Nýja þjóðarsátt

vilhjalmur1Auðvelt er að gera lítið úr þjóðarsáttinni 1990, segja, að hún hafi aðeins verið tímabundin verðstöðvun á vinnumarkaði, enda hjaðni verðbólga aðeins við peningalegt aðhald, þegar til langs tíma er litið. Þjóðarsáttin 1990 markaði þó tímamót. Aðilar vinnumarkaðarins ákváðu að hætta að semja um óraunhæfar krónutöluhækkanir kaupgjalds, sem síðan var ætlast til þegjandi og hljóðalaust, væri þess þörf, að ríkið ónýtti þá með því að fella krónuna í verði, með verðbólgu. Eins og dr. Vilhjálmur Egilsson þreyttist ekki á að benda á, höfðu laun áratugina á undan hækkað um 1.000% að krónutölu, en sáralítið í kaupmætti.

Þjóðarsáttin 1990 hefði að vísu sennilega rofnað, ef fylgt hefði verið óbreyttri stjórnarstefnu, almannafé ausið í óarðbærar fjárfestingar og ríkissjóður rekinn með halla. En sem betur fer var stjórnarstefnunni breytt 1991, horfið frá opinberum styrkjum við vonlaus verkefni, tekið upp aðhald í peningamálum og ríkisfjármálum, skattar lækkaðir og ríkisfyrirtæki seld. Vegna blómlegs atvinnulífs hafa laun hækkað um 50-70% í kaupmætti. Ekkert atvinnuleysi er heldur á Ísland ólíkt mörgum grannríkjanna. En nú eru blikur á lofti, lausafjárskortur, ókyrrð á mörkuðum og verðfall á hlutabréfum.

Lækkum tekjuskatt

Við slíkar aðstæður hljóta stjórnmálamenn jafnt og forystumenn á vinnumarkaði að velta því fyrir sér í mikilli alvöru, hvernig Íslendingar geti áfram notið bestu lífskjara í heimi. Sá stórkostlegi árangur var ekki fyrirhafnarlaus, og hann heldur ekki áfram af sjálfum sér. Hvernig eiga vinnuveitendur að greiða hærra kaup? Hvernig batna kjör launþega án búsifja fyrir atvinnulífið? Hvernig verða tekjur tekjulægstu hópanna hækkaðar? Svarið er einfalt. Vinnuveitendur geta greitt hærra kaup, ef tekjuskattar á fyrirtæki eru lækkaðir. Launþegar geta sætt sig við hóflegri kauphækkanir, ef tekjuskattar á einstaklinga eru lækkaðir. Tekjur tekjulægstu hópanna geta hækkað, ef bætur til þeirra eru hækkaðar, en bætur til tekjuhærri hópa um leið lækkaðar.

Sumir vilja bæta kjör láglaunafólks með því að hækka skattleysismörk verulega. Telja þeir það jafngilda skattalækkun. Sú aðgerð er ómarkviss, enda eru skattleysismörk hærri á Íslandi en í flestum öðrum löndum og litlu lægri miðað við vísitölu neysluverðs en 1988, þegar þau urðu hæst. Til þess að koma skattleysismörkum í hið sama og þá þyrftu þau aðeins að hækka í rösk 100 þúsund krónur á mánuði eða um 10 þúsund. Kosturinn við að lækka tekjuskatt á fyrirtæki og einstaklinga er hins vegar, að verðmætasköpun stóreykst þá, svo að ekki dregur eins úr skatttekjum ríkisins og ætla má við fyrstu sýn. Hækkun skattleysismarka hefur ekki sömu góðu hliðaráhrif. Ríkið tapar með henni miklu fé, auk þess sem skattgreiðslur allra lækka, ekki aðeins láglaunafólks.

Hitt er skynsamlegra, að hækka barnabætur og elli- og örorkulífeyri til þeirra, sem þurfa á slíkri aðstoð að halda, en minnka að sama skapi aðstoð við þá, sem komast vel af sjálfir. Þetta er auðvitað gert nú þegar að nokkru marki með tekjutengingu bóta, sem er skynsamleg og sanngjörn og ætti einmitt að vera verkalýðshreyfingunni kappsmál: Hátekjufólk á ekki að þiggja neinar bætur, hvorki barnabætur né ellilífeyri frá hinu opinbera (enda hafi það aðrar tekjur, svo sem atvinnu- eða eignatekjur eða lífeyri úr venjulegum lífeyrissjóðum). Hins vegar mætti auðvitað hækka það mark, sem bætur taka að skerðast við, svo að það borgi sig betur fyrir láglaunafólk að sækjast eftir hærri launum.

Öllum í hag

Ein meginástæðan til þess, að frændum okkar, Írum, hefur vegnað vel síðustu áratugi, er, að þeir gerðu þjóðarsátt, sem fól í sér hóflegar launahækkanir og langtímasamninga á vinnumarkaði gegn því, að ríkið lækkaði skatta jafnt á fyrirtæki og einstaklinga. Til dæmis er tekjuskattur á fyrirtæki 12,5% á Írlandi, en 18% hér. Skattalækkanir síðustu sextán ára á Íslandi skiluðu ótrúlegum árangri í aukinni verðmætasköpun. Ef til vill er ekki að búast við jafngóðum árangri með áframhaldandi skattalækkunum, en þær myndu hins vegar afstýra yfirvofandi samdrætti í atvinnulífi og greiða fyrir sátt á vinnumarkaði. Ráðstöfunartekjur venjulegra launþega myndu snarbatna, ef tekjuskattur á þá myndi lækka um 5-6%, eins og eðlilegt væri. Þess vegna er ný þjóðarsátt nauðsynleg: Almennar skattalækkanir á fyrirtæki og einstaklinga væru öllum í hag, þegar til langs tíma er litið, líka ríkinu, þótt það bæri mestallan kostnaðinn af slíkri sátt í upphafi.

Fréttablaðið 14. desember 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband