22.8.2008 | 11:19
Hvaða nauður?
Þegar ekki er nauðsynlegt að breyta, er nauðsynlegt að breyta ekki, sagði breskur íhaldsmaður fyrir löngu. Umræðurnar um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu sæta furðu. Hvaða nauður knýr okkur þangað inn? Ég skil vel Frakka, Þjóðverja og Ítali, þegar þeir stofnuðu ásamt nokkrum minni þjóðum vísi að þessu sambandi með Rómarsáttmálanum 1957. Þessar þjóðir þráðu að hætta því borgarastríði, sem staðið hafði í Evrópu öldum saman með misjafnlega löngum hléum. Ég skil líka vel þjóðir Mið- og Austur-Evrópu, sem flýttu sér í Evrópusambandið, þegar þær losnuðu undan sósíalismanum. Þær hafa augastað á mörkuðum í Vestur-Evrópu og sækja í það skjól, sem sambandið veitir vonandi fyrir rússneska birninum, en nú rymir hátt í honum.
Það var þó ekki Evrópusambandið, sem tryggði frið í Evrópu eftir heimsstyrjöldina síðari, heldur Bandaríkjamenn með sína mörg hundruð þúsund hermenn í álfunni og öflugt vopnabúr heima fyrir. Enn á Evrópusambandið í erfiðleikum með að marka stefnu og framfylgja í öryggismálum. Smáþjóðir utan Evrópu, sem óttast rússneska björninn eða kínverska drekann, setja frekar traust sitt á Bandaríkin en Evrópusambandið. Er það af ótta við Evrópusambandið, sem Rússar hafa enn ekki árætt að hernema Georgíu alla eða Kínverjar að leggja undir sig Taívan? Samt sem áður eru stjórnmálarökin fyrir Evrópusambandinu skiljanleg, eins langt og þau ná.
Engin sérstök viðskiptarök hníga hins vegar að Evrópusambandinu. Þjóðir heims græða vissulega allar á frjálsum viðskiptum og verkaskiptingu, eins og Adam Smith sýndi fram á. En þær geta stundað slík viðskipti án alþjóðastofnana eins og Evrópusambandsins. Við þurfum þess ekki með til að kaupa kaffi frá Brasilíu eða selja fisk til Japans. Það er líka áhyggjuefni, að Evrópusambandið hefur nokkra tilburði til að hlaða tollmúra í kringum Evrópu, þótt viðskipti innan múranna séu vissulega frjáls. Tollmúrarnir koma sér illa fyrir fátækar þjóðir í suðri, sem þurfa einmitt að selja Evrópubúum vöru og þjónustu til að geta brotist til bjargálna. Reynslan ein mun hins vegar skera úr um, hvort Evrópusambandið verði síðar meir lokað ríki eða opinn markaður.
Engin nauður knýr Íslendinga, Norðmenn eða Svisslendinga inn í Evrópusambandið. Þetta eru þrjár ríkustu þjóðir Evrópu, sem yrðu að leggja miklu meira í sjóði sambandsins en þær fengju úr þeim. Þær hafa allar tryggt aðgang að Evrópumarkaði, Íslendingar og Norðmenn með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, Svisslendingar með tvíhliða samningi, sem er í raun jafngildur EES-samningnum. Engin þessara þjóða telur sig af öryggisástæðum þurfa að ganga í Evrópusambandið. Tvær aðrar ástæður eru til þess, að Íslendingar ættu að vera enn tregari til aðildar en Norðmenn og Svisslendingar. Við yrðum í fyrsta lagi að afsala okkur yfirráðum yfir Íslandsmiðum, þótt við fengjum eflaust fyrir náð að veiða einir hér fyrsta kastið. Og í öðru lagi yrði sjálf aðildin okkur dýrkeypt. Við yrðum að ráða fjölda fólks í vinnu við að sækja ráðstefnur og fundi og þýða ræður og skýrslur.
Er hér ef til komin skýringin á hinum undarlega áhuga sumra á aðild að Evrópusambandinu? Sjá hinar talandi stéttir á Íslandi þar ný atvinnutækifæri? Fólkið, sem vill frekar sækja ráðstefnur um nýsköpun en skapa eitthvað nýtt?
Fréttablaðið 22. ágúst 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2008 kl. 15:52 | Slóð | Facebook
8.8.2008 | 10:06
Solsénitsyn allur
George Orwell óttaðist, að alræðisherrum tuttugustu aldar tækist að leggja undir sig mannssálina. Þeir vildu ekki aðeins ráða því, hvað þegnar þeirra gerðu, heldur líka, hvað þeir hugsuðu. Hrollvekju Orwells, Nítján hundruð áttatíu og fjögur, lauk á því, að söguhetjan elskaði Stóra bróður. Margir þeir, sem bjuggu við kommúnistastjórn fram að falli Berlínarmúrsins 1989, halda því fram, að Orwell hafi farið ótrúlega nærri um eðli og aðferðir alræðisherranna. En um eitt reyndist hann ekki sannspár. Kommúnistum tókst ekki að leggja undir sig sál þegna sinna. Þótt flestir hlýddu þeim og endurtækju jafnvel opinberlega einhverjar af stórlygum þeirra, voru til þeir, sem buguðust ekki.
Einn þeirra var rússneski rithöfundurinn Aleksandr Solsénitsyn, sem lést 3. ágúst 2008 og átti þá aðeins fjóra mánuði í nírætt. Hann barðist í Rauða hernum í heimsstyrjöldinni síðari, en var dæmdur í átta ára fangabúðavist og síðan langa útlegð fyrir ógætileg ummæli um Stalín í einkabréfi. Eftir að hann var látinn laus, notaði hann allar tómstundir til að safna upplýsingum og skrifa um fangabúðakerfi ráðstjórnarinnar, Gúlagið. Uppgjör forystumanna kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna við Stalín 1956 leiddi til tímabundinnar hláku í menningarlífi, og þá var hin snjalla skáldsaga hans, Dagur í lífi Ívans Denisovitsj, gefin út með opinberu leyfi. Hún gerist á einum degi í fangabúðum í Kasakstan.
Hlákunni lauk, og Solsénitsyn fékk ekki leyfi Rithöfundasambands Ráðstjórnarríkjanna til að gefa út fleiri bækur, auk þess sem leyniþjónustan KGB hafði á honum gætur. Naut hann þá ómetanlegrar aðstoðar hins heimskunna sellóleikara Mstislav Rostropóvitsj, sem kom tvisvar hingað til lands og átti hér vini. Solsénitsyn tókst að smygla stórvirki sínu, Gúlageyjunum, úr landi, en þar lýsir frábær sögumaður fangabúðakerfinu í smáatriðum. Lesandinn stígur með Solsénitsyn niður í víti. Þegar Solsénitsyn hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1970, fékk hann ekki að taka á móti þeim í Stokkhólmi, en hann var loks rekinn úr landi og sviptur ríkisborgararétti 1974. Hann bjó síðan lengst í Bandaríkjunum, en sneri heim til Rússlands 1994.
Gúlageyjarnar höfðu mikil áhrif á mig, en ég las þær snemma á áttunda áratug. Ég strengdi þess heit að leggja mitt lóð á vogarskálina með andstæðingum Kremlverja. Ég gerði útvarpsþátt um Solsénitsyn og verk hans 4. júlí 1976 og fékk þá til mín Indriða G. Þorsteinsson, sem var ómyrkur í máli um kommúnisma. Þættinum var illa tekið í Þjóðviljanum. Árni Bergmann hneykslaðist á því 11. júlí, að okkur Indriða væri hleypt í útvarp. Ólafur Ragnar Grímsson, sem skrifaði pistla í blaðið undir dulnefninu A, kvað 20. júlí merka rússneska rithöfunda telja Solsénitsyn stríðsæsingamann og bætti við frá eigin brjósti: Kaldastríðsmaskínan þarf sitt reglulega hráefni, og árásarstefna Solsénitsyns hefur reynst henni hreinn hvalreki á þrengingartímum.
Sem betur fer hlustaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseti frekar á Solsénitsyn en úrtölumenn og sigraði þess vegna í kalda stríðinu. Í Gúlageyjunum sagði Solsénitsyn sögu af fólki, sem rússneskir kommúnistar tóku af lífi með því að setja það á pramma, sem siglt var út á stöðuvatn og sökkt. Fólkið hvarf sjónum okkar. En það má ekki hverfa sjónum sögunnar. Solsénitsyn bjargaði því og öðrum fórnarlömbum kommúnismans frá gleymsku.
Fréttablaðið 7. ágúst 2008.
1.8.2008 | 07:38
Af andfætlingum
Erfitt hlýtur að vera vinstri sinnaður menntamaður eftir hrun vinnubúðasósíalismans í Rússlandi og hnignun vöggustofusósíalismans í Svíþjóð. Hinn sigursæli kapítalismi okkar daga hefur ekki sömu þörf fyrir gáfnaljós af Aragötunni (þar sem prófessorar Háskólans bjuggu í niðurgreiddu húsnæði) og sósíalismi. Kapítalisminn spyr ekki, hvaðan menn eru, heldur hvað þeir geta. Einn af Aragötunni, Stefán Snævarr heimspekingur, hefur eftir langa leit á Netinu fundið land, þar sem kapítalismi á að hafa mistekist. Það er Nýja-Sjáland, og heimild hans er grein í Financial Times 30. ágúst 2000 eftir hagfræðiprófessorinn John Kay. Hér í blaðinu endursegir Stefán hróðugur þessa grein 9. júlí síðastliðinn.
Því miður er greining Kays hæpin og tölur hans úreltar. Einn starfsbróðir hans, prófessor Martin Wolf, skrifar ágæta grein í Financial Times 16. nóvember 2004, þar sem hann hrekur þá skoðun, að frjálshyggjutilraunin í Nýja Sjálandi hafi mistekist. Hún var viðbragð við alvarlegri kreppu, sem ríkisafskiptasinnar allra flokka höfðu komið landinu í á löngum tíma. Tilraunin var í tveimur áföngum. Fyrst hafði Roger Douglas, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins 1984-1988, forystu um lækkun tolla, frjáls gjaldeyrisviðskipti, fljótandi gengi, óhefta fjármagnsflutninga, sölu ríkisfyrirtækja og niðurfellingu styrkja. Síðan hafði Ruth Richardson, fjármálaráðherra í ríkisstjórn hins íhaldssama Þjóðarflokks 1990-1993, forystu um, að einstakir launþegar fengu aftur samningsrétt, en verkalýðshreyfing landsins hafði sem víðar tekið þann rétt af þeim og samið fyrir hönd allra. Sett voru lög um ráðningarsamninga einstaklinga og sjálfstæði seðlabanka.
Nýsjálendingar fóru þessa leið, þegar hin leiðin var fullreynd. Þeim Douglas og Richardson tókst með umbótum sínum að koma í veg fyrir fullkomnar ófarir. Hnignun landsins í samanburði við þróuð, vestræn ríki stöðvaðist. Lífskjör eru oftast mæld í vergri landsframleiðslu, VLF, á mann. Wolf bendir á, að VLF á mann í Nýja Sjálandi var komin niður í 71% af meðaltalinu í þróuðum ríkjum 1992. En árið 2002 var hlutfallið aftur komið upp í 76%. Nýja Sjáland er að hjarna við. (Kay, sem Stefán Snævarr styðst við, notaði annan sjaldgæfari mælikvarða til að mæla lífskjör.) Eftir umbæturnar á vinnumarkaði minnkaði atvinnuleysi verulega, en framleiðni (framleiðsla á hverja vinnustund) jókst. Hagvöxtur var 3,6% að meðaltali árin 1992-2002, sem er vel yfir meðallagi OECD-ríkjanna. Hann hefur síðan verið á bilinu 2-3,6%.
Ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sem komst til valda 1999, hefur ekki hreyft við neinum mikilvægum umbótum. Nú er raunar talið, að sú stjórn hrökklist brátt frá völdum. Frjálshyggjutilraunin á Nýja-Sjálandi mistókst ekki. En hún heppnaðist ekki eins vel og forsvarsmenn hennar höfðu vonað. Fjárfestingar urðu ekki eins miklar og búist var við. Ein sennileg skýring er, að stjórnvöld hafa ekki búið fyrirtækjum og fjármagnseigendum jafnhagstætt skattaumhverfi og hér og á Írlandi. Önnur skýring er, að ólíkt okkur og Írum hafa andfætlingar okkar ekki greiðan aðgang að stórum mörkuðum. Auk hins beina kostnaðar kann það að hafa óbein áhrif á framkvæmdagleði, stuðla að útkjálkahugsunarhætti.
Þótt einstök ríki eins og Nýja Sjáland séu forvitnileg til fróðleiks, verða sósíalismi og kapítalismi vitaskuld ekki dæmd af þeim, heldur af samanburði margra landa til langs tíma. Þar er niðurstaðan ótvíræð, eins og alþjóðleg vísitala atvinnufrelsis sýnir.
Fréttablaðið 1. ágúst 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2008 kl. 15:53 | Slóð | Facebook