17.11.2007 | 18:08
Hver er Arthur Laffer?
Arthur B. Laffer, sem flytur hádegiserindi í Þjóðmenningarhúsinu í dag um kosti skattalækkana, er áreiðanlega einn kunnasti hagfræðingur heims, en um leið einn hinn umdeildasti. Bandaríska vikuritið Time taldi hann í forsíðugrein 29. mars 1999 með snjöllustu hugsuðum aldarinnar, en sum starfssystkin hans vilja lítt af honum vita. Laffer fæddist 14. ágúst 1940 í Youngstown í Ohio-ríki, lauk B. A. prófi í hagfræði frá Yale-háskóla í 1963, M. B. A. prófi frá Stanford-háskóla 1965 og doktorsprófi frá sama skóla 1971.
Laffer-boginn
Laffer kenndi hagfræði í Chicago-háskóla 1967-1976 og var ráðunautur fjármálaráðuneytis og varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna í forsetatíð Nixons og Fords. Átti hann þá stundum leið um Washington-borg. Þar sem hann sat einn daginn í desember 1974 að hádegisverði með nokkrum áhrifamönnum Hvíta hússins í veitingahúsinu Two Continents, dró hann upp á munnþurrku mynd, sem sýndi, hvernig skatttekjur ríkisins hækka fyrst, þegar skattheimta eykst (til dæmis úr 10% í 20%). Skatttekjurnar hækka upp að einhverju hámarki, en síðan minnka þær aftur, þótt skattheimtan haldi áfram að aukast. Það felur í sér, að við ákveðin skilyrði geta skatttekjur hækkað, þegar skattheimta minnkar (til dæmis úr 60% í 50%).
Þetta þótti viðmælendum hans merkilegur boðskapur, og til varð hinn frægi Laffer-bogi. Laffer segir sjálfur, að hann hafi oft áður notað bogann í kennslu, og minnir á, að þetta sé gömul speki. Til dæmis sagði serkneskur heimspekingur, Ibn Khaldun, á 14. öld: Menn ættu að vita, að í upphafi valdaskeiðs nýrrar ættar skilar skattheimta miklum skatttekjum af léttum álögum. Í lok valdaskeiðs ættarinnar skilar skattheimta lágum skatttekjum af þungum álögum. Þeir Adam Smith og John Maynard Keynes bentu líka á, að stundum yrði hlutfallið milli skattheimtu og skatttekna öfugt: Meiri skattheimta skilaði minni skatttekjum. Hér heima sagði Jón Þorláksson á þingi 1925: Það er almenn regla, viðurkennd af sérfræðingum í skattamálum í meira en 100 ár, að takmörk eru fyrir því, hve mikið má hækka einstaka skatta; þegar komið er að þessu takmarki, leiðir frekari hækkun ekki til aukningar á skatttekjum, heldur til lækkunar á þeim.
Skattalækkanir Reagans
Viðmælendum Laffers fannst fróðlegast, að Bandaríkin væru hugsanlega komin öfugum megin á bogann, þar sem skatttekjur ríkisins lækka með meiri skattheimtu. Væri dregið úr skattheimtu, kynnu skatttekjur ríkisins að hækka. Hugmyndin var einföld: Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. Væri atvinnulífið örvað með skattalækkunum til vaxtar, myndi það skila ríkinu meiri tekjum. Ronald Reagan boðaði þessa hugmynd í baráttunni fyrir forsetakjörið 1980, en andstæðingum hans fannst fátt um og kölluðu vúdu-hagfræði. Eftir að Reagan varð forseti, hrinti hann hugmyndinni ótrauður í framkvæmd. Hann hafði erindi sem erfiði. Hæsti mögulegi tekjuskattur lækkaði úr um 70% í 28% í tíð hans, en skatttekjur tvöfölduðust. Gagnrýnt var, að skattalækkanir Reagans væru einkum tekjuháu fólki í hag. En athyglisvert er, að eftir skattalækkanirnar lagði sá hópur meira hlutfallslega til heildarskatttekna.
Laffer færði sig 1976 um set til Suður-Kaliforníu-háskóla í Los Angeles og var þar prófessor til 1984. Eftir það kenndi hann um skeið við Pepperdine-háskóla, en hefur hin síðari ár rekið sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki og situr í fjölda stjórna einkafyrirtækja. Laffer var 1978 einn helsti formælandi Tillögu 13 í Kaliforníu, sem takmarkaði fasteignaskatta í ríkinu. Hann sat í hagfræðingaráði Reagans alla forsetatíð hans. Margir telja hann einn aðalhöfund framboðshliðar-kenningarinnar í hagfræði (supply-side economics), en hún snerist um að auka framleiðslu með lægri sköttum og minni ríkisafskiptum, en hafa minni áhyggjur af skammtímahalla í rekstri ríkisins. Annar kunnur formælandi kenningarinnar er Robert Mundell, sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun í hagfræði.
Dæmi um Laffer-bogann
Enginn hagfræðingur efast um, að einhvers konar Laffer-bogi sé til: Þegar skattheimta sé 0%, séu skatttekjur engar, og þegar skattheimta sé 100%, séu skatttekjur varla neinar heldur. Hins vegar kann vel að vera, að Laffer-boginn sé miklu óreglulegri í laginu en hann er venjulega dreginn upp (til dæmis í þessari grein) og erfiðara að segja til um, hvar einstök ríki séu stödd á honum. Þó er fróðlegt að bera saman tvö gamalgróin og auðug Evrópulönd, sem stóðu utan stríða á tuttugustu öld, Svíþjóð og Sviss. Skattheimta er nær 60% af vergri landsframleiðslu í Svíþjóð, en eitthvað yfir 30% í Sviss. Skatttekjur ríkisins á mann eru hins vegar svipaðar í þessum tveimur löndum. Freistandi er að álykta, að Sviss sé vinstra megin (réttum megin) á boganum, en Svíþjóð öfugum megin.
Annað dæmi um Laffer-bogann eru skattalækkanir Bush Bandaríkjaforseta 2003. Hann lækkaði tekjuskatt á arði úr um 40% í 15% og á söluhagnaði úr 20% í hið sama, 15%. Skatttekjur ríkisins af þessum tveimur tegundum fjármagnstekna stórjukust. Í þessu sambandi má líka nefna Spán og Írland. Undir forystu Jósefs Maríu Aznars lækkuðu Spánverjar tekjuskatt í tveimur áföngum, en skatttekjur jukust og þrálátur halli hvarf á fjárlögum. Írar efndu til sáttar á vinnumarkaði, sem fólst í því, að ríkið lækkaði tekjuskatt á almenning gegn því, að launþegar og vinnuveitendur gættu hófs í kjarasamningum. Írar lækkuðu líka tekjuskatt á fyrirtækjum, sem er þar nú aðeins 12,5%. Þrátt fyrir þessar skattalækkanir (eða öllu heldur vegna þeirra) hefur hagur ríkisins vænkað, jafnframt því sem þjóðin hefur komist í álnir.
Ísland skýrasta dæmið?
Skýrasta dæmið um Laffer-boginn er líklega Ísland. Síðustu sextán ár hefur hagkerfið hér verið umskapað, svo að það er eitt hið frjálsasta og blómlegasta í heimi. Einn mikilvægasti þátturinn í þessari umsköpun voru miklar skattalækkanir. Tekjuskattur fyrirtækja lækkaði frá 1991 til 2001 úr 45% í 18% og hefur verið það síðan. Tekjuskattur einstaklinga lækkaði frá 1997 (þegar ríki og sveitarfélög endurskoðuðu verkaskiptingu sína) til 2007 úr 30,41% í 22,75%. Fjármagnstekjuskattur er 10% og leggst á tekjur, sem ýmist voru skattlagðar miklu hærra áður (allt upp í um 40%) eða ekki skattlagðar, þar sem þær voru svo óverulegar. Aðstöðugjald, sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, eignaskattur og hátekjuskattur var allt fellt niður og erfðafjárskattur snarlækkaður. Virðisaukaskattur af matvælum var líka lækkaður verulega.
Árangurinn fór hér fram úr björtustu vonum: Skatttekjur hafa hækkað mjög. Á meðan tekjuskattur á fyrirtæki var 45% árið 1991, námu tekjur ríkisins af honum um tveimur milljörðum króna. Skatttekjurnar af 18% tekjuskatti á fyrirtæki eru í ár taldar nema um 35 milljörðum króna. Fjármagnstekjuskattur skilaði áður engu í ríkissjóð, en nú miklu, hátt í 20 milljörðum á ári. Það hefur svo sannarlega reynst rétt, sem Laffer og aðrir framboðshliðarhagfræðingar brýndu fyrir okkur, að lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. En fróðlegt verður að heyra í dag, hvernig Laffer ráðleggur okkur að halda bakstrinum áfram.
Morgunblaðið 16. nóvember 2007 (þar nokkuð stytt).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.11.2007 kl. 11:10 | Facebook