Jón S. Guðmundsson

jonsgudmundssonJón Sigurður Guðmundsson er rammíslenskt nafn, og íslenskukennarinn, sem bar það og kenndi í Menntaskólanum í Reykjavík í hálfa öld, var rammíslenskur maður. Hann mótaði málfar marga kynslóða með leiðréttingum sínum víð skólastíla og leiðbeiningum, sem allar hnigu í átt að vönduðu, eðlilegu og þó blæbrigðaríku máli, þar sem sneitt væri hjá dönsku- og enskuslettum, tuggum og tilgerð. Hann kenndi mér íslensku í þrjá vetur af fjórum í Menntaskólanum í Reykjavík, og man ég enn fyrsta skólastílinn, sem ég fékk mér til mikillar undrunar útkrotaðan frá honum í rauðu haustið 1968. Ég hafði til dæmis skrifað „Mexico City“, en Jón benti á, að ég ætti annaðhvort að nota íslenska heitið Mexíkóborg eða hið spænska nafn borgarinnar, Ciudad Mexico. Auðvitað! Hann brýndi fyrir okkur að hafa fleiri orð um ýmsar framkvæmdir en sögnina ofnotuðu „að byggja“. Við leggjum vegi, reisum hús, smíðum brýr og hlöðum stíflur. Í stað annars ofnotaðs orðs, „uppbyggingar,“ mátti iðulega setja myndun, mótun, þróun, vöxt eða skipulagningu. Jón varaði okkur líka við nafnorðahröngli að enskri fyrirmynd. Mig grunar, að hann hafi í íslenskunámi sínu í Háskólanum aðallega mótast af tveimur ólíkum fræðimönnum, Birni Guðfinnssyni málfræðingi og Sigurði Nordal, bókmenntaskýranda og skáldi, og vitnaði hann oft til þeirra í kennslustundum.

Jón var einnig glöggur prófarkalesari. Hann las til dæmis öll þrjú bindin af ævisögu Laxness fyrir mig í handriti af stakri prýði. Fróðlegt var að fara yfir athugasemdir hins gamalreynda íslenskumanns og sjá, hvernig textinn batnaði og varð liprari með tiltölulega litlum breytingum. Jón hafði ekki alist upp við mikil efni, en brotist til mennta. Hann var gæfumaður, því að hann var í starfi, sem átti afar vel við hann. Jón var kennari af Guðs náð, unni sér ekki hvíldar, flutti mál sitt vel og skörulega og hreif nemendur með sér, þegar lesnar voru íslenskar bókmenntir, Egils saga, Hávamál, Völuspá, Passíusálmarnir, Reisubókin og mörg fleiri afbragðsverk, sem festust í minni nemenda fyrir tilstilli hans. Þegar Jón S. Guðmundsson féll frá, var svo sannarlega skarð fyrir skildi.

Minningargrein í Morgunblaðinu (þar örlítið stytt) 20. apríl 2008. 


Gore-áhrifin

big-algorejpgÞað var sól og sunnanvindur, þegar Gore reið í garð mánudagskvöldið 7. apríl. Þegar hann kvaddi sólarhring síðar, snjóaði í Reykjavík. Gárungarnir kalla þetta Gore-áhrifin, því að hvarvetna, þar sem þessi farandprédikari hefur komið við á einkaþotu sinni í því skyni að vara við hlýnun jarðar, kólnar snögglega. Hvað sem því líður, hefur Gore fjörugt ímyndunarafl. Hann fræddi íslenska fréttamenn á því, að Ólafur Ragnar Grímsson hefði fundið upp hitaveituna. Sjálfur kveðst hann hafa fundið upp netið sem frægt er og telur, að skáldsagan Love Story eftir Erich Segal sé um þau Tipper Gore (en Segal hefur leiðrétt það). Skoðum þó málstaðinn fremur en manninn.

Á Íslandi talaði Gore í boði Háskóla Íslands, enda fjölmenntu háskólamenn á fyrirlestur hans. Enginn minntist á það, að í nýlegu dómsmáli í Bretlandi hafði fjöldi missagna hans verið leiðréttur, en hann endurtók þær flestar hér í fyrirlestrinum. Ein er sú, að snjóhettan á Kilimanjaro-fjalli í Blálandi hinu mikla sé að hverfa vegna hlýnunar jarðar. Það er rangt. Hún hóf að minnka fyrir röskri öld af allt öðrum ástæðum. Önnur missögn er, að Chad-vatn í sömu álfu sé að hverfa vegna hlýnunar jarðar. Það er líka rangt. Vatnið hefur aðallega minnkað vegna áveituframkvæmda. Raunar hefur það horfið nokkrum sinnum áður. Þriðja missögnin er, að eyjaskeggjar í Kyrrahafi séu að flytjast á brott vegna sjávarhækkunar. Fyrir því er enginn fótur. Gore sýnir einnig yfirgefna ísbirni á glærum sínum. En engin gögn styðja það, að ísbirnir hafi lent í erfiðleikum vegna hlýnunar jarðar. Þeim fjölgar fremur en fækkar um þessar mundir.

Ein mesta missögn Gore er, að yfirborð sjávar eigi líklega eftir að hækka um 6 metra sökum hlýnunar jarðar. Samkvæmt útreikningum loftslagsnefndar SÞ gæti hugsanleg bráðnun jökla hækkað sjávarmál um 6 sm á næstu áratugum. Breski dómarinn, sem þurfti að meta gögn Gores, segir einnig, að honum takist ekki að sýna fram á, að samband koltvísýrings í andrúmsloftinu og hlýnunar jarðar sé á þann veg, sem hann vill vera láta. Raunar er athyglisvert, að vart hefur hlýnað á jörðinni frá 1998, þótt losun koltvísýrings hafi aukist. Þeir, sem heittrúaðastir eru á hugsanlegan heimsendi, svara því til, að horfa verði á lengra tímabil og segja að hafstraumar hafi kælt jörðina. Ef til vill er það rétt hjá þeim. En það jafngildir viðurkenningu á því, að miklu breytir, við hvaða tímabil er miðað, og einnig á hinu, að málið er miklu flóknara en svo, að einn áhrifaþáttur ráði úrslitum.

Sjálfur efast ég ekki um þær niðurstöður vísindaheimsins, að jörðin hafi hlýnað um tæpt eitt stig síðustu 100 árin, að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aukist um 30% á sama tímabili og að eitthvert samband sé á milli þessa. En heimsendir er ekki í nánd. Þegar sannleikurinn missir stjórn á sér, verður hann að ýkjum. Á það ekki við um boðskap Als Gores? Aðalatriðið er, hvað skynsamlegast er að gera. Það er háskalegur misskilningur, að við getum stjórnað veðurfari. Við mennirnir búum hins vegar yfir mikilli aðlögunarhæfni. Þess vegna eigum við að laga okkur að nýjum aðstæðum, ekki gerbreyta lífsháttum okkar eða reyna að endurskapa heiminn. Það má Gore hins vegar eiga, að hann skilur, hversu nauðsynlegt okkur Íslendingum er að virkja hér vatnsafl og jarðvarma, enda eru orkugjafar okkar miklu umhverfisvænni en annars staðar. Þess vegna var heimsókn hans ekki til einskis.

Fréttablaðið 18. apríl 2008. 


Spjall á tveimur stöðvum

Hannes-Hólmsteinn036Ég tók þátt í umræðum í Síðdegisútvarpi Rásar tvö í Ríkisútvarpinu þriðjudaginn 8. apríl 2008 með Halldóri Björnssyni veðurfræðingi um boðskap Als Gores, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna í fyrirlestri hans. Þá um kvöldið var líka fluttur á sjónvarpsstöðinni INN þáttur, þar sem Ingvi Hrafn Jónsson spjallar við mig frá Bandaríkjunum, meðal annars um útvíkkun Atlantshafsbandalagsins, Pútín og Bush og efnahagsástandið á Íslandi. Þessa ljósmynd tók Ragnar Axelsson, ljósmyndari Árvakursblaða, af mér í tengslum við viðtal í 24 stundum. Rax er einhver besti ljósmyndari Íslendinga.

Viðtal í 24 stundum

2008-04-05bigImg„Mér þykir mjög leitt hvernig til tókst. Ég hafði sem fyrirmynd Halldór Laxness sjálfan því ég hafði séð í rannsóknum ágætra bókmenntafræðinga hvernig hann nýtti sér texta annarra, tók út það sem hentaði verki hans og endurskoðaði og breytti. Þegar ég les dóminn yfir og íhuga hvernig þróunin hefur verið í höfundarréttarmálum er mér ljóst að ég gerði mistök. Þetta var alls ekki ásetningur minn enda hefði verið furðulegt ef ég hefði viljað brjóta lög vísvitandi því mér var alveg ljóst að bók mín yrði lesin mjög vandlega,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson en hæstiréttur dæmdi hann í síðasta mánuði til að greiða Auði Laxness, ekkju Halldórs Laxness, 1,5 milljónir króna í fébætur fyrir brot á höfundarrétti í fyrsta bindi af ævisögu Halldórs, auk 1,6 milljóna í málskostnað.

Þú segist hafa unnið eins og Laxness en á ekki nokkuð annað við þegar menn eru að vinna skáldverk heldur en við vinnslu fræðirits?

„Það má alveg leiða rök að því. Ég held að nýir tímar í akademískum rannsóknum krefjist miklu nákvæmari tilvísana og meiri virðingar fyrir textum annarra en var á þessu fyrsta bindi míns verks. Ég lærði af þeim mistökum og breytti vinnubrögðum mínum í öðru og þriðja bindi. Ég vona að menn hafi í heiðri nýja málsháttinn: Batnandi höfundi er best að lifa. Ég ætla líka að endurútgefa verkið við fyrsta tækifæri og taka þá tillit til dóms Hæstaréttar og gagnrýni samstarfsfólks míns í Háskólanum og annarra.“

Hver er staða þín innan Háskólans gagnvart samstarfsmönnum, nýturðu trausts þeirra eða ekki?

„Það gleður mig hversu marga góða vini ég á í minni deild, Félagsvísindadeild. Ég held að nánast allir samstarfsmenn mínir þar vilji vinna með mér áfram. Ég hef ekki heyrt eitt einasta styggðaryrði frá neinum þeirra. En þeim þykir þetta auðvitað miður, eins og mér sjálfum.“  

Hvernig bregstu við umvöndunum rektors?

„Ég tek þeim vel. Enginn er óskeikull, hvorki ég né nokkur annar. Mér finnst að Háskólinn eigi að setja markið hátt, og það er auðvitað óþægilegt fyrir hann ef starfsmaður hans fær dóm fyrir höfundarréttarbrot. En ég minni á að refsikröfunni yfir mér var vísað frá og ég var sýknaður af miskabótakröfunni. Dómurinn gekk út á það að ég yrði að bæta frú Auði Laxness það tjón sem ég hefði valdið henni með því að nota í leyfisleysi efni frá Laxness í bók minni. Þar setti Hæstiréttur alveg nýja reglu, en ég verð að taka því. Ef til vill er þetta þáttur í réttarþróuninni.“

1009795Er það venja í háskólanum að fylgjast með dómsmálum starfsmanna eins og gert var í þínu dæmi?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég veit til dæmis að einn ágætur sagnfræðiprófessor var dæmdur í Hæstarétti 2004 fyrir meiðyrði í dómnefndaráliti, sem honum var sérstaklega falið ásamt öðrum að semja fyrir Háskólann, og til greiðslu miskabóta. Háskólinn hefur líka nokkrum sinnum verið dæmdur í skaðabætur í Hæstarétti, af því að yfirmenn stjórnsýslunnar, rektor og forsetar deilda, hafa brotið stjórnsýslulög á starfsmönnum. En ég veit ekki og hef ekki kynnt mér hvað gert var í þeim málum, enda afsakar það ekkert mitt brot. Ég einbeiti mér að því að bæta fyrir það en ekki benda á einhverja aðra.“

Vinir þínir hafa hafið fjársöfnun fyrir kostnaði þínum vegna þessa máls. Hvernig hefur sú söfnun gengið?

„Hún hefur gengið vonum framar. Ég hafði engin afskipti af henni og vissi ekki af henni því ég var erlendis þegar henni var hrint af stað. Ég gerði engar athugasemdir við hana þegar mér var sagt frá henni. Mér þykir vænt um þann vináttuvott sem í henni felst. Mér er nokkur vandi á höndum vegna þess að hart hefur verið sótt að mér úr mörgum áttum og ég hef þegar greitt 23 milljónir í lögfræðikostnað og skulda 7 milljónir. Þetta eru svimandi upphæðir.“

Í auglýsingu um fjárstuðning þér til handa er sagt að þú sért venjulegur launamaður. Hvernig getur venjulegur launamaður greitt 30 milljónir?

„Hann getur það ekki enda varð ég að selja hús mitt. Kjartan Gunnarsson, vinur minn, keypti það og ég leigi af honum í þeirri von að ég muni í framtíðinni eignast nægt fé til að kaupa það aftur. Ég veit ekki hvort ég mun ráða við það, en er samt hóflega bjartsýnn. Ég hef tekið lán og góðir menn hafa aðstoðað mig eftir föngum.“

Jón Ólafsson sækir meiðyrðamál á hendur þér í Bretlandi og það mál hefur þegar kostað þig stórfé. Hver er staða þess máls?

„Ég er að leita eftir því við bresku lávarðardeildina að hún leyfi mér að flytja málið þar. Það er ekki sjálfgefið því áfrýjunardómstóll hefur þegar dæmt Jóni í vil. Samkvæmt breskum breskum lögum á að stefna mönnum á Íslandi eftir íslenskum reglum. Mér var ekki stefnt rétt. Dómarinn sem viðurkenndi þetta og ógilti gamlan dóm yfir mér veitti Jóni Ólafssyni sérstaka undanþágu frá því að stefnt væri eftir íslenskum reglum. Lögfræðingar mínir telja að það sé óeðlilegt að breskur dómari geti veitt slíka undanþágu. Sjálfum finnst mér freklega gengið á fullveldi Íslands ef breskur dómari veitir undanþágur frá íslenskum lögum. En við verðum að bíða og sjá hvernig þetta mál fer.“

Á þeim tíma sem þessi dómsmál hafa staðið hefurðu aldrei orðið þunglyndur eða niðurdreginn?

„Nei, ég get ekki sagt það. Mér þykir þetta auðvitað leitt, en þetta hefur ekki rænt mig svefni. Það er svo margt annað sem er meira virði í lífinu. Ég er hins vegar alveg undrandi á öllu því fólki sem er að eyða mestallri starfsorku sinni í mig.“

Það er ekkert leyndarmál að þú ferð innilega í taugarnar á mörgum og einstaka maður virðist nánast leggja hatur á þig. Hvernig tekurðu því?

„Barátta mín hefur ekki verið barátta gegn einstaklingum heldur stjórnmálabarátta fyrir því frelsi sem hefur fært þjóðinni mikla velmegun, opnaði þjóðfélagið og gerði það rúmbetra og bjartara. Hér eru einhver bestu lífskjör í heimi eins og frægt er orðið. Ég á erfitt með að skilja þetta hatur. Ég get verið stóryrtur og gef sjaldan eftir og kannski fer það í taugarnar á einhverjum.“

Hefurðu mildast með árunum?


„Ég hef vonandi eitthvað vaxið að þroska. Stjórnmálaskoðanir mínar hafa hins vegar ekki breyst í meginatriðum. Ég er þeirrar skoðunar að menn verði að læra af mistökum sínum í stað þess að endurtaka þau. Ég er líka þeirrar skoðunar að peningar skipti ekki öllu í lífinu þannig að ég sé ekki mjög mikið eftir þeim peningum sem ýmsir hafa verið að reyta af mér. Það er tvennt sem skiptir meira máli en peningar og það er góð heilsa og góðir fjölskylduhagir. Ég held að það sé það sem færi mönnum hamingjuna. Ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr hlutverki peninga því þeir geta verið afskaplega gagnlegir til að gera lífið þægilegra og skemmtilegra.“

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með nýjan formann og nýir menn eru í forystuliði Sjálfstæðisflokksins. Finnst þér þú stundum vera utanveltu þar?

50HHG-IJÞHHGGeH„Nei, ég er mjög sáttur við forystuskiptin í Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddsson og Geir Haarde eru báðir góðir vinir mínir. Við erum í sama vinahópnum eða sömu klíkunni eins og sumir myndu segja. Allt frá því snemma á áttunda áratugnum höfum við hist nokkrir saman hálfsmánaðarlega í hádeginu og Davíð og Geir eru þar á meðal. Sá hópur sem ég tilheyri hefur ekki misst völdin því Geir Haarde var hinn eðlilegi eftirmaður Davíðs sem studdi hann mjög eindregið. Það er því ekki hægt að tala um þennan hóp í þátíð.“

En vingastu nokkuð við fólk sem hefur ekki sömu pólitísku skoðanir og þú?

„Þetta er misskilningur. Í félagsvísindadeild, þar sem ég kenni, eru fáir með sömu stjórnmálaskoðanir og ég en eru samt góðir vinir mínir. Ég á ekkert erfitt með að umgangast fólk af öðru pólitísku sauðahúsi. En lengsta og óslitnasta vináttan er við pólitíska baráttufélaga mína. Ég á marga góði vini og í mínum vinahópi er mikið mannval.“

Hvað veitir þér ánægju í lífinu?

„Ég varð mjög snemma bókaormur, hvarf inn í heim bókanna. Ég hef enn mjög gaman af að lesa og hlakka til að fara í langar flugferðir vegna þess að þá get ég lesið hnausþykkar bækur. Eftirlætisbækur mínar eru vel skrifaðar ævisögur og sagnfræðilegt efni, þótt ég hafi líka gaman af skáldsögum. Í gamla daga hafði ég mjög gaman af Tolstoy og Dostojevskí en nú finnst mér bækur þeirra vera allt of dramatískar, sérstaklega Dostojevskís, nánast fyrir hrifnæma unglinga. Ég les frekar gömlu bresku höfundana, Hume, Macaulay lávarð og Dickens, en ég er líka núna að lesa Hippolyte Taine sem skrifaði margar bækur um frönsku byltinguna.

Ertu lífsnautnamaður?

„Já, ég held að það sé óhætt að segja það. Ég hef gaman af góðum mat og góðum vínum. Ég hef verið mikill gæfumaður því mér hefur tekist að sjá flesta drauma mína rætast. Ég er í starfi sem mér finnst skemmtilegt og get varla hugsað mér betra starf eða ánægjulegra. Ég hef nóg fyrir mig þótt ég eigi litlar eignir eftir þessi ósköp. Ég þarf ekkert að kvarta.“

Hvaða manneskja hefur skipt þig mestu máli í lífinu?

„Ég myndi fyrst nefna móður mína. Hún var einstaklega góð móðir og hafði mikil áhrif á mig. Síðan nefni ég minn elskulega vin, Davíð Oddsson sem er frábær maður, sterkur og hlýr og afar framsýnn. Ef einhver maður hefur sjöunda skilningarvitið fræga þá er það Davíð. Svo verð ég að nefna Friedrich von Hayek sem var minn lærimeistari, djúpvitur maður, og sömuleiðis Milton Friedman.

Geturðu sagt mér eitthvað af þessu góða fólki?


„Ja, menn kunna nú líklega ekki að meta foreldra sína að fullu fyrr en þeir eru allir. Til dæmis kunni ég ekki alltaf að meta matinn hjá móður minni, mér fannst maturinn oft betri hjá vinkonu hennar hinum megin gangsins, sem líka var hálfgerð fósturmóðir mín. Þegar mér fannst maturinn vondur hjá mömmu, fór ég yfir. Þá laumaðist móðir mín með matinn þangað, húsfreyjan þar setti hann á disk og ég borðaði með bestu lyst. Þær sögðu mér frá þessu hlæjandi mörgum árum seinna.

Hayek.London.1985Það vita auðvitað allir hversu snjall og orðheppinn Davíð er, svo að þar er engu við að bæta. Mér er enn minnisstætt þegar ég sat kvöldverð með Hayek í London vorið 1985. Það var svo margt sem hann sagði mér og vinum mínum frá Oxford sem vorum komnir þarna til að finna hann. Til dæmis sagði hann okkur, hvernig hann hefði afvopnað frú Thatcher. Hún var lærimær hans, ef svo má segja, og þegar hún var nýtekin við völdum frétti hún að hann væri staddur í London svo að hún bauð honum í 10 Downing stræti. Hún tók á móti honum í anddyrinu og sagði með sinni sérstöku rödd: „Prófessor Hayek, ég veit alveg hvað þér ætlað að segja við mig. Þér ætlið að segja að ég hafi ekki gert nóg. Og auðvitað hafið þér alveg rétt fyrir yður um þetta.“ Í þessum kvöldverði sagði Hayek okkur í smáskálaræðu: „Ungu menn! Mér finnst vænt um að þið skuluð vilja hitta mig og að þið skuluð lesa bækurnar mínar. En ég hef aðeins eina ósk. Ekki verða hayekistar. Ég hef tekið eftir því að marxistarnir voru miklu verri en Marx og keynesistarnir miklu verri en Keynes. Haldið þið áfram að vera gagnrýnir í hugsun og gangist ekki á hönd neinum rétttrúnaði.“ Ég veit nú ekki hvort mér hefur alltaf tekist að fara eftir þessu boðorði Hayeks.“

Þú sagðir fyrr í viðtalinu að fjölskyldan skipti gríðarlegu máli í lífi hvers einstaklings, en nú ert þú einhleypur.

„Hvað veist þú um það?“

Af hverju talarðu aldrei um einkalíf þitt?

„Það er ekki vegna þess að ég hafi eitthvað til að skammast mín fyrir. Ég veit að mér hættir til að vera sjálfhverfur en ég er að reyna að vinna bug á því. Eitt af því sem ég geri til þess er að tala ekki um einkalíf mitt.“

Þú dvalur þó nokkurn tíma í Brasilíu. Hvað er svona heillandi við Brasilíu?

„Starf háskólaprófessors sem er virkur í rannsóknum er mjög oft alþjóðlegt. Ég hef ferðast mikið, þar á meðal verið mikið í Brasilíu. Ég gerði það líka að gamni mínu fyrir nokkrum árum að læra portúgölsku og það hefur reynst mér vel. Ég á þar fjölmennan vinahóp og mál hafa þróast þannig að Brasilía er nánast eins og mitt annað heimili. Mér líður afskaplega vel þar.“

Þú ert sívinnandi. Að hverju ertu að vinna núna?

„Ég er að þýða Svartbók kommúnismans sem er yfirlitsrit sem nokkrir franskir fræðimenn tóku saman um sögu kommúnismans. Ég skrifa íslenskan viðauka við bókina. Ég er líka að skrifa bók um hina miklu breytingu á Íslandi sem varð frá 1991 til 2007 og áhrifin á kjör almennings. Svo geri ég ráð fyrir því þegar dómsmálum lýkur að skrifa um þau, og þar mun sjálfsagt ýmislegt koma á óvart.“

Áttu þér lífsmottó?

„Ætli ég verði ekki að hafa sama mottó og er í lok myndinnar Life of Brian: Always Look on the Bright Side of Life.“ 

24 stundir 5. apríl 2008 (Kolbrún Bergþórsdóttir). 


Hádegisviðtal á Stöð tvö

Ég var í viðtali við „Markaðinn“ á Stöð tvö í hádeginu 4. apríl 2008. Þar ræddi ég um hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu, hag Íslands og framtíðarhorfur í peningamálum. Einnig var stuttlega minnst á nýlegan dóm Hæstaréttar yfir mér.

Engan bölmóð!

Skjótt skipast veður í lofti. Fyrir ári voru Íslendingar fullir bjartsýni og fjárfestu af miklum móð hér sem annars staðar. Nú heyrast andvörp úr öllum áttum. Hvort tveggja er óskynsamlegt. Menn eiga að vona hið besta, um leið og þeir hljóta að vera búnir við hinu versta. Þeir mega með öðrum orðum aldrei missa vonina. Með því að mála skrattann á vegginn kemur hann áreiðanlega.

Íslenskt atvinnulíf heilbrigt


Evrópuútgáfa Wall Street Journal birti á dögunum eftir mig grein, þar sem ég benti á, að íslenskt atvinnulíf er í aðalatriðum heilbrigt og öflugt. Í fyrsta lagi hefur íslenska ríkið greitt upp skuldir sínar. Þær námu 32,7% af vergri landsframleiðslu 1994, en nú 3,8%, og á móti þeirri lágu upphæð stendur gjaldeyrisforði Seðlabankans, svo að segja má, að íslenska ríkið sé skuldlaust. Í öðru lagi hefur hagur útflutningsatvinnugreinanna vænkast mjög síðustu vikur og mánuði. Fiskur og ál eru í háu verði erlendis, og seljendur þessarar vöru njóta eins og ferðaþjónustan góðs af því, að gengi krónunnar er ekki eins hátt og áður. Í þriðja lagi hefur myndast nýtt fjármagn hér hin síðari ár, dautt fjármagn orðið kvikt, eins og ég hef orðað það eftir hinum kunna rithöfundi Hernando de Soto frá Perú, en bók hans, Leyndardómar fjármagnsins, hefur komið út á íslensku.

Nýtt fjármagn


Hér er annars vegar um að ræða fiskistofnana. Ein meginsetning auðlindahagfræðinnar er, að eigendalausar auðlindir, sem ókeypis aðgangur er að, eru ofnýttar, svo að ekki myndast neinn hagnaður af þeim. Þetta átti við um fiskistofnana á Íslandsmiðum fyrr á árum. Hugsanlegur hagnaður af þeim fór í súginn í of miklum sóknarkostnaði. En eftir að framseljanlegum aflakvótum var úthlutað, hefur þetta breyst. Nú er þetta orðið skrásett, framseljanlegt, skiptanlegt og veðhæft fjármagn. Hins vegar er um að ræða ýmis opinber eða hálfopinber fyrirtæki, sem seld voru einkaaðilum síðustu sextán ár. Áður voru þau eigendalaus. Þetta var fé án hirðis, eins og Pétur Blöndal kallaði það. En um leið og þau komust í hendur einkaaðila, varð til skrásett, framseljanlegt, skiptanlegt og veðhæft fjármagn. Þessi fyrirtæki tóku að ganga kaupum og sölum, og í slíkum viðskiptum varð til hagkvæmasta samsetning fjármagnsins. Stundum borgar sig að sameina fyrirtæki, stundum að skipta þeim upp, en þetta er allt torvelt, þegar þau eru eigendalaus. Frjáls viðskipti með fjármagn tryggja hina lífrænu þróun kapítalismans (sem Jósep Schumpeter kallaði tortímandi sköpun).

Öflugir lífeyrissjóðir

Þriðja uppspretta hins nýja fjármagns á Íslandi er lífeyrissjóðirnir. Heildareignir þeirra nema nú um 133% af landsframleiðslu. Það er hærra hlutfall en annars staðar í heiminum, en næstir okkur koma Hollendingar. Þetta tryggir ekki aðeins betri hag ellilífeyrisþega, þegar fram í sækir, heldur er þetta stórkostleg upphleðsla fjármagns. Stundum er því haldið fram, að Íslendingar séu fram úr hófi eyðslusamir. En ég held, að eyðslusemi okkar sé skynsamlegri en virðast kann í fyrstu, vegna þess að ósýnilegur sparnaður okkar er svo miklu meiri en margra annarra þjóða, jafnt með háum greiðslum í lífeyrissjóði og afborgunum af eigin húsnæði. Aðrar þjóðir eru sparsamari á ráðstöfunarfé sitt, af því að þær mynda ekki eins miklar eignir, hvorki í lífeyrissjóðum né eigin húsnæði.

Öll él styttir upp

Þótt nú hafi blásið á móti um skeið, eiga Íslendingar því ekki að fyllast bölmóði. Öll él styttir upp um síðir. Undirstöður atvinnulífsins eru traustar og stöðugleiki í stjórnmálum. Ríkisstjórnin þarf að halda áfram á þeirri braut, sem hefur gefist best síðustu sautján árin, að auka svigrúm einstaklinga, lækka skatta, selja ríkisfyrirtæki og fjölga tækifærum venjulegs fólks til að brjótast úr fátækt til bjargálna. Jafnframt er nauðsynlegt, að Seðlabankinn verði áfram öflugur bakhjarl viðskiptabankanna, sem vaxið hafa hratt hin síðari ár. Við skulum draga rétta lærdóma af þeirri fjármálakreppu, sem herjað hefur í heiminum síðasta misserið. En dýrmætasta eign okkar er vonin, — vonin um betri tíð með blóm í haga.

Fréttablaðið 4. apríl 2008. 


Kastljós um málarekstur

hannes-holmsteinnÉg kom fram í Kastljósi fimmtudagskvöldið 3. apríl, þar sem ég brást við dómi Hæstaréttar yfir mér og bréfi rektors til mín í tilefni dómsins. Þar upplýsti ég, að samtals hefur málarekstur Laxnessfólksins og Jóns Ólafssonar á hendur mér kostað 23 millj. kr. greiddar frá 2005, og skulda ég enn 7 millj. kr. til viðbótar. Vinir mínir hafa opnað reikning nr. 0101 05 271201, kt. 1310834089, mér til stuðnings. Einnig upplýsti ég, að ég hefði sótt um áfrýjunarleyfi í máli Jóns Ólafssonar úti á Bretlandi til bresku lávarðadeildarinnar.

Margir hafa skrifað um þennan Kastljósþátt, þar á meðal Ágúst Borgþór Sverrisson rithöfundur, Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur, Guðmundur J. Kristjánsson endurskoðandi, Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur, Hrannar Baldursson kennari, Jón G. Hauksson ritstjóri, Jón Valur Jensson guðfræðingur, Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Ragnhildur Kolka bókmenntafræðingur og Stefán Fr. Stefánsson.

Dómur Hæstaréttar yfir mér, þar sem refsikröfu var vísað frá, ég sýknaður af miskabótakröfu, en mér gert að greiða handhafa höfundarréttar Halldórs Laxness fyrir afnot af efni frá honum, er á heimasíðu Hæstaréttar. Þar eru þrír aðrir fróðlegir dómar:

Dómur Hæstaréttar 2004 í máli nr. 382/2003 yfir sagnfræðiprófessor, sem dæmdur var (ásamt tveimur öðrum) fyrir meiðyrði í dómnefndaráliti fyrir Háskólann um Bjarna F. Einarsson og til greiðslu 100 þús. kr. miskabóta og 500 þús. kr. málskostnaðar til hans.

Dómur Hæstaréttar 2004 í máli nr. 275/2003 yfir Háskólanum, þar sem rektor hans var talinn hafa brotið stjórnsýslulög á Gunnari Þór Jónssyni og Háskólinn því dæmdur til greiðslu 4 millj. kr. skaða- og miskabóta og 1,2 millj. kr. í málskostnað til Gunnars.

Dómur Hæstaréttar 2000 í máli nr. 277/1999 yfir Háskólanum, þar sem þáverandi forseti heimspekideildar var talinn hafa brotið stjórnsýslulög 1995 á Aitor Yraola og Háskólinn því dæmdur til greiðslu 2,5 millj. kr. skaðabóta til Yraola og 300 þús. kr. málskostnaðar. Svör sama manns, sem síðar varð forstöðumaður einnar stofnunar Háskólans, við spurningu um, hvað ætti að „gera við mig“ eftir dóm Hæstaréttar (þótt í spurningunni væri greint rangt frá því, fyrir hvað ég var dæmdur), eru hér.


Ísland er ekki að bráðna!

Eg skrifaði grein undir þessu heiti í Evrópuútgáfu Wall Street Journal miðvikudaginn 2. apríl 2008, en það blað fer inn á skrifborð hvers einasta fjármálamanns í Evrópu. Hið nýja fjármagn okkar Íslendinga á sér eðlilegar skýringar í breytingunni úr dauðu fjármagni (sem lá allt að því verðlaust í óskráðum fiskistofnum, illa reknum ríkisfyrirtækjum og eigendalausum samvinnufélögum) í kvikt (og verðmætt) fjármagn  í höndum einkaaðila.

Málsvörn í Laxnessmáli

Hér er ritgerð mín í Sögu 2005, þar sem ég svaraði gagnrýni á hendur mér vegna fyrsta bindis ævisögu Halldórs Kiljans Laxness.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband