Tvær borgir

bush_hosts_obama_former_presidents_white_house_aiyyltxh7hcl.jpgFróðlegt var að bera saman svipmyndir frá Washington og Reykjavík þriðjudaginn 20. janúar 2009. Enn sýndu Bandaríkjamenn, hversu sterkum rótum lýðræði hefur þar skotið. George W. Bush rétti Barack H. Obama valdataumana, og forsetarnir tveir sýndu hvor öðrum virðingu. Allt fór vel fram. Obama býður af sér góðan þokka, og mikið hlýtur að vera spunnið í mann, sem nánast einn síns liðs sigraði tvær öflugustu kosningavélar heims, fyrst Clinton-hjónanna, síðan Lýðveldisflokksins, Repúblikana. Athygli vekur, hversu rólegur Obama virðist vera og varfærinn. Ánægjulegt er og, að þessi volduga þjóð skuli í fyrsta skipti hafa valið sér þeldökkan forseta.

Bush hverfur ekki úr forsetaembættinu með glæsibrag. En líklega fær hann betri eftirmæli síðar. Sjálfsagt var að stöðva starfsemi hryðjuverkamanna frá Afganistan. Enginn vafi er heldur á því, að Bush var í góðri trú (ef það er heppilegasta orðið), þegar hann mælti fyrir um innrás í Írak: Hann taldi eins og forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna, að Saddam Hussein réði yfir gereyðingarvopnum, enda hafði Hussein áður orðið ber að því að beita slíkum vopnum í árásum á grannríki. Þetta reyndist ekki rétt, en bót er í máli, að við innrásina fækkaði um einn grimman einræðisherra í heiminum. Festa Bush í baráttunni við hryðjuverkamenn hefur líka skilað árangri. Þeir eru nú einangraðir.

Bandaríkin eru ekki gallalaus, en margt hefur tekist þar vel. Þetta er samband fimmtíu ríkja. Verðmætasköpun er miklu meiri en í Evrópusambandinu, sem er samband 27 ríkja. Í tveimur Bandaríkjanna, Delaware og Connecticut, er landsframleiðsla á mann svipuð og í langríkasta Evrópusambandsríkinu, Lúxemborg. Gengi Svíþjóð úr Evrópusambandinu og í Bandaríkin, þá yrði ríkið eitt hið fátækasta þar vestra, ásamt Arkansas og Mississippi. Mörg Evrópusambandsríki eru síðan miklu fátækari. Evrópubúar ættu enn fremur að muna Bandaríkjamönnum, að þeir stöðvuðu tvö Evrópustríð á tuttugustu öld og tryggðu frið í álfunni, þegar veldi Kremverja var sem öflugast.

Þegar litið var til Reykjavíkur þriðjudaginn 20. janúar, blasti við dapurlegri mynd. Fámennur hópur grímuklæddra óspektarmanna beitir þessar vikurnar ofbeldi í því skyni að knýja löglega kjörna ríkisstjórn frá völdum. Þessi hópur kom í veg fyrir, að umræður stjórnmálaleiðtoga gætu farið eðlilega fram á gamlárskvöld, skemmdi tæki fyrir fjölmiðlum og veittist að starfsfólki þeirra jafnt og stjórnmálamönnum. Sami hópur notaði tækifærið nú á þriðjudaginn til að ráðast á Alþingishúsið, grýta lögregluþjóna, brjóta rúður og kveikja elda. Á meðan sátu ráðherrar í húsinu og gátu sig hvergi hreyft.

Þetta ástand er óþolandi. Lýðræði er ekki ofríki fámenns minni hluta og því síður ofbeldi slíks hóps. Stjórnmálamenn verða að geta tekið ákvarðanir sínar óáreittir. Umræður eiga að fara eðlilega fram, en ekki undir steyttum hnefum ofbeldisseggja. Hrun bankanna og hinir stórkostlegu efnahagserfiðleikar eftir það breyta vitanlega miklu í íslenskum stjórnmálum. En ríkið hefur samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um viðreisnaráætlun, og bankahrunið sætir nákvæmri rannsókn. Kosningar eru ekki tímabærar, fyrr en þessu tvennu er lokið. Lýðræði er ekki skrílræði.

Fréttablaðið 23. janúar 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband