31.10.2009 | 14:43
Þjóðarspegillinn
30.10.2009 | 16:51
Frábært framtak
Guðrún Pétursdóttir á lof skilið fyrir framtak sitt, en hún afhenti Borgarskjalasafni einkaskjalasafn afa síns, Ólafs Thors, miðvikudaginn 28. október: 72 öskjur með bréfum, blaðagreinum, ræðum, úrklippum, minnisblöðum, ljósmyndum, hljóðsnældum og jafnvel kvikmyndum. Þetta er mikill fengur fræðimönnum og raunar öllum áhugamönnum um sögu. Ólafur Thors var stórbrotinn einstaklingur, alþýðlegur höfðingi, gamansamur alvörumaður, þjóðsagnahetja í lifanda lífi. Hann var lengst allra formaður Sjálfstæðisflokksins, 19341961, og myndaði fimm ríkisstjórnir. Hann var ásamt Hannesi Hafstein, Jóni Þorlákssyni, Bjarna Benediktssyni og Davíð Oddssyni einn hinna miklu stjórnmálamanna tuttugustu aldar á Íslandi.
Mörg tilsvör Ólafs sýna, hversu lífsreyndur maður og vitur hann var, en einnig orðheppinn. Þegar hann var eitt sinn skammaður á fundi, svaraði hann: Það þýðir ekkert fyrir ykkur að skamma mig. Ég er löngu kominn með sigg á sálina. Frægt er, þegar flokksbróðir Ólafs, Pétur Ottesen, vandaði um við hann snemma á þingmannsferli Ólafs (sem hófst 1926): Þú mætir allt of illa á nefndarfundi. Þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið! Ólafur svaraði að bragði: Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni! Þegar þingmenn kommúnista, Einar Olgeirsson og félagar hans, komu á sinn fyrsta þingfund haustið 1937, var þeim fálega tekið, nema hvað Ólafur gekk til þeirra, rétti fram höndina og sagði: Ekki vildi maður nú fá ykkur hingað inn, en fyrst þið eruð komnir, þá verið þið velkomnir! Ólafur létti einnig þungt andrúmsloftið, þegar Charles Howard Smith gekk á fund ríkisstjórnarinnar 10. maí 1940 og tilkynnti um hernám Breta: Við hefðum vitaskuld kosið ekkert hernám, en fyrst til þess þurfti að koma, erum við fegnir, að þið voruð fyrstir til! Ólafur myndaði Nýsköpunarstjórnina 1944 með kommúnistum og Alþýðuflokki. Hann var snöggur upp á lagið, þegar bandarískur sendimaður spurði hann: Hvernig stendur á því, að þér hafið tekið kommúnista í stjórn hér? Ólafur svaraði: Þeir höfðu svo góð meðmæli. Sendimaðurinn spurði: Frá hverjum? Ólafur svaraði: Frá Roosevelt og Churchill.
Kunnar eru líka sögur af Ólafi í kosningunum 1946, þegar hann naut sín hvað best sem forsætisráðherra Nýsköpunarstjórnarinnar. Fundarmaður kallaði fram í hjá honum: Það er ég viss um, að Ólafur, að þú þekkir ekki einu sinni muninn á þorski og ýsu. Ólafur svaraði að bragði: Ég þekki þó að minnsta kosti muninn á þér og þorski, og það er meira en margir gera. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur (stjúpafi núverandi menntamálaráðherra og þeirra bræðra Sverris og Ármanns Jakobssona) var í framboði gegn Ólafi í Gullbringu- og Kjósarsýslu í þeim kosningum. Hann sagði á fundi: Kapítalistar hugsa aðeins um peningana. Við sósíalistar hugsum um mennina. Ólafur greip fram í: Já, einmitt. Kapítalistar læsa peningana inni, en sósíalistar mennina. Þegar nokkrir kommúnistastrákar ætluðu að gera aðsúg að Ólafi fyrir utan samkomuhús í Keflavík fyrir þingkosningarnar 1953, vatt hann sér út úr bíl sínum, gekk að strákunum og spurði: Hvar get ég pissað, strákar? Glúpnuðu þeir við.
Ég gæti sagt margar fleiri sögur af Ólafi, en verð hér að láta staðar numið. En því er við að bæta, að Ingiríður Danadrottning sagði Davíð Oddssyni það eitt sinn í kvöldverði, að skemmtilegri mann hefði hún ekki hitt en Ólaf Thors, þegar hann var forsætisráðherra og þau Friðrik konungur komu til Íslands í opinbera heimsókn snemmsumars 1956.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.10.2009 kl. 14:43 | Slóð | Facebook
29.10.2009 | 15:01
Bjarni Ben. góður
Bjarni Benediktsson hélt vel á málstað Íslendinga á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann minnti á, að oft væri á tyllidögum talað um frændskap og vináttu annarra norrænna þjóða við okkur. En þegar á reyndi, stóðu þær hjá í hvirfilbylnum, sem skall á Íslandi. Þá komu þær ekki til aðstoðar Íslendinga án þeirra skilyrða, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti. Og eitt skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virtist vera (þótt aldrei fullreyndi á það), að Íslendingar gæfust upp fyrir Bretum, sem kröfðust þess, að íslenskur almenningur greiddi skuldir vegna einkaviðskipta manna erlendis. Fullkominn vafi lék á hinni lagalegu skuldbindingu til slíkra greiðslna, eins og okkar virtustu fræðimenn hafa bent á, en Bretar vildu ekki einu sinni leyfa Íslendingum að bera slíkan vafa undir dómstóla. Þetta létu Norðurlandaþjóðirnar óátalið, og yfir þetta lagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blessun sína. Þessir aðilar brugðust Íslendingum, eins og Bjarni benti á. En því miður hafa ráðamenn okkar, Jóhanna og Steingrímur, einnig brugðist, þótt sennilega sé það ekki af illum hug, heldur af reynsluleysi, ótta við einhverjar óskilgreindar afleiðingar af því að láta ekki undan Bretum og von um að þurfa aldrei að standa við þær skuldbindingar, sem þeir hafa lagt á Íslendinga. En þessir óheillamenn hafa riðið komandi kynslóðum þungan skuldabagga. Því miður tóku Jóhanna og Steingrímur ekki málstað Íslendinga upp á Norðurlandaráðsþinginu ólíkt Bjarna Benediktssyni. Og um þá, sem gera nú hróp að Bjarna heima fyrir, má segja: Þeir eru aðeins alþjóðasinnar í þeim skilningi, að þeir eru vinveittir öllum öðrum þjóðum en sinni eigin.
28.10.2009 | 18:02
Heggur sá er hlífa skyldi
Hinn ungi og hrokafulli hagfræðingur Jón Steinsson hefur eins og sumir starfsbræður hans gleymt hæfilegri varúð fræðimannsins eftir bankahrunið, hvort sem það er vegna þess að hann gengst óhóflega upp í hinni óvæntu athygli, sem honum er veitt eftir hrunið, eða hann vill koma sér í mjúkinn hjá nýjum valdhöfum, vera í vinningsliðinu. Jón er þessa dagana stóryrtur í garð Seðlabankans fyrir að hafa haustið 2008 gert nákvæmlega hið sama og seðlabankar annars staðar í lánsfjárkreppunni, að veita skyndilán til að afstýra lausafjárskorti. Seðlabankar annars staðar keyptu til dæmis í óðaönn upp undirmálslán af fjármálastofnunum í því skyni að bjarga þeim og sitja nú eftir með sárt ennið, því að þessi lán reyndust lítils sem einskis virði. Þetta er meðal annars rakið í nýrri bók Roberts Skidelsky lávarðar, The Return of the Master. Þetta er sami Jón Steinsson og skrifaði grein í Morgunblaðið 24. mars 2006, þar sem hann taldi litla ástæðu til að hafa áhyggjur af miklum erlendum skuldum Íslendinga. En að stærstum hluta virðist nettó skuldastaða landsins endurspegla væntingar almennings um áframhaldandi hraðan hagvöxt. Ef þessar væntingar eru raunhæfar þurfum við engar áhyggjur að hafa af nettó erlendri skuldastöðu þjóðarinnar. Þetta er sami Jón Steinsson og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands 18. ágúst 2008, aðeins nokkrum vikum fyrir bankahrunið, þar sem hann mælti gegn vaxtalækkun og gerði lítið úr því, að kollsteypa væri í nánd: Það er ekkert allt að farast, var haft eftir honum í Morgunblaðinu daginn eftir. Með þessu er ég ekki að segja, að allt, sem Jón sagði við þessi tækifæri, hafi verið vitleysa, heldur hitt, að hann er skeikull eins og við hin, þótt hann tali niður til okkar.
27.10.2009 | 19:05
Njósnir KGB á Norðurlöndum
26.10.2009 | 19:02
Forseti Náskersins

25.10.2009 | 20:01
Tvö dæmi um hlutdrægni RÚV
Ríkisútvarpið hefur lögbundna skyldu til að gæta fyllstu óhlutdrægni. Skýringin er sú, að við erum öll skylduð til að greiða til þess. Við getum ekki sagt upp áskrift að því, ef við erum óánægð með það, eins og við getum að Morgunblaðinu, Stöð tvö eða DV. Með þessari lagaskyldu um óhlutdrægni er auðvitað ekki átt við, að starfsmenn Ríkisútvarpsins hljóti að vera skoðunarlausir, heldur hitt, að þeir gæti sæmilegs jafnvægis í því, sem kemur fram. Sé einn þáttastjórnandi vinstrisinnaður, þá sé annar hægrisinnaður, og svo framvegis. Ég er ekki einn um að telja, að Ríkisútvarpið hafi síðustu misserin ekki gegnt þessari lagaskyldu sinni. En þá er oft kallað eftir dæmum. Ég nefni tvö lítil dæmi úr mínu minni, sem einhverjir fjölmiðlamenn mættu rannsaka betur. Annað var á menningarnótt Reykjavíkurborgar í sumar. Þá vildu sjónvarpsmenn ekki slást í för með borgarstjóranum, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þegar hún gekk um Reykjavík, því að hún væri stjórnmálamaður. Hins vegar heimsóttu þeir Dag Bergþóruson-Eggertsson í vöfflukaffi heim til hans! Ekki veit ég, hvort það var vegna þess, að þeir töldu hann ekki stjórnmálamann, en ef svo er, þá höfðu þeir auðvitað ýmislegt til síns máls. Gauti, bróðir Dags, er miklu meiri stjórnmálamaður, eins og sést á daglegu bloggi hans. Hitt dæmið um hlutdrægni Ríkisútvarpsins var af frásögn þess af umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í októberbyrjun. Í kvöldfréttum þann dag var ræða ráðherrans endursögð athugasemdalaust. En fréttastofan hafði tafarlaust leitað til erlends sérfræðings um þá skoðun Bjarna Benediktssonar, að hugsanlega bæri að segja upp samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og taldi sérfræðingurinn öll tormerki á því. Var þessi frétt flutt í sama fréttatíma og sagt var frá ræðu Bjarna. Þannig var reynt að ómerkja málflutning Bjarna tafarlaust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook
24.10.2009 | 22:57
Sungu Nallann og steyttu hnefa
Hneyksli þætti, ef einhverjir tækju upp á því, hvað þá stjórnmálamenn, að syngja opinberlega baráttusöng nasista, Horst Wessel, sem var raunar gerður að eins konar óopinberum þjóðsöng Þýskalands um skeið á Hitlerstímanum. En er nokkru betra að syngja Internationalinn hástöfum og steyta hnefa, eins og þeir Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason gerðu á þingi BSRB á dögunum? Ólafur Ragnar Grímsson og Ögmundur Jónasson slepptu því þó að steyta hnefa, hvort sem þeir hafa raulað með eða ekki. Internationalinn, Nallinn, var um skeið þjóðsöngur Ráðstjórnarríkjanna, enda er hann svipað tákn kommúnismans og Horst Wessel er nasismans. Í Svartbók kommúnismans, sem ég sneri á íslensku, er giskað á, að hátt í þrjátíu milljónir manna hafi týnt lífi af völdum nasismans, en 85100 milljónir manna af völdum kommúnismans. Kommúnisminn var blóðug alræðisstefna. Þar sem kommúnistar höfðu tækifæri til, frömdu þeir fjöldamorð, sendu þá, sem þeir grunuðu um óhreinar hugsanir, í vinnubúðir eða fangelsi, fluttu fólk nauðugt úr heimkynnum sínum, bönnuðu alla gagnrýni og héldu uppi víðtækum njósnum. Í útvarpsþætti á dögunum skiptust við Gunnar Smári Egilsson á skoðunum um kommúnismann. Hann kvaðst telja, að hann nyti sömu skilyrðislausu fordæmingarinnar og nasisminn. Ég dró það í efa. Benti ég meðal annars á það, að ekki er lengra síðan en 1997, að áhrifamaður í Blaðamannafélagi Íslands og síðar í Samfylkingunni, Lúðvík Geirsson, sagði eftirlætisstjórnmálamann sinn vera Lenín. Alþýðubandalagið lauk snautlegum ferli sínum á því að senda hóp manna í boðsferð til Kúbu haustið 1998 á vegum kúbverska kommúnistaflokksins. Voru þar meðal annarra í för Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson. Núverandi formaður utanríkisnefndar, Árni Þór Sigurðsson, ber húfu með mynd af Che Guavara, liðsmanni Castros á Kúbu, en þaðan hefur 10% þjóðarinnar flúið, og er talið, að um þrjátíu þúsund manns hafi týnt lífi af völdum kúbverskra kommúnista. Þeir Össur og Árni Páll sýna fórnarlömbum kommúnismans virðingarleysi með því að syngja Internationalinn og steyta hnefa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.10.2009 kl. 06:10 | Slóð | Facebook
24.10.2009 | 01:15
Strákur í stórri ætt

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook
24.10.2009 | 00:57
Agli hefur farið aftur

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook