Kerfið er sanngjarnt

skipMannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf er enginn dómstóll, heldur getur óánægt fólk í aðildarríkjum samtakanna sent henni erindi til umsagnar. Úrskurðir nefndarinnar eru ekki bindandi og hafa ekki lagagildi. Nýleg umsögn meiri hluta nefndarinnar um íslenska kvótakerfið sýnir, að hann hefur því miður ekki kynnt sér málið nógu vel. Þessir menn komast að þeirri niðurstöðu, að upphafleg úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum hafi verið ósanngjörn. Minni hluti nefndarinnar leiðir hins vegar rök að því, að í hinni upphaflegu úthlutun hafi ákvæði mannréttindasamþykktar Sameinuðu þjóðanna gegn óeðlilegri mismunun ekki verið brotin. Þess vegna telur minni hlutinn, að dómar Hæstaréttar Íslands um kvótakerfið standist.

Hvernig var upphafleg úthlutun?

Ágreiningur meiri hluta og minni hluta mannréttindanefndarinnar snýst ekki um hagfræðikenningar eða lagabókstaf, heldur siðferðileg efni. Forsagan er öllum Íslendingum kunn. Í árslok 1983 voru fiskistofnar á Íslandsmiðum að hruni komnir vegna ofveiði. Takmarka varð sókn í þá. Ýmsar fyrri tilraunir til þess höfðu mistekist. Þess vegna var að ráði fiskihagfræðinga, forystu útgerðarmanna og annarra tekinn sá kostur að takmarka sóknina við þá, sem gert höfðu út á tímabilinu frá 1. nóvember 1980 til 31. október 1983. Þeir fengu aflaheimildir í hlutfalli við afla sinn á þessu tímabili. Þetta fyrirkomulag gilti fyrst aðeins um botnfisk (þorsk og fleiri tegundir), en með löggjöf árið 1990 varð kvótakerfið altækt og gilti eftir það um alla fiskistofna á Íslandsmiðum.

Efnisleg mismunun

Takmarka varð aðganginn að miðunum, og hann var takmarkaður við þá, sem þegar höfðu nýtt sér aðganginn og fjárfest í skipum, veiðarfærum og eigin þjálfun og áhafnar sinnar. Þetta var eðlilegt. Þeir áttu allt í húfi. Hefðu þeir ekki fengið að sækja miðin áfram, þá hefði fjárfesting þeirra orðið verðlaus með einu pennastriki. Afkomuskilyrðum þeirra hefði verið stórlega raskað og að ósekju. Hinir, sem höfðu ekki nýtt sér ótakmarkaðan aðgang fyrri ára, töpuðu engu öðru en innantómum rétti til að veiða fisk, sem var á þrotum sökum ofveiði. Þetta virðist meiri hluti mannréttindanefndarinnar í Genf ekki skilja ólíkt minni hlutanum. Öll úthlutun takmarkaðra gæða felur í sér mismunun. Aðalatriðið um hina upphaflegu úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum er, hvort sú mismunun hafi verið efnisleg. Ég segi hiklaust já, því að hún var fólgin í því að taka tillit til áunninna hagsmuna þeirra, sem stundað höfðu veiðar. Þeirra afkomuskilyrðum var ekki raskað um of.

Menn keyptir út eða reknir út

Til voru þó þeir, sem sögðu á sínum tíma, að sanngjarnara hefði verið að úthluta aflaheimildum í opinberu uppboði. Þeir útgerðarmenn einir hefðu þá haldið áfram veiðum, sem hefðu haft bolmagn til að kaupa aflaheimildir af ríkinu. Þetta hefði verið ósanngjarnt. Með henni hefði sá hópur, sem ekki hefði getað keypt sér aflaheimildir, horft upp á líf sitt lagt í rúst. Hitt var hyggilegra, sem einmitt var gert, að afhenda öllum, sem stunduðu veiðar, aflaheimildir ókeypis og leyfa síðan þeim, sem betri höfðu afkomuna, að kaupa smám saman út hina. Þannig undu allir við sitt. Allir græddu. Enginn skaðaðist. Menn voru þá keyptir út úr útgerð í frjálsum viðskiptum í stað þess að vera reknir út með valdboði.

Hvað um hina?

Þá vaknar auðvitað spurning, sem borin var upp við mannréttindanefndina: Hvað um þá, sem ekki höfðu stundað veiðar á upphaflega viðmiðunartímanum, en vilja nú hefja veiðar? Svarið er, að enginn bannar þeim að hefja veiðar. Þeir verða aðeins að kaupa sér aflaheimildir. Til er orðinn verðmætur réttur, einmitt vegna þess að hann er takmarkaður. Hann var áður verðlaus, af því að hann var ótakmarkaður. Það var erfiðara og ósanngjarnara að banna mönnum að halda áfram veiðum, sem þeir höfðu stundað lengi, en að banna öðrum mönnum að hefja veiðar, sem þeir höfðu aldrei stundað. Aldarfjórðungur er nú auk þess liðinn frá upphaflegri úthlutun. Aflaheimildir hafa gengið kaupum og sölum. Langflestir handhafar hafa keypt þær. Ekki verður aftur snúið. Kvótakerfið hefur reynst Íslendingum vel, hvað sem líður umsögn meiri hluta mannréttindanefndarinnar í Genf. Hann sýnir, að við þurfum að kynna kerfið betur erlendis.

Fréttablaðið 29. janúar 2008. 


Nýr borgarstjórnarmeirihluti í Reykjavík

Ég var í Íslandi í dag á Stöð tvö mánudagskvöldið 21. janúar 2008 og ræddi um hinn nýja borgarstjórnarmeirihluta, sem Sjálfstæðisflokkurinn myndaði með Ólafi F. Magnússyni þá um daginn. Þar lét ég í ljós þá skoðun, að Ólafur og tveir þingmenn Frjálslynda flokksins, þeir Guðjón Arnar Kristjánsson og Jón Magnússon, ættu miklu betur heima í eða með Sjálfstæðisflokknum en í samstarfi við vinstri flokka. Horfa má á viðtalið hér.

Kiljan um Davíð

Ég kom fram í þætti Egils Helgasonar um bókmenntir í Sjónvarpinu, Kiljunni, miðvikudagskvöldið 16. janúar kl. 10.30 og sagði þar frá bókinni Davíð Oddsson í myndum og máli, sem Samband ungra sjálfstæðismanna gaf út til heiðurs Davíð á sextugsafmælinu 17. janúar. Horfa má á þáttinn hér. Ég sá um myndaval og texta. Bókin er 240 blaðsíður og full af myndum, sem sumar eru merkilegar, sögulegar heimildir, en aðrar hafa ótvírætt listrænt gildi, enda hefur Davíð verið verkefni margra snjallra atvinnuljósmyndara í nær þrjátíu ár, sem borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og aðalbankastjóri Seðlabankans. Þessi mynd hér er ekki í bókinni, en ég fann hana í grúski mínu hennar vegna: Við Davíð göngum um miðbæinn einn góðan veðurdag í borgarstjóratíð hans (1982-1991) og leggjum á ráðin.HHGDO

Mannamál um Davíð

Ég kom fram í Mannamáli, þætti Sigmundar Ernis á Stöð tvö, sunnudagskvöldið 13. janúar 2008 kl. 19.05 og ræddi þar um stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar, sem verður sextugur 17. janúar 2008. Horfa má á þáttinn hér.

Boðskapur Teathers

upld-release101photoEndurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Deloitte hélt árlegan skattadag sinn miðvikudagsmorguninn 9. janúar. Þar voru flutt mörg fróðleg erindi, en ég staldra við tvö. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hélt því fram, að á Íslandi hefði kenning Arthurs Laffers sannast um, að skatttekjur ríkisins geti við tiltekin skilyrði aukist með minnkaðri skattheimtu: 18% skattur kann að gefa meira af sér en 45% skattur. Þetta gerðist einmitt á Íslandi síðustu sextán ár. Tekjuskattur á fyrirtæki var lækkaður úr 45% í 18%, en skatttekjurnar ruku upp. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. Svipað er að segja um tekjuskatt á einstaklinga. Hann var lækkaður um 8% á tíu árum, en tekjur ríkisins af honum hækkuðu samt.

Meiri skatttekjur með minni skattheimtu

Fleiri íslensk dæmi staðfesta kenningu Laffers. Eitt er húsaleigutekjur. Áður fyrr voru þær skattlagðar eins og atvinnutekjur og báru um 40% skatt. Þá töldu fæstir þær fram. Þegar ákveðið var að skattleggja þær sem fjármagnstekjur, en þær bera 10% skatt, snarhækkuðu skatttekjur af þeim. Ástæðurnar voru tvær: Í fyrsta lagi jókst framboð á leiguhúsnæði, þar sem það borgaði sig allt í einu að leigja það út. Í öðru lagi bötnuðu skattskil, því að menn telja fúslega fram tekjur, sem bera 10% skatt, en miklu síður tekjur, sem bera 40% skatt. Annað dæmi er erfðafjárskattur, sem áður gat orðið mjög hár, en er nú oftast aðeins 5%. Skatttekjur ríkisins af honum hafa einnig snarhækkað. Enn eru skýringarnar tvær: Með blómlegu atvinnulífi eykst erfðafé, og í öðru lagi nenna menn ekki að koma sér á ýmsan löglegan hátt hjá skattgreiðslum af slíku fé, sé skatturinn hóflegur.

TeatherEina athugasemdin, sem ég geri við ræðu Árna M. Mathiesens á skattadeginum, er, hversu hógvær hann var. Sannleikurinn er sá, að skattabreytingar síðustu sextán ára hafa skilað stórkostlegum árangri. Við búum við miklu betri skattkerfi en hinar Norðurlandaþjóðirnar, meðal annars vegna þess að tekjuskattur á einstaklinga er flatur ofan skattleysismarka. Hitt er annað mál, að gera má betur, og um það var fróðlegt erindi prófessors Richards Teathers frá Stóra-Bretlandi. Hann er sérfræðingur um skattamál og ráðgjafi þingsins í Jersey, en hún er lítil eyja í Ermarsundi, sem orðið hefur stórauðug á því að laða að sér fjármagn með lágum sköttum og veita margvíslega fjármálaþjónustu.

Skattasamkeppni til góðs

Í bókinni The Benefits of Tax Competition (Skattasamkeppni til góðs), sem Teather gaf út fyrir tveimur árum, bendir hann á, að skattasamkeppni milli ríkja hefur ýmsar æskilegar afleiðingar. Ein blasir við. Slík samkeppni heldur í skefjum tilhneigingu stjórnmálamanna til að hækka skatta, sem renna síðan í misjafnlega skynsamleg verkefni. Önnur er ekki eins augljós. Lágskattalönd eða fjármálamiðstöðvar eins og Lúxemborg, Írland, Jersey og Liechtenstein stuðla að aukinni hagkvæmni í alþjóðahagkerfinu með því að lækka kostnað við fjárfestingar og fjármagnsflutninga. Teather bendir á, að slíkar fjármálamiðstöðvar soga ekki sjálfar til sín fjármagn. Þar er ekki fjárfest, heldur eru þar teknar ákvarðanir um, hvar fjárfest skuli, til dæmis hvort féð renni í tölvuver í Kína eða skóverksmiðju á Indlandi.

Teather telur, að Ísland hafi mikla möguleika sem fjármálamiðstöð, ekki síst vegna þess að það stendur utan Evrópusambandsins, sem leitast því miður við að takmarka skattasamkeppni. Hann bendir á, að tekjuskattur á fyrirtæki er nú aðeins 12,5% á Írlandi (sem situr raunar undir ámæli fyrir það innan Evrópusambandsins). Ef Ísland lækkar tekjuskatt á fyrirtæki úr 18% í 10% og býr á ýmsan annan hátt vel að fjármálafélögum stórfyrirtækja, þá getur landið laðað slík félög að sér, en það myndar feikilegar beinar og óbeinar tekjur fyrir ríkissjóð.

Framkvæmum góðar hugmyndir

SigEinÍ bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar, sem kom út 1979, varpaði Geir H. Haarde, sem þá var ungur hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, fram þeirri hugmynd, að Ísland yrði alþjóðleg fjármálamiðstöð. Með því að lækka skatta á fyrirtæki voru stigin mikilvæg skref í þá átt í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar, og á meðan Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra, skipaði hann nefnd til að skoða málið undir forystu Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi. Skilaði sú nefnd vandaðri skýrslu með ýmsum góðum hugmyndum. Um þessar mundir syrtir að í atvinnulífinu. Þess vegna er nú rétti tíminn til að framkvæma þessar hugmyndir. Við höfum engu að tapa og allt að vinna á því að reyna að gera Ísland að öflugri, alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Fréttablaðið 11. janúar 2008. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband