4.4.2011 | 18:11
Það lagast með aldrinum
Ásgeir Ásgeirsson var aðeins 29 ára að aldri, þegar hann var í framboði í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1923 gegn íhaldsmanninum Guðjóni Guðlaugssyni á Ljúfustöðum. Þá mælti hann hin fleygu orð: Mér er borið á brýn, að ég sé of ungur. En ég get huggað menn með því, að það lagast með aldrinum. Náði Ásgeir kjöri og sat á þingi, uns hann var kjörinn forseti Íslands 1952.
Þessi fyndni Ásgeirs á kosningafundum vestra er þó miklu eldri. Sænska skáldið Johan Henrik Kellgren, sem uppi var 17511795, orti til dæmis:
Det fel han haft i ungdomsvåren
Att vara pojka förr än karl,
Man ganske visligt anmärkt har;
Men detta fel försvann med åren.
Á íslensku er þetta í lausu máli: Það mein hans í æsku að vera drengur, áður en hann varð maður, hvarf, eins og vitrir menn hafa tekið eftir, með árunum.
Nokkru síðar komst Johann Wolfgang von Goethe svo að orði í Maximen und Reflexionen (1822): Wenn die Jugend ein Fehler ist, so legt man ihn bald ab. Ef æskan er ókostur, þá losna menn fljótt við hann.
Um svipað leyti orti danska skáldið Johan Ludvig Heiberg, sem uppi var 17911860:
Og er vi for unge, hvad siger saa dette?
Den Fejl kan vi sagtens med Aarene rette.
Þetta má þýða: Og hvað segir það, að við séum of ungir? Þann galla má laga með árunum.
Norskur málsháttur, sem Ivar Aasen tók upp í málsháttasafni sínu frá 1856, Norske Ordsprog, er á þessa leið:
For ung er eit godt lyte
det veks av med årum.
Þetta hljóðar svo á íslensku: Að vera of ungur er góðkynjað mein, sem menn vaxa upp úr með árunum.
(Þessi fróðleiksmoli er tekinn saman úr 992 bls. bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir síðustu jól, en hún fæst í öllum góðum bókabúðum og er tilvalin fermingargjöf eða gjöf í tilefni brautskráningar úr skóla. Ég skal fúslega árita hana, en mig er oftast að finna í þjóðdeildinni á Þjóðarbókhlöðunni, þar sem ég sit að grúski mínu. Hafa nokkrir kaupendur einmitt lagt leið sína þangað í því skyni að fá áritun, mér til ánægju og vonandi líka þeim Svani Kristjánssyni og Helgu Kress, sem sitja stundum við næstu borð.)
4.4.2011 | 10:40
DV = EV eða HV?
Fróðir menn velta því fyrir sér, hvort nafnið á dagblaðinu DV sé ekki orðið úrelt. Það merkir sem kunnugt er Davíð Vondur, enda hafa þar síðustu misserin birst nokkrar greinar á dag gegn Davíð Oddssyni, jafnvel þótt vafamál sé, hvort blaðamennirnir séu enn á launum hjá auðjöfrunum, sem börðust sem harðast gegn Davíð.
En á blaðið ekki heldur að heita EV sem skammstöfun fyrir EndurVinnslu? Það birti í vikunni margra mánaða frétt sem sérstaka uppljóstrun. Hún var, að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefði fengið 10 millj. kr. framlag frá fjármálaráðuneytinu til að rannsaka áhrif skattbreytinga. Þetta kom meðal annars fram í svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns. Var ég umsjónarmaður þessa rannsóknarverkefnis, eins og kom fram í formála bókar minnar, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.
Eða ætti að kalla það HV sem skammstöfun fyrir HandVömm? Auk þess sem blaðamennirnir birtu nokkurra mánaða frétt sem nýja, fóru þeir af einhverjum furðulegum ástæðum rangt með eitt aðalatriði málsins. Þeir höfðu ekki fengið úr fjármálaráðuneytinu skýrslu mína við lok rannsóknarverkefnisins, heldur aðeins afrit af bréfi ráðuneytisstjórans, þar sem hann bað um slíka skýrslu. Í stað þess að hringja í mig og fá upplýsingar birtu þeir sérstaka frétt um, að ég hefði vanrækt að skila skýrslunni! Hún hafði verið send ráðuneytinu 2009 og var mjög rækileg.
Illgirnin og heimskan hafa lengi barist um völdin í sálarlífi Jóhanns Haukssonar, sem annaðist þennan fréttaflutning. Mér sýnist heimskan nú hafa vinninginn.
3.4.2011 | 09:30
Bréf til blaðamanna DV
Ég sendi miðvikudaginn 31. mars eftirfarandi bréf til tveggja blaðamanna DV, þeirra Jóhanns Haukssonar og Jóns Bjarka Magnússonar:
Ágætu blaðamenn á DV!
Ég fer fram á það með tilvísun til 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands, að þið birtið eftirfarandi leiðréttingar við fréttaflutning ykkar af mér síðustu daga.
1. Þið leituðuð til mín, eins og rétt var af ykkur og eðlilegt að gera, áður en þið birtuð frétt um stuðning Landsbankans við eitt kynningarátak fyrirtækis þess, sem ég rek. Þið hafið hins vegar ekki leitað til mín vegna þeirra frétta, sem þið hafið birt um verkefni, sem fjármálaráðuneytið fékk Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að annast, um að meta áhrif skattalækkana, en ég hafði umsjón með því. Það veldur því, að fréttir ykkar um það eru ónákvæmar. Með því að leita ekki til mín um þessar fréttir hafið þið brugðist starfsskyldum ykkar. Hægðarleikur hefði verið fyrir ykkur að leita til mín.
2. Þá hefði ég getað frætt ykkur á því, að upplýst var fyrir mörgum mánuðum í svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns vegna fyrirspurnar hans um verkefni fræðimanna á félagsvísindasviði Háskóla Íslands fyrir opinbera aðila, að fjármálaráðuneytið hefði fengið Félagsvísindastofnun til að annast þetta verkefni um áhrif skattalækkana og greiddi fyrir það umsamda upphæð, 10 millj. kr. auk virðisaukaskatts. Þetta var því engin frétt. Þetta hafði komið fram áður opinberlega.
3. Ef þið hefðuð leitað til mín, eins og rétt og eðlilegt hefði verið, þá hefði ég líka getað frætt ykkur á því, að verkefninu lauk vorið 2009 með rækilegri skýrslu, sem send var fjármálaráðuneytinu. Væri mér ljúft, ef þeirri skýrslu væri dreift sem víðast.
4. Þá hefði ég einnig getað frætt ykkur á því, að í bókinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör kemur skýrt fram í formála, að þetta rannsóknarverkefni var unnið fyrir fjármálaráðuneytið. Þetta var því engin frétt. Þetta hafði komið fram áður opinberlega. Í fyrstu tveimur neðanmálsgreinum bókarinnar eru talin upp þau verk, sem urðu til í rannsókninni, þar á meðal tvær bækur, önnur á ensku, hin á íslensku, og margar ritgerðir og greinar. Einnig voru þar taldir upp fyrirlesarar og höfundar tengdir verkefninu. Þetta var raunar líka flest eða allt nefnt á heimasíðu verkefnisins, skattamal.is. Ekkert af þessu var neitt leyndarmál.
5. Þá hefði ég enn fremur getað frætt ykkur á því, að sjálfur fékk ég ekki eina einustu krónu af því fé, sem fjármálaráðuneytið greiddi Félagsvísindastofnun fyrir rannsóknarverkefnið, enda var aldrei til þess ætlast eða um það rætt.
Ágætu blaðamenn. Það, sem er nýtt í fréttum ykkar, er rangt. Það, sem er rétt í fréttum ykkar, er gamalt.
Vinsamlegast, Hannes H. Gissurarson.