Orðaskipti við Illuga Jökulsson

Illugi Jökulsson birti færslu núna í morgun:

Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. „Innviðirnir eru komnir að þolmörkum, ég get ekkert lið lagt,“ sagði presturinn við sjálfan sig. Eins kom og Levíti þar að, sá manninn og sveigði fram hjá. „Við erum nú þegar að hjálpa fleirum en Norðurlöndin samanlögð,“ hugsaði Levítinn. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá manninn kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: „Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.“ Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?
 
Ég svaraði:
 
Þú gleymir ýmsu: 1) Presturinn og levítinn voru úr flokki ykkar menntamannanna, harðbrjósta mælskumenn. 2) Samverjinn gerði góðverk sitt fyrir eigið fé, ekki annarra. Þið vinstri menn gerið öll ykkar góðverk á kostnað annarra. 3) Samverjinn var aflögufær, svo að þetta var röksemd fyrir því, að til væri efnafólk. 4) Maðurinn var rændur, af því að ekki var haldið uppi lögum og reglu á veginum frá Jórsölum til Jeríkó. Það er einmitt erfitt að halda uppi lögum og reglu, þar sem fjölmennir hópar ganga í lið með stigamönnunum, eins og gerist í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum. Glæpatíðni er mest meðal Palestínu-Araba, og lögreglan hættir sér ekki inn í sum hverfi. Viljum við hafa sama ástand og á veginum milli Jórsala og Jeríkó?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband