10.7.2012 | 13:42
Jarðarfarir
Þótt jarðarfarir séu jafnan með alvörublæ, hafa þær orðið tilefni gamanyrða.
Árið 1935 lést Jón Þorláksson verkfræðingur, borgarstjóri og forsætisráðherra, skyndilega, aðeins 58 ára að aldri, og var útför hans gerð með viðhöfn. Þegar kona ein hafði orð á því við Tómas Guðmundsson, hversu vel útförin hefði farið fram, svaraði skáldið alúðlega: Já, ég hef heyrt mjög dáðst að þessari jarðarför, enda hef ég sannfrétt, að það eigi að endurtaka hana.
Einn bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í tíð Jóns Þorlákssonar var Hjalti Jónsson konsúll, kunnur afreksmaður, sem brotist hafði úr fátækt til bjargálna. Hann hafði greitt Lúðrasveit Reykjavíkur fyrir að leika við útför sína. Þegar sveitin kom aftur til hans með fjárbeiðni, greiddi hann henni enn fyrir leikinn með þessum orðum: Ekki veitir Reykvíkingum af að skemmta sér einu sinni almennilega. Hjalti lést 1949.
Frægasta útför á síðustu öld var þó líklega, þegar jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, voru grafnar á Þingvöllum haustið 1946 að viðstöddum helstu ráðamönnum þjóðarinnar. Í skáldsögunni Atómstöðinni 1948 notaði Halldór Kiljan Laxness útförina sem táknræna sögu um að sjálfstæði landsins hefði verið grafið með svokölluðum Keflavíkursamningi, sem gerður var um svipað leyti. Grunur lék á um, að beinin væru ekki af Jónasi, heldur dönskum bakara, og þegar séra Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur, sem var maður gamansamur, jarðsöng Jónas, hvíslaði hann að syni sínum: Ætli það sé nú ekki vissara, að ég segi hér nokkur orð á dönsku.
Annar kunnur prestur, Árni Þórarinsson á Stóra-Hrauni, á að hafa svarað, þegar hann var spurður, hvort hann ætlaði að fylgja Jóni Helgasyni biskup til grafar: Já, þó að fyrr hefði verið! Árni þrætti þó fyrir þetta tilsvar í stórmerkri ævisögu sinni, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði.
Minnir þetta á ummæli bandaríska kvikmyndaframleiðandans Sams Goldwyns um einn starfsbróður sinn, Louis B. Mayer: Ástæðan til þess, að svo margir fylgdu honum til grafar, var, að þeir vildu vera alveg vissir um, að hann væri dáinn.
(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 10. júní 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)
8.7.2012 | 21:02
Þegar ég fékk verðlaun
Ég fékk frelsisverðlaun þau, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson, laugardagskvöldið 30. júní 2012. Það var mér ánægja og sómi að taka á móti þessum verðlaunum, sem Samband ungra sjálfstæðismanna veitir. Á hverju ári hljóta einn einstaklingur og einn lögaðili verðlaunin, og nú var lögaðilinn vefsíðan amx.is, sem mælir daglega og skörulega fyrir frelsi einstaklinganna. Fer vel á því, að verðlaunin séu kennd við Kjartan Gunnarsson lögfræðing, en hann er einlægur áhugamaður um aukið frelsi einstaklings og þjóðar.
Ég flutti ræðu við afhendinguna, þar sem ég rifjaði upp kynni mín af þeim Friedrich von Hayek, Milton Friedman og Karli Popper, en allir voru þeir merkir hugsuðir og mjög áhrifamiklir í viðkynningu. Sérstaklega hafði heimsókn Friedmans til Íslands mikil áhrif, en orðið leiftursnjall lýsir honum jafnvel og orðið djúpsær Hayek.
Ég sagði, að Popper hefði brýnt fyrir mér, að frjálshyggjan yrði aldrei fullsköpuð. Við vissum miklu betur, hvað væri böl en blessun, og frjálshyggjan væri sífelld barátta gegn því böli, sem mennirnir geta að einhverju leyti bætt, eins og kúgun og fátækt. Ég kvað mesta bölið á Ísland um þessar mundir vera vinstri stjórnin, sem svíkur alla samninga, nær hvergi árangri, en leggur þungar klyfjar á borgarana.
Í móttöku eftir afhendinguna ræddi ég talsvert við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem mér finnst mjög vera að vaxa í sínu erfiða hlutverki. Þetta var að kvöldi kjördags, og töldu flestir líklegt, að Ólafur Ragnar Grímsson yrði endurkjörinn, hvað sem um það mætti segja að öðru leyti. Ég sagði, að mér fyndist Ólafur Ragnar njóta sín best í því að tala máli Íslands á erlendum vettvangi. Ég hefði engar áhyggjur af því, að hann myndi brjóta stjórnarskrána, eins og sumir harðir andstæðingar hans héldu fram.
Eftir það fór ég á Fiskfélagið með Friðbirni Orra Ketilssyni, forstöðumanni amx.is, og konu hans, Þórunni Gunnlaugsdóttur, sem er dóttir ein besta vinar míns. Gæddum við okkur þar á ljúffengum fiski, en hætt er við, að slíkir réttir verði ekki lengi á boðstólum, ef við göngum í Evrópusambandið. Þar eru 88% fiskistofna ofveiddir og 30% þeirra nálægt hruni samkvæmt skýrslu sambandsins sjálfs frá 2009.
Fyrstu tölur í forsetakjöri voru ókomnar, þegar við settumst, og spáði ég því þá, að Ólafur Ragnar fengi 55% atkvæða. Ég fór ekki langt frá niðurstöðunni, því að Ólafur Ragnar fékk 53%.
8.7.2012 | 09:47
Hverjum á að refsa fyrir ofveiði?
Maria Damanaki, fiskveiðistjóri Evrópusambandsins, segir, að refsa eigi Íslendingum fyrir ofveiði. Hún á þá við makrílstofninn, sem kom inn í fiskveiðilögsöguna óvænt og óumbeðinn, en er auðvitað kærkominn gestur og vonandi fastagestur.
En á þá ekki að refsa ESB fyrir ofveiði? Samkvæmt grænni bók um fiskveiðistefnu ESB, sem það gaf sjálft út 2009, eru 88% fiskistofna ESB ofveiddir (sókn í þá umfram það, sem nemur sjálfbærum hámarksafla, maximum sustainable yield) og 30% fiskistofna þess veiddir nálægt hættumörkum, þegar stofn getur hrunið vegna ofveiði.
Tröllið ætlar að refsa dvergnum, sem hefur þó fylgt skynsamlegri fiskveiðistefnu og telur sjálfsagt að veiða þá stofna, sem leita beinlínis á Íslandsmið og ekki eru undirorpnir einhverjum sögulegum rétti annarra. En hver hyggst refsa tröllinu?
5.7.2012 | 13:38
Ég ætla að svara þeim
Nýlega kom út sumarhefti Tímarits Máls og menningar. Þar er grein eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing um bók mína, Íslenska kommúnista 19181998. Ég er þakklátur Árna fyrir að hafa gefið sér tíma til að lesa bókina og gera við hana athugasemdir, en því miður eru þær flestar hæpnar og sumar fráleitar. Ritstjóri tímaritsins hefur góðfúslega orðið við ósk minni um að fá að svara Árna í næsta hefti.
Einnig er nýtt hefti af Herðubreið komið út. Þar hellir Pétur Tyrfingsson sálfræðingur úr skálum reiði sinnar yfir mig og Snorra G. Bergsson sagnfræðing, sem er manna fróðastur um íslenska kommúnistahreyfingu og gaf nýlega út rit um upphafsár hennar. Mér finnst Pétur fara offari í grein sinni, en þó er rétt að bregðast við henni, og hefur ritstjóri Herðubreiðar einnig góðfúslega orðið við ósk minni um að fá að svara Pétri í næsta hefti.
Alltaf að svara þeim, sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra eitt sinn við Matthías Johannessen ritstjóra.
4.7.2012 | 23:48
Jóhanna hefur alltaf tapað í forsetakjöri
Álitsgjafar þeir, sem kallaðir eru til í fjölmiðlum, segja sjaldnast annað en almælt tíðindi. Þeir tyggja hver eftir öðrum það, sem komist hefur á dagskrá hverju sinni. Til dæmis fannst þeim merkilegra, að rösklega 60% sjálfstæðismanna kusu Ólaf Ragnar Grímsson en að um 80% Samfylkingarfólks kusu Þóru Arnórsdóttur.
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins bendir 2. júlí 2012 á aðra staðreynd, sem fór fram hjá álitsgjöfunum, af því að þeir rannsaka aldrei neitt, heldur tyggja hver eftir öðrum. Hún er, að Jóhanna Sigurðardóttir hefur alltaf tapað í forsetakjöri. Hún studdi Gunnar Thoroddsen gegn Kristjáni Eldjárn 1968, Albert Guðmundsson gegn Vigdísi Finnbogadóttur 1980, Guðrúnu Agnarsdóttur gegn Ólafi Ragnari Grímssyni 1996 og Þóru Arnórsdóttur gegn Ólafi Ragnari Grímssyni 2012.
Ólafur Ragnar Grímsson segir þetta sitt síðasta kjörtímabil. Fróðlegt verður að vita, hvern Jóhanna Sigurðardóttir styður í væntanlegu forsetakjöri 2016.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook
4.7.2012 | 07:30
Ósigur stjórnarinnar
Forsetakjörið snerist að nokkru leyti upp í uppgjör stjórnar og stjórnarandstöðu, þar sem stjórnarsinnar studdu Þóru Arnórsdóttur og stjórnarandstæðingar Ólaf Ragnar Grímsson. Vitað er, að þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon unnu á bak við tjöldin að því, að Þóra færi fram, og þau studdu hana með ráðum og dáð. Sjálfur hef ég gott eitt um Þóru að segja. Hún hefur til dæmis jafnan verið óhlutdræg í starfi, þótt vinnustaður hennar, Ríkisútvarpið, dragi mjög taum stjórnarinnar.
Ekki er vandséð, hvers vegna sjálfstæðismenn og framsóknarmenn kusu margir Ólaf Ragnar Grímsson. Hann kom í veg fyrir, að stjórnarflokkunum tækist það ætlunarverk sitt að hengja þungan myllustein um háls Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar sem var Icesave-krafa Breta og Hollendinga (Icesave-skuldin á máli Ríkisútvarpsins). Hún átti að vera hinn sögulegi reikningur fyrir sölu bankanna, sem vinstri flokkarnir tveir hugðust veifa framan í Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk næstu áratugi. Þess vegna sömdu fulltrúar vinstri flokkanna svo hrapallega af sér í Icesave-málinu. Þeir tóku flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni.
Jafnframt mátu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn það við Ólaf Ragnar, hversu skörulega hann kemur jafnan fram fyrir hönd Íslands erlendis. Það er eins og hann vilji gæta hagsmuna þjóðarinnar af miklu meiri alvöru en þau Jóhanna og Steingrímur, sem kikna í hnjáliðum, þegar þau heyra erlenda tungu talaða, og vilja eta úr lófa Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kjósendur Ólafs Ragnars þekkja gallana í fari hans og vona, að miklir kostir verði þeim yfirsterkari.
Sigur Ólafs Ragnars er ósigur stjórnarinnar og sigur stjórnarandstöðunnar, þótt hún hafi auðvitað ekki sent hann fram eða staðið að framboði hans.
3.7.2012 | 22:25
Sumarhefti Þjóðmála
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook
2.7.2012 | 22:06
Fá íslensku snillingarnir verðlaun?
Staksteinahöfundur í Morgunblaðinu fór 15. júní á kostum að venju:
Jóhanna býr svo vel að hafa landsfræga ræðuskrifara við höndina sem gæta þess að hún segi ekkert sem kemur þessu máli við og selja firðina iðulega dýrara en þeir kaupa þá. (Nú er 17. júní framundan, piltar. Láta nú einhvern eldri en tvævetur lesa textann yfir áður en þulan fær hann).
En Samfylkingin á fleira en fræga ræðuskrifara. Hún hefur einnig efnahagsleg undrabörn á sínum snærum. Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Sigríður Ingadóttir hafa komið fram með margar snjallar kenningar síðustu misserin, þótt nóbelnefndin þykist ekki sjá þær eða heyra, sem segir meira um nefndina en fyrrtalda snillinga.
Fréttir úr innsta hring herma að þau þrjú séu að bræða með sér að leggja til við spænsk yfirvöld að hika ekki lengur við að taka upp evru, sem myndi næstum örugglega stöðva niðursnúinn spíralann. Nú ef það gengur ekki gæti Spánn sótt upp að fá hraðmeðferð inn í Evrópusambandið. Það er laust sæti við hliðina á Íslandi. Láti þau tillöguna vaða er nóbelnefndin komin í verulega klemmu.
Fjölmiðlar þurfa ekki aðeins að fylgjast vel með 17. júní ræðum Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem sumt hefur verið spánskt síðustu árin, heldur líka hugsanlegum tillögum íslensku snillinganna til spænskra stjórnvalda.
2.7.2012 | 09:01
Elinor Ostrom látin
Elinor Ostrom, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2009, lést 12. júní 2012.
Hún hlaut þessa miklu viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á því, hvernig menn geta með sjálfsprottnum reglum og samtökum, oft án atbeina ríkisins, leyst þann vanda, sem sprettur af samnýtingu á gæðum í almenningum og afréttum, til dæmis beitarlandi til fjalla, vötnum og skógum, þegar einstaklingar freistast til að ofnýta gæðin, því að gróðinn skilar sér til þeirra einna, en kostnaðurinn dreifist á alla í hópi samnýtenda. Er margt hnýsilegt í fræðum Ostroms, en sjálfur vinn ég um þessar mundir að rannsóknum á grænum kapítalisma. Íslendingar þekkja vel nokkur dæmi um reglur til að stýra samnýtingu á gæðum, til dæmis ítöluna, sem dr. Þráinn Eggertsson prófessor hefur greint hagfræðilega, en hún fólst í beitarréttindum, sem hver jörð fékk í afréttum upp til fjalla allt frá því á þjóðveldisöld. Þetta var kvótakerfi þess tíma.
1.7.2012 | 15:36
Vísnaþáttur í útvarpi
Veturinn 1954-1955 var vísnaþátturinn Já eða nei á dagskrá í Ríkisútvarpinu undir stjórn Sveins Ásgeirssonar. Var hann tekinn upp í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (þar sem nú er veitingastaðurinn Nasa) að viðstöddum áheyrendum. Þar leiddu fjórir hagmæltir menn saman hesta sína, þeir Steinn Steinarr, Guðmundur Sigurðsson, Helgi Sæmundsson og Karl Ísfeld. Botnuðu þeir fyrri helminga sem hlustendur sendu inn.
Einn fyrri helmingurinn var á þessa leið:
Margur oft í heimi hér
harma sína rekur,
en Steinn botnaði óðar:
gáir lítt að sjálfum sér
og síðan víxil tekur.
Þættirnir nutu mikilla vinsælda, og komu vísurnar úr honum út á bók með sama nafni, Já eða nei. Þegar þeir voru að renna skeið sitt á enda, tilkynnti Sigurður Magnússon, blaðafulltrúi Loftleiða, að félagið byði þátttakendunum fjórum og stjórnandanum til Kaupmannahafnar til að taka upp einn þátt.
Í Kaupmannahöfn var efnt til vísnakeppni í Íslendingafélaginu 14. maí 1955, þar sem viðstaddir spreyttu sig á að botna fyrri helming, sem Sveinn Ásgeirsson kastaði fram:
Oft er kátt við Eyrarsund,
æskan þangað leitar.
Þótt sjálfur höfuðsnillingurinn Jón Helgason prófessor spreytti sig í keppninni, varð hann að deila fyrstu verðlaunum með ungri stúlku, Vilborgu Dagbjartsdóttir, sem mælti fram seinni helminginn:
Þó mun Ísland alla stund
elskað miklu heitar.
Má af því tilefni rifja upp orð Árna Pálssonar prófessors: Hvergi hefur Ísland verið elskað eins og í Kaupmannahöfn.
(Þessi fróðleiksmoli, sem birtist nýlega í Morgunblaðinu, er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út árið 2012 og er ekki aðeins tilvalin til gjafa, heldur líka til að taka með sér upp í sumarbústaðinn eða í veiðihúsið.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook