Samnýtingarbölið: Fílar

afri_769_kufi_769_ll.jpgÉg birti grein í 15. tbl. 29. árgangs Vísbendingar 18. apríl 2011, 2. bls., undir heitinu „Samnýtingarbölið: Fílar“. Fyrra orðið er þýðing mín á heiti frægrar greinar eftir bandaríska umhverfisfræðinginn Garrett Hardin í Science 1968, „The Tragedy of the Commons“ á ensku. Þar útskýrir Hardin þann vanda, sem hlýst af því, þegar margir nýta saman einhver gæði. Þá er hætt við því, að einhver freistist til að ofnýta gæðin, því að hann hirðir einn gróðann, en kostnaðurinn skiptist á alla.

Eitt dæmi um þetta er bithagar íslenskra bænda á fjöllum, í almenningum, sem kallað var að fornu. Til að koma í veg fyrir samnýtingarbölið (að einhver bóndinn ræki fleira fé á fjall en eðlilegt var) tóku bændur upp ítölu, sem var ekkert annað en kvóti á hverja jörð: Hver bóndi mátti aðeins „telja í“ almenninginn tiltekna tölu fjár. Hefur dr. Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor skrifað um þetta athyglisverða ritgerð í virt erlent tímarit.

Í greininni í Vísbendingu beiti ég þessari greiningu hins vegar á fílahjarðir á gresjum Afríku og velti fyrir mér, hvort muni duga betur til þess að vernda fílastofna, viðskipti eða veiðibann. Hvort skyldu íbúar á slóðum fílanna verða líklegri til að vernda þá, ef þeir fá að selja skotleyfi á takmarkaða tölu þeirra og hirða af þeim fílabeinið og selja, eða ef þeim er bannað með öllu að hafa nytjar af fílunum?

Hugi Ólafsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, hefur rétt fyrir sér um það, sem gerist, ef leið viðskiptanna er tekin fram yfir lítt framkvæmanlegt veiðibann. „Með þessu skapast eignarréttur yfir fílum og innfæddir sjá sér hag í að viðhalda stofninum og berjast gegn veiðiþjófum,“ skrifaði hann í Náttúrufræðinginn 1997.

Samnýtingarbölið er einn anginn af hinu stóra almenna verkefni, sem af því hlýst, að menn vinna við sumar leikreglur gegn almannahag, en við aðrar leikreglur að almannahag. Hvernig getum við breytt veiðiþjófum í veiðiverði með einu pennastriki? Svar mitt um fílana er í frumdráttum í Vísbendingu, en ég fæ vonandi tækifæri til að færa frekari rök fyrir því annars staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband