Mælanleg mistök

valtyrgudmundssonStjórnmálamenn geri sjaldan mælanleg mistök, því að venjulega má þræta um, hvað átt hefði að gera við einhverjar aðstæður. Þeir geta oftast bjargað sér með hliðarsögum eða eftiráskýringum. Ég hef þó í grúski mínu rekist á margvísleg mistök eða alvarlega dómgreindarbresti. Hér ætla ég að rifja upp tvö íslensk dæmi.

Fyrsti dómgreindarbresturinn var strax eftir aldamótin 1900, þegar hinn hæfileikaríki stjórnmálamaður dr. Valtýr Guðmundsson var á góðri leið með að sigra í valdabaráttunni á Íslandi. Hann hafði barist fyrir íslenskum ráðgjafa með búsetu í Kaupmannahöfn og taldi Dani ekki vilja ganga lengra til móts við sjálfstæðiskröfur Íslendinga. Á meðan Alþingi var að afgreiða frumvarp þess efnis árið 1901, barst frétt um stjórnarskipti í Kaupmannahöfn, og væri hin nýja stjórn líkleg til að samþykkja ráðgjafa í Reykjavík, heimastjórn. Valtýr breytti hins vegar ekki um stefnu, heldur hélt frumvarpi sínu til streitu. Í næstu kosningum sigruðu Heimastjórnarmenn undir forystu Hannesar Hafsteins, sem varð fyrsti íslenski ráðherrann með búsetu í Reykjavík.

SvavargestssonAnnar dómgreindarbresturinn var í Icesave-málinu árið 2009. Íslendingar sendu tungulipran uppgjafamarxista, Svavar Gestsson, til að semja við Breta um málið, en þeir töldu hafa stofnast til greiðsluskyldu íslenska ríkisins vegna viðskipta Landsbankans við breska sparifjáreigendur. Svavar samdi illilega af sér, ekki síst um veð og vexti lánsins, sem veita átti Íslendingum, svo að þeir gætu sinnt þeirri greiðsluskyldu, sem Bretar töldu vera. Hann sagðist í blaðaviðtölum ekki hafa nennt að hafa þetta mál hangandi yfir sér! Strax eftir að forsetinn neitaði að skrifa undir samninginn, svo að leggja varð hann í þjóðaratkvæði, buðu Bretar miklu betri kjör. Þeir sönnuðu með því handvömm Svavars. Nokkru síðar gerði hinn þaulreyndi lögfræðingur Lee Buchheit miklu hagstæðari samning, þótt þjóðin hafnaði honum líka. Buchheit-samningurinn sýndi enn skýrar handvömm Svavars. EFTA-dómstóllinn komst síðan að þeirri augljósu niðurstöðu árið 2013, að íslenska ríkið hefði enga greiðsluskyldu vegna viðskipta einkaaðila sín í milli.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. september 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband