3.1.2010 | 10:15
Athugasemd við útvarpspistil
Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari Spegils Ríkisútvarpsins (Hljóðviljans) í Lundúnum, var sæmd titlinum fréttamaður ársins 2009 um áramótin. Pistlar hennar eru vel samdir og vel unnir. En því miður verð ég að gera efnislega athugasemd við síðasta pistil hennar, sem heitir Hrunasagan í stuttu máli. Sigrún segir: Rannsóknir Stefáns Ólafssonar sýna stóraukinn tekjumismun á undanförnum árum. Það er rétt, að Ríkisútvarpið hefur haldið þessu fram síðustu árin, og hefur Gísli Freyr Valdórsson gert því góð skil í greininni Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um ójöfnuð, sem birtist í 4. hefti 3. árg. tímaritsins Þjóðmála, 35.42. bls.
Sannleikur málsins er hins vegar annar. Stefán Ólafsson skrifaði nokkrar greinar í blöð í árslok 2006 og á útmánuðum 2007, þar sem hann hélt því fram, að tekjuskipting á Íslandi væri orðin miklu ójafnari en á Norðurlöndum. Hún væri orðin svipuð og jafnvel ójafnari en á Bretlandi og Írlandi. Bar hann fyrir sig Gini-stuðla fyrir árið 2004, sem embætti ríkisskattstjóra hefði reiknað út fyrir sig, en þeir eru algengur fræðilegur mælikvarði á ójafna tekjuskiptingu.
Þegar grennslast var fyrir um málið, hafði embætti ríkisskattstjóra ekki reiknað neina slíka stuðla út fyrir Stefán Ólafsson. Enginn þar kannaðist við málið. Einnig birtist 1. febrúar 2007 ný og rækileg könnun hagstofu Evrópusambandsins um fátækt og útskúfun í Evrópulöndum, og hafði hagstofa Íslands lagt til íslensku gögnin. Þar kom fram, að tekjuskipting á Íslandi var 2004 mjög svipuð því, sem gerðist annars staðar á Norðurlöndum.
Í ljós kom, að Stefán (eða sá, sem hafði reiknað út fyrir hann Gini-stuðla) hafði borið saman ósambærilegar tölur frá Íslandi annars vegar og öðrum Evrópulöndum hins vegar. Í tölunni um Ísland hafði verið reiknað með söluhagnaði af hlutabréfum, en í tölunum um önnur lönd ekki. Þetta skekkti samanburðinn, svo að tekjuskiptingin virtist miklu ójafnari á Íslandi 2004 en annars staðar í Evrópu án þess að vera það. Hagstofa Evrópusambandsins hafði hins vegar notað sambærilegar og staðlaðar tölur. Undir venjulegum kringumstæðum hefði þetta verið talið hneyksli í vísindaheiminum íslenska. En Ríkisútvarpið sinnti þessu í engu, heldur hélt ótrautt áfram að flytja áróður Stefáns og lagsbræðra hans. Því miður hefur Sigrún Davíðsdóttir því látið blekkjast, eins og margir aðrir.
Hitt er annað mál, að sennilega hefur tekjuskipting á Íslandi orðið talsvert ójafnari eftir 2004. Þá fór margt úrskeiðis, og hinum stórkostlegu umbótum áranna 19912004 var spillt. Jafnvægið raskaðist, og auðjöfrarnir náðu með fulltingi forsetans, fjölmiðlanna, dómstólanna og Samfylkingarinnar (og vissulega sumra sjálfstæðis- og framsóknarmanna) völdum á Íslandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook