29.10.2009 | 15:01
Bjarni Ben. góður
Bjarni Benediktsson hélt vel á málstað Íslendinga á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann minnti á, að oft væri á tyllidögum talað um frændskap og vináttu annarra norrænna þjóða við okkur. En þegar á reyndi, stóðu þær hjá í hvirfilbylnum, sem skall á Íslandi. Þá komu þær ekki til aðstoðar Íslendinga án þeirra skilyrða, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti. Og eitt skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virtist vera (þótt aldrei fullreyndi á það), að Íslendingar gæfust upp fyrir Bretum, sem kröfðust þess, að íslenskur almenningur greiddi skuldir vegna einkaviðskipta manna erlendis. Fullkominn vafi lék á hinni lagalegu skuldbindingu til slíkra greiðslna, eins og okkar virtustu fræðimenn hafa bent á, en Bretar vildu ekki einu sinni leyfa Íslendingum að bera slíkan vafa undir dómstóla. Þetta létu Norðurlandaþjóðirnar óátalið, og yfir þetta lagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blessun sína. Þessir aðilar brugðust Íslendingum, eins og Bjarni benti á. En því miður hafa ráðamenn okkar, Jóhanna og Steingrímur, einnig brugðist, þótt sennilega sé það ekki af illum hug, heldur af reynsluleysi, ótta við einhverjar óskilgreindar afleiðingar af því að láta ekki undan Bretum og von um að þurfa aldrei að standa við þær skuldbindingar, sem þeir hafa lagt á Íslendinga. En þessir óheillamenn hafa riðið komandi kynslóðum þungan skuldabagga. Því miður tóku Jóhanna og Steingrímur ekki málstað Íslendinga upp á Norðurlandaráðsþinginu ólíkt Bjarna Benediktssyni. Og um þá, sem gera nú hróp að Bjarna heima fyrir, má segja: Þeir eru aðeins alþjóðasinnar í þeim skilningi, að þeir eru vinveittir öllum öðrum þjóðum en sinni eigin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook