10.6.2012 | 17:46
Hægri stefna á okkar dögum
Á nítjándu öld voru hægri flokkar íhaldssamir, sumir jafnvel afturhaldssamir, og studdust við yfirstéttir. Vinstri flokkar voru róttækir og sóttu fylgi til vinnandi stétta. Vinstri flokkurinn danski var dæmigerður. Hann var frjálslyndur bændaflokkur, enda var landbúnaður aðalútflutningsatvinnuvegur Dana og viðskiptafrelsi honum nauðsynlegt.
Tveir höfuðsmiðir íslenska flokkakerfisins höfðu hins vegar aðrar aðferðir til að flokka stjórnmálastefnur. Jónas Jónsson frá Hriflu taldi þrjá flokka eðlilega. Einn berðist fyrir sameign og styddist við verkalýð bæjanna, annar fyrir samvinnu, og mynduðu hann bændur, hinn þriðji fyrir samkeppni, og söfnuðust þar saman efnamenn.
Jón Þorláksson hafnaði hugmyndum um stéttarflokka, enda skyldu allir vinna að almannahag. Skipting í flokka réðist af hugsjónum, stjórnlyndi eða frjálslyndi annars vegar og íhaldssemi eða umrótsgirni hins vegar. Sjálfum fannst honum íhaldssemi tímabær á Íslandi, því að halda þyrfti í fengið frelsi. Þess vegna væri flokkur hans frjálslyndur íhaldsflokkur. Hann hefði orðið til í framhaldi af vinstri flokkum nítjándu aldar. Jón taldi hins vegar sósíalistaflokka stjórnlynda umrótsflokka.
Flokkun Jónasar frá Hriflu var gölluð, því að samvinna er ekki sjálfstæð hugsjón. Allir eru henni hlynntir, þótt sumir kjósi hana sjálfsprottna og aðrir valdboðna. En flokkun Jóns Þorlákssonar var vel hugsuð, þótt ekki hafi margir notað hana. Vandinn við skiptinguna í hægri og vinstri var einmitt, að gömlu hægri og vinstri flokkarnir voru á tuttugustu öld allir orðnir hægri flokkar, því að þeir stóðu andspænis róttækum sósíalistaflokkum. Til dæmis er Vinstri flokkurinn danski í raun hægri flokkur og hverfandi munur á honum og gamla hægri flokknum, Íhaldssama þjóðarflokknum.
Hægri og vinstri eru þó stutt og þægileg orð. Er hægri stefna nú á dögum að kjósa lága skatta og traustar varnir, en vinstri stefna að vilja háa skatta og veikar varnir?
7.6.2012 | 01:23
Ekki aðeins rímsins vegna
Tómas Guðmundsson orti í kvæðinu Nú er veður til að skapa um hnött, sem hlaðinn væri úr mannabeinum og púðri. Þá voru Hitler og Stalín bandamenn eftir griðasáttmála þeirra í ágúst 1939:
Og alveg varð ég hissa
er herrann lét sér detta
í hug að nota þetta
handa foringjanum Hitler
og föður Jósef Stalín.
Nú fá þeir að vera saman,
og rímsins vegna í peysum
frá prjónastofunni Malín.
En prjónastofan Malín var ekki aðeins nefnd til sögunnar rímsins vegna. Malín Ágústa Hjartardóttir, sem uppi var 1890-1988, var kunn dugnaðarkona í Reykjavík. Hún rak prjónastofu, sem hét eftir henni, á Laugavegi 20. Þar í bakhúsi héldu íslenskir nasistar, fylgismenn Hitlers, fundi sína snemma á fjórða áratug.
Malín kvað raunar á móti Tómasi:
Rímsins vegna rændir þú,
rótlaus maður,
peysum tveimur pakka úr
og puntaðir þá Hitler og Stalín,
en vita máttu þær voru ekki úr
vinnustofunni Malín.
Malín vildi ekki frekar en flestir aðrir Íslendingar koma nálægt þeim kumpánum Hitler og Stalín og hefur ekki ráðið því, hvað fram fór í bakhúsinu.
(Eftirskrift: Pálmi Haraldsson í Fons hafði samband við mig og kvaðst ekki greiða Ólafi Arnarsyni laun fyrir blogg, og er mér ljúft og skylt að koma þessari athugasemd Pálma til skila.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook
4.6.2012 | 15:10
Seinheppnir söngvarar
Sú var tíð, að hér starfaði kommúnistaflokkur, árin 1930-1938. Gaf hann út bókina Vakna þú Ísland. Söngvar alþýðu árið 1936. Þar var prentuð vísa, sem eignuð var óþekktum höfundi.
Rekist þú á ríkan mann,
reyndu, ef þú getur,
að bregða fæti fyrir hann,
svo fólkinu líði betur.
En þessi vísa var úr kvæði eftir eftir Pál J. Árdal, skáld og kennara á Akureyri. Það hét Bolsévíkamórall, var kveðið 1925 og og beindist gegn kommúnistum. Seinna erindið hljóðaði svo:
Út í flónsku flæðisker
framan úr sveit og dölum
bágrækur mun bændaher
bolsvíkinga smölum.
Páll gerði hins vegar ekki aðra fleyga vísu gegn kommúnistum, sem honum var oft eignuð:
Upp er skorið, engu sáð,
allt er í varga ginum.
Þeir, sem aldrei þekktu ráð,
þeir eiga að bjarga hinum.
Hana orti Sigmundur Sigurðsson, úrsmiður á Akureyri, eftir að Einar Olgeirsson fluttist til Akureyrar vorið 1924 og blés nýju lífi í félag jafnaðarmanna þar.
Steinn Sigurðsson, kennari í Vestmannaeyjum og síðar bókhaldari í Hafnarfirði, orti gegn sömu stjórnmálastefnu:
Nú eiga allir að eiga jafnt,
allir ríkis þjónar,
allir sama eta skammt,
allir vera dónar.
Líklega hafa íslenskir kommúnistar ekki sungið þessar vísur.
(Þessi fróðleikur er tíndur til víða úr bók minni, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem fæst í öllum góðum bókabúðum og er tilvalin til gjafa.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.6.2012 kl. 01:34 | Slóð | Facebook
1.6.2012 | 12:33
Gusugangur í Ólafi Arnarsyni
Arreboe Clausen var lengi einkabílstjóri forsætisráðherra. Hann var grandvar maður, trúr yfirmönnum sínum, en ræðinn og skemmtilegur. Eins og nærri má geta, heyrði hann margt í starfi sínu.
Einhvern tímann sat Arreboe að skrafi við annan mann, og bar á góma ýmis mál, sem þá voru ofarlega á baugi. Viðmælandi hans sagði, þegar Arreboe varðist frétta af þeim: Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka? Arreboe svaraði: Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.
Ólíku er saman að jafna, Arreboe Clausen og Ólafi Arnarsyni. Annar var trúr í starfi, hinn er þægur þjónn huldumanns, sem allir vita þó, hver er. Ólafur lekur ekki aðeins, heldur skvettist úr honum í allar þær áttir, sem vinnuveitandi hans miðar í.
Það er aldrei skemmtilegt að verða á vegi slíkra manna, þótt mér hafi sem betur fer tekist að víkja mér undan gusunum.