20.2.2009 | 13:14
Óframbærilegt fólk
Íslands óhamingju verður allt að vopni. Á þessum örlagatímum eru forseti landsins og forsætisráðherra bersýnilega hvorugt starfi sínu vaxin. Eins og til forsetaembættisins var stofnað, skyldi þjóðhöfðinginn vera sameiningartákn, án ábyrgðar á stjórnarathöfnum og því jafnframt án valda. Fyrri forsetar virtu þetta. Enginn þeirra gekk gegn vilja Alþingis. Ólafur Ragnar Grímsson brá út af þeirri venju og synjaði fjölmiðlalögunum 2004 staðfestingar, en þau áttu að koma í veg fyrir, að einstakir auðjöfrar réðu öllum fjölmiðlum. Ólafur Ragnar var nátengdur Baugsfeðgum, sem helst tóku lögin til sín: Dóttir hans gegndi yfirmannsstarfi hjá Baugi, og kosningastjóri hans 1996 var forstjóri Baugsmiðils.
Átökin um fjölmiðlalögin 2004 mörkuðu tímamót. Eftir þetta töldu auðjöfrar sér alla vegi færa. Þeir eignuðust flesta fjölmiðla. Forsetinn gerðist klappstýra þeirra og veislustjóri. Allir vita, hvernig þeirri ferð lauk. En Ólafur Ragnar Grímsson kann ekki að skammast sín, heldur talar ógætilega á erlendum vettvangi. Kunnir framsóknarmenn halda því síðan fram opinberlega, að hann hafi beitt sér fyrir myndun minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í stað þess að leyfa stjórnmálaforingjum að reyna til þrautar myndun meirihlutastjórnar, eins og eðlilegt hefði verið. Sérstaklega hafi hann brýnt forystumenn Framsóknarflokksins til stuðnings við stjórnina. Ef rétt er, þá sýndi Ólafur Ragnar enn, að hann er ekki forseti þjóðarinnar allrar, heldur aðeins sumra vinstri manna að Baugsfeðgum ógleymdum.
Hinn nýi forsætisráðherra hlaut nýlega dóm fyrir valdníðslu. Hún hafði sem félagsmálaráðherra rekið mann úr trúnaðarstöðu vegna stjórnmálaskoðana hans. Sjálf gerði Jóhanna Sigurðardóttir að sérgrein sinni á árum áður að deila hart á ráðherra, ef fram kom einhver skýrsla eða álitsgerð um það, að þeir hefðu ekki þrætt lagabókstaf eða gætt meðalhófs. Nú virðist hún ekki hafa á öðru meiri áhuga en hrekja Davíð Oddsson seðlabankastjóra úr starfi, en hann er eini maðurinn í ábyrgðarstöðu á Íslandi, sem varaði við ofurvaldi auðjöfra og skuldasöfnun bankanna erlendis. Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra í hálft annað ár, áður en bankarnir hrundu. Hún bar fulla stjórnmálaábyrgð eins og aðrir ráðherrar. Hún hlustaði á viðvaranir Davíðs, en hafðist ekki að.
Eins og Einar K. Guðfinnsson bendir á, snýst seðlabankafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur ekki um stjórn peningamála, heldur brottrekstur Davíðs Oddssonar, án þess að hann hafi neitt til saka unnið. Við afgreiðslu seðlabankalaganna 2001 var Jóhanna þeirrar skoðunar eins og flestir aðrir, að tryggja yrði sjálfstæði bankans. Þess vegna vildi hún ekki, að forsætisráðherra réði seðlabankastjóra. Hún sagði þá: Þetta getur varla þýtt annað á mæltu máli en að ef bankastjórinn fer ekki í einu og öllu að því sem forsætisráðherra segir þá eigi hann það á hættu að vera látinn fjúka. Eðlilegri stjórnsýsluhættir væri að bankaráðið réði sjálft einn bankastjóra sem ábyrgð bæri gagnvart bankaráði, sem gæti þá látið hann fara ef hann væri ekki starfinu vaxinn, frekar en að hann sé háður duttlungum og geðþóttaákvörðun ráðherra á hverjum tíma. Aumlegt er nú að sjá til hennar.
Fréttablaðið 20. febrúar 2009.
7.2.2009 | 09:51
Ofbeldi og valdníðsla
Heimspekikennarar mínir í Háskóla Íslands héldu því forðum fram, að í mannlífinu stæði valið um skynsemi og ofbeldi. Skynsemin var sögð felast í frjálsri rannsókn og rökræðu, virðingu fyrir réttindum einstaklinga og hlýðni við lögin. Ofbeldið var hins vegar talið, þegar hnefum væri beitt í stað raka og níðst á fólki. Í janúar 2009 sáu Íslendingar, hversu stutt getur verið í ofbeldið. Æstur múgur réðst á Alþingishúsið, braut rúður, kveikti elda og veittist að lögregluþjónum. Kunnur Baugspenni sat ásamt öðrum óeirðaseggjum fyrir Geir H. Haarde, þá forsætisráðherra, barði bíl hans utan og ógnaði honum, afmyndaður af bræði. Er menningin aðeins þunn skán ofan á villimanninum, sem hverfur, þegar honum er klórað?
Samfylkingin hafði ekki siðferðilegt þrek til að rísa gegn ofbeldinu, heldur lét undan og rauf stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þótt hún kostaði því raunar til, að helsta baráttumálið, umsókn um Evrópusambandsaðild, væri tekið af dagskrá. Það kemur þó ekki eins á óvart og hitt, að ofan úr Háskóla Íslands skuli fáir sem engir verða til að gagnrýna ástandið. Öðru nær. Háskólamenn virðast sumir fagna því, að ríkisstjórn skuli hrakin frá völdum með ofbeldi, og hefur einn þeirra jafnvel tekið sæti í minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Hefndarþorsti fremur en umbótavilji virðist vera leiðarljós nýju stjórnarinnar. Fyrsta verkið á að vera að reka Davíð Oddsson seðlabankastjóra fyrir engar sakir. Vissulega hefur verið deilt um peningastefnuna. En hún var mörkuð í samráði við ríkisstjórn hverju sinni, þar á meðal þá, sem Jóhanna Sigurðardóttir sat í. Kaup ríkisins í Glitni í október 2008 hafa einnig verið gagnrýnd. En þau voru gerð með samþykki þáverandi ríkisstjórnar, þar sem Jóhanna var ráðherra.
Á meðan Jóhanna Sigurðardóttir steinþagði, varaði Davíð Oddsson oft við örum vexti bankanna, jafnt í einkasamtölum við ráðamenn og opinberlega. Hann sagði til dæmis á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.
Davíð fékk hins vegar lítt að gert, vegna þess að með lagabreytingu 1998 var Fjármálaeftirlitið fært undan Seðlabankanum. Heimildir og skyldur til að fylgjast með viðskiptabönkunum hurfu nær allar. Eftir urðu smáverkefni eins og lausafjárskýrslur og gengisjafnaðarreglur.
Lýðskrumarar reyna að nýta sér, að þjóðin er ráðvillt eftir bankahrunið. Þeir eiga volduga bandamenn í þeim auðjöfrum, sem ráða flestum fjölmiðlum á Íslandi og hafa ásamt leigupennum sínum haldið uppi rógsherferð gegn Davíð í mörg ár, af því að hann vildi setja þeim eðlilegar skorður. En brottrekstur Davíðs væri fullkomin valdníðsla. Hugmyndin með sjálfstæðum seðlabanka er, að seðlabankastjórar fylgi rökstuddri sannfæringu fremur en geðþótta valdsmanna. Skynsemin á að ráða, ekki ofbeldið.
Morgunblaðið 7. febrúar 2009. (Mynd: Óli G. Þorsteinsson)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook
3.2.2009 | 10:21
Vinstrisveifla á Íslandi
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2009 kl. 13:15 | Slóð | Facebook