Hvar er Guðni Elísson?

big-gunielsson_jpg_340x600_q95.jpgFyrir nokkrum misserum lenti ég í ritdeilu við Guðna Elísson bókmenntafræðing. Ég taldi, að hættan af hlýnun jarðar af manna völdum væri orðum aukin. Vissulega hefði jörðin hlýnað síðustu hundrað árin, og eflaust mætti rekja eitthvað af því til losunar svokallaðra gróðurhúsaáhrifa. En margt annað ylli loftslagsbreytingum, svo sem virkni sólar og straumar hafsins (sem þekur sjö tíundu hluta jarðar). Skynsamlegra væri að laga sig að loftslagsbreytingum en reyna að breyta þeim. Það væri stórkostlegt ofmat á mætti mannsins, sem gæti ekki einu sinni spáð rétt fyrir um veðrið á morgun, að treysta honum til að stjórna loftslaginu.

Guðni Elísson svaraði hróðugur, að hann væri sérfræðingur í orðræðugreiningu. Síðan gerði hann allar þær rökvillur, sem ég var varaður við í heimspekinámi forðum. Ein var, að hann hlyti að hafa rétt fyrir sér, af því að allir málsmetandi menn væru sömu skoðunar og hann. Þetta er „argumentum ad populum“ eða rökleiðsla eftir fjölda. Önnur var, að ég hlyti að hafa rangt fyrir mér, af því að ég væri „málpípa ráðandi afla“. Þetta er „argumentum ad hominum circumstantial“ eða rökleiðsla eftir hagsmunum. En ekkert leiðir um gildi staðhæfinga minna af þessum athugasemdum. Og svo framvegis. Í raun og veru svaraði Guðni mér ekki, heldur stimplaði mig.

Nú hefur hinn hróðugi orðræðugreinandi hins vegar fengið verðugt verkefni. Nýlega var laumað í fjölmiðla tölvupósti starfsmanna rannsóknarstofnunar í loftslagsfræðum, Climatic Research Unit, við Háskólann í East Anglia. Af honum sést, að þessir menn lögðu á ráðin um ýmsar talnabrellur til að villa um fyrir almenningi. Þeir reyndu einnig að koma í veg fyrir, að þeir vísindamenn, sem væru ósammála þeim um hættuna af hlýnun jarðar, fengju ritgerðir sínar birtar í virtum vísindatímaritum. Í stuttu máli sagt reyndu þeir eins og þeir gátu að stjórna orðræðunni með ýmsum brellum og brögðum. Þetta virðist vera eitthvert mesta hneyksli í sögu vísindanna. Hvar er Guðni Elísson?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband