Sagnritun dr. Gylfa (5)

Aliber-Robery-ZNýlega kvartaði dr. Gylfi Zoëga undan því í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti aðallega við mig. Í skrifum sínum gerir dr. Gylfi mikið úr varnaðarorðum prófessors Roberts Z. Alibers um bankana vorið 2007. Aliber er þó ekki óskeikull. Hann spáði því í ársbyrjun 2010, að Grikkland myndi hrökklast út af evrusvæðinu, og í árslok 2013, að evrusvæðið myndi klofna í tvennt. Hvorugt gekk eftir. En ef maður þeytist um og spáir alls staðar ósköpum, þá hljóta einhverjar spárnar loks að rætast.
Aliber er þó glúrinn náungi, og dr. Gylfi hefði mátt taka mark á honum um tvennt. Í bókinni Manias, Panics, and Crashes: A History of Financial Crises, sem Aliber samdi ásamt Charles P. Kindleberger, er bent á (í 5. útg. 2005, 104. bls.) greinarmuninn á tvenns konar orsökum fjármálaáfalla: „causa remota“ (fjarlæg orsök) eru hin almenn skilyrði fyrir áfalli, en „causa proxima“ (nálæg orsök) sjálf kveikjan að áfallinu. Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu gerði aðeins grein fyrir „causa remota“, stærð bankakerfisins, sem var nauðsynlegt skilyrði fyrir bankahruninu, ekki nægilegt. Nefndin horfði fram hjá „causa proxima“, sem var, að Íslandi var synjað um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og grannþjóðir fengu, svo að áhlaup á bankana leiddi til falls þeirra. Hún reyndi ekki að skýra þessa synjun.
Í Heimildinni heldur dr. Gylfi því fram, að Íslendingar hafi gert þrennt rétt í bankahruninu, að ábyrgjast ekki allar skuldir bankanna, að koma í veg fyrir bankaáhlaup innan lands með því að ábyrgjast innlendar innstæður og að leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur rétt fyrir sér um fyrsta atriðið. En annað atriðið er ekki nákvæmt hjá honum: Ríkið gerði með lögum allar innstæður að forgangskröfum, jafnt erlendar og innlendar, en ábyrgðist ekki sérstaklega innlendar innstæður (á annan hátt en með almennum hughreystingarorðum, sem þó hrifu). Og um þriðja atriðið sagði Aliber: Fylgið áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en takið ekki lán hjá honum. Þetta stóra lán var aldrei notað, en bar háa vexti. Hér hafði Aliber rétt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband