Góður gestur á Íslandi

Í dag, fimmtudaginn 26. júlí, heldur Edward C. Prescott fyrirlestur á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í Þjóðminjasafninu kl. 16. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Prescott er einn virtasti hagfræðingur okkar daga og hlaut ásamt samstarfsmanni sínum, Finn Kydland, Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2004 fyrir rannsóknir á hagsveiflum. Prescott hefur líka látið til sín taka í umræðum um hagstjórn og þá jafnan talað fyrir lágum sköttum og frjálsum viðskiptum.

Ævi og störf

prescott_edward_172Edward C. Prescott fæddist í smábænum Glen Falls í New York-ríki 26. desember 1940. Faðir hans var verkfræðingur, en móðir hans bókavörður. Hann nam stærðfræði í Swarthmore-skóla, stýrifræði í Case Western Reserve-háskóla og hagfræði í Carnegie Mellon-háskóla, en þaðan lauk hann doktorsprófi 1967. Hann kenndi hagfræði í Pennsylvaníu-háskóla 1966-1971 og stundaði síðan kennslu og rannsóknir í Carnegie Mellon-háskóla 1971-1980. Hann gerðist ráðgjafi Seðlabankans í Minneapolis 1980 og hóf kennslu í Minnesota-háskóla, en þar starfaði hann með stuttum hléum til 2003. Ein ritgerð þeirra Prescotts og Kydlands frá 1977 er talin sígild, „Rules rather than Discretion: The Inconsistency of Optimal Plans“ (Reglur í stað geðþótta: Mótsagnakennd stefnumörkun). Þar sýna þeir fram á, að í stjórn peningamála verður að fylgja föstum reglum, sem almenningur getur treyst. Ef stefnunni er breytt, vextir til dæmis lækkaðir snögglega til að afstýra atvinnuleysi, þá missir seðlabankinn traust til langs tíma og jafnvægi raskast.

Önnur fræg ritgerð þeirra Prescotts og Kydlands birtist 1982, „Time to Build and Aggregate Fluctuations“ (Tími til að setja saman og leggja saman sveiflur). Þar rekja þeir saman annars vegar viðbrögð hinna einstöku eininga atvinnulífsins við snöggum breytingum, til dæmis á tækni eða vöruframboði, og hins vegar hagsveiflur, sem valdið geta tímabundnum truflunum í langtímaþróun hagkerfisins. Nota þeir til þess flóknar tölfræðilegar aðferðir. Óhætt er að segja, að þessi ritgerð hafi átt mestan þátt í því, að þeir fengu Nóbelsverðlaunin, og fullyrða sumir, að hún hafi valdið straumhvörfum í þjóðhagfræði. Prescott hefur verið prófessor í Ríkisháskólanum í Arizona frá 2003. Hann hefur einnig verið ritstjóri tímaritsins International Economic Review og félagi í Brookings-stofnuninni í Washington-borg og Guggenheim-sjóðnum. Prescott er kvæntur Janet Dale Simpson, og eiga þau tvo syni og eina dóttur.

Lágir skattar

Prescott hefur gefið því sérstakan gaum, hvers vegna Bandaríkjamenn vinna meira en Evrópubúar (og framleiða því meira, en landsframleiðsla á mann er talsvert meiri í Bandaríkjunum en flestum Evrópuríkjum). Til dæmis vinnur hver Bandaríkjamaður á aldrinum 15-64 ára um 50% meira en hver Frakki. Prescott kveður skýringuna ekki þá, að Frakkar séu síður vinnusamir en Bandaríkjamenn, taki tómstundir frekar fram yfir vinnu, og ekki heldur, að atvinnuleysisbætur séu hærri í Frakklandi. Skatthlutfallið skipti langmestu máli. Því hærri sem skattar séu á hverja viðbótarvinnustund, því minna vilji menn vinna, og öfugt. Prescott styður þessa niðurstöðu viðamiklum tölulegum gögnum. Til dæmis unnu Frakkar jafnmikið og Bandaríkjamenn 1970-1974, en eftir því sem skattar hækkuðu á hverja vinnustund, dró úr vinnu Frakka. Hið sama er að segja um aðrar Evrópuþjóðir. Prescott segir, að menn vinni alls staðar svipað, þegar skatthlutföll séu svipuð. Úrslitum ráði, hvort það borgi sig að vinna. Gögn hans sýni, að þetta gildi ekki aðeins um Bandaríkin og Evrópu, heldur um allan heim, til dæmis í Chile og Japan.

Þegar skattar hækka, minnka menn við sig vinnu, sem eru launuð og skattlögð, en bæta stundum við sig á móti óskattlagðri vinnu, ýmist löglegri eða ólöglegri. Norðurlandabúar annast til dæmis frekar viðhald á húsum sínum og kaupa sjaldnar máltíðir í veitingahúsum en Bandaríkjamenn. Ítalir hafa hörfað undan háum sköttum í umfangsmikið neðanjarðarhagkerfi, og þegar ítölsk yfirvöld birta tölur um landsframleiðslu, þurfa þau þess vegna að bæta við um 25%. Prescott segir, að skynsamlegt sé að lækka skatta varanlega, jafnvel þótt það kosti hallarekstur ríkissjóðs í einhvern tíma, því að þá sé verið að búa í haginn fyrir framtíðina. Skattalækkanir séu öllum til góðs, ekki aðeins hinum ríku. Þeir, sem mælist tekjuháir, séu oft hjón með góða menntun, sem vinni mikið. Ef þau eru skattlögð harkalega, þá hættir annað þeirra að vinna, og landsframleiðslan dregst saman, en um leið minnka skatttekjur. Prescott brýnir fyrir okkur, að hópur hinna ríku er ekki óbreytanlegur. Stundum skjótast menn upp á listann um auðmenn í eitt ár og ekki lengur. Þegar maður selur til dæmis fyrirtæki, sem hann hefur stofnað og starfað við lengi, er hann að leysa til sín fé, sem hann hefur smám saman safnað með fyrirhöfn sinni og jafnvel fórn. 

Frjáls viðskipti

Prescott tekur fjölda dæma um vel heppnaðar skattalækkanir, til dæmis undir forystu Ronalds Reagans í Bandaríkjunum 1986 og Jósefs Maríu Aznars á Spáni 1998. Skattþrepum var fækkað og skattar lækkaðir. Afleiðingin varð vöxtur atvinnulífsins, og við það jukust skatttekjur ríkisins þrátt fyrir skattalækkanirnar. Spánverjar unnu meira við lægri skatta. Árin 1993-1996 skilaði hver fullorðinn og vinnufær Spánverji að meðaltali 16,5 vinnustundum á viku, en árin 2000-2003 jókst framlag þeirra að meðaltali í 20 vinnustundir á viku. Prescott þreytist ekki á að benda á, að vinnuframlag er breytilegt og mjög háð sköttum. Hagstjórn snýst ekki um þjóðir, heldur lifandi einstaklinga, sem bregðast við umbun og kostnaði. Frá því á miðjum áttunda áratug síðustu aldar og fram á miðjan tíunda áratug hækkuðu skattar á hverja viðbótarvinnustund í Evrópu úr um 40% í um 60%. Þetta hafði í för með sér, að vinnuframlagið dróst saman um allt að þriðjungi. Prescott telur, að aðrar Evrópuþjóðir muni á næstunni fari að dæmi Spánverja og lækka skatta. Þær eigi ekki annarra kosta völ.

Prescott er eindreginn stuðningsmaður frjálsra viðskipta. Hann segir, að hagfræðingar séu stundum í því lítt öfundsverða hlutverki að þurfa að skýra út, hvers vegna ríkið eigi ekki að hlaupa undir bagga með fyrirtækjum, sem illa gangi í alþjóðlegri samkeppni. Einn aðalkosturinn við Evrópusambandið sé, að þar hafi myndast opinn markaður, þar sem fyrirtæki sæti samkeppni frá öllum aðildarlöndunum. Hið sama gerðist í Bandaríkjunum á átjándu og nítjándu öld: Þau urðu að einum markaði, þar sem samkeppni var hörð, þótt Bandaríkin þá og Evrópusambandið nú mættu vissulega vera hlynntari samkeppni frá löndum utan þessara heilda. Prescott nefnir einnig þau fimm lönd Suðaustur-Asíu, sem stunda frjáls alþjóðaviðskipti af mestu kappi, Japan, Suður-Kóreu, Taívan, Hong Kong og Singapore. Hins vegar hafa ýmis ríki Rómönsku Ameríku fylgt styrkja- og verndarstefnu. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa, eins og Prescott bendir á. Árið 1950 var landsframleiðsla á mann að meðaltali 75% hærri í Rómönsku Ameríku en Asíu. En næstu hálfa öldina jókst landsframleiðsla á mann í Asíu í samanburði við Bandaríkin um 244%, en í Rómönsku Ameríku dróst hún saman um 21%.

Erindi Prescotts

Síðustu sextán ár hafa skattar verið lækkaðir stórkostlega á Íslandi, til dæmis tekjuskattur fyrirtækja úr 45% í 18% og tekjuskattur einstaklinga (ríkishluturinn) úr 31% í 22%. Samt hafa skatttekjur ríkisins stóraukist, eins og Prescott myndi hafa sagt fyrir um. Jafnframt hefur íslenska hagkerfið opnast og viðskipti við aðrar þjóðir orðið miklu frjálsari. Hefur vöxtur atvinnulífsins verið mjög ör fyrir vikið. Fróðlegt verður að heyra, hvaða stefnu Prescott ráðleggur okkur að taka inn í framtíðina.

Morgunblaðið 26. júlí 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband