Spilling í Brüssel

Marta AndreasenFræg er sagan af rómverska keisaranum, sem skyldi dæma milli tveggja söngvara. Eftir að hann hafði heyrt hinn fyrri syngja, rétti hann hinum síðari verðlaunin: Verr gæti hann ekki sungið. Þetta er óskynsamlegt. Verið getur, að einn kostur sé ófullkominn, en annar verri. Fara menn ekki stundum úr öskunni í eldinn? Keisarinn átti vitaskuld að hlusta á báða söngvarana og dæma síðan. Um þessar mundir vantreystir íslenska þjóðin forystumönnum sínum og stofnunum. Þess vegna hafa sumir snúið sér að Evrópusambandinu: Ríkisvaldið geti ekki verið verr komið í Brüssel en Reykjavík. Fer þeim ekki eins og rómverska keisaranum?

ESB ber verulega ábyrgð á óförum Íslendinga. Þegar við gengum inn á Evrópska efnahagssvæðið, var hugmyndin sú, að fyrirtæki gætu starfað þar hvar sem væri óháð skráningarstað. Þetta nýttu íslensku bankarnir sér í góðri trú og færðu út kvíar. Þeir urðu svo stórir, að íslenski seðlabankinn gat ekki óstuddur verið þrautavaralánveitandi þeirra. Þá hefði mátt búast við, að aðrir seðlabankar á EES hlypu undir bagga, þegar á þyrfti að halda. Það gerðu þeir ekki. Íslensku bankarnir urðu ekki gjaldþrota, heldur hrundu vegna lausafjárskorts.

Engin stoð reyndist í aðild að EES. Hvers vegna ætti að vera meiri stoð í aðild að ESB? Ríkisstjórn breskra jafnaðarmanna átti síðan sinn hlut að hruni íslensku bankanna. Hún fékk aðstoð ESB við að neyða íslenska ríkið til að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans, sem það hafði ekki stofnað til og bar að lögum og samkvæmt alþjóðasamningum enga ábyrgð á. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta er sjálfseignarstofnun, sem starfar eftir reglum EES og ber ábyrgð á öllum slíkum skuldbindingum, ekki ríkissjóður Íslands. ESB gerðist með öðrum orðum handrukkari fyrir Breta.

Hin alþjóðlega lánsfjárkreppa bitnaði harðar á Íslendingum en öðrum þjóðum af tveimur meginástæðum: Seðlabankar á EES-svæðinu brugðust Íslendingum, og Bretland með ESB að bakhjarli beittu okkur ofríki. Er helsta röksemdin fyrir ESB-aðild eftir þessa reynslu, að heiðra skuli skálkinn, svo að hann skaði þig ekki?

Ég er að vísu ekki þeirrar skoðunar, að það jafngildi heimsendi að ganga í ESB. Þrjár norrænar frændþjóðir una hag sínum þar sæmilega. En teikn eru á lofti um, að ESB sé frekar að þróast í átt að lokuðu, miðstýrðu ríki en opnum, dreifstýrðum markaði. Einn gallinn á ESB, sem áróðursmenn fyrir aðild loka augunum fyrir, er víðtæk spilling. Fyrir röskum níu árum ljóstraði einn endurskoðandi ESB, Paul van Buitenen, upp um margvíslega misnotkun almannafjár í framkvæmdastjórn sambandsins. Hann var óðar rekinn, en eftir rannsókn málsins neyddist öll framkvæmdastjórnin til að segja af sér. Þremur árum síðar, 2002, var aðalendurskoðanda ESB, Mörtu Andreasen, vikið úr starfi, eftir að hún gagnrýndi opinberlega fjármálaóreiðu sambandsins.

Valdi verður að fylgja aðhald. Því miður virðist slíkt aðhald vera enn minna í Brüssel en Reykjavík. Við eigum ekki frekar en rómverski keisarinn forðum að veita ESB verðlaunin í söngkeppninni án þess að hafa hlustað á það. Er Ísland ekki skárri kostur en ESB?

Fréttablaðið 9. janúar 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband