24.3.2009 | 09:23
Mikil mistök
Eins og virtir lögfræðingar benda á, braut Jóhanna Sigurðardóttir sennilega stjórnarskrána, þegar hún setti norskan stjórnmálamann í embætti seðlabankastjóra. Skýrt er kveðið á um það í stjórnarskránni, að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar. Þeir eiga að gæta íslenskra hagsmuna, ekki erlendra. Þótt Norðmaðurinn sé settur, en ekki skipaður, gilda við venjulegar aðstæður sömu hæfisskilyrði um setningu og skipun. En sé þessi maður ólöglega settur, þá kunna ýmis embættisverk hans að vera ólögleg.
Maður þessi kvaðst aðspurður ekki muna, hvenær hann var beðinn að taka að sér embættið. Sé hann tekinn trúanlegur um það, þá hefur hann varla gáfur til að sinna starfinu. Nýlega var hann á fundi í Seðlabankanum. Þá barst í tal cad-hlutfall fjármálastofnana (eiginfjárhlutfall samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins). Maðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki, hvað þetta var. Hann hefur einnig reynst ákvörðunarfælinn og taugaóstyrkur.
Maðurinn af fjöllunum þorði ekki að liðsinna Straumi, Spron og Sparisjóðabankanum, þegar þessi fyrirtæki lentu í fyrirsjáanlegum, en tímabundnum erfiðleikum. Það var Seðlabankanum ekki um megn að koma þeim til hjálpar, ólíkt því er viðskiptabankarnir þrír féllu um koll síðastliðið haust. Forráðamenn fyrirtækjanna höfðu unnið af framúrskarandi dugnaði að því að tryggja framtíð þeirra. Þessi bráðabirgðaseðlabankastjóri minnihlutastjórnar veldur því með ákvörðunarfælni sinni og taugaóstyrk, að mörg hundruð manns missa hér atvinnuna, traust á Íslandi minnkar enn erlendis og lánalínur lokast.
Margt hefur verið gert af illri nauðsyn síðustu mánuði. En það voru mikil mistök að knýja þessi fyrirtæki í þrot og bæta þannig gráu ofan á svart. Ógeðfelldur blær er á allri framgöngu ráðamanna í málinu. Sennilega er þetta embættisverk hins norska stjórnmálamanns ólöglegt, eins og hann sjálfur. En þótt sjálfsagt sé að láta á það reyna fyrir dómstólum, er tjónið orðið og verður ekki bætt. Og hrægammarnir sveima yfir sviðinni jörð.
Morgunblaðið 24. mars 2009.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook