8.2.2008 | 08:03
Vinnusemi og skattar
Stundum heyrist, að sumar þjóðir séu latari en aðrar og þess vegna fátækari. Þótt vissulega séu menn misjafnir og sumir latari en aðrir, eru slíkar alhæfingar um heilar þjóðir fráleitar. En hvað skýrir þá óumdeilanlegu staðreynd, að sumar þjóðir vinna miklu meira en aðrar? Nóbelsverðlaunahafinn Edward C. Prescott hefur komist að einfaldri og sennilegri niðurstöðu. Hún er, að vinnusemi þjóða fari að miklu leyti eftir því, hversu háa skatta þær þurfi að greiða af vinnu sinni. Því hærri sem skattarnir eru, því minna vinnur fólk, og öfugt.
Meiri vinnusemi með lægri sköttum
Um miðja tuttugustu öld unnu Bandaríkjamenn og Evrópubúar jafnmikið, en í aldarlok unnu Bandaríkjamenn talsvert meira og höfðu að jafnaði hærri tekjur. Meginskýringin er, segir Prescott, að Evrópubúar þurfa að greiða hærri skatta af vinnu sinni. Um þetta flutti Prescott fyrirlestur í Reykjavík 26. júlí á síðasta ári. Nokkrar efasemdaraddir heyrðust þá um boðskap hans. Guðmundur Gunnarsson verkalýðsleiðtogi vitnaði í rannsóknir annarra bandarískra fræðimanna, sem sýndu, að vinnusemi réðist af fleiru en sköttum. Stefán Ólafsson prófessor fullyrti, að Íslendingar ynnu mjög mikið og framleiðni væri hér lítil. Hann endurtók þetta í erindi, sem hann flutti á dögunum og stór frétt birtist um hér í blaðinu ásamt viðhafnarviðtali. Var á Stefáni að skilja, að Íslendingar ynnu þegar of mikið, og þess vegna væri óþarfi að lækka skatta til að auka enn vinnusemi þeirra.
Nú hefur Prescott betrumbætt kenningu sína og birtir grein um hana í bók, sem væntanleg er á næstunni undir ritstjórn okkar dr. Tryggva Þórs Herbertssonar, Cutting Taxes to Increase Prosperity. Prescott minnir þar á, að kenning sín er ekki um það, að vinnusemi ráðist af öllu leyti af sköttum, heldur að miklu leyti. Hann bendir líka á, að miklu breyti, hvernig skatttekjunum er varið. Ef þeim er endurdreift til fólks, þá hefur það ekki eins vond áhrif á vinnusemi þess og ella. Á Norðurlöndum eru skattar til dæmis háir, en vinnusemi veruleg. Vegna víðtækrar endurdreifingar (barnabóta, ellilífeyris og svo framvegis) eru ráðstöfunartekjur eftir skatta hærri en ætla mætti af hinum háu sköttum. Prescott vekur einnig athygli á því, að ólík aldurssamsetning þjóða getur haft áhrif á vinnusemi þeirra. Skattar hafa ekki eins mikil áhrif á vinnusemi karla á besta aldri í fullu starfi og vinnusemi annarra hópa.
Er framleiðni á Íslandi vanmetin?
Okkur Íslendingum hlýtur að þykja fróðlegust sú tilgáta Prescotts, að í íslenskum tölum um vinnustundir sé skekkja. Unnar vinnustundir séu hér ofmældar. Það geti ekki verið, að þær séu svipaðar og í Bandaríkjunum, um 1.800 á mann að meðaltali (en meðaltalið í Evrópu er um 1.500 á mann). Prescott bendir meðal annars á, að hlutfallslega fleiri vinni á Íslandi en í Bandaríkjunum (um 10% fleiri) og að hlutfallslega fleiri vinni líka hlutastörf (um 30% á Íslandi, en um 15% þar vestra). Ef matar- og kaffihlé og lögbundnir frídagar og sumarleyfisdagar dreifast jafnt á allt þetta fólk, þá er þegar komin til sögu mælingarskekkja. Prescott telur einnig rétt að leiðrétta fyrir erlendu vinnuafli á Íslandi, jafnt fjölda manna sem vinnustundum. Síðan vita þeir, sem borið hafa saman vinnumarkaðinn á Íslandi og í öðrum löndum, að hér er meira talið með í vinnustundum en víðast annars staðar, til dæmis óunnin yfirvinna, auk þess sem lögbundnir frídagar eru fleiri.
Prescott heldur því fram, að framleiðni á Íslandi sé talsvert meiri en ráða megi af opinberum tölum, þar sem vinnustundir séu hér oftaldar. Stefán Ólafsson fullyrðir hið gagnstæða. Ég sneri mér fyrir nokkrum vikum til Stefáns og bað hann að vísa mér í gögn sín. Ég hef enn ekki fengið svar. Fróðlegt væri þó að ræða þetta betur og æsingalaust. En auðvitað er röksemdin fyrir því að lækka skatta á einstaklinga ekki sú, að þá vinni þeir meira, þótt það sé eflaust rétt, eins og Prescott segir. Röksemdin er, að þá fá þeir, sem vilja bæta kjör sín og sinna með meiri vinnu, tækifæri til þess, án þess að ríkið hirði mestalla kjarabótina af þeim. Öðrum er eftir sem áður frjálst að vinna minna, en þeir verða um leið að sætta sig við lægri tekjur.
Fréttablaðið 8. febrúar 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:21 | Facebook