Jón Óskar og sósíalisminn

Fjölmargir lesendur Fróðleiksmolanna hafa haft samband og bent á margt, sem ýmist mátti betur fara eða hafa mætti í huga, og kann ég þeim hinar bestu þakkir. Hér ætla ég að leggja út af einni athugasemdinni, eftir Unu Margréti Jónsdóttur. Hún er dóttir Jóns Óskars, sem fór í fræga boðsferð til Ráðstjórnarríkjanna 1956 ásamt þeim Steini Steinarr og Agnari Þórðarsyni. Benti Una Margrét á, að faðir sinn hefði gagnrýnt stjórnarfar þar eystra í bók sinni, Páfinn situr enn í Róm.

Jón Óskar gerði það svo sannarlega. Hann gaf bókina út hjá Almenna bókafélaginu vorið 1964. Svo vildi til, að hann fékk 18 þúsund króna listamannalaun, um svipað leyti og bókin kom út. Orti þá Þorsteinn frá Hamri háðkvæði í Þjóðviljan

Sem ég á blíðum beði

bílífis vaknaðe

úthlutun einnig léði

átján þúsund í té

Jóni þeim sama, sama,

er svalt um árabil.

Heita þeir honum frama —?

Hví er rokið til —?

Þorsteinn taldi svarið við spurningu sinni liggja í augum uppi. Það væri „sérlegt ferðastjá“ Jóns Óskars. Eflaust hefur þetta kvæði Þorsteins ekki spillt fyrir því, að hann var sjálfur boðinn til Ráðstjórnarríkjanna ári síðar og þáði boðið. Skylt er þó að geta þess, að Þorsteinn iðraðist síðar kvæðisins.
 
Einn rithöfundur sósíalista, Friðjón Stefánsson, kvaddi sér hljóðs á fundi í Rithöfundafélagi Íslands um þær mundir, kvartaði undan úthlutun listamannalauna og vék að Jóni Óskari: „En nú hafði komið út ferðabók eftir hann, þar sem í er að finna nokkuð af óhróðri um sósíölsk ríki, Sovétríkin, í Morgunblaðsstíl. Og eins og við manninn mælt: Hann skal upp í 18 þúsund króna flokk.“ Jón úr Vör hélt að vísu uppi vörnum fyrir skáldbróður sinn á fundinum, en í endurminningum sínum sagði Jón Óskar, að eftir þetta hefði Þjóðviljinn snúist gegn sér og sósíalistar hætt að heilsa sér á förnum vegi.

Íslenskir sósíalistar sáu til þess, að það kostaði að ganga úr liði  og neita að bera lof á ráðstjórnina rússnesku.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. maí 2014.)


Athugasemd frá dóttur Jóns Óskars

Ég vék fyrir nokkru af sérstöku tilefni að frægri boðsferð sjö íslenskra menntamanna til Ráðstjórnarríkjanna 1956, þar á meðal Steins Steinarrs og Agnars Þórðarsonar. Nú hefur Una Margrét Jónsdóttir, dóttir Jóns Óskars skálds, sem einnig var í ferðinni, skrifað mér smápistil, sem ég fékk að birta úr. Hún rifjar upp, að hinir fimm boðsgestirnir voru auk föður hennar Leifur Þórarinsson tónskáld, Jón Bjarnason blaðamaður, Ísleifur Högnason framkvæmdastjóri og Hallgrímur Jónasson kennari. Síðan vitnar hún í ummæli mín: „En einnig er það umhugsunarefni að flestir hinna boðsgestanna fimm í sendinefndinni þögðu ýmist þunnu hljóði eða héldu áfram að lofsyngja ráðstjórnina.“

Una Margrét segir síðan í bréfi sínu: „Mér finnst undarlegt, að þú skulir ekki nefna það einu orði, að þriðji rithöfundurinn í nefndinni, Jón Óskar, faðir minn, gagnrýndi Sovétríkin einnig. Meðal annars kemur fram gagnrýni á sovéskt menningarlíf í greininni „Í heimsókn hjá Ilja Erenbúrg“ í 3. hefti Birtings 1956. Hann fer þó sérstaklega hörðum orðum um Sovétríkin í 4. hefti Birtings sama ár, en þar skrifar hann ritstjórnargrein um uppreisnina í Ungverjalandi og segir meðal annars: „Nú hefur komið í ljós, að í ríki því sem kallað hefur verið ríki sósíalismans, hefur þróast viðbjóðsleg spilling meðal ráðamanna, þeir hafa tekið að keppa við auðvaldssinna og fasista í réttarmorðum, hneppt list og menningu í fjötra, blekkt og logið, en einblínt á það að nota hagkerfi sósíalismans til að gera Sovétríkin að einu af mestu iðnveldum heims. Enginn heiðarlegur maður getur aðhyllst þess konar sósíalisma.“ Loks gagnrýndi hann Sovétríkin harðlega í bók sinni Páfinn situr enn í Róm, sem hann lauk við 1963, en kom út 1964. Þessi gagnrýni hans á Sovétríkin hafði mikil áhrif á líf hans og feril, og því þykir mér slæmt ef látið er að því liggja að hann hafi verið einn af þeim sem þögðu um ástandið í Sovétríkjunum. Sérstaklega þætti mér miður vegna yngri kynslóða, ef slíkur misskilningur kæmist á loft.“

Una Margrét hefur rétt fyrir sér, en ástæðan var ekki sú, að ég hefði gleymt Jóni Óskari, heldur ætlað að geyma mér að ræða um viðskilnað skáldsins við sósíalismann, sem varð allsögulegur. Það skal ég gera í næsta pistli.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. apríl 2014.)


Því voruð þið að kjafta frá?

Fyrir nokkrum vikum skiptumst við Guðmundur Andri Thorsson á skoðunum um þá Stein Steinarr og Tómas Guðmundsson á Snjáldru (Facebook). Af því tilefni er fróðlegt að rifja upp viðbrögð sósíalista, þegar Steinn sagði endanlega skilið við þá eftir að hafa setið í sjö manna sendinefnd íslenskra rithöfunda til Ráðstjórnarríkjanna sumarið 1956. Þegar Steinn gagnrýndi ráðstjórnarskipulagið í viðtali við Alþýðublaðið 19. september, helgaði Magnús Kjartansson, ritstjóri málgagns sósíalista, honum leiðara í blaði sínu. „Steinn Steinarr skáld er orðinn spámaður í föðurlandi sínu,“ skrifaði hann háðslega. „Hann kvaðst hafa séð myrkur um miðjan dag.“ Með þessu vísaði Magnús til þess, að komið hafði út á íslensku fræg skáldsaga Arthurs Koestlers, Myrkur um miðjan dag, um sýndarréttarhöld, sem Stalín skipulagði í Moskvu 1938. Magnús rifjaði líka í leiðaranum upp gömul vísuorð Steins:

Er stríðinu lokið? Er loksins til þurrðar gengið

það litla af ærlegri hugsun, sem fannst hjá mér?

Ferðafélagi Steins, Agnar Þórðarson rithöfundur, leyfði sér líka að gagnrýna ráðstjórnarskipulagið opinberlega. Vöktu lýsingar þeirra Steins á lífinu þar eystra mikla athygli. Einn harðskeyttasti sósíalisti landsins, Jón Múli Árnason útvarpsþulur, gekk að þeim í Austurstræti og spurði: „Því voruð þið að kjafta frá?“ Annar sanntrúaður sósíalisti, en einlægari, Jóhannes skáld úr Kötlum, settist hjá þeim Steini og Agnari í Hressingarskálanum og sagði í öngum sínum: „Ég veit ekki, hverju ég á að trúa!“ Steinn svaraði rólega: „Oo, þú skalt bara halda áfram að trúa.“ Sjálfur birti Steinn síðan tvö kvæði um ráðstjórnarskipulagið, „Kreml“ og „Don Quijote ávarpar vindmyllurnar“. Niðurstaðan í síðara kvæðinu er, að hið frjálsa hagkerfi Vesturlanda sé ekki gallalaust, en hið miðstýrða austræna kerfi miklu verra: „Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.“ Hér hefur Steinn bersýnilega orðið fyrir áhrifum af Koestler, að vísu ekki skáldsögunni Myrkri um miðjan dag, heldur grein frá 1943, þar sem Koestler skrifaði um baráttuna gegn sósíalismanum: „We are fighting against a total lie in the name of a half truth.“ Við berjumst gegn algerri lygi með hálfum sannleika. Íslenskir sósíalistar höfðu vitaskuld ekki næga þekkingu á verkum Koestlers til að benda á þessi rittengsl. En einnig er það umhugsunarefni, að flestir hinna boðsgestanna fimm í sendinefndinni þögðu ýmist þunnu hljóði eða héldu áfram að lofsyngja ráðstjórnina. Þeir „kjöftuðu ekki frá“, eins og Jón Múli orðaði það.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. apríl 2014.)


Steinn og stjórnmálin

Ungur gekk Steinn Steinarr í kommúnistaflokk Íslands, sem stofnaður var haustið 1930. Einnig átti hann þátt í því að stofna Félag byltingarsinnaðra rithöfunda 1933 og er ein aðalsöguhetjan í skemmtilegri smásögu, sem Guðmundur Daníelsson skrifaði um fund í því félagi. En snemma bar á því, að Steinn væri sjálfstæður í hugsun, og var hann í maí 1934 rekinn úr kommúnistaflokknum í hreinsunum, sem þar fóru fram að kröfu Kremlverja.

Ári síðar skrifaði æðstiprestur kommúnista í menningarmálum, Kristinn E. Andrésson, í hótunartón: „Að Steini Steinarr gæti verkalýðnum orðið mikill styrkur, ef hann beitir framvegis skáldgáfu sinni í þjónustu hans, og annars staðar en með verkalýðnum þarf Steinn ekki að hugsa til að geta notið skáldgáfu sinnar.“ Steinn var um skeið skráður í Alþýðuflokkinn, en studdi Sósíalistaflokkinn, eftir að hann var stofnaður 1938. Ekki gátu þó sósíalistar alltaf reitt sig á Stein. Hann kom Tómasi Guðmundssyni til varnar, þegar sósíalistar skrifuðu um hann skæting í málgagn sitt, Þjóðviljann. Hann studdi líka opinberlega Ásgeir Ásgeirsson í forsetakjöri 1952, en flokksbundnir sósíalistar, sem það gerðu, voru reknir úr flokknum.

Kristinn E. Andrésson hefur ef vil vill viljað endurheimta Stein í flokkinn, þegar hann bauð honum ásamt nokkrum öðrum rithöfundum í skemmtiferð til Ráðstjórnarríkjanna sumarið 1956. Sú ferð varð hins vegar fræg, því að Steinn og einn ferðafélagi hans, Agnar Þórðarson rithöfundur, snerust þá opinberlega gegn sósíalismanum. Tímaritið Birtingur, sem átti að heita óháð sósíalistum, vildi að vísu ekki prenta grein Agnars um ferðina, en Alþýðublaðið tók viðtal við Stein 19. september, sem vakti mikla athygli. Þar sagði Steinn, að stjórnarfar undir ráðstjórn væri „eins konar ofbeldi, ruddalegt, andlaust og ómannúðlegt“. Eftir það lágu leiðir hans og sósíalista ekki saman.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. apríl 2014.)


Tómas og Steinn

Nokkrar umræður urðu nýlega á Snjáldru (Facebook), eftir að Guðmundur Andri Thorsson hafði vitnað þar í vísu Steins Steinarrs um Tómas Guðmundsson:

Hér situr Tómas skáld með bros á brá,

bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.

Ó, hvað mig, vinur, tekur sárt að sjá,

að sál þín skyldi grána fyrr en hárið.

Ég fræddi Guðmund Andra og fleiri Snjáldrumenn á því, að vísunni var kastað fram í Hressingarskálanum um 1951, þar sem Tómas sat við eitt borð, en Steinn við annað ásamt kunnum Reykvíkingi, að vísu aðfluttum, Dósóþeusi Tímóteussyni. Hafði Dósóþeus sagt við Stein „Hér situr Tómas skáld“ og Steinn botnað hið snarasta.

Steinn var Tómasi gramur um þær mundir, því að Tómas hafði undir dulnefni skopstælt órímuð ljóð eftir Stein í vinsælum hláturleikjum, revíum, sem færðar voru upp í Reykjavík undir nafninu „Bláu stjörnunni“ frá 1948 til 1952. Rek ég þessa sögu í bókinni Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem kom út 2010 og er til á öllum ofstækislausum íslenskum menningarheimilum.

En Tómas hafði ekki lifað sjálfan sig eins og Steinn gaf í skyn í vísunni, heldur var hinn sprækasti. Skar Tómas upp herör gegn kommúnistum í snjallri framsöguræðu á fjölsóttum fundi Stúdentafélags Reykjavíkur 1950. Haustið 1951 gaf hann út ljóðabókina Fljótið helga með kvæðinu „Að Áshildarmýri“, sem var í senn ádeila á kommúnisma og nasisma. Kommúnistar tóku bókinni illa. Einn dimman desemberdag það ár kom einn helsti leiðtogi þeirra, Einar Olgeirsson, eins og vindsveipur að borði þeirra í kaffistofu Alþingis, veifaði bókinni framan í félaga sína og sagði: „Ég skil ekkert í honum Tómasi!“ Bókmenntagagnrýnandi Þjóðviljans skrifaði síðan 1952, að Tómas væri „sprellikarl“. Þá var Steini nóg boðið þrátt fyrir fyrri væringar. Birti hann grein í Þjóðviljanum, þar sem hann kvað hann mörgum góðum sósíalista „renna það til rifja að sjá málgagn sitt undirorpið svo marklausu bulli og mannskemmandi kjaftæði“. Seinna átti Steinn eftir að snúast eftirminnilega frá sósíalisma og yrkja um það, en það er önnur saga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. apríl 2014.)


Nýjar upplýsingar um gamalt trúnaðarbrot

Ég fagnaði því á dögunum, þegar Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands fékk Stefán Ólafsson prófessor til að hafa framsögu á opnum fundi um það, hvort háskólakennarar væru í pólitískri krossferð. Stefán talaði þar af eigin reynslu, enda hefði hann farið í slíkar krossferðir fyrir þingkosningar 2003 og 2007. Jafnframt rifjaði ég upp, að Stefán hefði einnig stundað hvíslingar. Á meðan hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hefði hann skýrt ritstjórum Morgunblaðsins, Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni, frá niðurstöðum könnunar, sem Hreinn Loftsson fékk Félagsvísindastofnun til að gera í fullum trúnaði vorið 1996 um sigurlíkur nafngreindra manna í forsetakjöri 1996. Matthías upplýsti um þetta í dagbókarfærslu frá 8. maí 1996, sem birtist löngu síðar á Netinu. Stefán hefur andmælt þessu á bloggi sínu og sagt, að þeir ritstjórarnir hefðu vitað af könnuninni. Það kann vel að vera, enda er eðli málsins samkvæmt erfitt að halda því leyndu, að slík könnun sé gerð. Þeir vissu hins vegar ekki af niðurstöðum könnunarinnar. Þær voru algert trúnaðarmál, og átti Hreinn einn að fá þær í hendur. Þegar Hreinn Loftsson las andmæli Stefáns á blogginu, skrifaði hann mér tölvubréf 16. apríl 2014, sem hljóðaði svo:

Sæll. Ég sé að þessi maður, Stefán Ólafsson, á í vandræðum með trúnaðarbrestinn gagnvart mér 1996. Hann virðist þó telja sig öruggan þar sem ég muni ekki tjá mig um málið vegna vinslita okkar Davíðs Oddssonar. Þetta hefur hann víst sagt. En rétt skal vera rétt. Slík var leyndin að ég kom heim til hans og ræddi þar um orðalag spurninga. Ekki upp á skrifstofu hans í Háskóla Íslands. Þetta var gert í fullkomnum trúnaði og ég greiddi fyrir könnunina úr eigin vasa. Var ég þó ekkert sérstaklega fjáður. Eg vildi aðeins tryggja að Davíð Oddsson færi ekki út í neina vitleysu enda fannst mér hann eiga ævistarfið eftir sem forsætisráðherra. Mér var því verulega brugðið þegar ég sá dagbókarfærslu Matthíasar Johannessens. Var þá nokkuð að marka niðurstöðu könnunarinnar? Í dagbókarfærslu Matthíasar kemur ekki neitt annað fram en að Stefán Ólafsson hafi trúað Matthíasi og Styrmi Gunnarssyni fyrir niðurstöðunni aðeins örfáum vikum eftir að könnunin var gerð. Hvílík skömm! Ég er að bræða það með mér hvernig best sé að jafna um við þennan svikahrapp og allar tillögur vel þegnar í því sambandi. Kveðja, Hreinn.

Ég kvað einfaldast að birta bréf hans, og veitti Hreinn mér leyfi til þess. Bréfið er hér birt í heild og óbreytt, nema hvað ég hef leyst upp úr skammstöfunum og leiðrétt eina ásláttarvillu. Bréfið skýrir sig sjálft. Ég hef engu við það að bæta.


Ritaskrá mín fyrir 2013

Ég tók fyrir skömmu saman ritaskrá mína fyrir 2013 vegna rannsóknaskýrslu, sem við háskólakennarar verðum að gera árlega. Ég er alls ekki eins duglegur að birta ritrýndar ritgerðir á ensku og sumir samkennarar mínir, en fyrir þá fá háskólakennarar flest stig. Ég hef frekar sinnt alþýðlegum fróðleik, fræðum á mannamáli að fyrirmynd þeirra Sigurðar Nordals og Ágústs H. Bjarnasonar, og vona, að mér fyrirgefist það í þeim skóla, sem stofnaður var á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Veruleg orka fór líka á það hjá mér — ólíkt sumum samkennurum mínum — að útskýra hinn íslenska málstað fyrir útlendingum, og hefði Jóni forseta ekki mislíkað það. Ég ætla hins vegar vissulega að skrifa meira af ritrýndum ritgerðum á ensku næstu árin. Hefur ein þegar birst á þessu ári, í Cambridge Journal of Economics, og önnur er væntanleg bráðlega, í The Hungarian Review. Hér er ritaskráin með hlekkjum á Netið, og geta lesendur þá dæmt sjálfir um gæði og magn.

RITGERÐIR Á ENSKU OG ÍSLENSKU:

Explanations of the Icelandic Bank Collapse. Þjóðarspegillinn 2103. Rannsóknir í félagsvísindum XIV, netútgáfa.

Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn. Þjóðmál, 1. hefti 9. árg. 2013, bls. 10–28.

Eyjar í álögum. Söguleg ferð til Galápagos-eyja sumarið 2013. Þjóðmál, 3. hefti 9. árg. 2013, bls. 61–83.

GREINAR Á ENSKU:

The Case for Sustainable Whaling. Grapevine, 8. hefti 2013, bls. 10.

Five Years On: What Happened? What Did We Learn? Grapevine, 15. hefti 2013, bls. 16.

Iceland’s Electoral Rebuke. Wall Street Journal 23. maí 2013.

RITDÓMAR:

Ástarsaga Íslendinga að fornu eftir Gunnar Karlsson.

Efst á baugi eftir Björgvin Guðmundsson.

ERINDI:

Reykjavík 13. febrúar.

Reykjavík 19. febrúar. Sjónvarpsfrétt á vefsíðu Viðskiptablaðsins hér. Sjónvarpsviðtal á ÍNN á Youtube hér.

Seltjarnarnesi 10. mars.

Porto Alegre 9. apríl. Upptaka á Youtube hér.

Bifröst 3. maí. Sjónvarpsviðtal á RÚV á Youtube hér.

Vilnius 12. september

Vilnius 13. september.

Cambridge 22. september.

Reykjavík 7. október.

Reykjavík 14. október.

Reykjavík 25. október (1).

Reykjavík 25. október (2).

Stokkhólmi 29. október. Upptaka á Youtube hér.

Reykjavík 5. nóvember. Sjónvarpsviðtal á Youtube hér.

Haag 12. nóvember.

Budapest 14. nóvember.

GREINAR í Morgunblaðinu:

Arnór Hannibalsson. Minningarorð. Morgunblaðið 12. janúar 2013.

Árni Vilhjálmsson. Minningarorð. Morgunblaðið 15. mars 2013.

Elísabet Jóna Benediktsdóttir. Minningarorð. Morgunblaðið 28. júní 2013.

Alþingi ómerkir eina niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis. Morgunblaðið 3. ágúst 2013.

Nokkrar spurningar til Roberts Wades. Morgunblaðið 6. september 2013.

Bankahrunið og Háskólinn. Morgunblaðið 7. október 2013.

Hvað segja gögnin um bankahrunið? Morgunblaðið 25. október 2013.

FRÓÐLEIKSMOLAR í Morgunblaðinu:

Pólland. Morgunblaðið 5. janúar 2013.

Orðaskipti Rousseaus og Voltaires. Morgunblaðið 12. janúar 2013.

Sænsk áhrif. Morgunblaðið 19. janúar 2013.

Hvað varð um söfnunarféð? Morgunblaðið 26. janúar 2013.

Ellefta boðorðið. Morgunblaðið 2. febrúar 2013.

Ágirnd og sjálfselska. Morgunblaðið 9. febrúar 2013.

Alþýðuspeki um atvinnufrelsi. Morgunblaðið 16. febrúar 2013.

Bókarheiti úr Biblíunni — og þó. Morgunblaðið 23. febrúar 2013.

Kúgun, flekun og nauðgun. Morgunblaðið 2. mars 2013.

Rangfeðruð skammaskrif. Morgunblaðið 9. mars 2013.

Pétur Pétursson. Morgunblaðið 16. mars 2013.

Fjárhæli og andabú. Morgunblaðið 23. mars 2013.

Baráttudagar. Morgunblaðið 30. mars 2013. 24

Með eiturörvar í hjartastað. Morgunblaðið 6. apríl 2013.

Margrét Thatcher. Morgunblaðið 13. apríl 2013.

Sögur úr kosningum. Morgunblaðið 20. apríl 2013.

Stjórnarmyndanir. Morgunblaðið 4. maí 2013.

Vingjarnlegar móðganir. Morgunblaðið 11. maí 2013.

Að liðnum kosningum. Morgunblaðið 18. maí 2013.

Faðirvorið. Morgunblaðið 25. maí 2013.

Á Laugarvatni. Morgunblaðið 1. júní 2013.

Íslensk fyndni eða erlend? Morgunblaðið 8. júní 2013.

Gegn betri vitund. Morgunblaðið 15. júní 2013.

Sögulegir fundir. Morgunblaðið 22. júní 2013.

Fjölskyldurnar fjórtán. Morgunblaðið 29. júní 2013.

Íslenskur huldumaður á Galápagos-eyjum. Morgunblaðið 6. júlí 2013.

Foreldrar utan hjónabands. Morgunblaðið 13. júlí 2013.

Að liðnum skattadegi. Morgunblaðið 20. júlí 2013.

Hver var kolkrabbinn? Morgunblaðið 27. júlí 2013.

Verslunarmannahelgi. Morgunblaðið 3. ágúst 2013.

Huldumaðurinn fundinn. Morgunblaðið 10. ágúst 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (1). Morgunblaðið 17. ágúst 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (2). Morgunblaðið 24. ágúst 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (3). Morgunblaðið 31. ágúst 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (4). Morgunblaðið 7. september 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (5). Morgunblaðið 14. september 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (6). Morgunblaðið 21. september 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (7). Morgunblaðið 28. september 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (8). Morgunblaðið 5. október 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (9). Morgunblaðið 12. október 2013.

Þjóðsögur um bankahrunið (10). Morgunblaðið 19. október 2013.

Smáþjóðir og stórþjóðir. Morgunblaðið 26. október 2013.

Svíþjóð. Morgunblaðið 2. nóvember 2013.

Drýldni. Morgunblaðið 16. nóvember 2013.

Valtýr. Morgunblaðið 23. nóvember 2013.

Egill, Jónas og tilvitnanirnar. Morgunblaðið 30. nóvember 2013.

Nasistar, minningar og manngæska. Morgunblaðið 7. desember 2013.

Þau sögðu það aldrei. Morgunblaðið 14. desember 2013.

Fundirnir sem ekki voru haldnir. Morgunblaðið 21. desember 2013.

Þeim sást yfir. Morgunblaðið 28. desember 2013.

VIÐTÖL:

Hamingjan er uppgjör við lífið. Morgunblaðið 17. febrúar 2013.

Fólkið með einkaþoturnar sigraði. Viðskiptablaðið 16. febrúar 2013.

Thatcher var einörð, hagsýn og hyggin. Viðskiptablaðið 8. apríl 2013.

Forsíðuviðtal í Frjálsri verslun, 2. tbl. 2013.

Baugsmenn vildu reka Hannes. DV 6. október 2013.

Viðtal um afsökunarbeiðni Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur í Kastljósi 25. október 2013.

Viðtal um John F. Kennedy Bandaríkjaforseta í Speglinum 22. nóvember 2013.


Eru háskólakennarar í pólitískri krossferð?

Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands sýndi lofsvert frumkvæði með því að fá Stefán Ólafsson prófessor til framsögu á fundi 10. apríl 2014 um það, hvort háskólakennarar væru í pólitískri krossferð.

Stefán hefur verið forstöðumaður tveggja stofnana Háskólans, Félagsvísindastofnunar og Borgarfræðaseturs. Árið 1996 fengum við Hreinn Loftsson Félagsvísindastofnun til að gera í kyrrþey skoðanakönnun um, hvaða fylgi Davíð Oddsson gæti haft í komandi forsetakjöri. Það kom okkur mjög á óvart, þegar Matthías Johannessen ritstjóri birti löngu síðar á Netinu kafla úr dagbókum sínum, þar sem segir svo við 8. maí 1996: „Stefán Ólafsson félagsfræðingur sagði okkur Styrmi í morgun í trúnaði að nokkrir vinir Davíðs Oddssonar hefðu beðið Félagsvísindastofnun um að gera könnun á fylgi hans ef hann færi í forsetakjör.“ Rakti Stefán síðan niðurstöður könnunarinnar nákvæmlega fyrir ritstjórum Morgunblaðsins. Samkvæmt þeim vildu þá margir (eins og við Hreinn báðir), að Davíð yrði frekar áfram forsætisráðherra en að hann gæfi kost á sér í forsetaembættið.

Heimsókn Stefáns á ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins vorið 1996 verður að vísu frekar kennd við hvíslingar en krossferðir. En þegar leið að kosningum 2003, fór Stefán í sannkallaða krossferð. Þá var hann ekki lengur forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, heldur svokallaðs Borgarfræðaseturs, sem meiri hluti R-listans í Reykjavík kostaði af almannafé ásamt Háskólanum. Skömmu fyrir kosningarnar gaf Borgarfræðasetur út skýrslu um, að fátækt væri talsvert meiri á Íslandi en í grannríkjunum. Stefán skrifaði einnig um það blaðagrein. Leiðtogar Samfylkingarinnar fögnuðu skýrslu Borgarfræðaseturs og notuðu óspart í kosningabaráttunni, þótt ýmsir leyfðu sér að efast opinberlega um niðurstöðurnar. Í febrúarbyrjun 2007 birtist síðan yfirgripsmikil skýrsla hagstofu Evrópusambandsins um fátækt og tekjuskiptingu í Evrópulöndum, og var fátækt á Íslandi árin 2003–2004 samkvæmt henni einhver hin minnsta í álfunni. Fátæktartal Stefáns reyndist úr lausu lofti gripið.

Þegar leið að kosningum 2007, tók Stefán að skrifa í blöð og tala í útvarp um, að tekjuskipting á Íslandi væri að verða miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Notaði hann tölur frá 1995 til 2004 máli sínu til stuðnings og hafði stór orð um breytingar á íslenska velferðarríkinu. Leiðtogar Samfylkingarinnar fögnuðu skrifum Stefáns og vitnuðu iðulega í þau. Þegar áðurnefnd skýrsla hagstofu Evrópusambandsins birtist í febrúarbyrjun 2007, kom í ljós, að Stefán hafði notað rangar tölur í samanburði sínum. Í tölum um tekjur fyrir Ísland hafði hann reiknað með söluhagnaði af hlutabréfum, en honum var sleppt í tölum um tekjur fyrir aðrar þjóðir. Þegar sambærilegar tölur voru skoðaðar, kom í ljós, að tekjuskipting á Íslandi árið 2004 var síst ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. (Hún varð hins vegar talsvert ójafnari 2004–2008, eftir að klíkukapítalismi Baugs leysti af hólmi markaðskapítalismann, en þess má geta, að Stefán gagnrýndi Baugsmenn aldrei í valdatíð þeirra.)

Þegar Bretar ætluðu eftir bankahrun að neyða íslenskan almenning til að greiða skuldir, sem hann hafði ekki stofnað til, fór Stefán í þriðju krossferð sína og nú fyrir því að láta undan kröfum Breta. Á bloggi sínu 27. júní 2012 skrifaði hann til dæmis: „Það verður ljósara með hverjum degi sem líður að þjóðin var gróflega blekkt með málflutningi sumra andstæðinga samningaleiðarinnar í Icesave-málinu. Forsetinn gerði einnig alvarleg mistök þegar hann vísaði Icesave III (Buchheit-samningnum) í þjóðaratkvæðagreiðslu, á röngum forsendum og gegn mjög rúmum meirihluta á Alþingi.“ Hálfu ári síðar kvað EFTA-dómstóllinn upp úrskurð í málinu og staðfesti þá skoðun mína og margra annarra, þar á meðal þorra kjósenda, að íslenskur almenningur ætti ekki að greiða skuldir, sem hann hefði ekki stofnað til.

Ég kann síðan enga skýringu á dagbókarfærslu Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, 8. október 2012, í nýútkominni bók: „Í hringingum til mín er línan klár. Stefán er innsti koppur í búri Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann er á launum við að skrifa spannarþykkar skýrslur fyrir Guðbjart Hannesson sem Jóhönnuvængurinn ætlar að etja fram gegn Árna Páli.“ Hitt veit ég af eigin reynslu, að fáir háskólakennarar eru betur til þess fallnir en Stefán Ólafsson að fræða menn um pólitískar krossferðir og jafnvel hvíslingar líka.


Breskir dómarar skeikulir

Flestir bera virðingu fyrir breskum dómurum, þegar þeir skálma þungbúnir í réttarsali í skikkjum með hárkollur og þúsund ára hefð að baki, og allir aðrir flýta sér að standa upp. Ég hef þó oftar en einu sinni tekið eftir því, að þeir eru skeikulir og þá um einfaldar staðreyndir.

Eitt dæmið er, þegar áfrýjunardómstóll, Court of Appeal, í Lundúnum kvað upp úrskurð 3. mars 2008 í máli, sem ég hafði áfrýjað þangað. Dómararnir voru Clarke, Dyson og Jacob. Í lýsingu á málsatvikum fremst í dómnum (2. grein) segir, að þau séu tekin úr dómi undirréttar, sem kveðinn var upp 8. desember 2006. Enn segir þar, að ég hafi birt á heimasíðu minni „í Englandi“ tiltekin ummæli, sem voru tilefni dómsmálsins. Ekkert er hins vegar um það í dómi undirréttar, að heimasíðan hafi verið í Englandi, og hún var það ekki, heldur var þetta heimasíða mín í Háskóla Íslands, þótt aðgengileg væri frá Bretlandi eins og frá hundrað öðrum löndum.

Annað dæmi sýnu alvarlegra er, þegar skilanefnd Kaupþings höfðaði skaðabótamál í Bretlandi gegn breska fjármálaráðuneytinu. Skilanefndin tapaði málinu með úrskurði 20. október 2009. Dómararnir voru Richards og Maddison. Í lýsingu á málsatvikum í dómnum (20. gr.) segir: „6. október var viðskiptum með hlutabréf íslensku bankanna hætt, og ríkisstjórn Íslands setti neyðarlög, sem fólu í sér tryggingar fyrir innstæðueigendur í íslenskum útbúum bankanna.“ Þetta er rangt. Í fyrsta lagi setti ríkisstjórnin ekki neyðarlögin, heldur Alþingi. Það atriði er þó ekki eins mikilvægt og hitt, að í neyðarlögunum (nr. 125/2008) er hvergi að finna nein ákvæði um það, að innstæður í íslenskum útbúum bankanna séu sérstaklega tryggðar, heldur segir þar, að kröfur innstæðueigenda (og þá allra, erlendra jafnt og íslenskra) á hendur hugsanlegum þrotabúum bankanna séu forgangskröfur.

Annað mál er það, að ríkisstjórnin lýsti því samtímis yfir, að hún ábyrgðist allar innstæður í íslenskum útbúum bankanna. En sú yfirlýsing hafði ekkert lagagildi og var hliðstæð yfirlýsingum margra annarra ríkisstjórna á sama tíma, sem vildu koma í veg fyrir áhlaup á banka.  

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. mars 2014.)


Furðuskrif Stefáns Ólafssonar

Stefán Ólafsson prófessor skrifaði fyrir nokkru pistil um nýja skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum um loftslagsmál og víkur þar oftar en einu sinni að mér.

Þessi pistill Stefáns er furðulegur. Ég hef ekki neitað því, sem augljóst er, að hlýnað hefur (þótt sú hlýnun virðist ekki halda áfram af sama hraða frá 1998 og fyrir þann tíma). Ég tel mig ekki heldur hafa neinar forsendur til þess að neita því, að menn geti átt einhvern þátt í þeirri hlýnun. Mér hefur hins vegar fundist ýmislegt varhugavert í þeim stjórnmálaályktunum, sem sumir vilja draga af þessu. Hér er tiltölulega nýleg grein eftir mig um þetta, sem skrifuð var af sérstöku tilefni. Ég vek sérstaklega athygli á upphafsorðum greinarinnar: „Enginn getur neitað því, að veður hefur hlýnað síðustu áratugi.“ Og: „Enginn getur heldur neitað því, að einhver gróðurhúsaáhrif verki á veðrið.“ Hvað gengur Stefáni Ólafssyni til að reyna að falsa skoðanir mínar? Til að hann hafi eitthvað til ráðast á?

Þessi rökvilla eða brella var í rökfræðinni, sem ég lærði forðum, kölluð „Straw man fallacy“, og um hana er fróðleg grein á Wikipedia. Ég skrifaði athugasemd við þessi skrif Stefáns á Eyjunni.is og skoraði á hann um að benda mér á skrif eftir mig, þar sem ég afneita því, að hlýnað hafi í veðri og að eitthvað kunni að vera hæft í því, að það sé af mannavöldum. Hann hefur ekki getað bent á nein slík skrif mín.

Um daginn sakaði kona að nafni Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem ég hef aldrei hitt og aðeins heyrt smávegis um og það heldur misjafnt, mig um að hafa dreift sögum um ástamál sín og Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns. Þessi furðuskrif Stefáns eru í sama flokki, hugarórar, uppspuni og ímyndanir. Ég segi enn eins og Bergljót Hákonardóttir forðum við Kala, skósvein Einars Þambarskelfis: „Það er illa gert að fást upp á ókunna menn með hrópyrðum og háðsemi og munu yður tröll toga tungu úr höfði.“

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband