18.12.2007 | 15:04
Afhjúpun Guðna Elíssonar
Guðni Elísson upplýsti lesendur Morgunblaðsins drýgindalegur um það hér 10. nóvember síðastliðinn, að hann væri sérfræðingur í orðræðugreiningu. Nokkrum vikum áður hafði hann hreykt sér af því, að hann hefði nánast alla valdhafa heimsins og vísindamenn á bak við sig um þá kenningu, að bráð vá væri af hlýnun jarðar af mannavöldum. Það er ekki heiglum hent að ræða við slík ofurmenni. Ég hef birt hér tvær greinar um málið, en ætla samt að reyna enn einu sinni, enda er fleira fróðlegt í síðasta framlagi orðræðusérfræðingsins en hann kemur ef til vill sjálfur auga á.
Svör Guðna
Í fyrri skrifum taldi Guðni sér nægja að stimpla mig í stað þess að svara ábendingum: Ég væri málpípa ráðandi afla, sem var einkennilegt, því að í sömu andrá sagðist Guðni hafa nær alla valdsmenn jarðar í liði sínu; ég ætti sálufélag við hægri sinnaða lýðveldissinna (repúblikana) bandaríska og launaða talsmenn þeirra, eins og það skipti einhverju máli um sanngildi ábendinga minna. Nú sér Guðni sitt óvænna og reynir að svara mér efnislega um nokkur atriði. Það er lofsvert. Skoðum málið.
Ég hafði haldið því fram, að skóglendi hefði ekki minnkað síðustu hálfa öld. Guðni spyr um heimild. Hún er bók Björns Lomborgs, Hið sanna ástand heimsins. Þar segir hann, að skóglendi heims hafi 1950-1994 aukist um 0,85%. Heimildir Lomborgs voru skýrslur F. A. O., Landbúnaðar- og matvælastofnunar sameinuðu þjóðanna. Guðni nefnir, að regnskógar séu að minnka. Hann tekur ekki nytjaskóga með í reikninginn. Það er hins vegar rétt og liggur í hlutarins eðli, að skóglendi hefur minnkað frekar en aukist í heiminum, frá því að sögur hófust. Sérfræðingar þræta líka um skilgreiningar á skóglendi.
Ég hafði rifjað upp þá fullyrðingu nokkurra vísindamanna frá því um 1980, að ný ísöld væri að ganga í garð, enda hafði heldur kólnað á jörðinni árin 1945-1980. Guðni svarar, að ísaldarkenningin hafi ekki verið viðtekin í sama mæli og kenningin um bráða vá vegna hlýnunar af mannavöldum. Það er rétt, enda var ábendingu minni aðallega ætlað að sýna, að vísindamenn eru skeikulir.
Ég hafði haft fyrir satt, að á suðurhveli sé að kólna, þótt á norðurhveli sé að hlýna. Guðni svarar, að landmassi sé miklu meiri á norðurhveli, svo að áhrifa af losun gróðurhúsalofttegunda gæti þar frekar, og hafstraumar hiti auk þess ekki upp Suðurskautslandið. Eflaust er eitthvað til í þessu, enda var ábending mín aðeins um það, hversu hæpið er að alhæfa um flókin ferli (sem Guðni viðurkennir raunar líka af þessu tilefni).
Ég hafði furðað mig á því, hversu lítið er gert úr því, að ekki hefur hlýnað í Bandaríkjunum frá 1998. Hlýjasta ár 20. aldar reyndist þar vera 1934, en 1998 var hið næsthlýjasta. Þetta merkir, að öll árin eftir 1998 hafa mælst þar kaldari. Guðni segir, að þessi mæling eigi aðeins við Bandaríkin. En ég tók það einmitt fram í fyrri grein minni um málið, þótt ég stytti mál mitt í upprifjun á röksemdum mínum í seinni greininni. Þetta var yfirsjón mín: Ég hefði mátt vita, að orðræðusérfræðingurinn veitti þessu ekki athygli úr fyrri grein minni, svo að ég hefði átt að endurtaka það í hinni seinni.
Ég hafði bent á fyrri loftslagsbreytingar, hlýnun og kólnun á víxl. Guðni viðurkennir, að þær breytingar hafi ekki verið af mannavöldum. En leita þurfi að minnsta kosti 1200 ár aftur í tímann til að finna jafnmikla hlýnun og nú. Hætta sé því á ferð. Ég er hér ekki sannfærður eins og Guðni. Jafnvel þótt hlýnunin nú sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann vel að vera), sé ekki af henni bráð vá.
Ég hafði minnt á þá kenningu, að virkni sólar valdi mestu um loftslagsbreytingar. Guðni viðurkennir, að svo hafi verið, þegar litið er um öxl til síðustu árþúsunda. Furðugóð samsvörun er milli hlýnunar jarðar og virkni sólar. En Guðni telur, að engar breytingar hafi orðið á virkni sólar síðustu þrjátíu ár, þegar hlýnunin hafi verið hvað mest. Helstu formælendur sólvirknikenningarinnar, Henrik Svensmark og Eigil Friis-Christensen, telja sig hins vegar geta skýrt þetta. Ég get ekkert sagt um þetta annað en það, að líta verður á þetta til langs tíma, ekki skamms.
Hverju svarar orðræðusérfræðingurinn ekki?
Það ræður engum úrslitum um kenninguna um bráða vá vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum, þótt ekki hafi hlýnað í Bandaríkjunum síðustu níu ár. Meta verður kenninguna til lengri tíma. Það ræður ekki heldur neinum úrslitum um sólvirknikenninguna, þótt virkni sólar hafi ekki aukist síðustu þrjátíu ár, en hlýnað um leið. Meta verður kenninguna til lengri tíma. Þetta eru flókin ferli og margir þættir að verki í einu. Þótt Guðni sé orðræðusérfræðingur, má hann ekki velja sér viðmið að eigin geðþótta. Ef norðurhvel jarðar er heppilegra viðmið en suðurhvelið, hvers vegna eru Bandaríkin (með alla sína losun gróðurhúsalofttegunda) þá til dæmis ekki heppilegra viðmið en önnur svæði jarðar?
Svör Guðna eru furðuveik og mótsagnir í máli hans. Merkilegri er þó þögn hans um ýmsar ábendingar mínar. Ein var, að viðvörun Rachelar Carsons við skordýramótefninu D. D. T. í einu fyrsta umhverfisverndarritinu, Raddir vorsins þagna, hefur reynst röng. Efnið er ódýrt í framleiðslu, hættulaust mönnum og minnkar líkur á mýrarköldu (malaríu), en vegna banns við því hafa milljónir fátæks fólks í suðrænum löndum dáið. Enn sagði ég frá því, að hrakspár í öðru umhverfisverndarriti, Endimörkum vaxtarins, um yfirvofandi skort á efnum eins og olíu og kolum hafa reynst rangar. Ég rifjaði einnig upp, þegar upp komst fyrir tilviljun, að spá nokkurra sjávarlíffræðinga frá því í nóvember 2006 um yfirvofandi hrun fiskistofna jarðar var auglýsingabrella, sett fram í þeim tilgangi að vekja athygli fjölmiðla.
Ég benti enn fremur á, að ísbjörnum á norðurhveli er ekki að fækka vegna hlýnunar jarðar. Þeim hefur fjölgað frekar en hitt. Sáralitlar líkur eru síðan taldar á því, að Golfstraumurinn muni síðar meir minnka stórlega eða hverfa, eins og spáð var. Ég minnti líka á ýmis tilvik, þegar vísindamenn hafa talað ógætilega í nafni vísindanna. Vorið 1983 fullyrtu 364 breskir hagfræðingar, að stefna Margrétar Thatchers í efnahagsmálum fengi ekki staðist. Vorið 1987 staðhæfðu þrír íslenskir raunvísindamenn, að Tjörnin hyrfi innan þriggja vikna, yrði tekinn grunnur að ráðhúsi við eitt horn hennar.
Guðni svarar þessu engu. Ég fagna því, ef þögn hans jafngildir samþykki. Guðni leiðir líka hjá sér eitt aðalatriði máls míns: Setjum svo, að jörðin sé að hlýna og sú hlýnun sé að miklu leyti af mannavöldum, aðallega vegna losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið. Hvað ber að gera? Í nýútkominni bók, Kælum okkur (Cool It), heldur Björn Lomborg því fram, að tiltæku fé sé miklu betur varið til annars en berjast gegn slíkri hlýnun, enda hafi hún í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar. Aðgerðir gegn útblástri koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda muni sáralitlu breyta. Rök Lomborgs eru sterk. Við getum ekki stjórnað veðrinu á morgun og því síður loftslaginu eftir tíu ár. Við getum hins vegar lagað okkur jafnt að veðri og loftslagi, eftir því sem þörf krefur.
Undarlegar orðræður
Guðni Elísson kveðst vera sérfræðingur í orðræðugreiningu. Vissulega er margt hnýsilegt í orðræðunni um loftslagsbreytingar, en einkum það, að fréttir um hugsanlega vá vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum berast okkur miklu greiðar en um hitt, að allt kunni að vera í stakasta lagi og menn geti gengið rólegir til vinnu sinnar á morgun ekki síður en í dag. Hvar segir til dæmis frá því, að 31. október 2007 mældist á grænlenska jöklinum mesta frost í októbermánuði frá upphafi mælinga? Hefði ekki verið á forsíðu Morgunblaðsins, ef þar hefði mælst minnsta frostið? Hvar segir frá því, að miklu fleiri deyja á hverju ári í kuldaköstum í Evrópu en fyrir hita sakir?
Heiðarlegur íslenskur orðræðugreinandi hefði ærin verkefni. Til dæmis tilkynntu tveir háskólaprófessorar, Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason, haustið 2006, að hér væri tekjuskipting orðin miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Þeir áttu greiða leið í fjölmiðla. Jafnvel var eitt sinn sagt sérstaklega í hljóðvarpi ríkisins frá viðtali við Stefán þann daginn í Fréttablaðinu, og þarf mikið að liggja við, til að einn fjölmiðill taki þannig upp eftir öðrum. En Evrópusambandið birti skýrslu 1. febrúar 2007, þar sem fram kom, að tekjuskipting er hér svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og fátækt einna minnst í heimi eftir alþjóðlegum mælingaraðferðum. Fjölmiðlar minntust varla á þessa skýrslu. Enginn spyr þá Stefán og Þorvald, hvaðan þeir fengu hinar röngu tölur sínar.
Annað dæmi um undarlega orðræðu snýr að Kúbu. Hópur manna heldur því fram, að suðrænar þjóðir séu fátækar vegna viðskipta við Vesturveldin. Sami hópur fullyrðir, að Kúbverjar séu fátækir vegna viðskiptabannsins, sem Bandaríkjastjórn setur á Kúbu. Augljóst er, að báðar fullyrðingarnar geta ekki staðist í einu, og raunar er önnur rétt: Hagur Kúbverja hefur versnað vegna viðskiptabannsins, þótt aðalskýringin á fátækt þeirra sé, að þar í landi hefur grimmur einræðisherra ríkt frá 1959, barið niður alla andstöðu við sig og um leið framtak fólks. En nokkrir helstu menningarpáfar okkar gorta af því að hafa skorið upp sykur fyrir Kastró þar syðra.
Þriðja dæmið er af sambúð kynjanna. Samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum á hamingju vegnar konum miklu betur í lífinu en körlum. Þær lifa nokkrum árum lengur, stytta sér síður aldur, leiðast síður út í neyslu fíkniefna, fremja síður glæpi og sitja síður í fangelsum. Samt er til heil atvinnugrein, jafnréttisiðnaðurinn, sem veltir að minnsta kosti hundrað milljónum á ári, en forsenda hans og réttlæting er, að konur séu kúgaður minnihlutahópur. Bágust mælast síðan kjörin hjá einstæðum feðrum, og ungum körlum milli tektar og tvítugs er hætt við sjálfsvígum. Hvar sér þessa stað í orðræðunni?
Orðræðan um þróunaraðstoð er einnig undarleg. Þegar skýrt var á dögunum frá því, að í öllum heimi hefðu lífskjör mælst best á Íslandi, flýttu sumir stjórnmálamenn sér að segja, að Íslendingar þyrftu að auka þróunaraðstoð. Enginn spyr þá, hvar þróunaraðstoð hefur skilað árangri. Hún hefur hvergi gert það. Hún er aðstoð án þróunar. Þær þjóðir, sem brotist hafa úr fátækt í bjargálnir, svo sem íbúar Hong Kong, Suður-Kóreu, Singapúrs og Taívans, hafa einbeitt sér að sköpun verðmæta í stað skiptingar þeirra, haldið uppi lögum og rétti, framleitt fyrir vestrænan markað, stillt álögum á og afskiptum af einkafyrirtækjum í hóf. Þar hefur orðið þróun án aðstoðar. Á Vesturlöndum starfar fjölmennur hópur að þróunarmálum, sem engu skilar. Hvar er barnið, sem segir, að keisarinn sé ekki í neinum fötum? Hvers vegna lætur orðræðugreinandinn spaki ekki í sér heyra?
Brellur Guðna
Ef Guðni Elísson er sérfræðingur í orðræðugreiningu, hvernig stendur þá á því, að hann beitir algengustu brellunum, sem varað er við í rökfræði fyrir byrjendur? Ein er rökleiðsla eftir manninum (argumentum ad hominum). Hún er í þremur þrepum: HHG setur fram fullyrðinguna y. HHG er landskunnur þrjótur. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Við blasir, að þriðju fullyrðinguna leiðir ekki af hinum tveimur. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hvert er innræti mannsins, sem setur hana fram. Önnur brella Guðna er náskyld. Hún er nefnd rökleiðsla eftir hagsmunum (argumentum ad hominem circumstantial). Hún er svofelld: HHG setur fram fullyrðinguna y. HHG hefur hag af því, að y sé sönn. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Þetta er rökvilla af sömu ástæðu. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hverjir eru hagsmunir mannsins, sem setur hana fram.
Tvær aðrar brellur Guðna eru sömu ættar. Eina kalla Englendingar guilt by association, en heimspekingurinn Leo Strauss nefndi hana reductio ad hitlerum. Hana mætti íslenska rökleiðslu eftir sálufélögum. Hún er á þessa leið: HHG setur fram fullyrðinguna y. Bandarískir hægri menn eru sálufélagar hans. Bandarískir hægri menn hafa ekki rétt fyrir sér um neitt. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Auðvitað er þetta líka rökvilla. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hverjir eru sammála þeim, sem setur hana fram. Grænmetisát verður ekki verra fyrir það, að Hitler hafi verið grænmetisæta. Fjórðu brelluna kalla Englendingar the bandwagon argument (argumentum ad populum). Hana mætti nefna rökleiðslu eftir fjölda. Hún er í fjórum liðum: HHG setur fram fullyrðinguna y. Fáir eru sammála honum. Flestir eru ósammála honum. Ergo: Fullyrðingin y er ósönn. Enn er á ferð villa. Það skiptir engu máli um sanngildi fullyrðingar, hversu margir taka undir hana. Mannkynbótafræðin (e. eugenics) varð ekki betri fyrir það, að á öndverðri tuttugustu öld lögðu margir vísindamenn trúnað á hana.
Fimmta brella orðræðusérfræðingsins er á ensku kennd við the straw man. Hún er fólgin í að ráðast ekki á hina raunverulegu skoðun manns, heldur gera honum upp aðra skoðun hæpnari og ráðast á hana. Eðlilegasta íslenska heitið á þessu er grýlubrellan. Guðni lætur eins og ég hafni kenningunni um hlýnun jarðar og líka hinni, að hún sé að einhverju leyti af mannavöldum. Það geri ég ekki. Ég skrifaði hér í Lesbókina 27. október: Sjálfur hallast ég helst að því, að eitthvað sé að hlýna á jörðinni og það geti að einhverju leyti verið af mannavöldum, en að allt of mikið hafi verið gert úr því, auk þess sem vart borgi sig að gera neitt við því. Við þessi orð stend ég. Óumdeilt er, að meðalhiti á jörðinni (að því marki sem það hugtak hefur merkingu) hefur síðustu hundrað ár hækkað um 0,7 stig á Celsius og að koltvísýringur í andrúmslofti hefur á sama tíma aukist um röskan þriðjung. Til er sennileg vísindaleg tilgáta um það, hvernig aukning koltvísýrings minnki hitatap frá jörðinni. Hugsanlega skýrir hún eitthvað af þessari hlýnun.
Ég held öðru fram: Margt annað en losun koltvísýrings út í andrúmsloftið hefur áhrif á hitastig á jörðu. Loftslagið er sífellt að breytast. Við vitum ekki, hversu stórir áhrifaþættirnir eru hver og einn og hver samleikur þeirra er, og því síður getum við haft teljandi áhrif á það. Það er enn eitt dæmið um það, sem Grikkir hinir fornu kölluðu hybris eða ofmetnað, að mennirnir geti stjórnað loftslaginu, fínstillt það eins og vél með því að þrýsta á hnappa í mælaborði. Marktækir útreikningar sýna, að það myndi breyta lífi okkar mannanna mjög til hins verra að banna eða torvelda notkun olíu eða kola sem orkugjafa, en litlu sem engu breyta um sjálft loftslagið. Við getum hins vegar brugðist við loftslagsbreytingum, alveg eins og við getum búið okkur undir vond veður með rammgerðum þökum og þéttum gluggum. Til þess þurfum við aðlögunarhæft og þjált hagkerfi.
Hin mikla afhjúpun
Aðlögunarhæft og þjált hagkerfi þarf að vera frjálst. Hér er komið að hinni miklu afhjúpun Guðna Elíssonar. Hann bendir sigri hrósandi á það, að ég efist um bráða vá vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum, þar eð ég sé hlynntur frjálsu hagkerfi og tortrygginn á aukin ríkisafskipti. Hann klifar á þessari uppgötvun sinni hér í blaðinu 10. nóvember. En hún er ekki merkilegri en svo, að ég hef gengist greiðlega við henni. Ég skrifaði til dæmis í fyrstu grein minni hér í ritdeilunni við Guðna: Andstæðingar vestræns kapítalisma, sem vaxið hefur upp og dafnað síðustu aldir, nota ætíð sams konar röksemdir: Þegar skip sekkur, hljóta menn að hraða sér út í björgunarbátana. Við lífsháska er enginn tími til að spyrja spurninga og því síður til að velja og hafna. Eitt afbrigði þessarar röksemdar, sem sumir sérfræðingar nota, er hrakspáin: Ef ekki er farið að ráðum sérfræðinganna og það strax, þá er voðinn vís.
Guðni ætlaði að afhjúpa mig og afhjúpaði í raun sjálfan sig. Við fyrstu sýn virðist hann aðeins kontóristi með stimpla: Leyfð skoðun! Bönnuð skoðun! Bush vondur! Gore góður! En í raun og veru er hann enn einn síðskeggjaði spámaðurinn úr Gamla testamentinu, sem stendur ellimóður uppi á steini og æpir á okkur, að við verðum að iðrast synda okkar og gera yfirbót, áður en það er of seint. Sögu þessa spámanns höfum við oft heyrt áður: Mennirnir eru vondir. Það, sem okkur finnst gott, getur ekki verið gott fyrir okkur. Við hljótum að hverfa aftur til náttúrunnar, hætta að hita upp húsin okkar, stökkva út úr bílunum og upp á hjólin. Annars ferst heimurinn. Það er sjálfsagt að hlusta kurteislega á þessa gömlu sögu, sem til er í ýmsum útgáfum, meðal annars í Völuspá og Kommúnistaávarpinu, en ef ég fæ einhverju ráðið um líf mitt á nýbyrjaðri öld, ætla ég að láta Guðna og hans líkum eftir að lifa á fjallagrösum og munnvatni og njóta sjálfur tækninnar, menningarinnar, nútímans, kapítalismans.
Lesbók Morgunblaðsins 15. desember 2007. (Ein myndin við þessa grein er af því, þegar fylgismenn kenningarinnar um bráða vá vegna hlýnunar jarðar köstuðu köku í Björn Lomborg, en hann var í Borders-bókabúðinni í Oxford að kynna bók sína, The Sceptical Environmentalist, sem komið hefur út á íslensku undir heitinu Hið sanna ástand heimsins. Þessir menn stunda sérstaka tegund orðræðu!)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.1.2008 kl. 12:10 | Facebook