Tilraun til leiðréttingar

karlth.jpgFyrir skömmu sendi Karl Th. Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, pistil ótilkvaddur á amx.is. Þar sagði meðal annars:

Árum saman fullyrti Hannes Hólmsteinn Gissurarson við hvern sem heyra vildi, að Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega. Þetta löptu alls kyns lærisveinar upp eftir meistara sínum og þessi þvæla varð að einhvers konar möntru íhaldsmanna í kosningabaráttunni 2003. Þessu trúðu margir og trúa kannske sumir enn. Það er jafnvel hugsanlegt að Hannes hafi trúað bullinu í sér sjálfur. Ég vissi betur sem framkvæmdastjóri flokksins á árunum 2002-2005. Við fengum ekki krónu frá Baugi, hvorki helvízkar né öðruvísi. Í greininni minni litlu (herdubreid.is/?p=394) rifjaði ég þetta einfaldlega upp, að gefnu rækilegu tilefni. Ég hélt að vísu viðbrögðin yrðu önnur. Mér finnst nefnilega liggja beint við að spyrja Hannes Hólmstein af hverju hann gekk um í öll þessi ár, þvaðrandi og skrökvandi um hluti sem hann vissi ekkert um -- og hvort þetta sé ekki áreiðanlega eina dæmið um slíkt. Ég er þess fullviss að DV og smáfuglarnir leita svara við því.

Ég sendi Karli Th. Birgissyni tölvuskeyti af þessu tilefni 10. júní 2009:

Mér er ljúft og skylt að svara spurningu þinni. En gæti ég fengið upplýsingar um það, hvar ég á að hafa haldið þessu fram (að Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega)? Ég vildi gjarnan fá svar innan tíu daga, ella hlýt ég að líta svo á, að þú getir ekki fundið orðum þínum stað. Til hægðarauka sendi ég lögmanni mínum afrit af þessu skeyti.

Karl Th. Birgisson svaraði daginn eftir, 11. júní 2009:

Hafðu þakkir fyrir bréfið, með svona líka fallegum gæsalöppum. Ég verð því miður að valda þér vonbrigðum. Það er margra manna verk að safna saman lygaþvælu þinni um Samfylkinguna og Baug, svo ekki sé fleira nefnt til sögu. Hitt þykir mér verra, ef þú manst svo illa þín eigin ummæli og skrif, þó þetta nýleg. Er ekki nokkuð alvörumál fyrir virðulegan háskólaprófessor að þannig sé fyrir honum komið?

Ég svaraði samdægurs:

Kæri Karl, ef ég hef sagt þetta svo oft og svo víða sem þú segir, þá getur ekki verið neitt mál fyrir þig að benda mér að minnsta kosti á eitt dæmi. Ég vil gjarnan, að þú gerir það.

Karl svaraði að bragði:

Langt síðan ég hef eignazt pennavin. Ég get samt ekki litið á það sem hlutverk mitt að uppfylla óskir þínar og langanir. Flestir fræðimenn sem ég þekki halda nokkuð nákvæmar skrár um það sem þeir segja og gera á opinberum vettvangi. Nema náttúrlega þeir vilji ekki kannast við þau, sem er sjaldgæft. Ég þekki að vísu ekki til aðstæðna hjá þér.

Ég skrifaði Karli aftur tölvuskeyti 15. júní 2009:

Kæri Karl, ég hef engan áhuga á að íþyngja þér með óskum mínum og löngunum, enda beinast þær ekki beinlínis að þér. En í ljósi þess, að þú fullyrðir ýmislegt um mig og mín skrif, hlýt ég að hafa rétt á því að biðja þig um dæmi. Mig rekur ekki minni til þess að hafa fullyrt, að „Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega“, eins og þú hefur eftir mér. Ég veit ekki til þess, að ég hafi sagt neitt í líkingu við þetta. Hvers vegna vilt þú ekki benda mér á dæmi um þetta, ef ég hef gert þetta? Ég vil gjarnan gefa þér kost á því að finna þessum ummælum þínum einhvern stað, ef þú getur, því að ég get það ekki sjálfur. Ef ekki, og þetta reynast vera hugarórar þínir og uppspuni, þá að biðjast afsökunar í góðu.

Karl svaraði sama dag:

Ósköp ertu elskulegur, Hannes. Og gaman að fá frá þér öll þessi bréf. En ólíkt því sem þú kynnir að halda -- og það þótt ég sé einlægur aðdáandi þinn -- þá hef ég ekki dundað við það síðustu áratugi að klippa út úr blöðunum það sem þú hefur látið frá þér fara um mann og annan. Áhugann hef ég vitaskuld ærinn, en tíminn hefur einhvern veginn ekki náð að tengja sig við okkur tvo. Forláttu þótt ég segi það: Í eigingirni minni tími ég ekki að eyða dýrmætum sumardögum á Landsbókasafninu í þessa annars ágætu hugmynd þína, að fletta þér upp í lesefni landsmanna. Ég hygg raunar að fleiri en lesa og heyra vildu hafi orðið vitni að málflutningi þínum um Samfylkinguna og Baug á umræddum árum. Og skil vel af hverju þú kýst að gleyma því öllu sem rækilegast og það hratt. Hitt hlýtur þér líka að vera ljóst, að ég get ekki beðið þig afsökunar á þínum eigin heilagraut, hvorki í góðu né illu. En það er óvænt ánægja að fá svona skemmtileg bréf. Þau eru fágæt í nútíðinni. Hlakka til að heyra frá þér aftur.

 

pic.jpgÍ ritnefnd tímaritsins Herðubreiðar, þar sem ásakanir Karls birtust fyrst, sitja nokkrir menn. Ég sneri mér til þeirra í því skyni að koma leiðréttingu minni á framfæri. Einn þeirra var Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, en hann hefur tekið að sér í vikulegum pistlum árum saman að siðbæta þjóðina, svo að ég hélt, að hann væri ekki fráhverfur því að siðbæta sjálfan sig. Ég sendi honum eftirfarandi tölvuskeyti 23. júní:

Kæri Guðmundur Andri, þú situr í ritnefnd veftímaritsins Herðubreiðar. Þar birtist pistill, merktur ritstjóra tímaritsins, Karli Th. Birgissyni, undir heitinu „Leiguþý og baugsdindlar II“ 21. mars 2009, þar sem sagði: „Hannes Hólmsteinn sérhæfði sig í því í nokkur misseri að halda því fram að Baugur héldi Samfylkingunni uppi fjárhagslega.“ Ljóst er af samhenginu, að hann á við þau ár, er hann var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, sem mun hafa verið 2002-2005. Ég kannast ekki við að hafa haldið þessu fram, hvorki þá né fyrr né síðar, og er það mál alveg óskylt því, sem nýlega hefur komið fram um fjárhagsleg tengsl Baugs og Samfylkingarinnar. Þar sem ég fann ekkert í fórum mínum um þetta, en gat auðvitað ekki treyst minni mínu að fullu, sendi ég Karli skeyti og bað hann að benda mér á þá staði, þar sem ég hefði haft þessi ummæli. Hann hefur svarað skætingi einum, sem hann hefur raunar birt á Herðubreið, en ekki bent á nein dæmi. Nú skora ég á þig og aðra ritnefndarmenn, sem berið auðvitað einhverja ábyrgð með ritstjóranum í krafti stöðu ykkar sem ritnefndarmanna og sem hljótið líka að vilja hafa það, sem sannara reynist, að leggja að ritstjóranum annaðhvort að finna orðum sínum stað eða leiðrétta þau á sama stað og þau birtust. Mér finnst eðlilegt að reyna til þrautar að  ljúka þessu í góðu, en ég veit, að þið ritnefndarmennirnir eruð sammála mér um það, að menn hljóta að eiga siðferðilegan og lagalegan rétt á því, að ekki sé vísvitandi sagt ósatt um þá, og megi leita þess réttar síns. Ég hygg líka, að þið séuð sammála mér um, að ritstjórar og ritnefndarmenn hljóti að bera einhverja ábyrgð á orðum, sem birtast í tímaritum þeirra, jafnvel þótt þau séu veftímarit.

Guðmundur Andri svaraði stuttaralega sama dag:

Þið verðið að útkljá ykkar deilur án mín. Þær eru mér með öllu óskiljanlegar.

Ég svaraði honum samdægurs:

Kæri Guðmundur Andri, málið er einfalt. Þú ert ritnefndarmaður í Herðubreið. Með því lýsir þú yfir almennum stuðningi við tímaritið, en auðvitað ekki við allt, sem í því birtist, enda ætlast enginn til þess. Í þessu tímariti birtist fullyrðing um mig eftir ritstjórann, sett fram í árásarskyni. Ég bið hann að finna þessari fullyrðingu sinni stað. Hann svarar skætingi einum og neitar að gera þetta. Er ekki eðlilegt, að ritnefndarmaðurinn hlutist til um, að ritstjórinn finni annaðhvort fullyrðingu sinni stað eða leiðrétti hana? Er það eitthvað óskiljanlegt? Ég tel, að það sé í senn skiljanlegt og eðlilegt. Maður með sómatilfinningu eins og þú á að hlutast til um í tímariti, sem hann er í ritnefnd hjá, að haft sé það, sem sannara reynist. Ég ætla að reyna til þrautar að leysa þetta mál í góðu, enda er það í hag tímaritinu Herðubreið.

Guðmundur Andri svaraði mér að bragði:

Ég skil ekki hvers vegna þú neitar því svo ákaft að hafa haldið fram fjárhagslegum tengslum Samfylkingar og Baugs. Sú bjargfasta skoðun þín var á allra vitorði - ég hélt raunar að þú værir stoltur af henni. Má vera að þú hafir látið þér nægja opinberlega að dylgja um þetta eða eftirláta lærisveinum að halda því fram. Ég bara veit það ekki og læt mér það raunar í léttu rúmi liggja. Ég skil ekki æsing þinn yfir því að Karl skuli hafa haft orð á þessu. Og standirðu í þeirri trú að ummæli Karls hafi á einhvern máta breytt einhverju um mannorð þitt þá held ég að ég geti næstum fullyrt að það er misskilningur. Séu þessi orð Karls röng - geturðu ekki bara leiðrétt þau? Satt að segja lít ég ekki svo á að ritnefndarsetu minni í Herðubreið fylgi boðvald yfir Karli Th Birgissyni. Ég get [ekki] með nokkru móti farið að segja honum fyrir verkum. Hann myndi fyrir það fyrsta aldrei hlýða mér - ekki frekar en hann hlýðir þér. Karl er alveg sérlega óhlýðinn og mér liggur við að segja baldinn einstaklingur. Sem er einmitt sá eiginleiki í fari hans sem mér þykir ágætastur. Alls konar fólk er að klaga hann fyrir mér, ýmis misjafnlega glannaleg skrif hans  sem mér koma ekkert við og er oftast hjartanlega ósammála, eins og ég segi líka þessum klöguskjóðum. Hvað á ég að gera? Slá á puttana á honum? Lesa honum fyrir greinar? Minn hlutur að þessum vettvangi hefur  einungis verið sá að vera þarna einhvers  staðar til að ráðgast við (sem hann hefði mátt gera oftar!), einhvern tímann prófarkalas ég eitthvað og skrifaði svolítinn pistil um daglegt mál. En það er ekki eins og maður sé einhver bankaráðsmaður.

Ég svaraði:

Kæri Guðmundur Andri, þú lætur eins og þú vitir ekki, um hvað málið snýst, en auðvitað gerir jafnglöggur maður og þú sér alveg grein fyrir því. Í tímariti, sem þú ert í ritnefnd hjá, er haldið fram ákveðinni fullyrðingu. Ég spyr, hvernig unnt sé að finna henni stað. Ég fæ ekkert nema skæting fyrir. Hvers vegna getur tíimaritið ekki annaðhvort fundið þessu stað eða leiðrétt það? Ég er ekkert ákafur í þessu máli, og það er auðvitað fullkomið smámál. En einmitt vegna þess að það er smámál, skil ég ekki, hvers vegna Herðubreið getur ekki gert annað af tvennu, fundið orðum sínum stað eða leiðrétt þetta. Hvert er málið? Hver er vandinn? Eru ekki allir sammála um að hafa það, sem sannara reynist? Það er allt annað mál, hvaða skoðun ég kann að hafa haft á einhverju máli (til dæmis fjárhagslegum tengslum Baugs og Samfylkingarinnar) og hvort sú skoðun hefur verið staðfest með nýjum upplýsingum. Málið snýst ekki um það, heldur um eitt afmarkað atriði: Hvar eru gögnin um það, að ég hafi haldið þessu fram, sem Herðubreiðarritstjórinn sagði, að ég hefði haldið fram (og ekki aðeins einu sinni, heldur gert það ásamt öðrum að einhverju aðalmáli íslenskra stjórnmála)? Ég man ekki til að hafa gert það neins staðar, en get ekki verið viss. Ef ritstjóri Herðubreiðar er að bera á mig eitthvað, sem hann getur ekki staðið við, hlýtur að vera lágmarkskrafa, að hann leiðrétti það. Er það ekki?

Guðmundur Andri svaraði þá:

Af hverju erum við að skrifast á um þetta? Við gætum skrifast á um æskuljóð Jónasar, losta Gunnars á Hlíðarenda, ofsa Guðrúnar Gjúkadóttur, mildi Freyju, þunglyndi Gröndals. Þú gætir borið undir mig hugmyndir þínar um sálarstríð Bjarna Benediktssonar, ræðusnilld Benedikts Sveinssonar, ættjarðarást Huldu, drenglyndi Bergþóru, alþjóðahyggju Jóns Sigurðssonar. Um kommúnisma, Sókrates, Newton, hvalveiðar við Ísland, tunglið í íslenskum skáldskap,  prjónaskap, Nixon, snilli Jóns Þorlákssonar, skyr. Um sumarkvöldin í Flatey, goluna í Ásbyrgi, Tinna, Bítlana, Edith Piaf og André Breton. Við gætum talað saman og skipst á hugsunum og lífsreynslu. Það er jafnvel ekki óhugsandi að við gætum orðið einhverju nær um eitthvað á því. En þú spyrð mig - þú þráspyrð mig - um eitthvað sem Karl Th Birgisson segir að þú hafir sagt - og sendir einhverjum Heimi hjá Lex öll bréfin eins og ég sé allt í einu mættur sem vitni í sakamáli. Og þegar ég nenni ekki að taka þátt í þessari vitleysu sakarðu mig um að láta sem ég viti ekki um hvað málið snýst. Ég veit að minnsta kosti í hvað ég nenni að eyða mínum tíma. Og nú þarf ég að fara að vinna.

Guðmundur og Karl birtu tölvuskeyti sín (og mín líka) fram að þessu á herdubreid.is. Þótt þeir hefðu ekki fyrir því að fá leyfi mitt til þess, geri ég enga athugasemd við það. En af einhverjum ástæðum birtu þeir ekki svar mitt næsta dag:

Kæri Guðmundur Andri, ég þakka þér mælskubrögðin. Þau eru fimlega af hendi leyst, eins og þín var von og vísa. Ég veit, að þetta er lítið mál, en þú kýst enn að misskilja það. Enginn ætlast til þess, að þú ritskoðir efni frá ritstjóranum eða sért honum jafnvel sammála um eitt eða neitt. En ég get ekki skilið þig öðru vísi en svo, að þú vijir ekki sem ritnefndarmaður hlutast til um það, að tímaritið annaðhvort finni orðum sínum um mig stað eða leiðrétti þau. En er það ekki sjálfsögð krafa, sem gera á til allra tímarita og sem ritnefndarmenn ættu sérstaklega að gera til þeirra tímarita, sem þeir taka að sér að vera í ritnefnd hjá?

Guðmundur Andri svaraði:

Þetta eru ekki mælskubrögð Hannes. Vonandi muntu átta þig á því einhvern tímann. Með frómum óskum.

Aðrir ritnefndarmenn svöruðu í svipuðum dúr og Guðmundur Andri, en með minni tilþrifum. Lauk þessum orðaskiptum á síðasta skeyti Guðmundar Andra. Höfðu ýmsir skemmtun af, þótt kjarni málsins virðist hafa farið fram hjá þeim: Eftir stendur og er fullreynt, að Karl Th. Birgisson og lið hans treystir sér ekki til að finna fullyrðingum sínum stað (þótt það sendi ótilkvatt árásir á mig á netsíður). Samt vill þetta lið ekki leiðrétta fullyrðingar sínar, heldur svarar skætingi og mælskubrögðum einum til, þegar rætt er kurteislega við það. Hvaða úrræði á ég?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband