19.3.2023 | 23:28
Reykjavík, janúar 2023
Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands hélt fund 16. janúar 2023 um bók mína, Landsdómsmálið. Hafði ég framsögu, en Ögmundur Jónasson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, veitti andsvör. Hann sagði ýmislegt fróðlegt.
Geir H. Haarde var sakfelldur fyrir að hafa ekki sett yfirvofandi bankahrun árið 2008 á dagskrá ráðherrafunda þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Horfði meiri hluti landsdóms fram hjá ýmsum dæmum um, að mikilvæg stjórnarmálefni hefðu ekki verið lögð fyrir ráðherrafundi, auk þess sem allir ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde báru, að vandi bankanna hefði oft verið ræddur á ráðherrafundum, án þess að um það hefði verið bókað. Var Geir ekki látinn njóta vafans um þetta ákvæði.
Ögmundur bætti við dæmi um, að mikilvægt stjórnarmálefni hefði ekki verið rætt á ráðherrafundi. Það var samþykki vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við hernaðaríhlutun Atlantshafsbandalagsins í Líbíu árið 2011.
Ögmundur sagði líka, að til tals hefði komið meðal alþingismanna að skipuleggja áfallateymi, sem viðbúin yrðu, þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu kæmi út vorið 2010. Sýnir sú furðulega hugmynd sefasýkina, sem hafði gripið um sig í landinu og flestir vilja nú gleyma. Rannsóknarnefndin leitaði í sextán mánuði með fjölda starfsmanna og ótakmarkaðar rannsóknarheimildir að glæpum ráðamanna í tengslum við bankahrunið. Hún fann þá enga og brá þá á það ráð að saka þrjá ráðherra og fjóra embættismenn um vanrækslu í skilningi laganna um sjálfa nefndina, sem höfðu auðvitað verið sett eftir bankahrun. Þannig beitti hún lögum afturvirkt og braut með því eitt lögmál réttarríkisins.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. febrúar 2023.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook