Norrænar lausnir

Nordiska-flagFæstir vita, að Norðurlandabúar hafa leyst ýmis mál friðsamlega, sem vafist hafa fyrir öðrum:

1. Friðsamlegur aðskilnaður. Grundtvig gamli orti, að þjóðin væri þeir, sem vildu vera þjóð. En hvað gerist, þegar einhver hópur vill ekki deila ríki með öðrum? Norðurlönd eiga svarið. Norðmenn og Svíar skildust að 1905, Finnar og Rússar 1917 og Íslendingar og Danir 1918.

2. Atkvæðagreiðslur um landamærabreytingar. Þjóðverjar höfðu lagt undir sig Slésvík 1864. Í norðurhlutanum töluðu menn dönsku og litu á sig sem Dani. Eftir fyrri heimsstyrjöld fengu íbúar Slésvíkur að greiða atkvæði um það í kjördæmum, hvort kjördæmi þeirra ætti að vera í Danmörku eða Þýskalandi. Vildi nyrsta kjördæmið vera í Danmörku, en hin í Þýskalandi, og var farið eftir því.

3. Sjálfstjórnarsvæði. Sænskumælandi Finnar búa á Álandseyjum og vildu 1919 sameinast Svíþjóð. En þeir fengu víðtæka sjálfstjórn og eru nú ánægðir með sitt hlutskipti. Hið sama má segja um Færeyjar og Grænland.

4. Deilur lagðar í gerð. Þegar Svíar og Finnar deildu um Álandseyjar, var deilunni skotið til Þjóðabandalagsins, sem úrskurðaði 1921, að eyjarnar væru hluti Finnlands. Þegar Danir og Norðmenn deildu um Austur-Grænland, var deilunni skotið til Alþjóðadómstólsins í Haag, sem úrskurðaði 1933, að Danir hefðu þar forræði.

5. Sjálfbærni smáþjóða. Ef smáþjóðir nýta sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar og frjálsra viðskipta, þá geta þær verið sjálfbærar. Því stærri sem markaðurinn er, því minna geta ríkið verið.

6. Samstarf án fullveldisafsals. Norðurlandaráð hefur unnið að samræmingu löggjafar á Norðurlöndum og auknum samskiptum án fullveldisafsals og blekiðjubáknsins í Brüssel. Menn hafa lengi getað ferðast án vegabréfs um öll Norðurlönd.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband