23.4.2023 | 08:14
Ný sýn á gamalt mál
Hér hef ég tvisvar vikið að því, þegar fulltrúi Svía í friðarsamningum við Dani í Kíl í janúar 1814, Wetterstedt barón, virtist hafa trúa því, sem danski fulltrúinn, Edmund Bourke, sagði honum, að Grænland, Ísland og Færeyjar hefðu aldrei tilheyrt Noregi. Þessar Atlantshafseyjar hefðu þess vegna verið undanskildar, þegar Danir létu Noreg af hendi við Svíþjóð. Fræðimenn hafa efast um þessa skýringu, því að hún sé með ólíkindum. Þeir hafa sumir talið (þó án nokkurra heimilda), að Bretar hafi ráðið úrslitum. Þeir hafi ekki viljað hafa öflugt ríki nálægt sér í Norður-Atlantshafi.
Nýlega rakst ég á bréf til danska utanríkisráðherrans frá sendiherra Dana í Stokkhólmi, Hans Krabbe-Carisius, 16. febrúar 1819. Þar var skýrt frá samtali sænska utanríkisráðherrans, Engeströms greifa, og breska sendiherrans, Strangfords lávarðar. Engeström sagði, að auðvitað hefðu þessar eyjar upphaflega tilheyrt Noregi, en Wetterstedt hefði látið blekkjast af Bourke. Þá mælti Strangford: Það er svo! En á hverju reisið þér kröfu yðar um, að þessum eyjum verði skilað? Engeström svaraði: Á mótmælum norska Stórþingsins við því, að þær skyldu hafa verið undanskildar.
Þessi heimild sýnir, að Wetterstedt lét blekkjast. En var Bourke að blekkja hann? Ef til vill átti hann við það, að Ísland hefði að minnsta kosti aldrei tilheyrt Noregi, heldur hefðu Íslendingar gengið á hönd Hákoni Noregskonungi árið 1262, ekki Norðmönnum. Hinir réttu erfingjar þess konungs sætu í Kaupmannahöfn, ekki Stokkhólmi. Það kann síðan að vera rétt, að Bretar hafi ekki haft áhuga á að fá Svía inn á Norður-Atlantshaf. En aðalatriðið var, að Svíar sjálfir höfðu ekki áhuga á því, enda áttu þeir fullt í fangi með að tryggja hagsmuni sína við Eystrasalt. Saman fór fernt, hálfur sannleikur úr munni Bourkes, vanþekking Wetterstedts, áhugaleysi Breta og Svía um Ísland og vanmáttur Noregs.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook