19.3.2023 | 23:42
Refsað fyrir ráðdeild?
Maður var nefndur Luigi Einaudi. Hann fæddist árið 1874, lauk hagfræðiprófi frá Torino-háskóla og gerðist prófessor þar. Hann varð snemma einn af kunnustu hagfræðingum Ítala og skipaður öldungadeildarþingmaður í konungsríkinu árið 1919. Hann hafði verið eindreginn andstæðingur fasista og varð eftir ósigur þeirra seðlabankastjóri Ítalíu í ársbyrjun 1945 og fjármálaráðherra tveimur árum síðar. Kom hann á stöðugleika eftir umrót stríðsins og hefur oft verið nefndur faðir ítalska efnahagsundursins. Einaudi var kjörinn forseti Ítalíu vorið 1948 og gegndi embætti í sjö ár. Hann lést árið 1961. Undanfarnar vikur hef ég sökkt mér niður í skrif hans um ríkisfjármál, en hann hefur sem fræðimaður ekki notið þeirrar athygli í hinum enskumælandi heimi, sem vera ber.
Ein kenning Einaudis er, að ekki skuli skattleggja fjármagnstekur. Hann telur skatt vera greiðslu fyrir þá þjónustu, sem ríkið veitir (landvarnir, löggæslu og margt fleira), svo að menn geti framleitt. Ríkið er því ómissandi framleiðsluþáttur svipað og land, fjármagn og vinnuafl. Hver einasta framleiðslueining fæðist með áfasta skattaskuldbindingu, jafnháa á hverja einingu. Setjum svo, að árstekjur manns séu 10 þúsund lírur og innheimtur sé 10% tekjuskattur. Hann á þá eftir 9 þúsund lírur og notar helminginn, 4.500, í neyslu, en sparar afganginn, 4.500 (geymir þær í banka eða kaupir fasteign eða hlutabréf). Gerum ráð fyrir, að hann fái 5% vexti af sparnaði sínum, 225 lírur. Það er ranglátt, segir Einaudi, að skattleggja þessar fjármagnstekjur. Um er að ræða tvísköttun. (John Stuart Mill var sömu skoðunar.)
Á sama hátt og stighækkandi tekjuskattur er skattur á vinnusemi, hugkvæmni og forsjálni, refsing fyrir að fara fram úr samborgurunum, felur fjármagnstekjuskattur í sér umbun fyrir eyðslu og refsingu fyrir ráðdeild. Er liðin sú tíð, að vinnusemi og sparsemi teldust dygðir og leti og eyðslusemi lestir?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. mars 2023.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Facebook