7.5.2011 | 09:05
Samnýtingarbölið: Fílar
Ég birti grein í 15. tbl. 29. árgangs Vísbendingar 18. apríl 2011, 2. bls., undir heitinu „Samnýtingarbölið: Fílar“. Fyrra orðið er þýðing mín á heiti frægrar greinar eftir bandaríska umhverfisfræðinginn Garrett Hardin í Science 1968, „The Tragedy of the Commons“ á ensku. Þar útskýrir Hardin þann vanda, sem hlýst af því, þegar margir nýta saman einhver gæði. Þá er hætt við því, að einhver freistist til að ofnýta gæðin, því að hann hirðir einn gróðann, en kostnaðurinn skiptist á alla.
Eitt dæmi um þetta er bithagar íslenskra bænda á fjöllum, í almenningum, sem kallað var að fornu. Til að koma í veg fyrir samnýtingarbölið (að einhver bóndinn ræki fleira fé á fjall en eðlilegt var) tóku bændur upp ítölu, sem var ekkert annað en kvóti á hverja jörð: Hver bóndi mátti aðeins „telja í“ almenninginn tiltekna tölu fjár. Hefur dr. Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor skrifað um þetta athyglisverða ritgerð í virt erlent tímarit.
Í greininni í Vísbendingu beiti ég þessari greiningu hins vegar á fílahjarðir á gresjum Afríku og velti fyrir mér, hvort muni duga betur til þess að vernda fílastofna, viðskipti eða veiðibann. Hvort skyldu íbúar á slóðum fílanna verða líklegri til að vernda þá, ef þeir fá að selja skotleyfi á takmarkaða tölu þeirra og hirða af þeim fílabeinið og selja, eða ef þeim er bannað með öllu að hafa nytjar af fílunum?
Hugi Ólafsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, hefur rétt fyrir sér um það, sem gerist, ef leið viðskiptanna er tekin fram yfir lítt framkvæmanlegt veiðibann. „Með þessu skapast eignarréttur yfir fílum og innfæddir sjá sér hag í að viðhalda stofninum og berjast gegn veiðiþjófum,“ skrifaði hann í Náttúrufræðinginn 1997.
Samnýtingarbölið er einn anginn af hinu stóra almenna verkefni, sem af því hlýst, að menn vinna við sumar leikreglur gegn almannahag, en við aðrar leikreglur að almannahag. Hvernig getum við breytt veiðiþjófum í veiðiverði með einu pennastriki? Svar mitt um fílana er í frumdráttum í Vísbendingu, en ég fæ vonandi tækifæri til að færa frekari rök fyrir því annars staðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook
6.5.2011 | 08:42
Stórfelld vanræksla stjórnvalda
Stjórnvöld hafa nú kynnt svör sín við athugasemdum ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, í Icesave-málinu. Hafa þau sem betur fer fengið nokkra snjalla lögfræðinga til þess að aðstoða sig við svörin, svo að þau eru vel samin og rökstudd.
En eins og Sigurður Kári Kristjánsson benti á í Morgunblaðinu miðvikudaginn 4. maí 2011 hafa stjórnvöld horft fram hjá einu. Forseti ESA, Norðmaðurinn Per Sanderud, hefur gefið mjög heimskulegar og fljótfærnislegar yfirlýsingar um málið, sem fjandsamlegar eru Íslendingum. Hann hefur jafnvel leyft sér að segja EFTA-dómstólnum fyrir verkum með því að telja víst, að hann úrskurðaði Íslendingum í óhag.
Þótt forstöðumaður hins norska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, Arne Hyttnes, taki sérstaklega fram, að á þeim sjóði sé ekki ríkisábyrgð (en um hið sama stendur einmitt deila Íslendinga við Breta og Hollendinga), vilja norsk stjórnvöld alls ekki styggja hin bresku, enda eru Bretar ein mikilvægasta viðskiptaþjóð Norðmanna. Norsk stjórnvöld eru bersýnilega ekki í neinum vandræðum með að taka stærri hagsmuni fram yfir minni, fórna frændum fyrir viðskiptavini. Sanderud þessi tekur mið af því.
Á meðan Sanderud hefur aðkomu að Icesave-málinu, fær það ekki réttláta meðferð í ESA.
Þessi maður er algerlega vanhæfur til að fara með málið. Íslensk stjórnvöld hefðu átt að krefjast þess, að hann viki sæti í þessu mikla hagsmunamáli Íslendinga. Hann á þar hvergi að koma nærri. Ég skil ekki fremur en Sigurður Kári, hvers vegna íslensk stjórnvöld sætta sig við aðkomu Sanderuds að málinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.5.2011 kl. 12:04 | Slóð | Facebook
5.5.2011 | 08:09
Víg Osama bin Ladens
Bandaríkjamenn hljóta að vera fegnir. Þeir hafa fundið og vegið þann mann, Osama bin Laden, sem skipulagði hryðjuverkaárásina á Bandaríkin 11. september 2001, en hún er fyrsta raunverulega árásin, sem gerð hefur verið á þetta volduga ríki í vestri.
Óljóst er þó, eftir hvaða alþjóðalögum Bandaríkjamenn fara með því að senda þyrlusveit inn í Pakistan og fella bin Laden, en það læt ég eftir öðrum fróðari mér. Þeir eru í stríði við hryðjuverkamenn, og í stríði er flest leyfilegt í reynd.
Osama bin Laden var öfgasinnaður múslimi. Því er stundum haldið fram, að öll trúarbrögð séu jafnhættuleg. Ég tek ekki undir það. Mikill munur er á kristinni trú og Íslam, eins og Samuel Huntington benti á í merkri bók um árekstur menningarsvæða.
Hver er gæfumunurinn? Kristur var kennimaður, predikari. Hann var í huga okkar fallegur maður í síðri, hvítri skikkju með heiðríkju í svip og hélt fjallræðuna. Hann gerði engum mein, þótt hann brýndi fyrir lærisveinum sínum, að þeir yrðu að vera honum dyggir. Hann tók fram, að sitt ríki væri ekki af þessum heimi.
Aðspurður sagði Kristur, að menn ættu að gjalda keisarans það, sem keisarans væri, og Guði það, sem Guðs væri. Í þessum orðum felst skiptingin í veraldlegt og andlegt vald, sem miklu hefur breytt um fjölræðið á Vesturlöndum. Valdið skiptist milli keisara og páfa, og síðar skiptist hið veraldlega vald enn frekar fyrir rás viðburða og hetjulega baráttu einstakra frelsisvina.
Í Íslam er þessi skipting í veraldlegt og andlegt vald miklu óskýrari. Múhameð var ekki aðeins spámaður, heldur líka herforingi. Hann sveiflaði sverði af fráum hesti, grimmur á svip, og lagði undir sig borgir. Í reynd er Íslam því miklu óumburðarlyndari trú en hin kristna. Þar er valdið á einni hendi, ekki mörgum.
Vitaskuld eru jafnmargir ágætir menn múslimar og kristnir menn. Manngæska dreifist sennilega fremur jafnt á öll trúarbrögð. En það breytir því ekki, að Íslam er miklu hættulegra frelsinu en kristin trú, og öfgasinnað Íslam á okkar dögum er hættulegt því frelsi, sem smám saman hefur aukist á Vesturlöndum og við njótum nú. Sæmdarmorð í röðum íslamskra innflytjenda og dauðadómar í Arabaríkjum yfir rithöfundum og skopteiknurum á Vesturlöndum sýna það best.
Með vígi Osama bin Ladens hefur óvinum vestræns frelsis fækkað.
3.5.2011 | 09:11
Misjafnir dómar
Skáld og rithöfundar hafa löngum sætt misjöfnum dómum. Bandaríski háðfuglinn Dorothy Parker sagði til dæmis um skáldsöguna L'Amante del Cardinale eftir Benító Mússólíni, sem kom út í Bandaríkjunum 1928 undir nafninu The Cardinal's Mistress, Hjákona kardínálans: „Þessa skáldsögu ætti ekki að leggja varlega frá sér, heldur grýta burt af öllu afli.“
Þýski félagsfræðingurinn Oswald Spengler skrifaði í riti frá árinu 1933 um bók landa síns, þjóðernisjafnaðarmannsins Arthurs Rosenbergs, Mythus des XX. Jahrhunderts, Goðsögn tuttugustu aldar: „Bók, þar sem ekkert er rétt nema blaðsíðutölin.“ Minnir þetta á það, sem bandaríska skáldkonan Mary McCarthy mælti í sjónvarpsþætti Dicks Cavetts í janúar 1980 um aðra bandaríska skáldkonu, Lillian Hellman: „Hvert einasta orð, sem hún skrifar, er ósatt, að meðtöldu „og“ og ákveðnum greini.“
Einnig má rifja upp það, sem haft er eftir þýska skáldinu Gotthold E. Lessing um ónefnt rit: „Það, sem er þar nýtt, er ekki gott, og það, sem er þar gott, er ekki nýtt.“
Stysti og um leið einhver neikvæðasti ritdómur á íslenskri tungu er sá, sem dr. Guðmundur Finnbogason, sálfræðingur og landsbókavörður, skrifaði í Vöku 1927 um Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Kiljan Laxness: „Vélstrokkað tilberasmjör.“ Samkvæmt þjóðtrúnni var tilberi vera, sem galdrakind sendi til að sjúga mjólk úr kúm í haga og færa sér. Tilberinn spjó feng sínum í ílát við búrglugga, og var hrært úr spýjunni smjör. Guðmundur átti við það, að Halldór hefði sogið í sig erlendar nútímabókmenntir, spúið þeim í íslenskt ílát og hrært með nútímatækni úr verk sitt.
Í sama hefti Vöku 1927 gat að líta hin frægu ummæli Kristjáns Albertssonar um skáldsögu Laxness: „Loksins, loksins.“ Sjálfur fékk Kristján sinn skammt, þegar hann gaf út greinasafnið Í gróandanum 1955. Þá skrifaði Einar Bragi ritdóm í Birting, sem hljóðaði í heild sinni svo: „Bókin er sönnun þess, að jafnvel í gróandanum getur kalviðurinn ekki laufgast.“ Er þetta sennilega næststysti ritdómur íslenskrar tungu.
Ekki hafa allir rithöfundar brugðist eins við gagnrýni og Jóhannes Kjarval. Skömmu eftir að hann gaf árið 1930 út ljóðabók sína, Grjót, hitti hann Jónas Jónsson frá Hriflu á förnum vegi. „Mér finnst nafnið of hart,“ sagði Jónas. „Hún hefði heldur átt að heita Leir.“ Kjarval svaraði snúðugt: „Nú geri ég það, sem fjandinn mun aldrei gera.“ Gekk hann burt.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 30. apríl og er sóttur á ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er til í öllum bókabúðum og hentar vel í fermingar- og útskriftargjafir.)
1.5.2011 | 12:46
Merkilegt afmæli 30. apríl

Hinn 30. apríl 2011 eru rétt tuttugu ár frá því, að Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn, 1991. Hann stóð ekki upp af stóli forsætisráðherra fyrr en 15. september 2004, eftir þrettán og hálfs árs setu.
Tímabilið 1991–2004 er eitthvert mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar. Hagkerfið var opnað, aðgangur að mörkuðum í Evópu tryggður með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, réttur einstaklinga bættur með nýjum stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, fyrirtæki ríkisins seld, en afraksturinn notaður til að lækka skuldir ríkisins niður í nánast ekki neitt, skynsamlegt og hagkvæmt fyrirkomulag fiskveiða treyst með margvíslegri löggjöf og skattar lækkaðir með þeirri afleiðingu, að vinnusemi einstaklinga og verðmætasköpun jókst, svo að skatttekjurnar sjálfar lækkuðu ekki, af því að kakan stækkaði.
Kjör almennings bötnuðu um þriðjung þetta tímabil, sem er mikið, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að þetta mátti ekki rekja til Bretavinnu eða síldarævintýra, eins og stundum áður, heldur til eðlilegs hagvaxtar í skjóli atvinnufrelsis. Kjör almennings bötnuðu ekki heldur út af lánsfjárbólu, því að hún kom síðar til sögunnar, eftir 2004, eins og sést mjög vel á 27. mynd (103. bls.) í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, þar sem erlendar skuldir 1991–2007 eru sýndar í hlutfalli við verga landsframleiðslu.
Í áðurnefndri bók minni er líka sýnt, að fyrstu átta árin í forsætisráðherratíð Davíðs var aðhald í útgjöldum ríkisins. Þau jukust ekki sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá var Friðrik Sophusson fjármálaráðherra. Stóð hann sig afburðavel í því starfi.
Hinir fátækustu báru ekki skarðan hlut frá borði. Kjör þeirra bötnuðu tímabilið 1995–2004 tvöfalt hraðar en nam meðaltalinu í löndum OECD. Tekjur ellilífeyrisþega voru árið 2004 hinar hæstu á Norðurlöndum. Það ár var fátækt samkvæmt viðurkenndum mælingum næstminnst á Íslandi allra Evrópuríkja (og með því áreiðanlega í öllum heiminum); hún var aðeins minni í Svíþjóð. Og þar sem lífskjör voru þá nokkru betri á Íslandi en í Svíþjóð og átt var við hlutfallslega fátækt, er líklega óhætt að fullyrða, að kjör hinna fátækustu voru í krónum eða kaupmætti hin skástu í heimi.
Tekjuskiptingin hafði ekki orðið ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum, þótt því væri raunar haldið fram (og þá stuðst við hreinar reikningsskekkjur). Samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins (sem sýndar eru á 29. mynd í bók minni, 110. bls.) var tekjuskipting hér jafnari en í Finnlandi og Noregi, en ójafnari en í Svíþjóð og Danmörku. Ísland skar sig því ekki úr hópi Norðurlandanna.
Davíð hafði fulla ástæðu til að vera stoltur af verki sínu, þegar hann stóð upp af stóli forsætisráðherra 15. september 2004. En í sérhverjum sigri geta leynst fræ ósigurs. Davíð hafði með sölu banka og óheftum aðgangi að Evrópumarkaði veitt duglegum og harðskeyttum einstaklingum svigrúm og tækifæri. Sumir — og þá á ég aðallega við Baugsfeðga — misnotuðu þessi tækifæri herfilega.
Davíð sá hættuna fljótar og skýrar en aðrir og reyndi að vera við henni. En þá höfðu þessir menn keypt upp flesta fjölmiðla í landinu og ráðið marga kænustu lögfræðinga þjóðarinnar í þjónustu sína og myndað ofurþungt almenningsálit sér í vil, svo að þeir komust upp með miklu meira en aðrir, jafnvel lögbrot og yfirgang. Í laumi tæmdu þeir bankana, sem stóðu fyrir vikið berskjaldaðir, þegar að kreppti. Í þá tíð giltu í raun önnur lög um Jón en um Jón Ásgeir. Er sú ljóta saga öllum í fersku minni og þarf ekki að rifja upp hér. Ekki tók nema fjögur ár að gera að engu hinn mikla árangur, sem náðst hafði árin 1991–2004.
Nú þarf hins vegar að hefjast handa við að reisa Ísland úr rústunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook