Sprengisandur

one_flew_over_the_cuckoo_s_nest_poster.jpgÉg kom fram í umræðuþætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, á Bylgjunni sunnudagsmorguninn 27. september 2009 ásamt Gunnari Smára Egilssyni (bróður Sigurjóns). Umræður voru fjörugar og málefnalegar, en Gunnar Smári er skarpur greinandi, þótt hann heillist stundum um of af eigin mælskubrögðum. Við ræddum fyrst um Svartbók kommúnismans og skýringar á því, að kommúnisminn hefur enn ekki hlotið sömu siðferðilegu fordæminguna og nasisminn. Ég benti á hinar fróðlegu upplýsingar Milosar Forman á Íslandi, að hann hefði hugsað sér hjúkrunarkonuna í kvikmyndinni Gaukshreiðrinu sem holdtekju kommúnismans. Ég spurði, hvernig á því stæði, að fyrri eigendur Morgunblaðsins hefðu misst það, en „eigendur“ Baugsmiðlanna (stærstu skuldakóngar Íslandssögunnar) ættu þá enn og réðu yfir þeim. Þá gagnrýndi ég ríkisstjórnina fyrir óskýra stefnu eða jafnvel stefnuleysi. Forsætisráðherrann væri mannafæla, sem kynni ekki erlend mál, hefði ekkert sjálfstraust og gæti ekki verið í forsvari fyrir okkur á alþjóðavettvangi. Hefði Davíð Oddsson verið leiðtogi þjóðarinnar, þegar hrunið varð, þá hefði hann þjóðnýtt hinn innlenda hluta bankakerfisins (eins og gert var, en klaufalega), sagt erlendum kröfuhöfum að hirða hinn erlenda hluta þess og láta sér það nægja (enda hefðu þeir lánað bönkunum á eigin ábyrgð), harðneitað að greiða skuldir óreiðumanna, eins og gert var með icesave-samningnum (Svavar Gestsson var sendur út til að semja, en lét sér nægja að koma heim með reikninginn!), tekið upp á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins fautaskap Breta, sem settu herlausa þjóð á lista um hryðjaverkasamtök, tekið lán hjá Rússum og Kínverjum og Bandaríkjamönnum, eftir því sem þurfa þætti og hentaði, en líka dregið saman seglin, svo að slíkra lána hefði ekki orðið mikil þörf, og ekki látið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kúga okkur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er eins og klipptur út úr kvikmynd eftir Forman: Hjúkrunarkonan reyndist vera handrukkari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband