Erum við réttlaus gagnvart bloggurum?

arni_w125px.gifÁrni Snævarr, sagnfræðingur og blaðamaður, bloggar um kvöld og nætur á eyjan.is. Hann helgaði mér pistil 20. apríl 2009. Þar sagði hann meðal annars:

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn umtalaðasti "sérfræðingur" þjóðarinnar í Halldóri Laxness heldur því líka fram að jörðin sé ekki að hlýna og raunar væri það bara gaman að geta stundað sjóböð á íslenskum ströndum þótt svo kynni að fara að aðrir jarðarbúar stiknuðu. Ekki er vitað hvort prófessorinn telur líka að jörðin sé flöt, en það skal ekki útilokað.

Margt annað var missagt í pistlinum, og leiðréttu sumir það ágætlega í athugasemdunum. Ég gerði aðeins eina athugasemd. Hvar átti ég að hafa sagt, að jörðin væri ekki að hlýna? Árni svaraði mér ekki, og hann breytti ekki færslu sinni.

Ég hef margoft vikið að hlýnun jarðar opinberlega. Til dæmis sagði ég í grein í Fréttablaðinu 18. apríl 2008:

Sjálfur efast ég ekki um þær niðurstöður vísindaheimsins, að jörðin hafi hlýnað um tæpt eitt stig síðustu 100 árin, að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aukist um 30% á sama tímabili og að eitthvert samband sé á milli þessa. En heimsendir er ekki í nánd. Þegar sannleikurinn missir stjórn á sér, verður hann að ýkjum. Á það ekki við um boðskap Als Gores? Aðalatriðið er, hvað skynsamlegast er að gera. Það er háskalegur misskilningur, að við getum stjórnað veðurfari. Við mennirnir búum hins vegar yfir mikilli aðlögunarhæfni. Þess vegna eigum við að laga okkur að nýjum aðstæðum, ekki gerbreyta lífsháttum okkar eða reyna að endurskapa heiminn.

Ég sagði í ritdeilu við Guðna Elísson í Lesbók Morgunblaðins 18. desember 2007:

Ég hafði bent á fyrri loftslagsbreytingar, hlýnun og kólnun á víxl. Guðni viðurkennir, að þær breytingar hafi ekki verið af mannavöldum. En leita þurfi að minnsta kosti 1200 ár aftur í tímann til að finna jafnmikla hlýnun og nú. Hætta sé því á ferð. Ég er hér ekki sannfærður eins og Guðni. Jafnvel þótt hlýnunin nú sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann vel að vera), sé ekki af henni bráð vá.

 Eitt tilefnið til deilu okkar Guðna var grein í Lesbók Morgunblaðsins 27. október 2007, þar sem ég sagði: „Sjálfur hallast ég helst að því, að eitthvað sé að hlýna á jörðinni og það geti að einhverju leyti verið af mannavöldum, en að allt of mikið hafi verið gert úr því, auk þess sem vart borgi sig að gera neitt við því.“

Það er auðvitað ekkert stórmál, hvað Árni Snævarr bloggar á kvöldin og næturnar. En hann er þó aðsópsmikill í umræðum og einn af föstum höfundum á eyjan.is. Það er þess vegna meira mark á honum tekið en nafnleysingjum, sem hella úr skálum reiði sinnar á Netinu. Enn spyr ég: Hvaða úrræði hef ég? Geta bloggarar endalaust rangfært það, sem ég segi, og hunsað leiðréttingar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband