Bréf til stjórnar Sagnfræðingafélagsins 20. ágúst 2009

1201615399.jpgÁgæta stjórn,
 
þið auglýstuð í sumar eftir hugmyndum um erindi í fundaröð Sagnfræðingafélagsins um efnið: „Hvað er kreppa?“ nú á vetri komanda. Ljóst var af umræðum á Netinu um val fundarefnisins, að ekki var síst haft í huga bankahrunið íslenska haustið 2008. Ég tek eftir því, að margir hafa dregið mitt nafn inn í umræður um hrunið. Einn þeirra er Páll Björnsson, sem lengi var ritstjóri Sögu. Hann sagði í pistli, sem hann sendi inn á Gammabrekku, umræðusvæði sagnfræðinga, 26. janúar 2009:
 
Þar að auki mun þurfa að setja fram margar hlutaskýringar sem beinast að ýmsum meðvirkandi þáttum. Einn af þeim er hlutur fræðimanna. Ég þykist vita að fjölmargir Gammabrekkungar hafi kynnt sér eftirfarandi orð (sjá http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/587992/ og http://vefmidlar.visir.is/sources/4b8342d2-6d57-4144-8b62-3d3067588513.asx). … Örugglega má finna dæmi um (marga?) aðra fræðimenn sem talað hafa á svipuðum nótum. Samtekt og greining á þeirra orðum verður fróðleg. Það var auðvitað nauðsynlegt að hið opinbera skipaði rannsóknarnefnd, en mikilvægast er þó að fræðimenn, vonandi margir sagnfræðingar, eigi eftir að vera áberandi í öguðum rökræðum um þessi mál á næstunni.

einar-mar-gudmundsson.jpgÞessir tveir hlekkir Páls Björnssonar voru á greinar og viðtöl við mig. Margir fleiri hafa látið þá skoðun í ljós opinberlega, að ég eigi einhverja aðild að bankahruninu, beina eða óbeina, meðal annars Einar Már Guðmundsson, sem nýlega hefur gefið út greinasafn um málið. Þá má nefna Einar Má Jónsson, sem skrifaði í Fréttablaðið 19. ágúst, að ábyrgðin á bankahruninu lægi ekki síst hjá hugmyndasmiðum frjálshyggjunnar. Ótal önnur sambærileg dæmi má nefna allt frá haustinu 2008 til dagsins í dag.

Í ljósi allra þessara sjónarmiða taldi ég siðferðilega skyldu mína, hvort sem ljúft væri eða leitt, að gera grein fyrir því, hvernig ég lít á bankahrunið íslenska. Mitt sjónarhorn skipti máli, hvort sem það væri rétt eða ekki. Þess vegna sendi ég ykkur hugmynd um erindi, og var útdrátturinn svohljóðandi:

Hverju breyta kreppur um stjórnmálaviðhorf?
Í erindinu verður rætt um heimskreppuna, sem hófst 1929, og lánsfjárkreppuna, sem enn stendur og hófst 2007. Spurt verður, hvernig fólk skýrði þessar kreppur og hvaða áhrif þær höfðu á stjórnmálaskoðanir þess. Í fyrra dæminu er svarið tiltölulega ljóst. Hugmyndin um sjálfstýrt hagkerfi beið mikinn hnekki, og áætlunarbúskapur var víða tekinn upp, misjafnlega mikill. Kommúnismi og fasismi efldust. Í seinna dæminu er erfiðara að svara spurningunum, enda sú kreppa nálægt okkur í sögu og enn geisandi, en sá munur er á, að kommúnismi þykir ekki eins fýsilegur kostur 2007 og hann var mörgum 1929. Er þess vegna líklegt, að einhvers konar fasismi eflist við núverandi lánsfjárkreppu? Er hún kreppa lausbeislaðs kapítalisma eins og margir halda fram eða til marks um misviturleg ríkisafskipti? Eða hvort tveggja og þá aðallega vitnisburður um takmarkaða möguleika mannsandans á að stjórna rás viðburða?


Í bréfi frá formanni Sagnfræðingafélagsins til mín, dags. 10. ágúst, kemur hins vegar fram, að stjórn félagsins hefur hafnað tilboði mínu um erindi, jafnframt því sem tilboðum ýmissa annarra (fimm manns, að því er mér skildist) um erindi um þetta efni hefur verið tekið.

Ég er í aðra röndina feginn, en um leið þykir mér þetta miður í ljósi þess, sem þegar hefur verið stuttlega rakið, að háværar kröfur hafa verið gerðar um það af sagnfræðingum og öðrum, að ég skýri sjónarmið mín um bankahrunið, svo að ég taldi mér beinlínis skylt að gera það eftir bestu samvisku. En var hugsunin þá sú, að ég mætti ekki tala úr ræðustól, heldur aðeins af sakamannabekk? Þess má síðan geta, að erlend stórblöð eins og Wall Street Journal hafa fengið mig til að skrifa greinar um bankahrunið, og hafa stofnanir í Bandaríkjunum jafnframt beðið mig um að skrifa bók á ensku um það, og hef ég þegar gert samning við eina þeirra um slíkt rit, þótt ég ætli ekki að birta það fyrr en niðurstöður rannsóknanefnda um hrunið liggja fyrir. Þessir erlendu aðilar hafa eflaust ekki frétt neitt af Sagnfræðingafélagi Íslands.
 
Bestu kveðjur,
Hannes Hólmsteinn Gissurarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband