Þjóðarspegillinn

Ég flutti föstudaginn 30. október 2009 fyrirlestur á Þjóðarspeglinum svonefnda í Háskóla Íslands, en þar kynntu fræðimenn í félagsvísindum niðurstöður rannsókna sinna. Fyrirlestur minn bar heitið „Pólitískir pílagrímar í Kína“ og var um boðsferðir Íslendinga til kínverska alþýðulýðveldisins 1952–1964. Þar rakti ég í stuttu máli atburðarásina í Kína fyrstu fimmtán árin frá valdatöku kommúnista þar haustið 1949, en eftir það hófust fjöldamorð, sem séra Jóhann Hannesson trúboði sagði frá í greinaflokkum í Morgunblaðinu sumarið 1952. Íslenskir kommúnistar tóku sér hins vegar ótrauðir stöðu við hlið skoðanasystkina sinna í Kína, og Jóhannes úr Kötlum fór þangað austur haustið 1952 og orti lofkvæði um kínverska kommúnista, sem „bjóða heiminum óð lífsins — og Maó er forsöngvarinn“. Minnti ég í því sambandi á hið ilræmda lofkvæði um Stalín, sem Halldór Kiljan Laxness sneri á íslensku, þar sem Stalín var kallaður „söngvari þjóðvísunnar“. Það var líka ótrúlegt, að íslenskir ferðalangar fullvissuðu landa sína um, að kínverskum kommúnistum hefði tekist að brauðfæða þjóðina, á sama tíma og einhver versta hungursneyð mannkynssögunnar skall á Kínverjum árin 1959–1962, eins og segir frá í Svartbók kommúnismans. Fyrirlestur minn er prentaður í riti ráðstefnunnar, en hann er þáttur í einu rannsóknarverkefni mínu um þessar mundir, Íslenskum kommúnistum 1918–1998.

Frábært framtak

olafur_thors.jpgGuðrún Pétursdóttir á lof skilið fyrir framtak sitt, en hún afhenti Borgarskjalasafni einkaskjalasafn afa síns, Ólafs Thors, miðvikudaginn 28. október: 72 öskjur með bréfum, blaðagreinum, ræðum, úrklippum, minnisblöðum, ljósmyndum, hljóðsnældum og jafnvel kvikmyndum. Þetta er mikill fengur fræðimönnum og raunar öllum áhugamönnum um sögu. Ólafur Thors var stórbrotinn einstaklingur, alþýðlegur höfðingi, gamansamur alvörumaður, þjóðsagnahetja í lifanda lífi. Hann var lengst allra formaður Sjálfstæðisflokksins, 1934–1961, og myndaði fimm ríkisstjórnir. Hann var ásamt Hannesi Hafstein, Jóni Þorlákssyni, Bjarna Benediktssyni og Davíð Oddssyni einn hinna miklu stjórnmálamanna tuttugustu aldar á Íslandi.

Mörg tilsvör Ólafs sýna, hversu lífsreyndur maður og vitur hann var, en einnig orðheppinn. Þegar hann var eitt sinn skammaður á fundi, svaraði hann: „Það þýðir ekkert fyrir ykkur að skamma mig. Ég er löngu kominn með sigg á sálina.“ Frægt er, þegar flokksbróðir Ólafs, Pétur Ottesen, vandaði um við hann snemma á þingmannsferli Ólafs (sem hófst 1926): „Þú mætir allt of illa á nefndarfundi. Þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið!“ Ólafur svaraði að bragði: „Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni!“ Þegar þingmenn kommúnista, Einar Olgeirsson og félagar hans, komu á sinn fyrsta þingfund haustið 1937, var þeim fálega tekið, nema hvað Ólafur gekk til þeirra, rétti fram höndina og sagði: „Ekki vildi maður nú fá ykkur hingað inn, en fyrst þið eruð komnir, þá verið þið velkomnir!“ Ólafur létti einnig þungt andrúmsloftið, þegar Charles Howard Smith gekk á fund ríkisstjórnarinnar 10. maí 1940 og tilkynnti um hernám Breta: „Við hefðum vitaskuld kosið ekkert hernám, — en fyrst til þess þurfti að koma, erum við fegnir, að þið voruð fyrstir til!“ Ólafur myndaði Nýsköpunarstjórnina 1944 með kommúnistum og Alþýðuflokki. Hann var snöggur upp á lagið, þegar bandarískur sendimaður spurði hann: „Hvernig stendur á því, að þér hafið tekið kommúnista í stjórn hér?“ Ólafur svaraði: „Þeir höfðu svo góð meðmæli.“ Sendimaðurinn spurði: „Frá hverjum?“ Ólafur svaraði: „Frá Roosevelt og Churchill.“

Kunnar eru líka sögur af Ólafi í kosningunum 1946, þegar hann naut sín hvað best sem forsætisráðherra Nýsköpunarstjórnarinnar. Fundarmaður kallaði fram í hjá honum: „Það er ég viss um, að Ólafur, að þú þekkir ekki einu sinni muninn á þorski og ýsu.“ Ólafur svaraði að bragði: „Ég þekki þó að minnsta kosti muninn á þér og þorski, og það er meira en margir gera.“ Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur (stjúpafi núverandi menntamálaráðherra og þeirra bræðra Sverris og Ármanns Jakobssona) var í framboði gegn Ólafi í Gullbringu- og Kjósarsýslu í þeim kosningum. Hann sagði á fundi: „Kapítalistar hugsa aðeins um peningana. Við sósíalistar hugsum um mennina.“ Ólafur greip fram í: „Já, einmitt. Kapítalistar læsa peningana inni, en sósíalistar mennina.“ Þegar nokkrir kommúnistastrákar ætluðu að gera aðsúg að Ólafi fyrir utan samkomuhús í Keflavík fyrir þingkosningarnar 1953, vatt hann sér út úr bíl sínum, gekk að strákunum og spurði: „Hvar get ég pissað, strákar?“ Glúpnuðu þeir við.

Ég gæti sagt margar fleiri sögur af Ólafi, en verð hér að láta staðar numið. En því er við að bæta, að Ingiríður Danadrottning sagði Davíð Oddssyni það eitt sinn í kvöldverði, að skemmtilegri mann hefði hún ekki hitt en Ólaf Thors, þegar hann var forsætisráðherra og þau Friðrik konungur komu til Íslands í opinbera heimsókn snemmsumars 1956.


Bjarni Ben. góður

bjarniben.jpgBjarni Benediktsson hélt vel á málstað Íslendinga á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann minnti á, að oft væri á tyllidögum talað um frændskap og vináttu annarra norrænna þjóða við okkur. En þegar á reyndi, stóðu þær hjá í hvirfilbylnum, sem skall á Íslandi. Þá komu þær ekki til aðstoðar Íslendinga án þeirra skilyrða, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti. Og eitt skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virtist vera (þótt aldrei fullreyndi á það), að Íslendingar gæfust upp fyrir Bretum, sem kröfðust þess, að íslenskur almenningur greiddi skuldir vegna einkaviðskipta manna erlendis. Fullkominn vafi lék á hinni lagalegu skuldbindingu til slíkra greiðslna, eins og okkar virtustu fræðimenn hafa bent á, en Bretar vildu ekki einu sinni leyfa Íslendingum að bera slíkan vafa undir dómstóla. Þetta létu Norðurlandaþjóðirnar óátalið, og yfir þetta lagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blessun sína. Þessir aðilar brugðust Íslendingum, eins og Bjarni benti á. En því miður hafa ráðamenn okkar, Jóhanna og Steingrímur, einnig brugðist, þótt sennilega sé það ekki af illum hug, heldur af reynsluleysi, ótta við einhverjar óskilgreindar afleiðingar af því að láta ekki undan Bretum og von um að þurfa aldrei að standa við þær skuldbindingar, sem þeir hafa lagt á Íslendinga. En þessir óheillamenn hafa riðið komandi kynslóðum þungan skuldabagga. Því miður tóku Jóhanna og Steingrímur ekki málstað Íslendinga upp á Norðurlandaráðsþinginu ólíkt Bjarna Benediktssyni. Og um þá, sem gera nú hróp að Bjarna heima fyrir, má segja: Þeir eru aðeins alþjóðasinnar í þeim skilningi, að þeir eru vinveittir öllum öðrum þjóðum en sinni eigin.


Heggur sá er hlífa skyldi

jonsteinsson.jpgHinn ungi og hrokafulli hagfræðingur Jón Steinsson hefur eins og sumir starfsbræður hans gleymt hæfilegri varúð fræðimannsins eftir bankahrunið, hvort sem það er vegna þess að hann gengst óhóflega upp í hinni óvæntu athygli, sem honum er veitt eftir hrunið, eða hann vill koma sér í mjúkinn hjá nýjum valdhöfum, „vera í vinningsliðinu“. Jón er þessa dagana stóryrtur í garð Seðlabankans fyrir að hafa haustið 2008 gert nákvæmlega hið sama og seðlabankar annars staðar í lánsfjárkreppunni, að veita skyndilán til að afstýra lausafjárskorti. Seðlabankar annars staðar keyptu til dæmis í óðaönn upp undirmálslán af fjármálastofnunum í því skyni að bjarga þeim og sitja nú eftir með sárt ennið, því að þessi lán reyndust lítils sem einskis virði. Þetta er meðal annars rakið í nýrri bók Roberts Skidelsky lávarðar, The Return of the Master. Þetta er sami Jón Steinsson og skrifaði grein í Morgunblaðið 24. mars 2006, þar sem hann taldi litla ástæðu til að hafa áhyggjur af miklum erlendum skuldum Íslendinga. „En að stærstum hluta virðist nettó skuldastaða landsins endurspegla væntingar almennings um áframhaldandi hraðan hagvöxt. Ef þessar væntingar eru raunhæfar þurfum við engar áhyggjur að hafa af nettó erlendri skuldastöðu þjóðarinnar.“ Þetta er sami Jón Steinsson og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands 18. ágúst 2008, aðeins nokkrum vikum fyrir bankahrunið, þar sem hann mælti gegn vaxtalækkun og gerði lítið úr því, að kollsteypa væri í nánd: „Það er ekkert allt að farast,“ var haft eftir honum í Morgunblaðinu daginn eftir. Með þessu er ég ekki að segja, að allt, sem Jón sagði við þessi tækifæri, hafi verið vitleysa, heldur hitt, að hann er skeikull eins og við hin, þótt hann tali niður til okkar.


Njósnir KGB á Norðurlöndum

Fróðlegt var að lesa á mbl.is, að sænski njósnasagnahöfundurinn Jan Guillou gekk erinda leyniþjónustu Kremlverja, KGB, á meðan Ráðstjórnarríkin voru og hétu. Tvær bækur Guillous hafa komið út á íslensku, Leiðin til Jerúsalem og Illskan, og sjónvarpið hefur sýnt myndir eftir sögum hans. Fram kom í fréttinni, að það var rússneski KGB-maðurinn Jevgeníj Gergel, sem náði Guillou á sitt band. Veitti Guillou Gergel ýmsar upplýsingar, meðal annars um sænska jafnaðarmannaflokkinn, og vilja sænskir jafnaðarmenn nú ólmir vita, hverjar þær voru. Gergel starfaði í sendiráði Ráðstjórnarríkjanna í Svíþjóð 1964–1970, og tókst honum þá að mynda samband við róttæklinga, sem voru andvígir Bandaríkjunum, ekki síst afskiptum þeirra af borgarastríðinu í Víetnam. En hitt er athyglisvert, að Jevgeníj Gergel vann fyrir KGB á Íslandi í sex ár, 1973–1979. Eftir það starfaði hann í höfuðstöðvum KGB í Moskvu og kynntist þá Oleg Gordíevskíj, sem seinna flýði land og ljóstraði upp um margvíslegan undirróður og njósnir Kremlverja á Vesturlöndum. Sagði Gergel Gordíevskíj ýmislegt um umsvif ráðstjórnarinnar á Íslandi. Seinna var Gergel flugumaður KGB á Möltu. KGB stundaði ekki aðeins hefðbundnar njósnir, heldur lagði áherslu á það, sem kallað var á ensku „agents of influence“. Þetta voru menn, sem voru sjaldnast yfirlýstir kommúnistar, en veittu KGB-mönnum í sendiráðum Ráðstjórnarríkjanna á Vesturlöndum upplýsingar og tóku þátt í ýmsum aðgerðum, sem komu Kremlverjum vel, til dæmis „friðarhreyfingum“. Rætt er um þetta allt, þar á  meðal starfsemi Gergels á Íslandi, í bók minni, Íslenskir kommúnistar 1918–1998, sem er enn í vinnslu, en kemur vonandi út eftir eitt eða tvö ár.

Forseti Náskersins

crop_260x-1.jpgÓlafur Ragnar Grímsson hefur nú birt nokkur þeirra bréfa til stuðnings íslenskum auðmönnum, sem hann þurfti að afhenda rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins. Hann hefur hins vegar ekki þrátt fyrir áskoranir birt þær reglur, sem hann segir, að banni honum að afhenda önnur bréf hans svipaðs eða sama efnis, enda eru engar slíkar reglur til. Nú er ekkert við það að athuga, að þjóðhöfðingi greiði götu atvinnurekenda lands síns erlendis. Það gera allir þjóðhöfðingjar. En sjá má af þessum bréfum, að Ólafur Ragnar gekk miklu lengra í erindrekstri fyrir auðmenn en aðrir telja sæma. Þessi bréf hans eru þó ekki versti vitnisburðurinn um forsetatíð hans, heldur hitt, að hann synjaði sumarið 2004 staðfestingar fjölmiðlafrumvarpi, sem átti að takmarka tækifæri auðmanna til að móta almenningsálitið sér í hag. Var það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, að forseti gekk á þann hátt gegn þingviljanum. Forseti Íslands átti að vera sameiningartákn, en ekki þátttakandi í illdeilum. Sjálfur hafði Ólafur Ragnar í kennslubók, sem kennd var áratugum saman í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, skrifað, að synjunarvald forseta væri dauður bókstafur. Ekki bætti úr skák, að Ólafur Ragnar hafði sumarið 2004 sterk tengsl við illvígasta og skuldugasta íslenska auðmanninn, fjölmiðlakónginn Jón Násker: Dóttir hans var í vinnu hjá Náskerinu, og kosningastjóri hans í forsetakjöri 1996 var forstjóri fjölmiðlafyrirtækis Náskersins. Og Ólafur Ragnar hélt uppteknum hætti. Þegar heimilisvinur forsetahjónanna, Martha Stewart, kom til Íslands, nýsloppin úr fangelsi í Bandaríkjunum, bauð Ólafur Ragnar í hóf á Bessastöðum, þar sem skilyrðið fyrir boði virtist vera dómur fyrir efnahagsbrot. Þar voru Náskerið, Pálmi í Fons og aðrir þeir, sem sett hafa Ísland á hliðina. Ólafur Ragnar er ekki forseti þjóðarinnar. Hann er forseti Náskersins. 

Tvö dæmi um hlutdrægni RÚV

Ríkisútvarpið hefur lögbundna skyldu til að gæta fyllstu óhlutdrægni. Skýringin er sú, að við erum öll skylduð til að greiða til þess. Við getum ekki sagt upp áskrift að því, ef við erum óánægð með það, eins og við getum að Morgunblaðinu, Stöð tvö eða DV. Með þessari lagaskyldu um óhlutdrægni er auðvitað ekki átt við, að starfsmenn Ríkisútvarpsins hljóti að vera skoðunarlausir, heldur hitt, að þeir gæti sæmilegs jafnvægis í því, sem kemur fram. Sé einn þáttastjórnandi vinstrisinnaður, þá sé annar hægrisinnaður, og svo framvegis. Ég er ekki einn um að telja, að Ríkisútvarpið hafi síðustu misserin ekki gegnt þessari lagaskyldu sinni. En þá er oft kallað eftir dæmum. Ég nefni tvö lítil dæmi úr mínu minni, sem einhverjir fjölmiðlamenn mættu rannsaka betur. Annað var á menningarnótt Reykjavíkurborgar í sumar. Þá vildu sjónvarpsmenn ekki slást í för með borgarstjóranum, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þegar hún gekk um Reykjavík, því að hún væri stjórnmálamaður. Hins vegar heimsóttu þeir Dag Bergþóruson-Eggertsson í vöfflukaffi heim til hans! Ekki veit ég, hvort það var vegna þess, að þeir töldu hann ekki stjórnmálamann, en ef svo er, þá höfðu þeir auðvitað ýmislegt til síns máls. Gauti, bróðir Dags, er miklu meiri stjórnmálamaður, eins og sést á daglegu bloggi hans. Hitt dæmið um hlutdrægni Ríkisútvarpsins var af frásögn þess af umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í októberbyrjun. Í kvöldfréttum þann dag var ræða ráðherrans endursögð athugasemdalaust. En fréttastofan hafði tafarlaust leitað til erlends „sérfræðings“ um þá skoðun Bjarna Benediktssonar, að hugsanlega bæri að segja upp samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og taldi „sérfræðingurinn“ öll tormerki á því. Var þessi „frétt“ flutt í sama fréttatíma og sagt var frá ræðu Bjarna. Þannig var reynt að ómerkja málflutning Bjarna tafarlaust.


Sungu Nallann og steyttu hnefa

staksteinarbsrb.jpgHneyksli þætti, ef einhverjir tækju upp á því, hvað þá stjórnmálamenn, að syngja opinberlega baráttusöng nasista, Horst Wessel, sem var raunar gerður að eins konar óopinberum þjóðsöng Þýskalands um skeið á Hitlerstímanum. En er nokkru betra að syngja Internationalinn hástöfum og steyta hnefa, eins og þeir Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason gerðu á þingi BSRB á dögunum? Ólafur Ragnar Grímsson og Ögmundur Jónasson slepptu því þó að steyta hnefa, hvort sem þeir hafa raulað með eða ekki. Internationalinn, Nallinn, var um skeið þjóðsöngur Ráðstjórnarríkjanna, enda er hann svipað tákn kommúnismans og Horst Wessel er nasismans. Í Svartbók kommúnismans, sem ég sneri á íslensku, er giskað á, að hátt í þrjátíu milljónir manna hafi týnt lífi af völdum nasismans, en 85–100 milljónir manna af völdum kommúnismans. Kommúnisminn var blóðug alræðisstefna. Þar sem kommúnistar höfðu tækifæri til, frömdu þeir fjöldamorð, sendu þá, sem þeir grunuðu um „óhreinar hugsanir“, í vinnubúðir eða fangelsi, fluttu fólk nauðugt úr heimkynnum sínum, bönnuðu alla gagnrýni og héldu uppi víðtækum njósnum. Í útvarpsþætti á dögunum skiptust við Gunnar Smári Egilsson á skoðunum um kommúnismann. Hann kvaðst telja, að hann nyti sömu skilyrðislausu fordæmingarinnar og nasisminn. Ég dró það í efa. Benti ég meðal annars á það, að ekki er lengra síðan en 1997, að áhrifamaður í Blaðamannafélagi Íslands og síðar í Samfylkingunni, Lúðvík Geirsson, sagði eftirlætisstjórnmálamann sinn vera Lenín. Alþýðubandalagið lauk snautlegum ferli sínum á því að senda hóp manna í boðsferð til Kúbu haustið 1998 á vegum kúbverska kommúnistaflokksins. Voru þar meðal annarra í för Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson. Núverandi formaður utanríkisnefndar, Árni Þór Sigurðsson, ber húfu með mynd af Che Guavara, liðsmanni Castros á Kúbu, en þaðan hefur 10% þjóðarinnar flúið, og er talið, að um þrjátíu þúsund manns hafi týnt lífi af völdum kúbverskra kommúnista. Þeir Össur og Árni Páll sýna fórnarlömbum kommúnismans virðingarleysi með því að syngja Internationalinn og steyta hnefa.


Strákur í stórri ætt

bilde_926013.jpgEin lítilmótlegasta blaðagrein síðustu missera birtist fyrir skömmu í Morgunblaðinu. Þar kvað Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur Thors-ættina of göfuga fyrir Björgólf Guðmundsson (sem kvæntur er dótturdóttur Thors Jensen). Guðmundur Andri birti þessa grein, eftir að Björgólfur hneig fjárhagslega í valinn í bankahruninu mikla og lá óvígur. En Guðmundur Andri þagði alla þá tíð, er völlurinn var sem mestur á Björgólfi. Hvað sem um rekstur Landsbankans gamla má segja, var Björgólfur Guðmundsson á uppgangstíma sínum sannkallaður höfðingi, sem gaf af mikilli rausn til líknar- og mannúðarmála og ekki síður til lista og vísinda. Nú hefur Guðmundur Andri birt grein á Netinu, þar sem hann segir skilið við Morgunblaðið og kvartar undan Davíð Oddssyni, eins og hann gerði raunar iðulega forðum, á meðan hann var Baugspenni og Baugsfeðgar ráku herferð sína gegn Davíð.  Guðmundur Andri segist vera hræddur um, að Morgunblaðið verði ekki margradda með Davíð sem ritstjóra. En sannleikurinn er sá, að íslenskir fjölmiðlar voru eintóna, áður en Davíð kom á vettvang. Þeir höfðu allir sömu stefnu, bergmáluðu hver annan. Annars fer illa á því, að Guðmundur Andri Thorsson vandi um við fjölmiðla. Hann situr í ritnefnd veftímaritsins Herðubreiðar. Ritstjóri þess tímarits skrifaði nýlega ósannindi um mig. Þegar ég skoraði á þann mann að finna þeim stað eða leiðrétta þau ella, svaraði sá skætingi einum. Ég sneri mér þá til ritnefndarmannsins Guðmundar Andra, sem neitaði að eiga nokkurn hlut að því að rétta hlut minn, en notaði tækifærið til sinna venjulegu stílæfinga, sem hann birti síðan hróðugur. Hann vildi bersýnilega ekki hafa það, sem sannara reyndist. Hann ætti því að hafa sem fæst orð um vandaða blaðamennsku. Eins og Bretar segja: „If you want a better world, get busy on your own little corner.“

Agli hefur farið aftur

silfuregils_ruv_926011.jpgVið þurfum öll að greiða gjald til Ríkisútvarpsins, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sú er skýringin á því, að lagaskylda hvílir á Ríkisútvarpinu um að gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögnum, fréttaflutningi og umræðum af skoðunum. Slík óhlutdrægni felst ekki í skoðanaleysi, heldur í því, að flestar skoðanir fái að koma fram. (Ég er ekki viss um, að allar skoðanir eigi að fá að koma fram í ríkisútvarpi, til dæmis gyðingahatur, en það er annað mál.) Þess vegna brýtur Egill Helgason vitanlega ekki lög með því að hafa skoðanir. Hann má hafa þær mín vegna. Egill hefur hins vegar glatað trúverðugleika sem þáttastjórnandi með hinu dæmalausa bloggi sínu, þar sem hann eys svívirðingum yfir fólk fyrir 200 þúsund krónur á mánuði. Stjórnendur Ríkisútvarpsins láta eins og þetta blogg komi þeim ekki við, þótt það beri sama nafn og umræðuþáttur hans. Öðru vísi mér áður brá. Í Morgunblaðinu 25. september 2005 birtist eftirfarandi frétt: Sigmundur Sigurgeirsson, starfsmaður Ríkisútvarpsins (RÚV) á Suðurlandi, hefur fengið áminningarbréf frá lögfræðingi RÚV vegna skrifa sinna á bloggsíðu um Baugsmálið í sumar og verður ekki látinn vinna við fréttaflutning fyrir fréttastofu Útvarpsins í bili samkvæmt upplýsingum frá RÚV. Hann sinnir samt áfram starfi sínu sem umsjónarmaður svæðisútvarpsins á Suðurlandi. Þegar málið kom upp síðla ágústmánaðar var það mat Boga Ágústssonar, forstöðumanns fréttasviðs RÚV, og Óðins Jónssonar fréttastjóra að „með skrifum sínum hafi Sigmundur sýnt slíkt dómgreindarleysi að við treystum honum ekki lengur til að vinna við fréttir í Ríkisútvarpinu“. Bogi Ágústsson staðfesti við Morgunblaðið að Sigmundur myndi ekki vinna fyrir fréttastofu Útvarps í bráð.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband