Upprifjun um alræmdan sjónvarpsþátt

hqdefaultSjónvarpið sendi 31. ágúst 1984 út umræðuþátt með hinum heimskunna hagfræðingi Milton Friedman og þremur íslenskum vinstri mönnum, og er hann aðgengilegur á Youtube. Vinstri mennirnir gerðu sitt besta, en höfðu þó lítt roð við Friedman. Einn þeirra, Stefán Ólafsson félagsfræðingur, bryddaði upp á máli, sem ekki var síðan rætt í þaula, því að umræðurnar færðust strax annað. Kvað hann Noreg dæmi um land, sem vegnaði vel þrátt fyrir víðtæk ríkisafskipti og háa skatta, líka áður en olía fannst þar undan ströndum.

Ég rakst nýlega í grúski mínu á tölur um þetta mál. Eðlilegast er að miða aðeins við tímabilið frá um 1950, þegar landið hafði náð sér eftir stríð, og fram á áttunda áratug, þegar olían fannst. Árin 1950–1960 var árlegur hagvöxtur í Noregi að jafnaði 2,6 af hundraði, nokkru minni en meðaltalið í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem var 3,3 af hundraði, en svipaður og á öðrum Norðurlöndum. Árin 1960–1973 var hagvöxtur í Noregi 3,7 af hundraði, aftur svipaður og á öðrum Norðurlöndum, en meðaltal OECD ríkja var þá 4,0 af hundraði.

Hagvöxtur í Noregi var því á þessu tímabili nokkru minni en almennt gerðist í aðildarríkjum OECD. Aðalatriðið er þó, að þessi hagvöxtur var knúinn afram af valdboðinni fjárfestingu, miklu meiri en í grannríkjunum, og þá á kostnað neyslu. Árin 1950–1959 var fjárfestingarhlutfallið í Noregi að jafnaði 32 af hundraði, en 17 af hundraði í Danmörku og 21 af hundraði í Svíþjóð. Árin 1960–1969 var fjárfestingarhlutfallið í Noregi að jafnaði 29 af hundraði, en 21 af hundraði í Danmörku og 23 af hundraði í Svíþjóð. Það skilaði þannig engum árangri að fela norskum embættismönnum og atvinnustjórnmálamönnum fjárfestingarákvarðanir. Norðmenn sáðu án þess að uppskera. Þeir voru sviptir þeim lífsgæðum, sem eðlileg neysla hefði fært þeim og grannar þeirra nutu. Stefán hafði eins og fyrri daginn rangt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. september 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband