir stjórn kommúnista.

Þetta skáldverk er ekki reyfari, en það er reyfarakennt.

Þótt ég kæmi ekki auga á neinn stjórnmálaboðskap í skáldverki Oksanens, leiðir hún hugann að stjórnmálum. Íslendingar voru heppnari með volduga nágranna en Eistlendingar. Við höfðum lýðræðisstjórnir Breta og Bandaríkjamenn. Þeir höfðu einræðisstjórnir Stalíns og Hitlers.

Í bók minni, Íslenskir kommúnistar 1918–1998, sem kemur út í haust, eru margar óvæntar tengingar við Eystrasaltslöndin, og má nefna fyrirlestraferð Ljúbu Friedlands, gyðingakonu frá Lettlandi, hér um kommúnismann í Rússlandi haustið 1923, ritdeilu landflótta Litháa, Teodorasar Bielickanas, við íslenska sósíalista um Eystrasaltsríkin í lok seinni heimsstyrjaldar, heimsókn dr. Augusts Reis, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, hingað vorið 1957 (sem sendiherra Ráðstjórnarríkjanna mótmælti) og laumuheimsókn eins versta böðuls Eistlands, Ivans Käbins, hingað vorið 1978.

Nú vilja allir Lilju kveðið hafa. En engir íslenskir sósíalistar létu sér skipta örlög Eystrasaltsþjóðanna og fáir aðrir. Þeir voru þó til. Séra Sigurður Einarsson í Holti þýddi bókina Örlaganótt yfir Eystrasaltsríkjum, sem var ein fyrsta útgáfubók Almenna bókafélagsins 1955, og Davíð Oddsson þýddi bókina Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds 1973. Þær eru báðar merkar heimildir.


Stalín var hér

Haustið 1977 sýndi Þjóðleikhúsið leikritið „Stalín er ekki hér“ eftir Véstein Lúðvíksson. Sögusviðið var heimili Þórðar járnsmiðs árið 1957. Hann er í Sósíalistaflokknum og vill ekki viðurkenna, að sósíalisminn hafi orðið fyrir áföllum við afhjúpun Stalíns og innrásina í Ungverjaland. En kona hans heimtar, þegar þau flytjast í nýja íbúð, að hann selji rit sín um marxisma: „Við verðum að fara að gera hreint.“

Sömu dagana og leikritið var fært upp í Þjóðleikhúsinu, hélt Alþýðubandalagið landsfund, og sögðu gárungarnir, að sama leikritið væri leikið samtímis á tveimur stöðum í Reykjavík. Alþýðubandalagið var þá að sverja af sér forvera sína, Sósíalistaflokkinn og kommúnistaflokkinn, þótt enn laumuðust einstakir forystumenn flokksins öðru hverju til Ráðstjórnarríkjanna í boði Kremlverja.

Forystumenn Sósíalistaflokksins voru ekki einir um stalínisma. Ræstingakona Þjóðviljans, Elín Ólafsdóttir, hafði þetta viðkvæði: „Þá minnist ég Bjarna frá Vogi og Josífs Stalíns, er ég heyri góðs manns getið.“ Kunningi minn sagði við annan sannfærðan stalínista, Bóas Emilsson, trésmið á Selfossi, að hann gæti nú ekki neitað því, að Stalín hefði látið drepa milljónir manna á valdatíma sínum. Bóas var snöggur til svars: „Ja, hvað drepur Guð marga á hverjum degi?“

Jens Figved, sem var í þjálfunarbúðum fyrir byltingarmenn í Moskvu, var líklega eini Íslendingurinn, sem talaði við Stalín. Var það símleiðis, og leyfði Stalín þýðingu á einu verki sínu, væntanlega „Nokkur atriði úr sögu bolsévismans“, sem birst hafði haustið 1931 í Rússlandi (en hér í Bolsjevikkanum 1934).

Nokkrir Íslendingar sáu Stalín þó álengdar, oftast á hersýningum á Rauða torginu. Halldór Kiljan Laxness virti hann fyrir sér á sviði í Bolshoj-leikhúsinu 11. desember 1937. Í Gerska æfintýrinu skrifaði Laxness síðan, að Stalín væri í hærra meðallagi á vöxt, grannur og vel limaður. Þetta var fráleitt. Stalín var mjög stuttur, nánast dvergur, þrekinn og bólugrafinn. Raunar breytti Laxness þessu í annarri útgáfu 1983, og var Stalín þá „í meðallagi á vöxt“. Hér gerði aldrei þessu vant fjarlægðin manninn minni.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 30. júlí 2011 og er sóttur í ýmsa staði í tvær bækur mínar, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010, og Íslenska kommúnista 1918–1998, sem væntanleg er næsta haust.)


Harmleikurinn í Noregi

Harmleikurinn í Noregi er nálægt okkur. Norðmenn eru frændur okkar og grannar. Þess vegna finnum við sterkt til með þeim. Skyndilega er friður hinna norðlægu slóða, okkar og þeirra, rofinn með kúlnahríð. Sá friður hefur að vísu stundum verið rofinn áður, til dæmis á stríðsárunum síðustu, en tilfinningin er engu að síður ónotaleg.

Hugur okkar hlýtur að vera með fórnarlömbunum, — saklausu, ungu fólki, sem truflaður maður sviptir snögglega lífinu, en ella hefði það legið beint og bjart framundan í þessu vandræðalausa landi. Hugur okkar hlýtur líka að vera með vandamönnum fórnarlambanna, sem munu þurfa að bera sorgina alla óliðna ævi. Við megum ekki láta neinar íslenskar þúfur byrgja okkur sýn, heldur samhryggjast þeim.

Enska ljóðskáldið John Donne orti:

Enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér. Sérhver maður er brot af meginlandinu, hluti veraldar. Ef sjávarbylgjur skola moldarhnefa til hafs, minnkar Evrópa, ekki síður en eitt annes væri, engu síður en óðal vina þinna eða sjálfs þín væri. Dauði sérhvers manns smækkar mig, af því ég er íslunginn mannkyninu. Spyr þú því aldrei, hverjum klukkan glymur. Hún glymur þér.


Báðum skjátlast

Ásgeir Ásgeirsson var forsætisráðherra í miðri heimskreppu, 1932–1934. Gunnar M. Magnúss skýrir frá því í minningum sínum, að Ásgeir hafi sagt á kosningafundum í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1934: „Kreppan er eins og vindurinn. Enginn veit, hvaðan hún kemur eða hvert hún fer.“

Þetta er ættað úr Jóhannesarguðspjalli, enda var Ásgeir guðfræðingur að mennt. Þar segir (3, 8): „Vindurinn blæs, þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer.“

Ásgeiri samdi illa við flokksbróður sinn, Jónas Jónsson frá Hriflu, og er óhætt að segja, að Jónas hafi hrakið hann úr Framsóknarflokknum. Lá Jónasi jafnan illa orð til Ásgeirs. Frægt er, þegar bóndi að vestan hitti fyrst Jónas og síðan Ásgeir í Reykjavíkurför. Þegar Jónas barst í tal við Ásgeir, var hann sanngjarn í máli eins og hans var vandi. Bóndi mælti í undrunartón: „Það er fallegt af þér að tala svona vingjarnlega um Jónas frá Hriflu, þar sem hann talar svo illa um þig.“ Ásgeir svaraði alúðlega: „Ef til vill skjátlast okkur báðum.“

Þessi saga er ekki verri fyrir það, að hún er gömul. Feneyski kvennamaðurinn Giacomo Casanova, sem uppi var 1725–1798, sagði í endurminningum sínum, Histoire de ma vie (3. bindi, 21. kafla), frá því, er hann hitti franska háðfuglinn Voltaire í ágúst 1760. Hafði hann orð á því við Voltaire, að því miður talaði svissneski náttúrufræðingurinn Albrecht von Haller ekki eins vel um Voltaire og Voltaire um von Haller. „Haha, það getur verið, að okkur hafi báðum skjátlast,“ svaraði Voltaire brosandi.

Svipað segir af þýska rithöfundinum Tómasi Mann. Útgefandi í München hafnaði handriti eftir hann. Mann sagði: „Ég hélt þér væruð listvinur.“ Útgefandinn svaraði: „Ég fæ ekki séð, að þér eða handritið yðar eigi neitt skylt við list.“ Þá mælti Mann: „Þá biðst ég afsökunar. Okkur skjátlast þá sýnilega báðum.“

Vestur-íslenska skáldið Káinn orti í sama anda

Einlægt þú talar illa um mig,

aftur ég tala vel um þig.

En það besta af öllu er,

að enginn trúir þér — né mér.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 23. júlí 2011 og er sóttur í marga staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensk, sem er tilvalin gjöf við margvísleg tækifæri.)


Hvenær yfirheyrir lögreglan Lilju?

Í þriðju viku mars 2011 birti DV nokkrar fréttir um greiðslur Landsbankans til kynningar- og ráðgjafafyrirtækis, sem ég rek. Ekkert var óeðlilegt við þessar greiðslur, þess var sérstaklega getið á heimasíðu verkefnisins, sem styrkt var, að Landsbankinn var styrktaraðili, jafnframt því sem þessar greiðslur komu að sjálfsögðu fram í rekstrarreikningi fyrirtækisins og í skattframtali þess. Þetta var ekkert mál.

Spurningin er hins vegar, hvernig DV barst vitneskja um málið, sem var ekkert mál. Af fréttum blaðsins og þeim spurningum, sem það hafði sent mér, mátti sjá, að blaðamaður DV hafði séð reikninga frá fyrirtæki mínu eða verið sagt frá þeim. Orðalag og upplýsingar, sem DV hafði eftir, voru samkvæmt þessum reikningum, ekki til dæmis samkvæmt færslum bankans. Þessir reikningar voru sendir stafrænt, ekki á pappír, til Landsbankans þrisvar árin 2007 og 2008. Blaðamaður DV hafði ekki séð alla reikningana og vissi ekki, hvort þeir höfðu verið greiddir.

DV gat aðeins borist vitneskja um málið á tvennan hátt. Í fyrsta lagi hefði einhver innan bankans, sem til þess hefði heimild, getað opnað reikningana, þar sem þeir voru geymdir rafrænt, skoðað þá og hugsanlega afritað. En sá hængur er á, að slík opnun og skoðun er ætíð skráð. Hún skilur eftir sig rafræna slóð. Rannsókn Landsbankans á málinu leiddi í ljós, að því er mér er sagt, að ekkert slíkt gerðist.

Í öðru lagi hefði einhver utan bankans getað brotist inn í tölvukerfi hans (ekki ef til vill allt, heldur hluta þess) og leitað að nöfnum eftir fyrirsögn og þá væntanlega fyrirsögn blaðamanna DV. Annað eins hefur gerst. Til dæmis braust ungur maður inn í tölvukerfi fyrirtækis fyrir nokkru, aflaði upplýsinga um ýmis einkamál kunnra íþróttagarpa og stjórnmálamanna og seldi DV.

Ef þetta hefur verið gert, þá hafa þeir, sem hlut eiga að máli, gert hið sama og blaðamenn Ruperts Murdochs í Bretlandi, sem nú sæta rannsókn. Þeir hafa brotist inn í og hlustað á eða skoðað fjarskipti, hvort sem það eru upplýsingar í tölvu eða síma. Mikilvægt er fyrir framvindu málsins, hvort þeir hafa gert það að eigin frumkvæði eða ekki.

Máli skiptir, hvort einhver hefur brotist að utan inn í tölvukerfi Landsbankans og aflað upplýsinga þaðan og síðan selt DV eða hvort blaðamenn DV hafa beinlínis gert út slíkan tölvuþrjót til þess að afla upplýsinga um einstaka menn (til dæmis mig) og greitt honum fyrir. Sök blaðamanna er vitanlega mikil í báðum tilvikum, en þó miklu beinni og meiri í hinu síðarnefnda. Lilja Skaptadóttir er aðaleigandi blaðsins. Hún leggur DV til fé. Án hennar hefði það fyrir löngu hætt útkomu. Hún er ábyrg fyrir greiðslum til slíkra verkefna. Þær eru úr vasa hennar. Hvenær yfirheyrir lögreglan Lilju um málið?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband